laugardagur, 23. nóvember 2013

Það hefur alltaf verið kappsmál hjá mér að vera fín. Alveg sama hvernig ég hef verið í laginu og hversu erfitt það hefur verið að finna föt þá hef ég engu að síður lagt mikið í að vera fín. Það var oft erfitt og oftast þurfti ég að vera í einhverju sem bara passaði frekar en því sem mig í alvörunni langaði til að vera í. Þetta hefur leitt núna til þess að ég er hálf stíllaus, veit hvað ég vil en kann ekki að kaupa hlutina sem þarf til. Og enda alltaf á að kaupa allskonar drasl sem svo passar ekki saman og skapar engan heildstæðan stíl.

Ég ákvað því um daginn að takast á við þetta á sama hátt og ég tókst á við spikið; skipulega og með áætlun til að fylgja. Það bara verður að vera með plan.

Ég setti saman "mood board", liti, efni, tilfinningar, sem helst lýsa mér og hvernig ég vil að fólk sjái mig. Ég tók tillit til starfsins míns og þess að þar þarf ég að fylgja ákveðnum reglum. Ég vil líka að fólk í vinnunni taki eftir mér fyrir stíl því ég trúi þvi að fötin skapi manninn að vissu leyti og að ég eigi auðveldara með að komast upp metorðastigann ef ég klæði mig rétt.

Grátt, svart, kamel, bleikt, ull, silki, leður og gull er það sem helst kemur upp á mood borðinu mínu og ég fór þessvegna skipulega í gegnum skápinn minn og setti frá allt sem er teygt, togað, götótt eða of stórt eða of lítið. Svo raðaði ég öllu upp þannig að litir og efni eru augljós. Ég hef engan áhuga á að rembast við að komast í eitthvað í framtíðinni og tók í burtu allt sem ekki passar á mig núna. Ég er ánægð með mig eins og ég er og ætla að klæða mig þannig að best passi á mig og fari mér vel eins og ég er núna.

Svo tók ég til það sem eru lykilflíkur í skápnum. Ég á ekki mikið af fötum og hef mikinn áhuga á að láta það sem ég á duga með smá tilfæringum. Svartar buxur í vinnunna og tveir fallegir jakkar, einn svartur, hinn grár. Falleg hvít skyrta sem er aðeins meira kúl en bara venjuleg hvít skyrta. Nokkrir kjólar, sem geta staðið sjálfir eða verið undir jakka. Gallabuxur, leðurbuxur, leðurjakki og flott svört kápa. Þykk grá prjónapeysa og röndóttur bolur. Hnéhá stígvél, hælar, támjóir lágir skór, stutt stígvél og kúrekastígvél.

Ég fattaði svo að með litlum aukahlutum eins og fallegu úri eða armbandi, áberandi eyrnalokkum eða flottum trefli má gera hvað búning sem er flottan.

Það er líka bráðsniðugt að skoða tískublogg, og ég er eiginlega alveg dottin úr því að lesa lífstílsblogg, skoða frekar myndablogg. Eins og þetta. Hún er flott fyrir helgarfötin, meira svona casúal.  Þessi er uppáhaldið mitt. Hún er í Hollandi sem er strax plús og allt er í mínum litum og efnum. Ég er líka svo hrifin af hárinu á henni, rosaleg náttúrulegt en samt flott. Ég komst að því að ég get lagað mitt hár mjög svipað með því að þvo það ekki í tvo til þrjá daga. Á þriðja degi er ég fín.  Þessi er fín og mjög aðgengileg. Og þessi er svo kannski svona meira Carrie Bradshaw en flottar hugmyndir. Ég skoðaði og setti hjá mér þau átfitt sem mér fundust flott og setti svo saman úr fataskápnum mínum. Ég skrifaði líka niður lista af samsetningum sem ég skoða og finn til saman galla á kvöldin, tilbúinn fyrir daginn eftir. Virkar kannski dálítið OCD en þegar maður fer út klukkan sex á morgnana er best að vera búin að redda þessu fyrirfram.

Ég er búin að vera svona skipulögð í tvær vikur núna og mér finnst þetta vera algjör snilld. Ég fæ hrós á hverjum degi í vinnunni fyrir útlitið og ég er viss um að það er bara vegna þess að ég skín af sjálfstrausti og fólk tekur eftir því.  Ég er rosalega sátt við fataúrvalið mitt, og finnst eins og ég eigi bara nóg af fötum. Ég veit líka hvað það er sem vantar til að fullkomna og mér finnst því eins og ég hætti núna að kaupa bara eitthvað sem svo passar ekki við yfirallt stílinn minn. Sen stendur vantar mig bara köflóttan trefil, Michael Kors gullúr, Ray-Ban sólgleraugu og gulleyrnalokka. Allt og sumt. (Og hirðljósmyndara til að taka af mér almennilegar myndir - hér td sést ekki hvað ég er með fína hárgreiðslu!)

