miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Ég sá grein á Guardian um daginn þar sem sagt var frá þeirri töfralausn að spila Tetris í þrjár mínútur þegar maður er að berjast við einhverskonar fíkn. Súkkulaði eða sígarettur, skipti ekki máli, það er víst eitthvað við litina og það að raða kubbunum upp sem slær á löngunina nógu lengi til að stoppa sig af. Það er óþarfi að taka fram að ég er búin að setja Tetris inn í shortcut á bæði tölvu og síma.

Ekki það að það virki. Mínar hættustundir eru þegar ég er að stressast í vinnunni, eða þegar ég er að elda kvöldmatinn. Í vinnunni er ekki hægt að skipta úr excel yfir í Tetris svo auðveldlega og þegar ég er að elda er ég vanalega búin að smakka og stinga upp í mig án þess að taka eftir því. Samt. Ef ég verð viðþolslaus að kveldi til er Tetris tilbúið.



laugardagur, 22. febrúar 2014

Pásan gerði mér gott og ég er búin að ná upp töpuðum tíma og er á réttu róli með æfingar. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um mataræðið þessa vikuna, chippie chips, KFC, samlokur, diet kók, bounty, boost og twix bara svona til að nefna það helsta. Ég er undir gífurlegu álagi í vinnunni, er þar oftast 10 eða 12 tíma og hef ekkert aflögu til að gefa í hollan lífstíl. Allur undirbúningur og planlegging sem er undirstaðan að þessu öllu fer bara út um gluggann við svona álagspúnkta. Ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir hversu lukkuleg ég var þegar ég byrjaði fyrst á þessu stússi að vera með vinnutímann 2-10. Að hafa svona nógan tíma á morgnana til að undirbúa sig og æfa skipti bara öllu máli. Og ég er alltaf að gera mér betur grein fyrir því að ég þarf að búa til nýtt plan núna, plan sem miðar að því að ég vinni 12 tíma vinnudag. Ég þarf að einfalda hlutina all svakalega til að þetta gangi upp. Ég bara hreinlega get ekki ætlast til þess af sjálfri mér að ég geti gert jafn mikið og ég gerði áður þegar ég hafði nógan tíma.

Látum okkur nú sjá....

laugardagur, 15. febrúar 2014

Alla vikuna rolaðist ég áfram, vann, æfði og hjólaði. Þrátt fyrir hor og slen. Ég er ómissandi í vinnunni (æðislegt) og mér fannst það sérlega mikilvægt að æfa í þessari viku. Þetta er nefnilega þriðja vikan eftir að hafa, ekki byrjað aftur, heldur frekar svona endurnýjað heitin. Og eins og allir vita sem vita eitthvað um lífstíl vita að það þarf 21 dag til að búa til vana. Mér fannst þessvegna eins og þessi vika væri mikilvæg.

Í dag vaknaði ég hinsvegar og verð að viðurkenna að ég er búin á því. Ég notaði upp alla orku í vikunni og núna er ég bara búin. Ég byrjaði á að setja saman langa ræðu fyrir sjálfa mig til að afsaka hversvegna ég myndi ekki æfa í dag. En í miðri ræðu datt mér í hug að það er engin ástæða til ræðuhalda til að sleppa æfingu í dag. Ég er veik og þarf að hvíla líkamann. Púnktur. Það er nefnilega þannig að ef ég hef í hyggju að þetta sé lífið, þá er eðlilegt að sleppa æfingu öðruhvoru. Meira en eðlilegt, stundum er það bara nauðsynlegt. Það sem er ekki eðlilegt er að þjást af samviskubiti ef einni æfingu er sleppt.

