mánudagur, 29. september 2014

Ég eyddi sunnudagskvöldinu í að útrýma uppvakningum. Ekki í neinum metaforískum skilningi, ég er ekki að tala um einhverja andlega spikuppvakninga, heldur er ég að tala um "Zombie Experience", þriggja klukkutíma þátttöku leikhús þar sem ég og nokkrar aðrar hlupum um ganga í yfirgefnum spítala og munaðarleysingjahæli með loftbyssur að drepa uppvakninga í leit að lækningu við uppvakningavírusnum.

Við vorum að gæsa Heather, vinkonu mína úr vinnunni. Og ákváðum að gera eitthvað öðruvísi sem við vissum að hryllingsmyndabrjálæðingurinn í henni myndi fíla í botn. Þetta var alveg hrikalega skemmtilegt en líka mjög erfitt líkamlega. Spítalinn var allur í niðurníðslu og niðamyrkur. Og í þrjá klukkutíma hljóp ég upp og niður stiga, barðist við uppvakninga, skaut þá niður hægri vinstri og leysti vísbendingar til að finna lækningu við vírusnum. Vinstri löpp rétt hékk á mjöðm við leikslok og hné algerlega núin niður. Ég er í svo lélegri þjálfun. Var algerlega viss um að ég myndi vera ógöngufær í dag en þegar ég vaknaði var ég alveg hress í löpp og mjöðm. Er núna þessvegna orðin nokkuð sannfærð að þetta er sársauki sem ég þarf bara að vinna í gegnum. Þetta er öðruvisi en ónýtu hnén mín. Þau þarf ég að hlusta á og vinna í kringum. En þessi sársauki er ég alveg viss um að ég þurfi að þrýsta á og vinna með þartil ég er aftur orðin hraust. Uppvakningastemmarinn minnti mig líka á hversvegna ég vil aftur verða hraust. Það er alger óþarfi að kvelja sjálfan sig við sveittar æfingar þar sem maður hangir á að telja hverja brennda kalóríu, enda er margsannað að brenndar hitaeiningar er ekki langvarandi hvatning til að gera hreyfingu að lífstíl. En að vera aktívur og hraustur og tilbúin að takast á við uppvakningana þegar heimsendir kemur, það er sko aldeilis hvatning.

mánudagur, 22. september 2014

Mér hefur alltaf þótt voðalega kjánalegt að tala um að éta tilfinningar sínar. Það hljómar eitthvað svo hrikalega fitubollutekekkiábyrgðáeiginathöfnumlegt. Og eins oft og ég tala um það sjálf þá verð ég að viðurkenna að innst inni þá finnst mér ég bara alls ekki falla í þennan hóp fólks sem nagar sig í gegnum einhvern innri sársauka. Mér finnst matur bara alveg rosalega góður, segi ég við sjálfa mig. Ég borða bara mat sem er ávanabindandi segi ég við sjálfa mig. Ég held líka eftir áralangar rannsóknir á sjálfri mér að ég sé ekki haldin neinum skilgreinanlegum átröskunum. Ég er ekki klassískur "binge" sjúklingur í læknisfræðilegum skilningi. Á mörkunum vissulega, en ekki alveg komin þangað. Það er þessvegna alltaf svakaleg uppgötvun fyrir mig þegar ég reyni að stoppa sjálfa mig af þegar ég er orðin södd. Ég þarf að tala lengi við sjálfa mig til að minna mig á að ég geti fengið hvað sem er, hvenær sem er og að það sé engin ástæða til að éta þartil ég finn hvort eð er ekki bragð lengur. En það skilur líka eftir spurninguna hversvegna held ég áfram að borða fram yfir seddu ef ég er ekki að reyna að fylla upp í eitthvað annað sem vantar upp á. Málið er nefnilega að í hvert sinn sem maður borðar um fram það sem líkami manns þarfnast (í mælanlegu magni, ég er ekki að tala um eina og eina kökusneið eða eftirrétt við tilefni) er maður að borða af tilfinningalegum ástæðum.