Laugardagur í Wrexham; hnéháleðurstígvél, þröngar svartar buxur, stór bleik peysa, svört kápa og bleikur trefill, gullúr og Chanel varalitur. 

sunnudagur, 17. nóvember 2013

Þarna um daginn þegar að ég fattaði að ég er ekki gölluð, ég er bara feit, fóru hlutirnir að smella saman fyrir mig. Ég er bara feit. Það er í raun hálf kómískt að hugsa til þess að í öll þessi ár hafi ég séð þetta sem persónuleikabrest eða eitthvað sem ég þurfti að "takast á við". En síðan þá hafa forsendurnar breyst. Ég er hætt að reyna að laga sjálfa mig, það er nefnilega ekkert að mér til að laga. Ég er hvorki verri né betri manneskja en hver meðaljón. Það er ekki að segja að ég sé hætt að reyna að grennast, það er bara á allt öðrum og þægilegri forsendum sem ég er að rembast við það. Þó svo að ég sé genatískt forrituð til að fitna, sitja á sófanum og nýta sem minnstu orkuna til brennslu þýðir það heldur ekki að ég geti ekki unnið að því að vera heilsuhraustari. Og það er líka ekkert að því að langa til að geta keypt föt hvar sem er.

Ég hef líka gefið sjálfri mér leyfi til að brjóta allar reglur og mér hefur bara sjaldan liðið betur eða verið sáttari við stússið. Ég fylgi enn að mestu leyti lágkolvetnalífstíl en hef aðlagað að mínum eigin líkama. Þannig þoli ég vel að borða kartöflur, haframjöl í nokkru magni, nokkuð af hrísgrjónum og quinoa. Hveiti og sykur leggst frekar illa í mig og ég reyni að sleppa. Sama gildir um flesta ávexti og ávaxtasafi er algert nó nó. Það sem best hefur hentað mér núna er það sem á engilsaxnesku er kallað intermittent fasting. Það er að segja ég gef líkamanum bara hvíld frá mat í nokkra klukkutíma á sólarhring. Ég hætti að borða klukkan átta á kvöldin og byrja aftur eftir klukkan tólf á hádegi. Innan þessa ramma fæ ég mér það sem mig langar í að mestu leyti en reyni að hafa það frekar skynsamlegt. Ég bæti líka ekki upp föstuna, þaes ég fæ mér bara venjulegan hádegismat, er ekki að bæta við því sem ég að öllu jöfnu hefði borðað í morgunmat. Þetta virðist henta mér afskaplega vel. Ég er orðin svöng rétt um eittleytið og nýt hádegismatarins mikið og svo er ég bara sátt það sem eftir lifir dags. Ég er hætt að stika um á kvöldin í örvæntingafullri leit að "einhverju", fæ mér bara góðan kvöldmat og jafnvel eftirrétt og svo er ég bara hætt.

Það fá eflaust margir sem lifa og hrærast í heilsusamlegum lífstíl hland fyrir hjartað við að lesa að ég borði ekki morgunmat, að ég borði bara tvær stórar máltíðir á dag í stað sex smærri, að ég borði kolvetni, að ég leyfi mér að verða svöng, að ég fasti... Þetta eru allt skýr viljabrot á "reglunum". En málið er að reglurnar breytast svo ört núna að ég bara get ekki lengur fylgst með. Það bara er ekki hægt að fylgja þeim öllum því að lokum fattar maður að helmingurinn af þeim stangast á við hvora aðra og afgangurinn hentar ekki. Hversu oft hef ég ekki "gert allt rétt" samkvæmt reglunum en samt fitnað? Fyrir utan að um leið og ég er búin að lesa mér til um eina kenninguna (með tilheyrandi vísindalegum staðreyndum, sönnunum og tilraunum) þá afsannar næsti vísindamaður sannindin og maður situr eftir ægilega hallærislegur enn að reyna að klára restina af lífrænu hnetusmjörskrukkunni (eða agave flösku eða chia fræpoka eða hvað svo sem það var) sem maður keypti þegar hnetusmjör var svarið.

Nei, ég er búin að prófa þetta allt og það eina sem ég veit fyrir víst er að ég verða að trúa mínum eigin sannleik.

miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Velmegun á sér ýmsar myndir. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég væri velmegandi neitt sérstaklega fyrr en um daginn. Á mínu heimili lýsir velmegunin sér í ruslapokunum. Þegar ég var hagsýn húsmóðir sem þurfti að velta hverju penníi á milli fingra keypti ég rúllu af Co-Op eigin tegund (own brand) "smart price" ruslapokum. Á rúllunni voru tuttugu 40 lítra pokar. Fyrir rúlluna borga ég rétt undir tveimur pundum. Þeir eru þunnir og lélegir og hanga asnalega í ruslatunnunni minni sem er Brabantia tunna og einir 50 lítrar.

