föstudagur, 5. febrúar 2016

Af hálfvita

Ég lagði í ægilega tilraun í þessari viku. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir að tilraunin var kjánaskapur frá upphafi til enda en fór samt í málið. Kjánaprik sem ég og er. 
Ég hafði fyrir þó nokkru sett niður á blað nokkur markmið, og þar á meðal tímasetningar á ákveðnum kílóafjölda náð. Markmiðin voru sett niður þó nokkru fyrir jól og í fyrstu vímunni sem fylgir nýjum og ferskum megrunarkúr. Þar sem allt er mögulegt og allt er borðleggjandi og mánudagar eru bestu dagar vikunnar og allur sá pakki. Ýmis mistök voru gerð í markiðasetningunni og misalvarleg. Mér láðist til dæmis alveg að gera ráð fyrir jólunum. Þegar ég skoðaði svo planið í síðustu viku og sá að ég hafði sagt að ég ætlaði að vera orðin 95 kíló 5. febrúar, fór í gang eitthvert ægilegt keppniskap inni í mér. Vika til að léttast um 2.7 kíló? Hva! Með smá aga gæti ég það sko alveg! Þetta hugsaði ég þvert gegn öllu því sem ég sé og veit og skil og hef lært síðustu árin. 
Ég ákvað því að minnka hitaeiningaskammtinn niður í 1200 á dag og auka aðeins ákafann í hreyfingunni. Inni í mér kveinkaði skynsama Svava sem hefur gert þetta milljón sinnum áður og veit nákvæmlega afleiðingarnar, en keppnis Svava sagði henni nett að halda kjafti, í þetta sinnið myndi þetta sko virka. Ég er jú, margfaldur ólympíumeistari í megrun.
Ég reiknaði út að ég þyrfti að léttast um rúm 400 grömm á dag, sem væri geranlegt með því að brenna um það bil 3000 hitaeiningum yfir daginn. Ekkert mál! kvakaði keppnis Svava um leið og hún rak skynsömu Svövu roknarhögg á nefið svo úr blæddi og skynsemis Svava hljóp grenjandi í burtu. 
Mánudagur byrjaði á bodycombat af ægilegri ákefð eftir kröftugan hjólatúr í ræktina. Sama á þriðjudaginn, spin og magavöðvatími og allur matur af naumum skammti gefinn. Á miðvikudag var ég komin í svona heilagan trúarofsatrans. Ég hreinlega skil núna kaþólikka sem fá út úr því að berja sjálfa sig með svipu og lifa við eilíft samviskubit. Það er eitthvað ótrúlega fullnægjandi í sálinni að kvelja sjálfan sig fyrir æðri tilgang. Það er eitthvað fróandi við að vera betri en maður er í alvörunni.
Á fimmtudag vaknaði ég við drauma um rjómabollur og pönnukökur. Og eyddi deginum í hugaróra um allt það sem ég ætlaði að raða í mig á sunnudag. Frá sólarupprás til sólarlags hugsaði ég um mat. Og varð sorgmæddari og sorgmæddari. Í spin tímanum gat ég lítið lagt í, enda orðin orkulaus og sljó. Í vinnunni tók ég illa í uppástungur um að vinna verkefni aðeins öðruvísi og augun fylltust tárum. Á föstudag gat ég rétt svo tekið í hálftíma jóga. Hendurnar skulfu og sorgin farin að þrúga sálina. Ákvað að vigta mig til að peppa mig upp og það var eins og ég vissi; ég var búin að þyngjast um 400 grömm. 

Ég hef nefnilega gert þetta áður, þetta biggest loser kjaftæði. Og ég veit að það virkar ekki. Hversvegna geri ég það aftur? Það er ekki gott að segja. Þetta hefur eitthvað að gera með að setja sér markmið og standa við þau. Að sýna sjálfri mér að ég sé ekki viljalaus. Að ég sé sterk andlega. Að ég sé sko öngvinn vesalingur. Ég skýt sjálfa mig svo alltaf í fótinn og ég er með nógu mikla sjálfsvitund til að gera mér grein fyrir því. Og andlegi styrkurinn hverfur og ekkert situr eftir nema samviskubitið eftir veisluna sem svo óhjákvæmilega fylgir. Mig langar til að segja að ég sé búin að læra mína lexíu, en ég er bara ekki svo viss. Ég hef það á tilfinningunni að í þessu elífðarverkefni mínu komi alltaf svona dagar eða vikur þar sem skynsemi og sannleikur þurfi aðeins að víkja fyrir tímabundnu brjálæði. Kannski er það eðlilegt, kannski er það bara ég. 

Ég var svo 97.4 í morgun sem er opinberlegur vigtardagur. Hafði lést um 300 grömm þegar uppi var staðið. Ekki næstum 3 kíló eins og ég hafði séð í rósbaðaðri birtunni frá útsýninu sem ég hafði frá vonarhól í upphafi vikunnar. Á ég að segja að ég sé reynslunni ríkari? Sjálfsagt ekki, það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. Ég verð bara að fyrirgefa sjálfri mér hálfvitaskapinn og halda svo áfram. 

6 ummæli:

Unknown sagði...

Snilldarpistill sem ég hefði getað skrifað sjálf. Margoft.

Unknown sagði...

Kveðja, Sigga Dóra :)

Nafnlaus sagði...

Góður pistill, bara sannleikur, en þú léttist samt, áfram þú og skynsama Svava

Nafnlaus sagði...

Kannast við þettta :)

Ella sagði...

Æ, ég hló pínu. Tengi bara svo svakalega við þetta, ætla mér alltaf um of og enda svo bara á því að renna feitt á rassinn. Þú stendur þig frábærlega vel :)

murta sagði...

Jamm, alltaf eru það pistlarnir um breyskleikann sem hreyfa við sem flestum :)