Ég verð að viðurkenna að ég er stanslaust að reyna að passa að ég fái nóg áður en maturinn verður tekinn frá mér. Ég er orðin svo vön heftingunni að ég hef enga stjórn lengur á mér. Og það er það sem megrunarkúrar gera manni. Þeir hefta og hamla þar til síðast arða af einhverri sjálfsþekkingu á hvenær líkaminn er búinn að fá nóg er tekinn af manni.

Það getur nefnilega bara ekki verið að mér finnist matur bara svona rosalega góður. Ég nýt matar miklu meira þegar ég er svöng. Þá finn ég bragð, áferð og tilgang. En þegar ég borða framfyrir seddu þá hætti ég að finna bragð og að lokum er ég búin að borða þar til mér er í alvörunni illt.  Þetta er ekki að elska mat, þetta er að misnota mat. Misnotkun getur ekki verið ást.

fimmtudagur, 18. september 2014

Til að öðlast frelsi frá þráhyggju um mat, mælingar, kíló, spik, æfingar, sjálfshatri, sjálfsásökunum og öllu því sem fylgir óeðlilegu sambandi við mat þarf maður að gefa alla von upp á bátinn.

Það er útilokað að öðlast frelsi á meðan nokkur minnsta vonarglæta bærist með manni um að það sé einhver kúr þarna úti, einhver skammtímalausn, einhver lífstílsbreyting, hvað sem er sem viðheldur fasta-ofát-eftirsjá vítahringnum. Í hvert sinn sem lítil hugsunararða læðist að manni sem hvíslar að ef "ég sleppi kolvetnum í dag" eða "passa hitaeiningarnar" eða "æfi stífar til að léttast" þá verður maður að byrja upp á nýtt. Og verða almennilega reið. Algerlega trítilóð af vonsku yfir lygunum sem manni hefur verið talið trú um. Að maður sé viljalaus, að maður sé ekki nógu dugleg til að "halda kúrinn út". Og algerlega brjáluð af vonsku yfir lygunum að það sé töfralausn í næstu tímaritagrein eða handan næsta horns. "Frænka mín keypti sér hjól og léttist um 70 kíló! Bara rétt sí sonna!" Og maður rýkur út að kaupa hjól. Og grætur svo söltum tárum ofan í snakkpokann sinn þegar það virkar ekki fyrir mann og í enn eitt skiptið er maður lúser sem verður alltaf feitur.

Já, maður má sko bara alveg verða reiður. Yfir öllum lygunum sem maður kaupir og lætur blekkjast af og gera ekkert nema hakka sjálfsálitið niður í réttu hlutfalli við hækkandi kílóatöluna á vigtinni.

Nei, gefðu alla von upp á bátinn. Það er enginn kúr þarna úti sem virkar. Það sem þarf er algert frelsi frá þráhyggjunni. Það þarf að rétta upp hvíta fánann og semja um frið við mat. Matur er ekki óvinurinn.

Hlustaðu á hvað líkaminn er að segjar þér. Byggðu upp traust á ný. Og finndu út hvað þú ert að reyna að fylla upp með ofáti. Hvað er spikið að reyna að segja þér?

miðvikudagur, 17. september 2014

Hvað er þetta þá eiginlega? Hvað er það sem gerir það að verkum að meira segja núna, eftir að hafa "fattað þetta alltsaman", og að miklu leyti til tekið á bæði hegðun og hugsanaferli, er ég aftur komin í uppreisn? Uppreisn gegn reglunum sem áttu ekki að vera reglur, uppreisn gegn rútínunni, uppreisn gegn hömlum og höftum sem ég hef sett á sjálfa mig?

Ég verð að segja að það hlýtur bara að vera að þrátt fyrir yfirlýsingar um að skilja, vita og sjá þá var að lokum lítill munur á "lífstílsbreytingum" og "megrunarkúr". Og ég er komin að niðurstöðu. Vandamálið er ekki að vera of feitur, það er einfaldlega einkenni á raunverulega vandamálinu. Og í hvert sinn sem maður reynir að taka á því, laga það sem maður telur að sé vandamálið, reynir að losa sig við aukakílóin, þá er maður bara að lagfæra einkenni alvöru vandamálsins. Það sem þarf að taka á er ofát. Ég veit að þetta hljómar skringilega en þetta bara sannleikurinn. Með því að einblína bara á vigtina er hægt að grennast og léttast. Um tíma. En fyrr en síðar þá þverr viljastyrkurinn og allt það sem maður hefur neitað sér um verður einfaldlega of mikið og ofátið tekur aftur við og af meiri krafti en áður.

