laugardagur, 27. desember 2008
sunnudagur, 21. desember 2008
Þá mega jólin koma á þetta heimili. Hér er allt til; rauðvín, rósakál (svo ferskt að það er enn á stilknum) og rjómi. Súkkulaði í fimm tegundum, epli, hnetur og mandarínur, ostar og kex, innpakkaðar gjafir, kerti, spil og ást og umhyggja. Allt heimilisfólk hefur fengið ný plögg svo enginn verður jólakettinum að bráð, og velflest horn ilma af ajaxi. Ekki alveg öll, en flest. Við Dave þurfum að mæta í vinnu næstu tvo dagana en svo erum við í fríi fram yfir næstu helgi. Ljómandi það alveg hreint.
Hér verður sú nýbreytni að það á að bjóða upp á bleika ógeðið í ár. Bleika ógeðið er epla og rauðbeðu salat sem mamma hefur haft á jólaborðinu svo lengi sem ég man eftir mér. Eins og sést á nafngiftinni þótti mér ekki mikið til þess koma á mínum yngri árum. Þetta er engu að síður það nafn sem hefur fests við það á heimili foreldra minna. Ég lagði nú aldrei í að smakka en hefði þótt ómögulegt að halda jól án þess. Þegar ég svo byrja að búa fannst mér nóg að elda rósakál bara fyrir lúkkið (ég borða ekki rósakál) þó ég bætti ekki bleika ógeðinu við. Dave borðar rósakál þannig að ég gat réttlætt það þannig. Harpa og Arnar buðu svo upp á salatið með matnum um síðustu helgi og Dave bað mig svo fallega um að hafa það á jólum að ég er núna búin að kaupa allt sem þarf í það. Þannig að nú er jólaborðið mitt loksins orðið fullorðið. Rósakál og bleikt ógeð.
fimmtudagur, 18. desember 2008
föstudagur, 12. desember 2008
Hér er litli fjárhirðirinn minn. Ég vissi að hann væri hávaxinn en ég hafði aldrei tekið eftir hversu miklu stærri en jafnaldrar sínir hann er. Hann er höfðinu hærri en allir í bekknum. Hann stóð sig vel, söng og dansaði en því miður sat ég á kolvitlausum stað í salnum og sá lítið til hans. Sýningin var bráðskemmtileg engu að síður og frábært hvað kennaraliðinu tókst vel til að fá krakkana til að leika og dansa.
sunnudagur, 7. desember 2008
Jólin eru bæði algjört uppáhald hjá mér og á sama tíma afskaplega erfið. Skemmtileg vegna þess að ég í alvörunni trúi á gleði, frið og velvild allra til handa og á þá von sem mér finnast jólin standa fyrir; að kannski getum við öll verið vinir einn daginn. Skemmtileg vegna þess að ég elska að gefa jólagjafir. Ég leita lengi og hugsa vel og vandlega um hvað viðtakandi yrði hissa og ánægður með. Erfið vegna þess að ég er ægilega sjálfhverf, sjálfselsk og vanþakklát. Mér finnst ekkert jafn hræðilegt og gjöf sem mér finnst vera röng fyrir mig. Eins og pizzuhnífurinn sem var í laginu eins og feitur, ítalskur kokkur sem ég fékk frá stelpunum í vinnunni þegar ég hætti þar. Hvernig gátu þær þekkt mig svona illa að velja þennan óskapnað handa mér? Mér finnst líka voða leiðinlegt að segja hvað mig langar í. Mér finnst að fólk eigi bara að finna handa mér rétta hlutinn. Eiginmaður minn er búinn að gefast upp. Í fimm jól hefur hann keypt eitthvað vitlaust handa mér og í ár heimtaði hann lista. Sem hann núna neitar að nota. Ég hef víst sett lélegar gjafír á listann. Eins og til dæmis kartöflukremjarann spudski. Frábær nútímahönnun, byggt á skíðastaf, flott og nytsamlegt. Hvít rúmföt og Dulce-gusto kaffivél. Allt þetta eru víst ekki gjafir sem menn mega gefa konum sínu. Hann segist allt eins geta keypt handa mér ryksugu og alveg farið með það. En ef þetta eru hlutir sem mér finnast passa við mig er það bara ekki allt í lagi? Eina vandamálið er að það sem mér finnst mikilvægast af öllu er að gefandinn finni upp á gjöfinni sjálfur, ég við ekki velja sjálf...Greyið Dave...að eiga svona konu.
föstudagur, 5. desember 2008
Hann var bestur í að vera bestur.