þriðjudagur, 19. mars 2013

Jógúrtsósa - hnetusmjör
Þá er selléríið komið í hús og ég búin að skilgreina hvaðan ótti minn við stöngulinn kemur. Lyktin er sú sama og af hvönn. Og þegar ég finn hvannarlykt ber minning mig tilbaka í útilegu í bernsku þar sem Kalli bróðir reif upp það sem mér finnst hafa verið mannhæðarhá hvönn og lamdi mig með stönglinum svo undan sveið. Svona tengir maður lykt við atburði og þetta var þess valdandi að ég hef hef ekki getað borðað sellerí. En ég er búin að komast yfir þetta og get núna nagað mig í gegnum heilu búntin. Lukkan yfir mér! Hrikalega gott með bbq salsa, best með sólþurrkuðu tómatasósunni. En ljómandi gott með jógurtsósunni líka. Varð fyrir smá vonbrigðum með hnetusmjörið; var búin að ímynda mér annað. Svo er það líka svo smart og fullorðins að borða sellerí. Mér finnst ég hafa þroskast svo í vikunni.

sunnudagur, 17. mars 2013

Þjóðsöngurinn sunginn.
 Það var spenna í loftinu um allt Wales í gær. Það var komið að lokaleik okkar í 6 Nations Rugby keppninni í ár. Og lokaleikurinn hafði allt til að bera sem lokaleikir þurfa að hafa. Andstæðingurinn var England, sem hingað til höfðu unnið alla sína leiki. Ef þeim tækist að vinna okkur þá myndu þeir ekki bara vinna alla keppnina heldur myndu þeir vinna hana með "Grand Slam" þ.e. vinna alla sína leiki. En ef við myndum vinna með átta stiga yfirburðum myndum við vinna alla keppnina. Og það sem mikilvægast var; stöðva sigurgöngu Englendinga. Við höfðum byrjað keppnina illa, hræðilegar fyrstu 20 mínúturnar á móti Írlandi þýddu að þrátt fyrir frábæran seinni hálfleik náðum við ekki að draga á þá og töpuðum 30-22. En síðan þá byrjuðum við að vinna, fyrst Frakkland, svo Skotland og Ítalíu. Og svo var komið að Englandi. Það er erfitt að útskýra hversu heitt Walesverjar þrá að skáka Englendingum. Í rugby er andrúmsloftið allt annað en í fótbolta, áhangendur andstæðra liða sitja saman og það er allt í góðu, en engu að síður, þá er bara eitthvað alveg sérstaklega mikilvægt að sýna gömlu kúgurunum hvert þeir geta stungið yfirburðum sínum. 


Garry og Tracy í velskum peysum
Við fórum til Wrexham til að vera með Tracy og Garry og horfa á leikinn á stórum skjá. Vorum komin á pöbbinn rétt um þrjúleytið. Dave skundaði reyndar á Wrexham v Luton og byrjaði daginn á að fylgjast með leiðinlegum 0-0 fótboltaleik sem dregur heldur úr vonum Wrexham um að komast upp úr deildinni átómatískt.  En á pöbbnum var ægileg spenna sem stigmagnaðist. Bæði menn og konur voru í rauðum velskum rugby peysum og velski fáninn með rauða drekanum blakti hvarvetna. Allir héldu þétt um glösin sín og vonin var áþreifanleg; hvað ef við getum unnið þá? Leikurinn fór fram í Cardiff, á heimavelli sem er óneitanlega betra því það gefur liðinu aukakraft að hafa meirihluta áhorfenda á sínu bandi. Walesverjar eru þekktir fyrir söng og það var óneitanleg gæsahúðin sem hríslaðist um mig þegar Hen Wlad y Nhadau, eða Land of my Fathers ómaði um allt. Liðið allt, áhorfendur í Cardiff og hver einasti maður á pöbbnum stóðu og sungu hástöfum með. Og svo byrjaði leikurinn. Ef handritahöfundur í Hollywood hefði skrifað söguna hefði henni verið hafnað sem ótrúlegri. Frá fyrstu mínútunni voru yfirburðir Wales gríðarlegir. Við gerðum allt rétt á meðan enska liðið gat ekkert gert nema fylgjast með hvernig á að spila rugby. Andrúmsloftið á pöbbnum var ólýsanlegt. Við hvert stig skorað hoppuðum við öllu upp og niður af hamingju. 
Þjóðhetjan Alex Cuthbertson skorar "try"

Og enskir geta ekkert gert en horft á þar sem Wales fagnar.


