mánudagur, 26. apríl 2010


Það er bara hálfgert fríkát í gangi hjá mér núna. Ég fékk boð í atvinnuviðtal og það er loksins vinna sem ég hef áhuga á. Viðtalið er byggt þannig upp að ég á að halda 15 mínútna fyrirlestur um hvernig ég myndi stjórna teymi sem á í vandræðum með gæði. Svo er viðtal þar sem ég verð spurð spjörunum úr um hæfni mína á mismundandi sviðum. Ég er alveg að springa úr spenningi enda er þetta svakalega spennandi fyrirtæki og vinnan alveg það sem ég vil gera. Og ekki skemmir fyrir að fyrirtækið er á Wrexham Industrial Estate við hliðina á Rowan Foods þar sem Dave vinnur. Við gætum því farið saman í og úr vinnu og ég sparað mér 30 pund á viku í lestarmiða. Ég er því á fullu að búa til fyrirlesturinn minn og æfa mig í að vera æðisleg. Og það akkúrat í vikunni sem ég er að taka mataræðið algerlega fyrir með smásjá. Allt vigtað, mælt og útpælt. Sem er tímafrekt og smávegis stressandi enda er ég stödd í sykurþokunni minni sem gerir allt aðeins erfiðara. En það skiptir litlu máli hvaða óvæntu atburði lífið fleygir að mér, ég get ekki frestað því að taka á mataræðinu í eina mínútu. Það er nú eða aldrei. Ég ætlaði eitthvað að verða svakalega stressuð áðan þegar ég kom heim úr vinnunni, það átti eftir að gera smá húsverk ásamt því að ég hafði planað að búa til eggjamúffur tilbúnar í morgunmat og var búin að setja kjúklingabringur í marineringu sem þurfti að grilla tilbúnar í salat. Svo þurfti að strauja skólabúning, finna til nesti, finna til föt og æfingargalla fyrir morgundaginn og vinna að fyrirlestrinum. Svo andar maður bara í smástund, útdeilir þeim verkum sem aðrir geta gert fyrir mann, forgangsraðar og tekur svo verkefnin eitt af öðru. Ég þarf ekki endilega að vera súperkona. Og svona kom það, fyrirlesturinn tilbúinn, viku matseðill tilbúinn, skólabúningur tilbúinn. Allt hitt bara sallast svona einhvernvegin. Er ekki öllum sama þó það sé ryk í hornum hjá mér?

6 ummæli:

Guðrún sagði...

Skítt með rykið en 15 mínútna fyrirlestur, það er ekkert smá. Við bíðum hérna megin við hafið með spenninginn í maganum og biðjum allar góðar vættir að vera með þér.
Þú átt eftir að heilla alla upp úr skónum!!!

Hanna sagði...

Hvaða rykpælingar eru þetta kona? Njóttu þess að vera sú supermom/woman sem þú nú greinilega ert!!

Knús
H

p.s. ég hélt ekki að þú þyrftir að æfa þig í að vera æðisleg - er þetta ekki algerlega meðfætt??

Enn stærra knús til þín og poj poj.

Nafnlaus sagði...

Vá en spennó :-) Þú átt eftir að heilla þetta lið upp úr skónum. Hvað varðar rykið þá má það nú bíða. Bara dimma ljósin og kveikja á kertum, þá sér enginn neitt ryk.
Sendi til þín hlýja strauma og hlakka mikið til að fá fréttir.
Knús, Lína

Nafnlaus sagði...

Vá en spennó. Þú átt eftir að heilla þetta lið upp úr skónum :-) Hvað varðar rykið þá má það nú bíða. Bara að dimma ljósin og kveikja á kertum og enginn sér neitt ryk. Sendi til þín hlýja strauma og hlakka til að fá fréttir.
Knús, Lína

Nafnlaus sagði...

Betri er smá skítur í hornunum en hreint helvíti.
Hvað varðar skipulagið þá er ég viss um að Gunna og Simmi eru foreldrar þínir.
I.

Einvera sagði...

Ég og Lína erum eitt - kerti bjargar mörgu - vera bara llt í einu æðislega rómó týpa...!
Vonandi gengur þér vel - vinnu - mat hele klabben