sunnudagur, 22. nóvember 2015

Af sléttu vatni

Fyrir nokkru gerðum við Dave samkomulag sem kvað á um að það okkar sem fyrst urði undir hundrað kílóum fengi í verðlaun hundrað pund frá hinu. Ég var 101.5 í gærmorgun, eitt kíló í viðbót farið þessa vikuna. Enn var það með afskaplega litlu erfiði. Ég borðaði spaghetti squash lasagna, túnfisksalat á hvítu brauði, gríska kjúklingasúpu, Daim, linsubaunakássu,M&M, haframúffur, skyr með rjóma, harðfisk og bökuð epli með vanilluís. Nei, þetta er ekki erfitt. Og enn engin þrá eftir "binge". Málið er að þegar ég gerði veðmálið við Dave fannst mér þetta svo fjarlægur möguleiki að ég þóttist bara taka þátt. En núna? Eitt og hálft kíló? Tvær eða þrjár vikur í að halda mínu striki áfram, ekkert mál. Ég var líka búin að setja niður markmið um að ná undir hundrað 19. desember, aftur eitthvað sem eg hélt að væri útilokað. En það markmið sé ég ekki betur en að mér takist að ná. Það er alveg hrikalega skemmtilegt að ná markmiðum. 

Svona eins og nú um helgina þegar nokkrir langþráðir draumar rættust. Við rifum niður fataskápana í svefnherberginu og hentum allskonar drasli sem er búið að safnast upp í áraraðir. Fylltum heilan ruslagám. Svo fengum við nýja skápa sem verða settir upp eftir tvær vikur. Ég notaði svo tækifærið og hreinsaði út úr öllum skápum og hirslum þannig að húsið er laust við allt óþarfa drasl. Að lokum bókaði ég svo hreingerningarfyrirtæki til að koma eftir að skáparnir eru komnir upp til að djúphreinsa húsið. Taka bara allt í gegn, allt þetta sem ég hef bara ekki tíma til að gera til að viðhalda hreingerningarstandardinum mínum. Þeir koma svo einu sinni í viku og viðhalda. Ég hef aldrei tíma til að taka til, ekki almennilega, þar sem maður ryksugar gólflista og strýkur af eldhússkápum og skrúbbar glerið í sturtunni og allt þetta. Fyrir utan að ég er bara léleg húsmóðir. Léleg og löðurmannleg. En með þessu hef ég tíma til að elda og spila á gítarinn og vera með fjölskyldunni og legg mitt fram til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. 

Þegar allt draslið var komið út í gám og allt hitt arranserað og tilbúið leið mér eins og allt í heiminum væri á sínum stað. Hugurinn fullkomlega sléttur og jafn, eins og lyngt vatn á sumarmorgni. Ótrúleg tilfinning sem ég stoppaði við hjá til að muna og setja í tilfinningabankann minn. Þannig get ég dregið á þessa tilfinningu þegar öldur gárast eða þegar pusar á mann. 