Þegar við náðum svo að skora "try" (þegar einn leikmaður hleypur með boltann alla leið yfir endalínu) ekki einu sinni heldur tvisvar, varð allt vitlaust. Gleðin yfir að vinna, gleðin yfir að hafa skemmt allt fyrir Englandi, gleðin og stoltið yfir því að vera best var ólýsanleg. Ég veit bara ekki hvort það er hægt að skilja þetta sem Íslendingur, við vonum jú að við vinnum Dani og Svía í handbolta, en þegar við dettum svo úr keppni byrjum við að halda með þeim. Það myndi aldrei gerast hér. "Swing low, sweet chariot" er lagið sem enskir rugby áhangendur syngja og í gærkveldi sungum við Walesverjar "You can stick your chariots up yer arse". 
Brjálað stuð - velski fáninn í bakgrunni. 

Blindfull og kát. 
Svo var tekið á því frameftir kvöldi. Við hlógum og drukkum og borðuðum gúrmet hamborgara. Fórum svo aftur til Johnstown þar sem mig grunar að eitt sambúca skot hafi verið það sem fór alveg með mig. Dave fór þessvegna með mig heim og gaf mér kínverskan takeaway sem lagaði mig alveg. 


Í dag er þjóðin svo að vakna upp, með dálitið rykugan haus, en hamingja enn allsráðandi. Við erum 6 Nations Champions, enn einu sinni. 

þriðjudagur, 12. mars 2013

Við pöntuðum okkur forrétt þegar við fórum út að borða á sunnudaginn. Með forréttinum (kjúklingastrimlar) komu þrír sellerístilkar. Og ég bara get allsekki útskýrt það en stilkarnir voru svo lokkandi og djúsí útlits að áður en ég vissi af var ég búin að grípa einn og taka stóran bita. Ég hata sellerí. Sellerí er grænmeti djöfulsins og hann notar það til að skafa úr eyrunum eftir því sem ég best vissi. En þarna var ég, kjamsandi á stilknum eins og enginn væri morgundagurinn. Og það var gott. Meira en gott.  Ég hef ekki komist í búð síðan en hef um lítið annað hugsað en sellerí. Og um leið og ég kemst í búð ætla ég að ná mér í búnt. Ég er búin að setja upp fyrir sjálfa mig allskonar mismunandi ídýfur; jógúrt og hvítlauks, sólþurrkaðir tómatar og möndlusósu, chili, bbq... möguleikarnir eru endalausir. Mest hlakka ég til að dýfa selleríinu í hnetusmjör. Ég bara finn það á mér að það er epísk blanda áferðar, bragðs og lyktar.

Rosalega er ég þroskuð.

Á meðan að ég bíð eftir selleríinu þarf ég að láta heimatilbúið bounty duga. Ástand er þetta.


sunnudagur, 10. mars 2013

Í dag er mæðradagur í Bretlandi og ég fékk þessvegna knús og fínt kort frá syni mínum. Hann stendur fastur á því að við þurfum líka að fara eitthvað út, en mig grunar reyndar að það verði hálftilgangslaus ferð því hér er löng hefð fyrir að fara með mömmur út að borða á þessum sunnudegi og því ólíklegt að við fáum borð nokkur staðar. Endum sjálfsagt á McDonalds. Sem er kannski líka bara ágætt.

Við mægðin á góðri stund. 
Ég hef allt sem ég þarf hér heima, strákana mína tvo og kaffi vikunnar; Australian Basalt Blue. Sjaldgæft kaffi sem flestir Ástralir vita ekki einu sinni að sé ræktað í Ástralíu. Verðmiðinn aðeins hærri en uppáháldskaffið hingað til, Blue Sumatra, en engu að síður vel viðráðanlegt. Sumir kaffiáhugamenn vilja meina að Australian sé jafn gott og hið margrómaða, rándýra, Jamaica Blue. Sjálfri fannst mér það vera létt með krydduðum ilmi. Miðlungs sýra og vægur hnetukeimur. Vottur af sýrópi. Ljómandi gott morgunkaffi með nýju kókós og trönuberjakökunni minni.


