sunnudagur, 28. október 2012

Ég fer ekki ofan af því að Október haldi nafngiftinni ofur þrátt fyrir sérlega værð í þessari viku. Meira en værð, ég hef ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Ég ætlaði að ljúga mig út úr þessu, bera við stressi og löngum vinnudegi í samblandi við hnjask og meiðsl en ákvað svo að sannleikurinn væri sagna bestur. Ég bara nennti ekki að gera neitt. Mig langar ekki til að vakna á morgnana og á kvöldin þegar heim er komið ströggla ég við að elda hollt, langar bara til að fá brauð. Ég hef einhvern vegin ekkert um þetta að segja, svona er þetta bara núna. Ekki vont, ekki gott. Bara ekkert.

Ég er eins og Rauða Drottingin úr Through the Looking Glass eftir Lewis Carroll, hún hljóp og hljóp til þess eins að standa í stað enda hreyfðist umhverfið með henni. Ef ég stoppa þá fer ég aftur á bak, þegar ég held áfram að hlaupa þá stend ég í stað.

Stundum þarf maður bara að stoppa, hlaða batteríin og skoða umhverfið.

sunnudagur, 21. október 2012

Laugardagskvöld - Sunnudagur

Ég eldaði loksins "Meatza" á laugardagskvöldið. Ég sá þetta fyrirbæri fyrst á bloggi fyrir nokkrum árum og er búin að vera á leiðinni að elda síðan. Svo núna í vikunni er ég búin að vera að hella mér meira og meira út i paleo mataræði sem þýðir að pizza er út. Nigella Lawson kom svo með útgáfu af þessu í nýjasta þættinum síá hinum og ég sá að það er tími til kominn að prófa. Þetta var instant hit á heimilinu. Kjötið kemur semsé í stað pizzubotnsins. Rosalega djúsí og frábært að kjamsa á yfir laugardagskvöldsjónvarpinu.  

Hvað hreyfingu varðar var ósköp lítið í gangi þessa vikuna. Smá lyftingar á mánudag og laugardag. Ég léttist engu að síður um 2 kíló og líður rosalega vel í líkamanum. Ég er enn og aftur að finna þetta jafnvægi á milli þess að njóta andartaksins, vera hraust, stjórna fíkninni og vera hamingjusöm. Fín lína en mamma mía! Ég skal finna hana!

Í dag var veðrið svo óvenjufallegt; ekta skínandi haustveður.  Smá kalt en sól og bjart. Við ákváðum að fara í menninguna til Chester og stússast aðeins. Byrjuðum á rómverska safninu. Chester var stórborg á tímum Rómverja í Bretlandi og hér eru margar minjar eftir þá. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að ganga dag hvern eftir Via Prætoría vitandi að fyrir tvöþúsund árum síðan var fólk á þessum sama stað að ganga eftir götunni í svipuðum erindagjörðum og ég. 

Chester hét Dewa á tímum Rómverja og eins og sjá má þá þóttu  Keltarnir sem bjuggu handan við landamærin í  Norður-Wales klénn pappír. Enda villimenn og barbarar upp til hópa. Það er eins og lítið hafi breyst. 

Safnið er bráðskemmtilegt fyrir krakka þar sem að það er búið að gera leiksvæði fyrir þau þar sem maður getur sett sig í spor Rómverja. 

Skemmtilegt fyrir krakka. Og kjéllingar.

Lúkasi þótti mikið til brynjunnar koma. 
Þegar út af safninu er komið er maður aftur komin í Tudor-tímabilið sem  er  ríkjandi byggirngarstíllinn í borginni.  Við röltum í gegnum miðborgina og skoðuðum fólk og byggingar. 

Frá Rómverjum, Hinrik VIII, Elisabetu I og Viktoríu  lá svo leiðin á Bellyfull, karabískan veitingstað í miðborginni til að fá okkur saltfiskbollur og lambakássu í hádegismat. Ljómandi skemmtilegur staður en kannski heldur dýr fyrir gæði. 


Frá Karabíska hafinu lá svo leiðin til Austuríkis til að fá okkur kaffi og hnallþóru á Patisserie Valerie. Fínasta skemmtun að sitja á meðal eldri borgara og háma í sig rjómahlussu sem voru svo fínar að móðursystur mínar hefðu getað bakað. Eftir að hafa séð, skoðað, þreifað, þefað og étið okkur í gegnum aldirnar og heimsálfurnar lá svo leiðin aftur heim til Wrexham. Home Sweet Home eh?