Þetta er það sem ég ströggla hvað mest við. Ég set mér markmið smærri markmið sem í raun hindra stóra markmiðið að lifa í sátt og samlyndi við hollan mat, í réttu magni í bland við heilbrigða hreyfingu sem passar inn í venjulegt heimilis- og vinnulíf. Smærri markmiðin hinsvegar er eitthvað eins og að léttast um þrjátíu kíló og geta gert 5 upphífingar áður en ég verð fertug. Smærri markmiðin eru tímaskilyrt og gera það að verkum að ég hugsa "þegar þetta er búið" eða "þegar þessu er lokið þá get ég..." (borðað eins og svín.) Þessi hugsun er það sem skapar samviskubit þegar maður fær sér eina pizzusneið eða sleppir æfingu vegna kvefs. Og er alls ekki til skaplegt til langframa.

Ég ætla þessvegna að æfa mig í dag. Í að sleppa æfingu. Ég ætla að planta mér í sófann, með góða bók og tebolla og dorma á milli kafla. Og í lok dags verð ég fullþjálfuð í að taka mér pásu.

þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Æfingasett morgunsins voru allt "push" æfingar; tvennskonar armbeygjur, herpressa og sitjandi dýfur. Ég er ógeðslega léleg í "push" æfingum. Þarf að gera þær allar með breytingum. Ég þyrfti helst að finna eitt af þessum "milljón armbeygjur á mánuði" prógrömmum til að fylgja svona meðfram hefðbundu æfingunum til að reyna að ná upp einhverjum styrk í örmum. Á meðan að ég puðaðist við þetta datt mér í hug hvað ég myndi gera ef ég vaknaði einn morguninn og væri bara mjó. (Rétt skal vera rétt, æfingin var of erfið til að gera, en breytingin sem ég gerði var of auðveld þannig að ég fékk voðalega lítið úr æfingunni, en hafði nógan tíma til að hugsa.)

Hvað myndi ég gera ef einn daginn væri þetta bara allt horfið? hugsaði ég. Ef það sem ég tel hafa verið minn myllustein, nokkuð bókstaflega, í þrjátíu ár væri bara ekki utan á mér lengur. Í fyrsta lagi held ég að það væri gífurlegur léttir. Og þá á ég við í hreinni merkingu þess orðs. Ég væri léttari á mér, ég myndi fara fram úr, fara niður stigann, klæða mig allt sársaukalaust. Allar hreyfingar yrðu svo miklu léttari. Í öðru lagi þá myndi ég kaupa mér dálitið mikið af fallegum fötum. Svo ætlaði ég að hugsa að ef ég væri mjó þá myndi ég vera líklegri til að klífa metorðastigann, vera skemmtilegri, taka þátt í öflugra félagslífi og að hárið á mér myndi glansa meira. En þetta var í örbrotssekúndustund. Og var ekki einu sinni alvöru hugsun, heldur meira svona leifar af því að finnast eins og ég ÆTTI að hugsa svona. Ég er nefnilega alveg læknuð af ranghugmyndunum um að allt lagist við að vera mjó.

Það var gífurlegur léttir að uppgötva að ég er alveg búin að ná þessum hluta. Að ég sé búin að leiðrétta þennan misskilning í heilanum  á mér.  Ef ég vil fá stöðuhækkun, nú þá geri ég eitthvað til að sýna yfirmönnum mínum að ég eigi það skilið. Ég borða ekki bara meira grænmeti. Ef ég vil eiga öflugra skemmtanalíf nú þá þigg ég fleiri boð um að gera hitt og þetta með nýju fólki, ég tek ekki bara fimm armbeygjur í viðbót. Þetta er svo augljóst þegar maður gefur ranghugmyndina loksins upp á bátinn.

Það eina sem eftir stendur er það sem er rétt og satt; ef ég vaknaði þvengmjó á morgun þá væri ég léttari. Það er í alvörunni allt og sumt. Basta.

sunnudagur, 9. febrúar 2014

Við skíttöpuðum fyrir Írum í gær. Við höfum enn möguleika á að vinna allt mótið en ef ég miða við frammistöðu þeirra frá eyjunni grænu þá eru þeir nú líklegri en við að vinna þetta í ár. Þeir voru sterkari líkamlega og við gerðum allskonar tæknileg mistök sem kostuðu víti hægri og vinstri. Veilsverjarnir létu líka skapið hlaupa með sig í gönur, urðu reiðir. Það er skapgerðareinkenni á Keltum sem er ólíkt Englendingum. Hér er ekkert "stiff upper lip" kjaftæði neitt.