miðvikudagur, 18. nóvember 2015

Af neyslubrjálæði

Ég rakst um daginn á hugtakið orthorexia nervosa. Þrátt fyrir að vera ekki enn viðurkennd greining í  sálfræðinni þá er þetta sífellt að verða algengara hugtak. Orthorexia er þegar maður er haldin ofsahræðslu við að borða óhollan mat. Og með þessa ofgnótt af upplýsingum sem eru svo líka ruglandi og þverstæðar er kannski ekki skrýtið að fólk þjáist af þessu. Bætið svo ofan á að það verður að skeina sig reglulega á chiafrælegnum grænkálsblöðum til að haldast í heilsutískunni og þetta er bara búið spil. Þetta er að sjálfsögðu á engan hátt jafn hættulegt og að vera með anorexiu eða bulimiu, enda getur líkamlega lítið verið að því að borða bara hollan mat. En það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir sálina að vera stanslaust með hland fyrir hjartanu ef einhver minnist á Macdónalds, fyrir utan að ég ímynda mér að svoleiðis fólk sé voðalega leiðinlegt að spjalla við. 
Það er ekkert að því að borða hollan mat, ég myndi heilshugar mæla með því. En það er hinsvegar voðalega furðulegt að fylgja tískusveiflum þegar kemur að hollustu. Þannig finnst mér alltaf furðulegt þegar eitthvað er flokkað sem súperfæða. Það hlýtur að vera súper að borða hvaða grænmeti sem er? Þannig er grænkál komið í guðatölu að undanförnu. Jú, það er rosalega hollt og sneisafulllt af trefjum og A vítamíni. En broccolí er sneisafullt af trefjum og hefur meira c vítamín en appelsínur og enginn röflar um nýjustu broccólí uppskriftina. 
Svo er líka annað sem sjaldan er minnst á þegar kemur að hollustu og það er umhverfis-og efnahagsáhrifin sem fylgja. Möndlumjólk er orðin eðlileg skipti fyrir kúamjólk, sem eins og allir vita kemur frá djöflinum sjálfum. Möndlur er nánast einungis ræktaðar í Kaliforníu. Þar er lítið vatn, en möndlur þurfa einmitt gífurlegt vatnsmagn til að þrífast. Umhverfisáhrifin sem nú eru að sjást vegna ofnýtngu á vatnsveitu í Kaliforniu ættu að láta mann hugsa sig um tvisvar áður en maður skiptir út kúnni. Þannig er líka orðið að engin heilsusamleg manneskja myndi láta grípa sig án þess að geta stunið upp að minnsta kost fimm mismunandi leiðum til að nota súperkornið kínóa. Sala á því hefur nífaldast á síðustu fimm árum og verðið á tonninu hefur margfaldast. Svo mikið reyndar að innfæddir í Bólivíu og Perú sem hafa notað kínóa sem undirstöðu í sinni fæðu í árþúsundir hafa núna ekki efni á að kaupa kornið. Það er miklu betra fyrir bændur að selja það allt til feitra í vestrinu og flytja svo inn ómeti frá ammríku til eigin neyslu. Og allir tapa. Sama staðan hlýtur að bíða súperkornsins teff. Það má vera að það sé ókunnugt núna en bíðið í smástund og það á eftir að taka yfir kínóað. Teff er fullkomið korn, inniheldur fullkomið prótein, er náttúrulega glútenlaust og sneisafullt af góðum fitusýrum og andoxunarefnum. Það er líka varan sem myndar 90% af hitaeiningainntöku Eþíópíubúa, þar sem það er ræktað. Eþíópía hefur sett útflutningsbann á það sem stendur en það er sjálfsagt bara tímaspursmál hvenær banninu verður lyft til að fullnægja heilsuþrá okkar vestræna fólksins. Teff hlýtur jú að vera ekki bara súper, heldur megafæði; ekki sér maður feita Eþíópíubúa?!
Teff er glúteinlaust sem gerir það enn eftirsóknarverðara nú orðið. Sem er líka skrýtið því einungis 1% af heiminum er með glútenóþol. Það stöðvar engu að síður ekki 60% neytenda hér í Bretlandi að kaupa matvöru sem er sérmerkt sem glútenlaus. Meira að segja matur sem aldrei hafði glúten, eins og til dæmis súkkulaði er núna markaðsett sem glútenlaust. Fólk sem er ekki með glútenóþol en neytir engu að síður bara glútenlausrar fæðu þyngist að jafnaði um þrjú kíló yfir þá sem fylgja venjulegu fæði. Þetta skapast bæði af sálrænum áhrifum sem segir manni að maður sé "deprived" og eigi þá meira magn af öðru "skilið" og svo þeim óhjákvæmilega fylgifiski að glúteinlaust þýðir alls ekki hitaeininga, sykur og fitulaust og fólk gleymir að fylgjast með magninu. Glútenlaust? Glórulaust segi ég. Ef þú er með útþaninn maga eftir að borða pizzu er mun líklegra að það sé einfaldlega of mikið að sporðrenna öllum 12 tommunum fremur en að um glútenóþol sé að ræða. 
Hvernig væri nú að við hættum að láta markaðsetningar og blint neysluæði ráða för þegar kemur að ákvörðunum hvað matvöru varðar en fylgdum frekar því sem er í alvörunni gott fyrir okkur og umhverfið; meðalhóf.