Fyrir nokkru síðan fór ég inn í búsáhaldaverlsun og sá þar til sölu rúllu með tíu 50 lítra Brabantia ruslapokum á tvö pund og fimmtíu. Ég man að ég hugsaði með mér að þetta væri nú bruðl en það væri gaman að nota poka sem væru sér hannaðir fyrir tunnuna og ákvað að splæsa. Nú verða íslenskir lesendur að gera sér grein fyrir að í Bretlandi er ekki sama sýstem og heima þar sem öll heimili eru með litla ruslatunnu í skáp undir vaskinum. Hér erum við öll með stórar tunnur með loki á miðju eldhúsgólfi og þessvegna mikilvægt að vera með góða tunnu og poka sem virka.



Þegar um það bil tveir pokar voru eftir á rúllunni segir Dave við mig að við þurfum að gera okkur ferð í búsáhaldaverslunina til að ná í fleiri Brabantia ruslapoka. "Veistu cariad" segir hann við mig "síðan að við byrjuðum að nota þessa poka hefur það hreinlega verið gaman að fara út með ruslið. Það þarf ekki að nota tvöfalt lag, þeir rifna ekki, þeir halda helmingi meira af drasli, þeir eru með tilbúnum hanka til að halda á þeim, þetta er bara allt annað líf!" Og ég gerði mér grein fyrir því að allan þennan tíma hef ég verið að nota falskan sparnað. Með því að kaupa ódýru pokana þurfti ég einfaldlega að kaupa helmingi fleiri. Fyrir utan pirringinn sem fólst í að setja tvo poka í einu, reyna að láta þá passa og það til þess eins að reyna svo að hlaupa með þá út í tunnu áður en þeir rifnuðu og bananahýði og kaffikorgur hryndu út um allt eldhúsgólf.

Já, velmegunin er í rusli.

þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Ég fann rækt um daginn. Ræktin er í Ruabon sem er þarnæsta þorp við mig og ég á þar leið um nú þegar ég hjóla heim. Þetta lá því við að það væri við hæfi að allavega kanna hvað er í boði. Ég fattaði um daginn að það eru að verða komin tvö ár síðan ég tók í járn, ár síðan að ég hljóp síðast. Þegar ég uppgötvaði þetta verð ég að segja að mér þótti ég bara nokkuð góð að hafa náð að halda mér rokkandi svona undir hundraðinu, ég hlýt að hafa náð að breyta mataræðinu að heilmiklu leyti svona fyrst ég er enn ekki orðin tonn.

Hvað um það ég stoppaði við á leiðinni heim úr vinnu í dag, albúin með prógrammið mitt gamla úr "Lift like a man, look like a goddess" bókinni minni. Ég held að ég geti með sanni sagt að ekkert þyki mér skemmtilegra en að lyfta þungt. Ég er búin að prófa allskonar hreyfingu en járnið er alltaf skemmtilegast. Og hentar mér vel. Mér finnst bæði töff og kúl að vera ógeðslega sterk.

Ræktin er algerlega heimagerð, þetta er svona nánast eins og að lyfta bara í skúrnum heima hjá nágrannanum. Engin meðlimagjöld, maður bara borgar tvö pund í hvert sinn sem maður kemur. Fær pin númer sem maður getur notað til að komast inn og út þegar manni sýnist sjálfum, hvort sem er opið eða ekki og maður á þá bara að skilja pundin eftir á afgreiðsluborðinu. Það bætir aldeilis trúna á mannkynið þegar maður veit að enn finnst svona traust og velvild.

Ég rölti um og sá að hér ætti ég heima. Allt svæðið undirtekið af lóðum og stöngum og ekkert fínerí. Ekkert vesen eða pjatt. Ég hitaði upp í smástund og setti svo stöng á bakið til að taka hnébeygjur. Ég gat bara helminginn af því sem ég gat síðast þegar ég lyfti, en andskotakornið það er líka helmingi meira en ég gerði í gær.

Þegar ég var hálfnuð eða svo með settið byrjuðu fastakúnnarnir að tínast inn. Hver strákurinn á fætur öðrum, allir enn í rafvirkja eða smiðsvinnugallanum í vinnuskóm með stáltær. Ekki nokkur ástæða til að skipta yfir í íþróttaföt, ekki þegar maður er kominn til að hnykla upphandleggsvöðvana og taka nokkur pump í bekkpressunni! Allir með yfirbyggingu á handleggjum en örmjóa fótleggi. Karlmenn. Þeir eru svo fyndnir.

Ég flissaði bara svona með sjálfri mér á meðan að ég kláraði æfinguna mína, teygði vel á (sem uppskar nokkrar augngotur, enda örugglega eitthvað sem aldrei hefur sést þarna áður) og hjólaði svo heim, kófsveitt og hamingjusöm.

I´m baaack!