Stiwt leikhúsið í Rhos
Ég fór með mágkonu minni og svila að horfa á leikinn á breiðtjaldi í Stiwt (Borið fram "stjúft") leikhúsinu hér í Rhosllannerchrugog. Leikhúsið var byggt af námuverkamönnum hér í þorpinu 1926. Þeir ákváðu að það þyrfti að hafa menningu í þorpinu og eyddu bara sínum frítíma og peningum í að byggja leikhús. Nú er þar pöbb og ýmiskonar sýningar og skemmtilegheit. Við sátum þar í mestu makindum, drukkum Wrexham lager og æptum á velska rugbý landsliðið. Þetta er hin besta skemmtun, leikurinn er hraður, ofbeldisfullur og yfirfullur af dramatík. Eftir fimm stóra bjóra var ég orðin fín og timi til komin að halda heim. Ég fíla þetta breska djammkerfi alveg í botn. Farin út klukkan tvö, orðin full klukkan þrjú og komin heim og runnið af mér fyrir sex. Svo var bara hægt að horfa á sjónvarp með kínverkan takeaway í mestu makindum.

Ég vaknaði reyndar með örlítin hausverk í morgun og er ánægð að geta tilkynnt að það er rétt að endorfín og seratónin sem mynda vellíðunartilfinninguna þegar líkamsrækt er stunduð geta líka læknað hausverk. Já, það er ekkert verið að slaka á hérna, ég kláraði viku tvö í YAYOG kerfinu og líður eins og milljón kalli núna. Svo er bara stúss í eldhúsinu framundan og slökun til að vera tilbúin í vikuna fram undan.

laugardagur, 8. febrúar 2014

Ég eyddi öllu gærkveldinu í að læra velska þjóðsönginn, Hen Wlad Fy Nhadau, eða Land Feðra Minna. Ekki það að Wales sé land feðra minna, en það er hinsvegar ættleidda landið mitt og ef það er eitthvað sem Veilsverjar gera vel þá er það að syngja. Og hitt sem þeir eru flinkir við er að syngja þjóðsönginn á rugbymóti. Þeir eru reyndar líka helvíti lúnknir við að spila rugbyið sjálft og í dag ætlum við að spila við Íra. Leikur númer tvö í árlegu "6 nations" mótinu. Við erum búin með Ítali, unnum þá nokkuð auðveldlega en núna taka við nokkuð erfiðari leikir. Við höfum unnið mótið síðustu tvö árin og ætlum að reyna það sem aldrei hefur verið gert áður og vinna í þriðja árið í röð. Ég ætla sem sagt að fara með velsku fjölskyldunni á pöbbinn í dag til að syngja þjóðsönginn. Og horfa á leikinn að sjálfsögðu en fyrir mig er aðaltatriðið þegar það er sungið. Lagið er fallegt, textinn lýsir landinu svo vel og það er partur því þar sem maður getur æpt hátt og svo hærra sem er voðalega gaman.

Hitt er svo að á pöbbnum drekk ég örugglega voðalega mikinn bjór og ákvað þessvegna að vigta míg í morgun. Smá svindl en allt í þágu góðs málstaðs. Ég léttist um tæp tvö kíló í vikunni. Ekkert svona sem ég er þannig séð að einblína á en engu að síður þá finnst mér mikilvægt að halda áfram að skrásetja hvað ég er að gera til að sannfæra mig um að ég sé að gera það sem er rétt fyrir mig.

Í áframhaldi af því að undirbúa það sem gæti kannski verið þynnkudagur á morgun ákvað ég að æfa af helmingi meiri krafti í morgun, tók svo skart á að ég er núna með marbletti á fingrum í kringum hringina mína. Ég hefði sjálfsagt átt að taka þá af. Skundaði svo inn í eldhús til að hanna nýja köku. Ég hef ekki gert þetta lengi og verð að segja enn og aftur að ég stend algerlega skilningslaus fyrir framan sjálfa mig þegar ég spyr mig afhverju ég hætti? Ef mér finnst svona gott að æfa og svona gaman að hanna hollustu í eldhúsinu hvað gerist eiginlega til að stöðva þetta? Milljón dollara spurningin ekki satt?