sunnudagur, 15. nóvember 2015

Af meðalhófi

Það virðist hafa virkað peppræðan sem ég hélt yfir sjálfri mér um síðustu helgi, peppræðan og svo kannski líka að ég er að gera þetta allt núna í slagtogi með öðrum. Ég og ný vinkona hittumst á netinu og höldum hvorri annari við verkið. Við settum niður markmið og mitt fyrsta var á dagsetningu í gær. Ég hafði einsett mér að vera 103 kíló 14. nóvember og tókst það, var 102.5 og þarmeð 1.2 kíló í viðbót farin. Ég er ósköp glöð yfir þessu öllu saman, mest hvað ég var sniðug að taka rétt á málunum um síðustu helgi þegar ég léttist ekkert. Í stað þess að troða í mig í reiði og vonbrigðum hélt ég bara mínu striki og það gaf af sér núna. Núna á ég inni lúxus klippingu í verðlaun og get glöð unnið að næsta markmiði; 99.9 19.desember.

Og til að ná því markmiði er tilvalið að hafa gaman. Ég hafði fundið "spaghetti squash" í Waitrose á föstudaginn, eitthvað sem ég var búin að sjá í uppskriftum frá ameríku í langan tíma en aldrei fundið hér í Bretlandi. Þetta er grasker, svipað butternutsquash, nema að involsið er í löngum ræmum sem minnir á spaghetti. Og  þó auðvitað komi svo sem ekkert í staðinn fyrir alvöru spaghetti þá er ekkert að því að prófa nýtt, hafa gaman í eldhúsinu og spara sér hundruði hitaeininga. Graskerið er nánast bara trefjar og því fyllandi, meinhollt, hitaeiningasnautt og hjálpar til við meltinguna. Ég skar í tvennt, hreinsaði fræjin, saltaði aðeins og bakaði svo þartil mjúkt. Svo graflar maður innvolsið út og það kemur í löngum strimlum, tilbúið til notkunar. Frábært. 
 
Ég get samt enn ekki vel skilgreint hvað er að gerast. Ég segi að ég setji mér markmið og vinni að þeim en ef ég segi satt frá þá stend ég sjaldnast við innri markmiðin sem eiga að stuðla að stærri markmiðunum. Þannig segist ég alltaf ætla að gera magaæfingar þrisvar í viku. Þetta er eg búin að sega í sex vikur en hef enn ekki gert. Venjulega segir poppsálfræðin manni að það að setja og standa við míní markmið sé lausnin að því að ná stærri markmiðunum. En það virðist ekki skipta mig neinu máli. Ég tel hitaeiningar, og geri það af hreinskilni, ekkert þetta "hitaeiningar sem maður borðar standandi, eða í felum eða á sunnudögum telja ekki" kjaftæði. Nei, allt skráð og skjalfest. Sænsku kjötbollurnar og daimkakan sem ég borðaði í ikea á sunnudaginn, baguette úr hvítu hveiti og eplabakn sem ég gerði í gær. Allt talið og þegar 1800 hitaeiningum er náð er ég búin. Einfalt ekki satt? Hvern hefði grunað að það að borða aðeins minna virki til að grennast? Að það þurfi ekki að forðast öll kolvetni, skera út allan sykur, sleppa glúteni og raða einungis í sig kínóa, chia og goji berjum? Ég er bara orðin sannfærð um að allur öfgaskapur er af hinu vonda, alveg sama hvert maður horfir þá á bara að gæta meðalhófs. 
Svo er líka nauðsynlegt að kitla bragðlaukana eins og með þessari eplaböku sem ég bauð í eftirrétt í gær. Epli flysjað og skorið í helming og svo fínskorið þvert eins og Hasselbäck kartöflur. Burstað með bræddu smjöri, kanil og sukrin púðursykri. Bakað í korter. Mylja svo saman 3 mtsk höfrum, mtsk sukrin og 20 g af frosnu smjöri. Ná í eðlið, mylja hafrablönduna yfir og baka í aðrar 15 mínútur. Bera svo fram með slettu af rjóma og frosnum jógúrtís. Hitaeingar rétt um 200 sem er gott fyrir eftirrétt sem er svo fullnægjandi að ég gleymdi að borða daimið mitt! 

