sunnudagur, 22. febrúar 2015

Hjólað kringum Mersey ána


Ég hef alltaf verið mikið ein þegar kemur að þessu stússi mínu í að ná heilsusamlegri lífstíl og dýrka við musteri heilsunnar. Ég fer ein út að hlaupa, ég fer ein í ræktina, ég fer ein út að hjóla, ég er ein í jóga í stofunni heima. Og satt best að segja þá er ég orðin voðalega leið á þessu. Og einmana. Það vita það allir sem eitthvað vita um heilsuna að ekkert hvetur mann meira áfram en félagsskapur. Ég ákvað þessvegna að hér myndi linna og hreinlega fór út að leita mér að félögum. Og lukkan yfir mér alltaf hreint, ég komst í tæri við samtök hjólreiðafólks og var boðin velkomin í faðm þeirra. Samtökin samanstanda af mörgum litlum hópum sem hittast á mismunandi tímum og fara mismunandi langt og hratt. Maður velur svo bara nokkra hópa sem best henta tíma og líkamlegu ásigkomulagi. Ég ákvað að byrja rólega og hitti í gærmorgun hóp 20 kvenna sem hittast einn laugardag í mánuði, hjóla 20-25 km og enda svo á kaffihúsi í kaffi og kökusneið. Þar hitti ég svo konur úr öðrum hópum sem buðu mér með í fleiri svona hittinga. Annan kvennahóp sem hjólar lengra og hraðar, en fær sér líka kökur, og svo þann þriðja sem hefur aðaltilganginn að hjóla hratt og lengi. Ég er þar með vonandi komin í aðstöðu þar sem ég get farið að stunda hjólreiðar af einhverri alvöru. En þó með gamanið að leiðarljósi líka. 

Með Mersey í bakgrunni.

fimmtudagur, 12. febrúar 2015

Í tvo daga núna er ég búin að leggja à ràðin um gífurlegt ofàt. Sko það er nefnilega ekki langt í bolludaginn, hann hreinlega núna á mánudag. Í ofanálag þá er hér í Bretlandi eitthvað sem heitir Shrove Tuesday og þjónar sama tilgangi og bolludagur okkar íslendinga, það er að koma í lóg eggjum og hveiti fyrir lönguföstu. Þeir leggjast því í pönnukökuát á þriðjudeginum. Ég get því, löglega, borðað bollur og pönnukökur frá sunnudegi fram á þriðjudag skyldi ég svo kjósa.

Og heilinn fer á hundrað að plotta átið, hvað ég ætla að baka margar bollur, hvort ég hafi pönnukökur í morgunmat kannski bara líka og bæti þannig amerískri uppskrift við hefðbundnari þunnar pönnsur. Hvort ég nái að raða í mig nokkrum bollum inni í eldhúsi áður en ég ber þær fram, hvort ég baki nógu margar til að halda áfram á mánudeginum og sa videre.

Ég er nefnilega ekki búin að gera neitt nema fallegt hvað mat varðar núna í þrjár vikur. Allt ferskt, allt eldað frá grunni, allt borið fram af alúð, servíettur og kertaljós. Og ekki vottur af rugli um helgar. Ég er búin að vera fullkomin. Og nú líður að ögurstund. Ég verð alltaf sorgmæddari og sorgmæddari af því sem mér finnst vera frelsiskerðing. Mér finnst lágmarksmannréttindi mín vera skert. Mér finnst eins og það sé búið að taka af mér valfrelsi, kosningarétt og tjáningafrelsi. Hvers vegna þarf ég að sleppa öllu snickers þegar allir hinir mega fá sér?

Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir dramatíkinni í setningunni hér að ofan. Og enn betra ég geri mér líka grein fyrir því hversu rangt ég hef fyrir mér. Ég veit að valfrelsið er einmitt mitt, og að það er ég sem kýs að borða bara fallega. Og ég veit að það er mér fyrir bestu, eftir allt þá veit ég nákvæmlega hvernig bollur, pönnukökur og snickers bragðast. Ég veit það allt saman. En það er ekki þar með sagt að mér takist að koma innri vitund minni á það æðra plan að geta sagt við sjálfa mig: "En þú ert að velja, kjósa og tjá betri kostinn!" Ég er alveg föst í fórnarlambshlutverkinu, ó mig auma. Greyið ég sem "má" ekki borða það sem ég vil. Aumingja ég sem get ekki valið að borða mig veika. Armæðan.

Mér á eftir að takast að komast á þennan hugsunarhátt sem segir að ég sé ekki að banna neitt, ég sé einfaldlega að velja hollari kostinn. Ég sé hann rétt framan við mig. Þið verðið bara að gefa mér smá tíma.

mánudagur, 9. febrúar 2015

Það er margtuggin staðreynd að ekkert er hjálplegra heilsusamlegum lífstil en rútína. Oft heyrir maður sagt (og ég er nokk viss um að hafa skrifað þetta einhverntíman) að það þarf að koma rútinunni þannig fyrir í lífinu að það að reima á sig hlaupskóna sé jafn sjálfsagt og að pissa og bursta tennurnar að morgni til. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér og ég er farin að hallast að öðru. Jú, auðvitað þarf að koma sér upp góðri rútinu en andskotakornið ef ég vil ekki fá meira klapp á bakið fyrir að mæta í ræktina fimm sinnum í viku, sem er mér hreinlega ekki eðlislægt, en fyrir að pissa þegar mér er mál. Að pissa alveg steinliggur fyrir mér. Það þarf ekkert að sannfæra mig um ágæti þess að pissa á morgnana, það gerir sig bara sjálft. Ég þarf ekkert að diskútera við sjálfa mig hvort ég drífi mig á fætur og fari á klóið eða hvort ég mæti kannski bara hlandblaut í vinnuna. Rökræðurnar hinsvegar sem ég þarf að eiga við sjálfa mig á morgnana til að hlunkast niður í VT Bodyweight æfingu eða jóga eru hinsvegar langar og margslungnar. Mér finnst þessvegna að það sé eðlilegra að ég fái meira hrós fyrir að æfa en að hafa stjórn á þvagláti.

Hvatning og hrós eru þannig stór þáttur í að viðhalda velgengisspíralnum. Mér finnast excel skjöl best til þessa fallin. Þannig er hægt að búa til kúrfur og línurit og jafnvel pie charts sem sýna framþróun. Það er hægt að fylgjast með og setja inn í reikningsformúlur. Svona ef byssurnar birtast ekki rétt sí sonna á upphandleggjum. Excel skjöl halda manni við efnið, með dagsetningum og markmiðum sem þarf að standast fyrir ákveðin tíma. Mælanleg og raunhæf markmið halda manni við efnið og koma rútínunni í réttar skorður.

En að taka keppnina úr rútinunni eru alvarleg mistök. Að gera eitthvað jafnstórfenglegt og að mæta í ræktina fimm daga í röð, að hugsa um næringarefni í hvert mál dag eftir dag, að bregðast ekki við tilfinningakreppu með því að raða í sig snikkersi er ekki rútína eins og að pissa og bursta tennur. Það er bara miklu merkilegra en svo og það á að fagna hverjum degi, hverri góðri ákvörðun eins og maður hafi fengið Óskarsverðlaun.

Stórkostlegar allar saman.

fimmtudagur, 5. febrúar 2015

Ég skrifaði langan pistil í gær sem innihélt öll svörin, allt sem þurfti að vita um fitutap, lífstíl og heilsusamlegt líferni og hvernig á að viðhalda því til langs tíma i löngu máli. Ýtti á publish og eitthvað fór úrskeiðis og pistillinn glutraðist norður og niður og öll viskan með. Ekki get ég fyrir mitt litla munað hvaða gullkorn ég hafði sett niður. Alveg hvað ég reyni. Jæja, Maður verður þá víst bara að spila þetta eftir eyranu.