Hvað um það. Kakan er geðsjúklega góð. Ég þarf reyndar að prófa annaðhvort að lækka og baka lengur eða það sem er líklegra að sé betra ráð; vatnsbaka hana.


Hugmyndin byggir á hefðbundum breskum eftirrétt, Sticky Toffee Pudding, sem er döðlukaka með karamellusósu. Ég breytti þónokkuð og þó mér hafi ekki alveg tekist ætlunarverkið þá er kakan sérlega bragðgóð og eins og ég segi þá held ég að uppskriftin sé nánast fullkomin, það þarf bara að skoða bökunaraðferðina. Ég prófaði að nota "Total Sweet" sem er xylitol sykur. Mér finnst hann hvað líkastur venjulegum sykri. En ef ég segi rétt og satt frá þá er óþarfi að hafa hann með út af sætindunum sem koma frá döðlunum í bland við svo karamellusósuna sem maður setur á.


Eins og sést þá náði ég henni ekki heilli upp úr forminu. Og mér dettur helst í hug að næst setji ég hana í form, setji svo vatn í ofnskúffu, formið þar í og baki þannig kökuna í vatnsbaði. Ég held að það sé aðferðin sem er notuð við sticky toffee pud hvort eð er og ég veit ekki afhverju ég fattaði það ekki fyrir.

1 bolli (bolli er amerísk mælieining og ég nota 250 ml bolla) af haframjöli, malað í fínt hveiti
1/2 tsk xantham gum (það má kannski sleppa því, ég var bara að prófa)
1 mtsk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt - allt blandað saman

1 bolli döðlur lagðar í bleyti í 3/4 bolla sjóðandi vatni og svo maukaðar í spað

2 stór egg
1/4 bolli xylitol sykur (eins og ég segi þá held ég að það megi bara sleppa þessu, í bland við döðlur og karamellu er kakan bara orðin heilmikið sæt)
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli kókósolía, fljótandi - Egg, sykur og vanilla þeytt saman þar til ljóst og létt og hella svo olíunni saman við á meðan þeytt er. Bæta svo döðlumauki þar út í og að lokum hafrablöndunni, bara svona rétt aðeins saman.

Baka í 160 í 45 mínútur, eða eins og ég held að sé betra, hylja með álpappír og setja í vatnsbað og baka þannig.

Karamellusósan er ekki mín uppskrift. Hún kemur frá Elena´s Pantry þó ég hafi aðeins breytt henni.
1/2 bolli kókósrjómi, (þykki hlutinn sem myndast þegar maður lætur dósina inn í ísskáp yfir nótt) 1/2 bolli kókóssykur (þetta er eins og púðursykur og ég fæ sent frá iherb), 2 mtsk kókóssýróp (eins og sýróp og aftur, fæ sent frá iherb) allt látið malla í potti og svo er matskeið af kókósolíu hrært út í. Látið kólna og svo má sulla þessu yfir hvað sem er.

Þó kakan sé nokkuð hollustuleg, þá verður að sjálfsögðu að hafa í huga að það er samt fullt af sykri í henni. Xylitol er skárra en hvítur sykur. Döðlur, eru þær skárri? Það fer eftir því hvaða trúarbrögð (megrunarkúr) þú aðhyllist. Þannig er lágkolvetnafólk alveg á móti þurrkuðum ávöxtum á meðan að Paleo rétttrúaðir finnast þetta allt í lagi. Hafrar eru svo fínasta fæða þeirra sem nota alla fæðuflokka í jöfnum hlutföllum eða telja hitaeiningar, en hellisbúar og kolvetnisleysingar myndu hrylla sig við. Sama með kókóssykur og nectar, þetta er allt sykur alveg sama hversu heilsusamlegt þetta lítur úr fyrir að vera með sína lífrænu stimpla. Það eina sem allir eru sammála um er kókósolían. Öll eigum við að rúlla okkur um í henni.