laugardagur, 9. mars 2013

Ég skal viðurkenna að ég hélt aðeins niðri í mér andanum í morgun þegar ég steig á vigtina. Ég veit reyndar ekki alveg afhverju ég var að vigta mig, það er ekki partur af prógramminu. Það hefur eitthvað með excel skjalið mitt að gera. Ég á samviskusamlega skráða vikulega þyngd síðan 2009 og skjalið er orðið eitthvað  meira en bara vitnisburður um það sem ég borða. Ég hélt niðri í mér andanum því það er núna liðinn smá tími síðan ég gerði síðustu uppreisnina og sór að hætta þessu öllu saman. Auðvitað er risastór hluti af mér sem liggur flöt af skelfingu og áhyggjum yfir því hvað áráttuætan myndi gera þegar hún fengi frelsi. Ég hélt að ef mér væri gefinn laus taumurinn myndi ég ekki hætta að éta.

Á hverjum gefnum tíma er sagt að 80 milljón manns séu í megrun eða með einhverjar áætlanir um að breyta lögun sinni. Og billjón króna megrunariðnaðurinn elskar okkur öll og pumpar okkur full af nýjustu kúrunum um leið og þeir hlæjandi taka við peningunum okkar. Að undanförnu hefur það verið lífstíll og hægar breytingar og allt það en að lokum er tilgangurinn alltaf hinn sami; að breyta því sem þú ert núna. Og skilaboðin er þau hin sömu, að við séum óásættanleg eins og við erum.

Og þannig tæklar maður ástandið. Ég segi sjálfri mér að ég sé feit. Og að það sé vegna þess að ég sé veikgeðja, að ég sé ekki jafn dugleg og allt mjóa fólkið. Að það sé eitthvað að mér og að ég verði að breyta því. Og ég fer í megrun og um stund líður mér vel. Ég hef stjórn á sjálfri mér, ég borða minna. Mér er hrósað fyrir sjálfsstjórnina sem ég sýni, mér er hrósað fyrir að hafa vald yfir sjálfri mér. En svo liður tími og það verður erfiðara og erfiðara að fylgja reglunum. Ég hef einhvern tímann sagt að megrunarkúrar virki, það sé fólk sem virkar ekki. En það er líka hægt að horfa á þetta með meiri samúð og kærleika í garð okkar mannfólksins og segja að megrunarkúrar hafi innbyggt bilunarkerfi og að óhjákvæmilega komi fólk til með að gera uppreisn. Að við erum komin svo langt frá náttúrulegu hungur - næra merkjunum eftir áratuga megrunarkúra-ofáts hringsólið að það er ekkert skrýtið að við gerum uppreisn.

Ég er feit. En það er líka ekkert að mér. Ég er ekki veikgeðja eða eitthvað minna dugleg en annað fólk. Ég hef einfaldlega kosið að nota mat sem hækju í gegnum lífið. Og það er fullkomlega skiljanlegt val. Sem ungabarn er manni gefið að borða ef maður grætur og það er auðvelt að sjá samasemmerkið á milli matar og vellíðan. Það er ekkert rangt við að kjósa mat sem hækju. Og ég er ekki slæm manneskja þegar ég kýs að gera það.

Að segja sjálfum sér að maður sé vondur, slæmur, veiklundaður eru vondar tilfinningar og hvað geri ég þegar mér líður illa? Jú, ég fæ mér að borða. Hér liggur sumsé hundurinn grafinn. Ég borða, ég er feit, ég æpi á sjálfa mig fyrir veikleikann, mér líður illa, ég fæ mér að borða. Sjálfsásakanir og harka hafa aldrei leitt til breytinga. Forvitni og gæska leiða til breytinga.

Þegar mér datt í hug 2 kiló planið fannst mér ég vera ægilega sniðug. Og ég lagði enn einu sinni í að reyna að berja sjálfa mig til að breyta lögun minni. En inni mér saup ég hveljur. Ekki einu sinni enn. Ég bara get þetta ekki einu sinni enn. Ekki í eina mínútu. Ég get ekki haldið áfram að hatast við hver ég er, hvernig ég er, hvað ég geri. Ekki meira. Ég bara get það ekki. Og ég gerði uppreisn.