Í nokkur ár núna hef ég fylgst af ákafa með Strictly Come Dancing á BBC 1 á laugardagskvöldum. Maður bíður spenntur allt árið eftir að ný sería byrji, hvaða fræga (eða því sem næst) fólk taki þátt keppninni, hvaða ástarsambönd blómstri, búningum, glansinu og glitrinu öllu. Í hverri seríu hefur svo verið eitt svona djók. Fræg manneskja sem getur ekki dansað til að bjarga lífi sínu en áhorfendur heima halda áfram að kjósa viku eftir viku til að sjá brandarann iða um á dansgólfinu. Frægastur var John Sargeant, fréttamaður á sjötugsaldri, sem dró dansfélaga sinn eftir gólfinu í frægum paso doble. Hann var svo vinsæll á meðal breska almennings að hann endaði á að draga sig úr keppni af ótta við að vinna og honum þótti það óréttlátt gagnvart öðrum keppendum sem gátu í alvörunni dansað.
John Sargeant og Kristina Rihanoff í ham.

Ann Widdecombe er fyrrverandi þingmaður og matróna mikil sem er orðin svona brandari hér í Bretlandi og ekki síður eftir þáttöku sína í Strictly. Viku eftir viku kaus almenningur að halda henni í keppninni til að hlæja dátt að ósköpunum á dansgólfinu laugardagskvöld eftir laugardagskvöld.
Widdecombe og Anton Du Bek í fljúgandi gír.
Í ár var svo mikill titringur í blöðum og á samfélagsmiðlum þegar line-upið var tilkynnt og í ljós kom að Lisa Riley var ein af keppendum. Lisa er sápu leikkona, helst fræg fyrir að vera í Emmerdale og svo í Fat Friends. Hún er feit. Öfugt við Sargeant og Widdecombe er hún ung en hún er líka feitari en þau bæði.
Ég varð reið um leið og ég heyrði af þáttöku hennar í keppninni. Fyrst varð ég reið vegna þess að ég get ekki hugsað mér að horfa á almenning hlæja að hlussunni hlussast um dansgólfið í ýktum hreyfingum meðan dansfélaginn fettir sig og grettir til að leggja áherslu á hversu grótesk sýningin er. Svo varð ég reið yfir því að almenningur hlæji að feitu fólki. Það er EKKERT fyndið við að vera feitur. Það er bara sorglegt. Svo varð ég reið út í hana fyrir að svíkja feitt fólk svona. Hvernig dirfðist hún að gera okkur að aðhlátursefni? Hvernig dirfðist hún að viðhalda þessari hugmynd um að við séum rétthlæjanleg? Svo varð ég reið út í hana fyrir að vera svona feit. Afhverju að gera sjálfri sér þetta? AFHVERJU GERIR HÚN EKKI EITTHVAÐ Í SÍNUM MÁLUM!!! Mig langar til að hrista ykkur öll. LEGGÐU FRÁ ÞÉR KÖKUNA OG DRULLASTU TIL AÐ HREYFA ÞIG!!!!
Lisa Riley i daglega lífinu.


Þegar fyrsti þátturinn var svo í sjónvarpinu sat ég og úaði og aaði yfir öllum búningum, tónlistinni og dansinum. Svo var komið að Lísu og Robin. Við fyrsta skref byrjaði ég að gráta. Og ég grét allan tímann sem dansinn stóð yfir. Hún var stórkostleg. Þau dönsuðu tjatjatja og hún var léttfætt, snögg, taktviss, sexý. Svo flott. Og ég grét og grét. Yfir fordómunum í mér. Yfir því að hafa ekki trú á henni og á mér. Yfir því að enn og aftur verið föst í hugarfarinu sem segir að maður þurfi að vera grannur til að geta gert eitthvað. Yfir því að vera svona mikil tík. Hvernig dirfist ég að ákveða hvað er gott fyrir fólk? Hvað er heilbrigt og hvað skapar hamingju?
Lisa Riley og Robin Windsor á fullu fútti við tjatjatja.
Ég ætla ekki að skafa ofan af því að ég myndi samt telja að það er betra fyrir heilsuna að vera grennri en Lisa er núna. Og ég er nokkuð viss um að hún myndi vera enn betri dansari en hún er núna ef hún væri grennri. Þó ekki nema til að gera það auðveldara fyrir dansfélaga hennar að ná utan um hana.
Lisa og Robin í vals.
En hrokinn í mér að gera ráð fyrir að hún yrði djókið og hrokinn í mér að ákveða að ég, sem fitubolla, myndi þurfa að skammast mín fyrir hana er forkastanlegur. Lisa Riley er að gera það sem ég stanslaust prédika; hún er að taka lífið af 100% krafti, algjörlega viðstödd í hverju andartaki. Ég ætti að taka hana mér til fyrirmyndar.