Hvað um það allt saman, ein svona sneið með kaffibolla er ljómandi góð, og tilgangnum mínum náð; ég er á fljúgandi ferð í eldhúsinu. Og við vitum öll að þar er baráttan við spikið háð, og unnin.


föstudagur, 7. febrúar 2014

Það gengur rosalega vel hjá mér. Svo vel að ég er farin að hafa smávegis áhyggjur. Ég byrjaði bara að æfa, vakna fyrir fimm, lyfti og hjóla. Ekkert mál. Eins og ekkert hafi í skorist. Ég bý til matarplan, vigta og mæli í það, geri tilbúið á kvöldin og borða svo tilsett yfir daginn. Eins og ekkert hafi í skorist. Ég fór í smá flækju um helgina en það var kannski líka bara eðlilegt. Ég fór til Birmingham að hitta Ástu og ég hugsa að það sé litið óvanalegt við að maður fái sér aðeins út af plani viðsvoleiðis tilefni.

Eins og ekkert hafi í skorist. Eins og þetta ár þar sem ég reyndi við sykurleysi, kolvetnaleysi, hreyfingarleysi og tilraunir til að borða af innsæji hafi bara aldrei gerst. Árið sem ég þyngdist um tuttugu kíló.

Það eina sem eftir situr er þetta að langa til að vera sáttari við sjálfa mig. (Fyrir utan spikið auðvitað) Það er svo flókið og erfitt að útskýra hvað ég á við þegar ég segi sátt við sjálfa mig. Ég er ekkert að berjast við neitt niðurrif. Mér finnst ég voðalega fín. En á meðan að mér er svona illt í hnjánum verð ég að viðurkenna að ég er aðeins pirruð út í sjálfa mig. Ég vildi að ég gæti bara verið hraust og feit og sátt. Svona eins og þessi til dæmis. Hún er æðisleg. En ég get það ekki. Ekki á meðan að mér er illt. Ég er þessvegna að reyna að koma inn nýju markmiði hjá mér. Gleyma bara gömlu töfratölunni, buxnastærðinni eða hvað það nú var sem ég er alltaf að eltast við. Sársaukaleysi er núna það sem ég miða við.

Tvö afvelta

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Ég elskaði að vera þessi manneskja. Þessi manneskja sem vaknar klukkan tíu mínútur í fimm á morgnana til að lyfta eða hlaupa. Þessi manneskja sem gerði nesti fyrir vikuna og fann upp hollar uppskriftir. Þessi manneskja sem var hraust og sterk og í stuði. Ég elskaði að vera þessi manneskja.

Ég var minnt á hvað ég var ánægð með að vera sú manneskja í síðustu viku þegar ég vaknaði rúmlega fjögur til að æfa. Það var erfitt að vakna en það var eitthvað inni í mér, einhver gömul tilfinning sem ég mundi eftir sem sagði mér hversu gott mér finnst í alvörunni að vakna snemma og æfa. Hversu mikil vellíðan fylgir því að borða vel og afþakka kexið.

Mér finnst ekki eins og þetta sé alveg sjálfgefið í þetta sinnið. Það er eitthvað júskað við mig núna, ég er ekki alveg jafn bjarteyg og jákvæð og ég var áður. En ég er líka smá saman að sogast inn í velgengnishringrásina. Það er þegar maður gerir eitthvað eitt rétt og gott og það leiðir af sér fleiri betri ákvarðanir og gjörðir sem svo leiða af sér fleiri og fleiri. Svona eins og þegar maður vaknar snemma og æfir og fær sér þá góðan morgunmat af því að maður er búin að æfa og vill ekki skemma það og svo fær maður sér göngutúr til að viðhalda velgengninni og svo þar fram eftir götunum.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér, það þarf að viðhalda velgengnishringrásinni en það verður líka alltaf auðveldara og auðveldara.