Það er meira en að segja það að veita sjálfri sér leyfi til að borða eftir að hafa stundað megrunarkúra og þvingun í 30 ár. Sérstaklega þegar ofát er vandamálið. Ég get ekki hætt að borða. En þegar ég hugsa um það þá finnst mér það liggja í augum uppi að ég get ekki hætt að borða vegna þess að ég er annaðhvort að reyna að troða í mig eins miklu og ég get í undirbúning fyrir hungursneyð, eða þá að ég er að troða í mig eins miklu og ég get eftir að hafa sprungið á limminu eftir hungursneyð. Hvað ef ég leyfi sjálfri mér bara að borða það sem mig langar í? Ef ég veit að ég get fengið snickers hvenær sem mér dettur í hug hættir mig þá að langa í það?

Hvernig væri að láta á það reyna?

sunnudagur, 14. september 2014

Eftir nokkrar ferðir til læknis er orðið nokkuð öruggt að ég er með brjósklos. Næsta ferð verður í myndatöku til að skera algerlega úr um það. Þangað til þarf ég víst bara að reyna að komast í gegnum daginn eins og ég er. Ég get ekki staðið, á mjög erfitt með að ganga,líður illa þegar ég sit og fæ verki þegar ég ligg. Ég er eiginlega bara ómöguleg. Ég er ekki með neina bakverki, sársaukinn er allur í vinstri fæti, frá rass niður í tær.

Nokkuð ýtarlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að pilates eru sjálfsagt einu æfingarnar sem ég get stundað akkúrat núna. Það er að sjálfsögðu sérstaklega mikilvægt að ég hafi líka góð tök á heilbrigðum og fallegum mat í réttu magni. Það síðasta sem brjósklos þarf á að halda er að veltast um með aukakíló.

Ég er aðeins að berjast við það núna, það er kvalafullt að standa við að elda eins og stendur. Ég byrja að kjökra við það og er eiginlega búin að gefast upp á að standa mikla pligt í eldhúsinu. Það er auðveldara og sársaukaminna að rista bara brauð eða láta Dave hlaupa út í chippie.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar að mér skilst að fólk venjist bara sársaukanum þartil það byrjar bara að lifa með honum. Það er flott. Um leið og það gerist byrja ég að raða út hempolíubornum hnetusteikum á spínatbeðum hægri vinstri. Ekkert mál.

laugardagur, 6. september 2014

Það er orðinn vani hér hjá mér að eyða flestum laugardagseftirmiðdögum annaðhvort á The Racecource, sem er heimavöllur Wrexham FC, eða hlustandi á Radio Wales til að heyra lýsingu á leik. Það átti þessvegna að vera heldur betur öðruvísi skemmtun í dag að skella mér til Cheshire að horfa á Póló leik. Samstarfskona mín bauð mér með í kampavíns-og gúrkusamlokupartý og á póló. Þetta hefði að sjálfsögðu verið hin besta skemmtun, kampavín og nasl, Pretty Woman móment þegar maður fær að hlaupa út á völlinn til að laga grasið, skemmtilegur félagskapur og síðast en ekki síst brandarinn við öfgabreyturnar; utandeildarfótbolti í verkamannaborg í Norður-Wales vs Póló leikur meðal milljónamæringa og aristókrata í Cheshire. Ég er líka harðákveðin í að segja já takk við öllum svona nýjum reynslum, ég á það allt of mikið að vera feimin og hrædd (eða löt og heimakær) og láta allt of mikið fram hjá mér fara. Það er gífurlega mikilvægt að fara út fyrir þæginda rammann nokkuð reglulega.