Og ég setti stjórnina aftur í mínar hendur. Ég er síðan þá búin að segja sjálfri mér daglega að ég sé bara ágæt. Ég spyr sjálfa mig hvort ég sé svöng. Ef ég er svöng þá fæ ég mér það sem mig langar í. Stundum er það salat. Stundum er það snickers.

En það er ekki þar með sagt að mig langi til að verða 130 kíló aftur. Mér fannst afskaplega óþægilegt að vera svo feit. Enda er ég alls ekki að mæla með því. En ég er hinsvegar að mæla með því að við slökum öll aðeins á. Að við hættum að segja sjálfum okkur að ef bara (setjið inn að eigin vali) gerist þá verði lífið betra. Að við séum ómöguleg eins og við erum núna. Það er eiginlega bara alveg merkilegt að hugsa til þess að vel gefið fólk allstaðar í heiminum skuli segja að jú það sé erfitt að halda sig við kúrinn, að maður falli af vagninum aftur og aftur. En undantekningalaust segir það svo með vonarglampa í augunum að "einn daginn mun mér takast að halda mér við efnið!"

Af hvaða ástæðum sem það var svo, það er erfitt að breyta vana, þá stóð ég á vigtinni í morgun. Og ég hef lést um hálft kíló. Ég er semsagt ekki brjálæðingur sem er ekki treystandi í nálægð við ísskáp. Ég er fær um að sjá um sjálfa mig.


fimmtudagur, 7. mars 2013

Það er alltaf sama klandrið þetta að reyna að vera örlítið heilsusamlegur. Ég er núna búin að hjóla í og úr vinnu alla þessa viku og ég sé ekki annað en að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera. En. Bölvað vesen þetta með föt og málningu. Ég hef enga aðstöðu í vinnunni til að skipta um föt eða hafa mig til utan bara það sem ég get pukrast með svona inni á klósetti. Þannig að ég þarf helst að fara máluð og í vinnufötunum. Nú er ég búin að sannreyna að það er nánast útilokað því ég get ekki verið í venjulegum buxum, þær flækjast fyrir mér og ef ég krumpa þeim saman ofan í sokkana eru þær krumpaðar þegar ég kem í vinnu. Ég get illa hjólað í kjól, til þess er hjólið ekki nógu dömulegt. Ég er þessvegna búin að vera í leggings við smart peysur og fer svo í háa hæla þegar ég er komin í vinnuna. Ég er bara ekki leggings kona, og finnst ég vera að ýta vinnufatareglunni alveg í ystu mörk með þessu. Hárið er náttúrulega bara alveg út úr kú. Til að vera með hjálminn get ég eiginlega bara verið með lágt tagl eða fléttu. Toppurinn klessist allur niður og ég er alveg í vandræðum með mig allan daginn. Málningin hefur verið ókei svona þangað til í morgun. Það rigndi aðeins á leiðinni og það var svo þar sem ég sat í lestinni salíróleg að ég tók eftir spegilmynd minni í glugganum sem sýndi að ég var með maskarann lekinn niður á höku. Sérlega smart. 

Ég er allt of hégómagjörn til að vera tilbúin til að hætta að mála mig. Ég get sætt mig við að vera með hárið bara í snyrtilegu tagli, en fötin eru smá vandamál. Ég hef verið að prófa að fara í hjólagalla og skipta svo inni á  klósetti. Það er sjálfsagt það sem ég þarf að venjast á að gera en mér finnst það ekki skemmtilegt. Það er reyndar gott að hafa hjólagallann með til að fara í á heimleiðinni því hún er öll upp á mót og ég verð vel rauð í framan við áreynsluna. En mér fínnst erfitt að byrja vinnudaginn á að hlaupa inn á klósett og rífa mig úr og í, allt á fimm mínútum. 

En samt. Það er skemmtilegra að hjóla en það er leiðinlegt að vera asnalega klædd. 

sunnudagur, 3. mars 2013

Gutter Hill stendur enn alveg jafn tignarleg og mikilfengleg og hún var áður. Hún rís frá jafnsléttu í Johnstown og svo í góðum, jöfnum halla í rúma 1.2 kílómetra með ekki einum einasta slétta parti alla leið til Rhos. Og verður meira og meira aflíðandi eftir því sem lengra er komið. Ég fór út rétt eftir átta í morgun og tók langan hring þannig að mér til varnar var ég búin að fara rúma 20 kílómetra þegar að brekkunni kom. Og ég gafst upp rétt um hálfa leið. Djöfullinn sjálfur. En, engu að síður, gott að hafa svona andstæðing til að halda sér við efnið. Ég mun sigra!