laugardagur, 20. október 2012

Ég hef gífurlegt álit á sjálfri mér. Hef alltaf haft. Og ég hef sjálfstraust fyrir tvær manneskjur. Hef aldrei efast um eigið ágæti. En það eru líka fullt af hlutum við sjálfa mig sem mér finnast alveg hrikalegir. Ég hef hinsvegar alltaf  kosið að hunsa vankanta mína og ýkja það sem mér finnst svona fínt hjá mér. Mér þótti bara óþarfi að vera eitthvað að ræða hvað ég var feit þegar ég var svona ægilega skemmtileg. Eða gáfuð. Eða með fágaðan tónlistarsmekk. Eða hvað svo sem ég taldi til afreka.

Það er svo smávegis að renna upp fyrir mér núna að ég á í heljarinnar vandræðum núna að samræma þetta tvennt. Það er að segja þá trú mína að ég sé bara alveg hreint ljómandi góð manneskja og að það sé líka ýmislegt sem má betur fara. Ég rugla svo saman sjálfstrausti og sjálfsvirðingu eða sjálfssamhyggð. (Compassion) Það að ég sé sjálfstraust þýði að ég geti bara haldið áfram að sópa undir teppið þessu sem ég vil ekki taka á. Þvi ef ég segi satt frá þá lendi ég alltaf í klandri þegar ég tek fram það sem ég vil bæta í sjálfri mér. Ég verð svo vond við sjálfa mig. Kalla mig öllum illum nöfnum. Engu að síður hef ég komist að því að neikvæð "re-inforcement" hefur ekki góð áhrif á mig. Þannig er tilgangslaust fyrir mig að horfa á feitar myndir af sjálfri mér. Ég fyllist ekki "aldrei aftur" fílingnum, ég fyllist bara sorg og vanmætti og er mun líklegri til að teygja mig í snickersið í þeirri trú að ég sé bara svona. Þetta sé eins og ég komi alltaf til með að vera. En ef ég skoða myndir af mjóu Svövu Rán verð ég ægilega kát og er mun líklegri til að vilja fá mér salat og taka eina æfingu.

Ég er núna búin að setja þetta allt í samhengi. Ég hef alltaf skammast mín fyrir bestíuna, fyrir átvaglið, fyrir þetta stjórnleysi inni í mér. Og í stað þess að sýna sjálfri mér samhyggð og virðingu og viðurkenna fyrir mér og öðrum að það séu þættir í sjálfri mér sem ég geti unnið að og bætt og að ég geti bætt þá án þess að kvelja sjálfa mig, þá einbeitti ég mér bara að því sem vel fór og hunsaði bestíuhegðunina.

Þessvegna er þetta erfitt núna. Ég set sjálfa mig svo í mikla vörn þegar ég reyni að tækla bestíuna. Skömmin og samviskubitið er svo rótgróið að ég get ekki komið þessu í jákvætt re-enforcement. Ég finn enga leið til að sýna sjálfri mér samhyggð og velvild þegar mér mistekst. Mér finnst eins og það að mistakast sé svo mikill ljóður á ráði mínu eða persónuleikabrestur.

Í þessari viku er ég búin að léttast heilmikið. En á sama tíma hef ég nánast ekkert þjálfað. Mig bara hefur ekki langað til þess. Ég er enn að venjast lífi án hlaupa og finn mig bara ekki alveg. Og það er búið að vera svakalegt verkefni í vikunni að byrja ekki að rífa sjálfa mig niður. Ég þarf að rífast við sjálfa mig á hverjum degi til að minna mig á að það að sleppa æfingu einn og einn dag - eða jafnvel í lengri tíma - þýðir ekki að ég sé lúser og failure og ömurleg. Það þýði bara að mig vanti pásu, og að ég byrji svo bara aftur þegar ég er tilbúin.