Sér í lagi þegar ég hugsa til þess að ég er þessi manneskja.

mánudagur, 3. febrúar 2014

Eftir japl, jaml og fuður mikið ákvað ég að láta reyna á pæjusímann minn og hef núna í viku stundað líkamsþyngdaræfingar hér heima eftir prógramminu "You Are Your Own Gym". Mér leist lítt á það til að byrja með, skildi ekki hvernig ég átti að telja, æfingarnar virkuðu hrikalega erfiðar og mér fannst kjánalegt að beygja mig eftir símanum eftir hvert rep. En eftir að hafa prófað mig áfram og æft mig á hraðaæfingunum var ég orðin húkkt og setti upp tíu vikna sessjón fyrir byrjendur. 

Prógrammið gerir ráð fyrir fjórum æfingum í hverri viku, 30 mínútur í senn. Eins og nafnið gefur til kynna þá notar maður bara sinn eigin líkamsþunga og svo húsgögn í staðinn fyrir líkamsræktarstöð. Ég er á byrjendastigi, og þykir þó mjög erfitt. Svo eru önnur fjögur 10 vikna erfiðleikastig til að vinna sig í gegnum þannig að prógrammið gæti dugað manni í ár. Hver æfing er sýnd með vídeói og það er líka hægt að lesa útskýringar á hvernig á að beita líkamanum. Hver æfing er tímasett og þó það virki í fyrstu eins og smá vesen að þurfa alltaf að ýta á símann til að gefa til kynna þegar maður er búin með sett þá venst það fljótlega. Og fyrir ókeypis prógramm er varla hægt að kvarta. 

laugardagur, 1. febrúar 2014

Ekki veit ég hversu oft á á að læra þessa lexíu en enn einu sinni kemur hún; planlaus ertu glórulaus kona.

Ég fór nestislaus í vinnuna á föstudaginn. Hafði bara skipulagt matseðil fram á fimmtudag og vegna álags í vinnunni (ég er aftur að taka við nýju teymi og þarf að setja allt upp frá byrjunarreit) var ég komin í ákvarðanatökuþrot. Það er alvituð vísindaleg staðreynd að mannsheilinn þolir bara visst magn af ákvörðunum yfir daginn. Þannig er það að þegar maður er undir miklu álagi í vinnunni nú þá er ekki líka hægt að taka góðar ákvarðanir hvað mat varðar og heilinn leitar eftir auðveldum, einföldum ánægjugjafa. Hjá fitubollum er það súkkulaði, snakk, kökur og annað slikkerí. Þegar klukkan var að verða fimm var ég búin að vera við skrifborðið mitt í tæpa níu klukkutíma, leysa þrjú stór vandamál, hlusta á viðskiptavin hóta sjálfsvígi og setja upp sex mismunandi stórar spreadsheets. Og án þess að fá neitt að borða. Ég bara gat ekki meira og fór og keypti mér salthnetur og kók. Ef ég hefði verið búin að skipuleggja mig hefði ég ekki þurft að taka neinar ákvarðanir aðrar en þær sem að vinnunni lutu, ég hefði bara verið með gott nesti með mér og hollusta hefði verið sjálfsagt mál án nokkurrar ákvarðana eða erfiðleika. Gott væri ef hefði verið.

Þegar heim var svo komið var ég úrvinda og gat hvorki upp hugsað neitt að elda hvað þá að ég hefði orku til að elda það. Langaði bara í gott, gott, gott djúpsteikt í núll prósent áreynslu. Labbaði út í Co-op og keypti beikon og fékk mér beikon samloku í kvöldmat og skolaði niður með einu twix.

Algjör mínus.

En. Í plús fer að ég fór ekki út í chippie til að kaupa franskar til að borða með beikoninu eins og mér datt í hug og hinn plúsinn er að um leið og twixið var búið bjó ég til vikumatseðil og pantaði heimsendingu frá Asda. Ég læt ekki grípa mig sofandi á verðinum aftur.