Mér líður afskaplega vel núna. Það er alveg merkilegt hvað andleg vellíðan smitar út frá sér í hugmyndir manns um hvernig maður lítur út og hvernig aðrir sjá mann. Þegar mér líður vel finnst mér ég líta vel út. Þegar ég fór að spá í það þá var alveg útilokað að ganga um líðandi eins og ég væri að drukkna í spiki þegar mér hafði ekki liðið þannig þegar ég var 10 kílóum þyngri. Ég stoppaði þessvegna og átti örlítið samtal við sjálfa mig um það sem er mikilvægt í lífinu og það sem er aukaatriði. Að vera mjór er aukaatriði. Annars væru allir sem eru mjóir hamingjusamir. Og því miður þá er nú víst ekki svo.

Ég er núna á fullu að reyna að finna út hvað virkar fyrir mig. Reyna að finna þegar ég er svöng og skilja muninn á þvi að vera södd og að fá nóg. Ég á það voða mikið til að hella mér út í að troða í mig í hugsunarleysi af því að ég má núna borða allt sem mér dettur í hug. En ég er líka á sama tíma að minna mig á að það að borða hvað sem er er ekki endilega það besta fyrir mig. Ég hef að leiðarljósi að mér eigi að líða betur þegar ég er búin að borða en þegar ég byrjaði. Það er eiginlega ótrúlegt hvað ég stend sjálfa mig oft að því að líða verr eftir að ég borða. Þetta er afskaplega einföld hugmynd en áhrifarík.

Það er enn voðalega skrýtið að lifa án reglanna. Ég er búin að lifa eftir þeim svo árum skiptir og ég er hrædd og týnd án þeirra. En ég er líka algerlega með á hreinu að það er innbyggt bilunarkerfi í reglunum sem gerir það að verkum að að lokum virka þær ekki út af því að ég geri uppreisn gegn þeim. Þetta, að treysta á sjálfa mig, á eftir að vera betra fyrir mig að lokum.

föstudagur, 1. mars 2013

Fiets bergopwarts.
Það er nú svo komið að veðrið er orðið skaplegt hér í Wales. Enda tími til kominn, í dag höldum við upp á dag heilags David sem er dagur okkar Veilsverja og því gott að miða við vorkomu svona um þetta leyti. Og í skaplegu veðri er gott að hjóla. (Það er reyndar rosa gaman að hjóla í rigningu líka en það er önnur saga) Og gaman er það líka. Ég er núna orðin nokkuð viss um mig á hjólinu og er búin að hjóla í vinnuna þessa vikuna. Ég er enn að venjast því hvað mér finnst skemmtilegt að hjóla, og kúl líka. Ég er svona smávegis eins og ég var með vöðvahnyklingu, ég á það til að skransa og gera trix. "Awkward" eins og sonur minn myndi segja.

Það eru fimm inngönguleiðir inn í Rhos, þorpið mitt. Og allar þessar fimm inngönguleiðir eru upp á við. Mismunandi mikið upp á við en upp á við engu að síður. Ég er búin að vera að æfa mig síðan rétt eftir jól að hjóla upp á við svo ég komist heim aftur. Það er nefnilega ekkert mál að þruma að heiman, ég rýk um á þyngdaraflinu einu saman, allt niðrávið svo það hreinlega hvín í mér. En að komast heim hefur verið þrautinni þyngri. Ég byrjaði á bakleiðinni. Þar er bara ein stutt en snögg brekka og svo ein aðeins lengri en meira aflíðandi. Og ég var komin með hana alveg á hreint. Og svo tæklaði ég þá næstu. Þrjár snöggar brekkur, en mjög snarpar og það var ekki fyrr en ég lærði aðeins betur á gírana að mér tókst að komast alla leið heim án þess að stíga af. Og þegar maður hefur sigrast á einni brekku byrja þær allar að falla, ein af annarri. Um helgina fór ég upp þá þriðju og í kvöld þrusaði ég upp Stryt Las. Þá stendur bara Gutter Hill eftir ósigruð. Síðasta brekkan. Sú verður tekin um helgina. Tekin og jöfnuð við jörðu.