Það er ótrúlegt hvað þessi skammartilfinning er föst inni í manni. Jafn föst og helvítis spekið!

fimmtudagur, 18. október 2012

Grunnuppskrift að kókóshnetuhveitiköku/muffins

1/4 bolli kókóshnetuhveiti (ég mæli með að sigta hveitið til að gera það létt og loftkennt)
1 tsk lyftiduft

3 - 4 egg
2 msk kókósolía (fljótandi) eða olífuolía
3 msk hlynsýróp eða fljótandi hunang
1/4 bolli eplamauk eða 1 maukaður banani

Svo fiffar maður bara til. Setur út í grunninn súkkulaðibita eða hnetur. Nú, eða kakó og eykur þá aðeins olíuna. Eða kókós. Eða kannski smá sítrónusafa og úr verður lemon drizzle cake. Og svo má skreyta með því að setja hnetur ofan á, eða streusel, eða kókós eða kirsuber. 180 gráður í 25 mínútur í annaðhvort lítið kökuform eða 6 muffinsform.

Ekki málið.

sunnudagur, 14. október 2012

Ég er búin að gera ýmiskonar uppgötvanir og taka allskonar ákvarðanir í vikunni. Í fyrsta lagi þá hef ég loksins fundið útskýringuna á því sem er "að" mér. Ég hef aldrei skilið afhverju ég get planað og skipulagt hvert einasta gramm sem ég borða, vigtað og mælt hitaeiningar og sett réttu næringarefnin á réttu tímasetninguna yfir daginn, æft með þungum lóðum, hlaupið langt og hlaupið spretti og samt hvorki grennst né lést né séð mun á fötum. Ekkert. Zilch. Nada. "Venjulegt" fólk myndi léttast um eitt til tvö kíló eða sjá mun á fötum eða líða betur eða eitthvað við svona vinnu. En ég get gert svona svo vikum skipti án þess að sjái högg á vatni. Og það er fátt erfiðara en að leggja hjarta, sál, blóð og svita í vinnuna sína án þess að fá borgað fyrir.

En, ég er núna loksins búin að fá útskýringuna á þessu. Ég er "insulin resistant". Þeas ég vinn ekki úr kolvetnum á réttan hátt. Þrátt fyrir að fara vel undir hitaeiningamörk þá gengur líkami minn ekki á fituforðann þannig að ég gæti fylgt hvaða lífstílsreglum sem virka fyrir annað fólk þar til kýrnar koma heim en ég myndi aldrei léttast. Eina leiðin fyrir mig er að halda kolvetnum undir 100 grömmum á dag. Sem þýðir grænmeti og ávextir í gnótt en kornmeti og sterkja og að hluta til mjólkurvörur bara verða að sigla sinn sjó. Ef ég vil missa fitu það er að segja. Ef ég ákveð að mig langi í franskbrauð nú, þá verð ég bara líka að gera mér grein fyrir því að þá grennist ég ekki. My choice.

Og mig langar meira að losa mig við fitu en mig langar í franskbrauð þannig að þetta ætti að vera einfalt. Ég er búin að vera að lesa mér til um vísindin að baki ástandsins á mér og skoða hvað ég þarf að gera og hverju ég þarf að breyta og þetta á eftir að vera smá tilraunir en ég er hress með það. Fátt finnst mér skemmtilegra en að taka Frankenstein í eldhúsinu.  Þetta er rosalega spennandi og ég er bara svo fegin að vera loksins búin að fá útskýringu.

Ég byrjaði á að búa til paleo brauð eftir uppskrift frá Hönnu. Bara hnetur, fræ, korn, egg, olía og salt. Rúmar 5000 hitaeiningar í hleifnum þannig að maður nagar sig ekki í gegnum hann allan í einu en það ætti líka bara að fullnægja manni að fá eina sneið.




Í öðru lagi er ég svo búin að sætta mig við að hlaup eru eiginlega úr sögunni hjá mér. Allavega í bili. Ég er ekki alveg með á hreinu hvort ég fari í 10 km hlaupið sem ég er búin að vera að æfa fyrir en eftir mikla sálarskoðun er ég búin að ákveða að þrátt fyrir allar tilfinningarnar sem ég hef lagt í að vera hlaupari  þá er betra fyrir mig að hætta að hlaupa, eða allavega að hlaupa minna, vegna þess að ef ég held áfram eins og ég er núna þá verð ég ógöngufær algerlega. Og það er betra að finna mér nýtt sport en að koma mér í þá stöðu að geta ekki gert neitt. Ég er enn að melta þetta, mig langaði svo rosalega til að vera hlaupari, ég hef áður skrifað um hversu mikilvægt það er fyrir mig, en ég verð bara að kyngja því að ég er með ónýt hné og að ég bara get ekki gert sjálfri mér þennan skaða. Allavega ekki á meðan ég er enn þetta þung.