þriðjudagur, 10. nóvember 2015

Ristað blómkál

Nett Mið-austrlandastemning með harissa og preserved sítrónum í bökuðu blómkáli.
Ljós ólívuolía eða rapeseed olía
Kanill
Kúmin
Harissa krydd 
Hvítlauksgeiri maukaður
Blómkál niðurskorið
Þekja blómkálið í olíukryddblöndu og baka í ofni þartil gullið. Svona hálftíma í 200 gráðum eða svo.
Blanda saman kjúklingabaunum, rauðri papriku, harissa paste og preserved lemon. Setja með blómkálinu og baka þartil brakandi fallegt.
Svo setja yfir spínat eða salat og nokkrar rúsínur eða pomegranate og jafnvel húmmús og borða af bestu lyst. Voðalega gott.

laugardagur, 7. nóvember 2015

Af fenginni reynslu

Laugardagurinn var svona smávegis reynslupróf. Ég vissi á föstudagskvöld að ég myndi ekki léttast neitt, ég bara þekki líkama minn og fann að vikan hafði ekki skilað af sér neinum breytingum. Ég velti þessu aðeins fyrir mér áður en ég fór á vigtina því ég veit líka hvernig ég hef brugðist við áður þegar vigtin hefur ekki sýnt það sem ég vonaðist eftir. Ég minnti sjálfa mig á að svona er þetta bara, sumar vikur bregst líkaminn vísundunum, jah eða þá að vísindin bregðist líkamanum og útreiknaður hitaeiningamissir skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að fórna ekki höndum og segja að ekkert virki og éta á sig gat. Ég þurfti sérstaklega að minna mig á þetta af því að það var sko ærið tækifæri til að sleppa sér. Lúkas minn varð 12 ára og bauð vinum í pizzu-og kökuveislu á föstudagskvöldið og svo var hann búinn að biðja um að fara með frænda sinn í keilu og á McDónas á laugardeginum. Ég var því með pizzu og köku og McFlurry allt við fingurgómana. 
Og það var eins og ég vissi, ég var enn 103.7. Ég fór yfir í huganum hvað ég hafði gert í vikunni. Eg hélt mig innan marka alla vikuna, hjólaði rúma 90 km og labbaði smávegis. Ég hafði reyndar eytt hitaeiningunum mínum í brauð og smá kex og örlítið af súkkulaði. Og þó ég sé 100% sannfærð um að allt þetta eigi rétt á sér í mataræði í fullu jafnvægi þá er ég líka viss um að það fari mér betur að huga betur að næringarefnunum. Epli með smá hnetusmjöri hefur sömu hitaeingarnar og tvær litlar kexkökur en veitir svo miklu lengri fyllingu og vellíðan í sál og líkama. Ég yppti því öxlum, gerði gróft plan í huganum fyrir matseðil í næst viku sem hallar aðeins meira að hollustu og ákvað að meira þyrfti ég ekki að velta þessu fyrir mér.
Og með það fékk ég mér litla sneið af afmælisköku, taldi hitaeiningarnar og hélt svo mína leið.

sunnudagur, 1. nóvember 2015

Frelsið er yndislegt

Enn léttist ég, aftur um 700 grömm. Ég flökti á milli þess að reyna að skilgreina hvað er að gerast og að vilja ekki hrófla við neinu svona ef það þýðir að ég klúðri öllu. Mér líður bara rosalega vel. Ræð algerlega við allt og það án þess að þurfa að nota viljastyrk á neinn hátt. Í fyrsta skiptiná ævinni líður mér ekkineins og fíkli. Ég fékk mér 9 malteserskúlur á föstudagseftirmiðdaginn. 9 súkkulaðimaltesers. Klukkan hálfþrjú. Sat svo róleg og beið eftir fallinu. Þar sem ég myndi ekki bara graðga í mig afgangnum af pokanum heldur fara og kaupa meira nammi. Þar sem ég myndi hugsa með mér "fokk it, skiptir ekki máli núna, hvort eð er fallin, best að naga mig núna í gegnum Cadbury verksmiðjuna". Þar sem ég myndi finna fyrir þessum líkamlega sársauka sem fylgir því að neyða sig til að hætta. 
En dagurinn leið og ég fór heim með fullan poka af nammi handa hrekkjavökugestum og spáði hreinlega ekki frekar í malteserspokanum, né öðru. Eldaði geðveikislega góða villibráðarborgara í kvöldmatinn og fékk mér ekkert sætt á eftir. Sat bara salíróleg og spjallaði við strákana mína og lék við kettlinginn og spilaði á gítarinn. Spáði ekki einu sinni í þessu.
Og vil helst bara ekki spá. Er mest að hugsa um að reyna bara að vera. Að njóta frelsisins. Það er nefninlega yndislegt.