þriðjudagur, 3. febrúar 2015

Og rétt sí svona byrjaði ég í morgun. Tók bodyweight æfingar eldsnemma í morgun og hjólaði svo í og úr vinnu. Það er svo merkilegt að með því að byrja daginn svona tók ég mun meðvitaðri àkvarðanir það sem eftir lifði dags, borðaði "fallega" og af réttum àstæðum. Fór í frískandi göngutúr í hàdeginu og leið vel með allt sem ég gerði í dag. Það er svo skrýtið hvernig ein góð àkvörðun leiðir til annarrar. Ég hef àður tekið eftir þessum velgengisspíral. Það er líka algjör óþarfi að hugsa of langt fram í tímann, làta frekar vellíðunartilfinninguna vera bara allsràðandi akkúrat núna. Ekki hafa àhyggjur strax af því hversu lengi mér tekst að viðhalda þessu. Muna tilfinninguna svo í fyrramàlið og nota til að taka annan snúning í velgengnisspíralnum. Einn snúning í einu.

mánudagur, 2. febrúar 2015

Ég er hætt að hætta. Ég ætla þess í stað að byrja að byrja. Í hvert sinn sem ég fríka út (á mánudögum, um mánaðarmót, áramót og á einstaka miðvikudögum) og ákveð að hætta að éta, hætta að borða sykur, hveiti, kolvetni, hætta að hlussast í sófanum, hætta að vera svona mikill aumingi nú þá fríka ég enn meira út og "síðasta kvöldmáltíðar hugsunin" tekur völdin. Og ég reyni að raða öllu sem tönn á festir í "síðasta sinn".
Það er greinlega bara rugl að hætta. Maður á miklu frekar að byrja. Byrja að hugsa vel um sjálfan sig. Byrja að plana fallega matseðla. Byrja að æfa. Það er miklu jákvæðara hugarfar og líklegra til árangurs.

Ég hef að sjálfsögðu eytt mestum mínum tíma í að velta fyrir mér hvað það er sem fer úrskeiðis. Hvað er það sem aðskilur þau okkur sem fitna bara aftur, alveg sama hversu mikið og skýrt maður var búin að "fatta" þetta allt og þau sem ná að halda spikinu af sér og í alvörunni umfaðma lífstílinn. Ég geri í raun ekki ráð fyrir að finna svarið, en tel engu að síður að bara það að halda hugsuninni lifandi haldi því litla taki sem ég hef þó á sjálfri mér hvað mataræði og hreyfingu varðar. Ég hef stundum ætlað að verða döpur yfir því að hafa glutrað þessu öllu svona úr höndunum á mér en ef ég á að segja rétt frá þá stendur það stutt yfir. Ég uppgötvaði nefnilega eitt um daginn sem hefur hresst mig heilmikið við. Þetta tímabil skildi nefnilega meira eftir sig en venjuleg tímabil þar sem ég fer í gífurlega megrun. Ég í alvörunni breyttist í þetta sinnið.

Ég get ekki hreyft mig á sama hátt út af brjósklosinu en ég verð samt að hreyfa mig, ég verð viðþolslaus ef ég get ekki reynt á mig á einhvern hátt. Líkaminn fær svona óþolstilfinningu. Það eitt heldur voninni við að ég smá saman komi þoli og þrótt aftur, jafnvel þó í breyttri mynd sem tekur tillit til brjóskloss. Þetta er nýtt. Ég man ekki eftir að hafa áður haft óþol eftir neinu nema að fá að vera í frið einhverstaðar með bók og nammi.
Það er líka oft sem ég finn að ég þrái ekkert heitar en hafragraut, eða eggjahvítuommilettu. Og þetta er allt jákvætt.

Ég ætla bara að byrja. Ég er jákvæð að upplagi. Það liggur í augum úti að jákvæða leiðin hlýtur að henta mér betur. Ég er að byrja.