Ofur Október er þessvegna búinn að vera grænn (lyftingar) frekar en bleikur (hlaup). Og það er fínt. En ekki nóg fyrir mig. Uppáhaldsstrákarnir mínir fóru þessvegna með mig í Halfords í dag til að skoða hjól. Og ég tók aftur gleði mína. Ég er búin að finna hjólið sem mig langar í en sölumaðurinn sagði okkur að það ætti að vera á tilboði bráðum þannig að ég ætla að bíða aðeins. Kannski að við getum kallað það jólagjöf?


Eru þeir ekki yndislegir, uppáhaldsstrákarnir mínir?

miðvikudagur, 10. október 2012

Í dag nýt ég andartaksins - 5 mínútur of lengi að knúsa Lúkas í morgun, við hlógum þegar við þurftum svo að hlaupa í skólann. Smávegis rannsóknarvinna við masterinn - létti á stressi við það. Ahh svo gott. Og svo það besta af öllu; velvalið hráefni, tónlist í útvarpinu og ég að hafa gaman í eldhúsinu. Útkoman, hveiti-og sykurlaus marmarakaka. Og núna. Espresso og kökusneið. Þvílíkt andartak í lífinu.


þriðjudagur, 9. október 2012



Lúkas er að læra um Viktoríutímabilið í skólanum. Í heimanámi erum við svo búin að gúggla Viktoríu drottingu, fara út að skoða Viktoríanskan byggingstíl í þorpinu og um daginn kom hann heim úr skólanum og sagði okkur allt um William Morris. Sá var listamaður sem hannaði veggfóður og steinda glugga og var einn aðaláhrifavaldur Tolkiens um norræn áhrif á Hringadróttinssögu. Morris þessi ferðaðist til Íslands um miðbik 19. aldar og var mikið hrifinn af landinu. Ég var svo hrifin af öllu sem barnið hafði að segja að ég fletti Morris upp á wiki og komst að því að allt var þetta rétt og satt. En ég rakst líka á þessa tilvitnun: 

"The true secret of happiness lies in taking a genuine interest in all the details of daily life." — William Morris


Mér finnst þetta vera svo mikill sannleikur. Ég held að ég flæki hlutina oft allt of mikið fyrir sjálfri mér. Í staðinn fyrir að taka bara þátt í andartakinu er ég alltaf að bíða eftir því næsta. Þannig er ég að flækja hlutina fyrir sjálfri mér núna. Ég er að ríghalda í gamla hegðun, skoðanir og trú sem ég í raun og veru er ekki að fylgja lengur. Þannig tala ég um gömlu Svövu Rán og nýju Svövu Rán. Og ég á það mikið til að segja að gamla Svava Rán sé mér mikið eðlisægari en sú nýja, hún hafi ráðið ríkjum mun lengur en þessi sem hefur valið heilbrigðari kostinn. Og svo koma svona dagar þar sem ég bara rista hverja brauðsneiðina á fætur annarri, kaupi kexpakka og borða hann allan, drekk gos og hreyfi mig lítið sem ekkert. Og ég útskýri þetta fyrir sjálfri mér með því að auðvitað komi dagar þar sem ég ruglist svona; ég sé svo miklu vanari að borða eins og bestía en að gera það ekki. En í dag rann upp fyrir mér ljós. Mér er orðið miklu eðlislægara að velja rétta kostinn. Ég hreyfi mig lítið, en ég hreyfi mig samt. Ég vel að borða heilan kexpakka en ég fékk mér hafragraut í morgunmat. Og mér líður illa þegar ég borða svona. Líkamlega og andlega. Ég held að ég sé að halda í eitthvað gamalt sem ég þarf bara að kötta á. Svona eins og rotið ástarsamband sem fólk hangir í vegna barnanna. Eða gömul föt sem maður geymir inni í skáp svona "just in case". En það er bara kominn tími til að segja bless við gömlu Svövu Rán og halda áfram. Ég gæti eytt áratugum í þetta núna, haldið áfram að fokka svona fram og tilbaka og aldrei komist neitt áleiðis. En ef ég er bara að ríghalda svona í gamla siði og venjur af því að ég er hrædd við að umfaðma alveg nýju Svövu Rán þá held ég að ég sé að svindla á sjálfri mér. Ég held að ég sé þá að hafa af sjálfri mér ánægjuna sem ég gæti haft út úr daglega lífinu. 


Ég skil ekki hvað ég er hrædd við. Það er ekki eins og að kveðja gömlu Svövu Rán sé ógnvekjandi. Ég er búin með þann pakka. Það er bara ekkert að óttast. Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að lyfta þungu, hlaupa hratt og hoppa hátt. Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að kaupa þröngar buxur og litla kjóla. Ég veit að ég fæ meira út úr því en að japla á kexi.

Vandamálið er að ég er bara ekki viss um hvernig ég ætla að fara að því að segja henni upp. "Getum við ekki bara verið vinir?" ??






sunnudagur, 7. október 2012


Stundum fara góðir hlutir bara hægt af stað og það er svo með ofur október. Ég er akkúrat núna að einbeita mér að því að finna mig aftur, ég var orðin svo aftengd sjálfri mér að ég skrifaði meira að segja pistil á ensku! Ég bara átti í mestu erfiðleikum með að geta sagt upphátt að ég hafi þyngst svona mikið á svona stuttum tíma, það var auðveldara að segja það á ensku.

Ákkúrat núna er ég komin með upp í kok á sjálfri mér, ég er hundleiðinleg kjélling og ætla að taka smá pásu. En ekki fyrr en ég deili gulrótameðlætinu með kjúklingnum í dag.

6 gulrætur, flysjaðar og skornar í fjóra hluta langsum
2 msk möndluflögur
1 tsk za´tar
1 tsk góð ólívuolía

Sjóða vatn með salti og setja svo gulræturnar út í sjóðandi vatnið í uþb 8 mínútur þar til rétt mjúkar. Taka úr vatninu og kæla aðeins. Rista möndlurnar á þurri pönnu þar til gullnar og setja svo kryddið út á og rista í nokkrar sekúndur. Hella teskeið af olíu yfir gulræturnar og setja svo möndlukryddblönduna þar yfir. Rosalega gott með kjöti eða kalt út í salat. Bon appetit!


föstudagur, 5. október 2012

Uber October is yet to start. I´m in a parallel universe right now, watching myself as from above. I am yet to participate in my own life. I don´t think I am unravelling or anything - but I really should start participating before it gets really hard.

5 kilos. 5 kilos in a week. That´s a month´s worth of hard work. I am telling myself that I will not let the numbers get to me, mainly because I don´t have a choice. The choice being if I "give up" and "give in" I will be 160 kilos in a year, and frankly that is just not an option. So I don´t have a choice. The 5 kilos are not going to bother me or get me down, I will just start participating in my life and they will go away. Again.

I said to Dave that I could only explain all the eating so that I´d been lonely. I had just spent a weekend with my friends and then I came home and I got lonely. "So you turned to your oldest friend then?" he said. And it all came clear. Of course I did. I turned to bread and chocolate. My constant friends. My best friends.

Well, I am going to make new friends. Broccoli. And maybe my hipbones. And I might chat up those jodhpurs I saw in Zara today.

Uber October is for new friends.

miðvikudagur, 3. október 2012

OfurOktóber - fer hægt af stað. 
Ég er enn heima í fríi. Átti inni nokkra daga sem ég fæ ekki að nota um jólin og hugsaði því með mér að það væri fínt að vera bara heima og slaka á eftir Kaupmannahöfn.

Ég hafði í hyggju að hlaupa til að koma æfingaplani aftur á rétt ról. Ég ætlaði líka að djúphreinsa húsið og henda allskonar drasli og reyna að búa til meira pláss hérna hjá okkur. Svo hafði ég í hyggju að plana og skipuleggja það sem verður þekkt sem Ofur Október. Búa til æfingaplan, og matseðla og verlsa í matinn eins mikið fram í tímann og hægt er.

Þess í stað þá tjékkaði ég mig út í gær. Ég bara tjékkaði mig út úr lífinu. Fór með Láka í skólann, kom aftur heim og sat svo í makindum og las bók þar til ég fór að ná í hann aftur. Með þó nokkrum ferðum inn í eldhús til að ná mér í ristað brauð.

Hvenær fæ ég tækifæri til að gera ekki neitt? Var ekki bara allt í lagi að taka einn dag þar sem ég hvorki hugsaði né gerði? Var ég ekki bara að endurhlaða batteríin?

Í Kaupmannahöfn gengum við framhjá hópi af Hare Krishna fólki sem sat og sönglaði lagið sitt og var að gefa súpu og salat þeim sem vildu. