Maður er stundum harkalega minntur á hversu stuttur tíminn er sem maður hefur hérna. Hversu mikilvægt það er að gera það sem skiptir máli, og sleppa öllum þessu vangaveltum um smámuni og vitleysu. Skiptir það í alvörunni máli að ég er enn með ljótan, grænan teppbleðil í milliherberginu? Ef ég myndi hrökkva upp af núna myndi fólk segja; "já, hún var nú alveg ágæt hún Svava Rán, en ég jafnaði mig bara aldrei á að hún skyldi ekki flísaleggja hjá sér millirýmið." Mér finnst það ólíklegt.
Ég hugsaði skart um í dag hvað mér finnst mikilvægt. Hvað ég vil eyða tímanum mínum í. Og að flísaleggja var heldur neðarlega á listanum. Mig langar til að ferðast meira. Mig langar til að skrifa meira. Mig langar til að kynnast fleira fólki. Mig langar til að lyfta meira, lesa meira, syngja meira. Mig langar til að elska meira. En að eyða frekari tíma í að hafa áhyggjur af spiki er ekki eitthvað sem ég nenni.
Ég pantaði mér bikiní í kvöld. Mig er búið að langa í bikiní í nokkur ár núna en hef alltaf hugsað með mér að ég bíði til næsta sumars, og svo þess næsta og þess næsta. Þegar ég er orðin nógu mjó. En hvað ef það er ekkert næsta sumar? Hvað ef ég verð aldrei nógu mjó? Við erum að fara til Tenerife og ég ákvað í dag að í þetta sinnið að láta bara verða af því. Það er í alvörunni ekki eftir neinu að bíða.
3 ummæli:
Eruð þér lífs eða liðin frú Svava?
Já, hvar ertu kona? Það er kröfuharka á þig að skrifa um hverja helgi og segja frá sorgum þínum og sigrum. Ert meiri innblástur en þú gerir þér grein fyrir kannski :)
Svo næsta pistil kannski?
Eg er á lífi! :) En er í klandri með lyklaborð og nenni svo illa að skrifa á ipad. Þarf að fara að redda þessu. Takk fyrir að spyrja eftur mér ❤️
Skrifa ummæli