En þess í stað sit/stend/hoppa/ligg ég hér heima, aðframkomin af kvölum í vinstri löpp. Ég er búin að þjást núna í rúmar þrjár vikur, fór til læknis sem sagði mér lítið, gaf mér bara bólgueyðandi og sagði mér að koma aftur ef þetta versnaði. Það er nú svo komið að ég get ekki verið í neinni einni stellingu samfleytt í meira en þrjár mínútur og fóturinn er allur orðin dofinn þannig að ég finn ekki fyrir jörðinni þegar ég geng. Er eins og köttur í sokkum.

Þetta er sjálfsagt bara klemmd taug en ég er bestía og með sérlega lágan sársaukastuðul og kröftugt ímyndunarafl og er núna hrínandi eins og svín og sannfærð um að ég sé með blóðtappa.

Þetta er langt út fyrir þægindaramma en alls ekki á þann hátt sem ég meinti.


þriðjudagur, 2. september 2014

Það var dálitið merkileg uppgötvun þegar það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei haft ákvörðunarrétt yfir því sem ég borða. Ég er að verða fertug og ég hef aldrei haft sjálfsákvörðunarrétt yfir því sem ég læt ofan í mig. Sko, það er nefnilega þannig að þegar maður er í megrun þá er þessi ákvörðunarréttur tekinn úr höndunum á manni. Við það að fara í megrun er maður að segja að maður hafi ekki vilja, vald eða vit á að borða til að næra líkamann. Þegar maður fer í megrunarkúr er maður að lýsa því yfir að maður hafi ekki rétt á að stjórna sér sjálfur en lætur þess í stað völdin í hendurnar á hverjum þeim reglugerðum sem megrunarkúrinn er byggður á.

Reglurnar fóru svo að lokum alveg með mig. Í hvert sinn sem ég ber eitthvað matarkyns að vörum mér fríka ég örlítið út; "má borða fitu í morgunmat?" "Er ég búin að fá nóg prótein?" "Er klukkan of margt?" "Er ég núna að borða of mikið af kolvetnum?" "Er þetta of mikið?" "of lítið? "of, of, of???"

Það eina sem ég spurði mig ekki að var hvort ég væri svöng. Ég er þessvegna að spá í  að sleppa því að hafa áhyggjur af næringarefnum og samsetningum og tímasetningum og spyrja frekar hvort ég sé að næra mig.

Þegar ég segi næra mig þá á ég við í tvennri merkingu. Þegar mig langar í eitthvað að borða er lágmarkskrafa núna að spyrja mig hvort ég sé svöng. Ef svarið er já við því þá fæ ég mér að borða. Og það sem mig langar í. Skítt með næringarefnin. En ef ég er ekki svöng þá spyr ég sjálfa mig hvaða holu ég er að reyna að fylla upp í. Leiðindi, vanefni, vanmáttarkennd, reiði, pirr. Hvað sem það nú er þá ber mér núna skylda til að reyna að fylla tilfinninguna frekar en bara túlann á mér. Það er ótrúlega oft sem ég finn að ég er ekki svöng. Eiginleg bara alltaf. Mér dettur í hug að það sé eitthvað innra með mér sem er að reyna að vekja athygli á sér, en kann það bara ekki öðruvísi en að benda mér á að fá mér að borða. Ég þarf að læra algerlega að hlusta á sjálfa mig upp á nýtt.

Enn sem komið er heyri ég bara sjálfsvorkunina. Það eru komnir nokkrir mánuðir núna og enn er ég bara á vælustigi. Þessvegna get ég heldur ekki skrifað, mér finnst ég svo ógeðslega leiðinleg.

Slakaðu bara á, reyni ég að segja sjálfri mér. Þetta reddast. Þegar maður er leiður, reiður, niðurdreginn, pirraður eða yfirkominn af hatri á líkamanum þá verður maður bara að slaka á. Taka fimm, anda djúpt og leyfa sér að klára tilfinninguna.

Fyrst og fremst er ég að vinna í því að hætta að rífa í magann á mér og kveina í örvæntingu yfir því að vera feit. Ég verð, bara verð að vera ánægð með mig, bara mig.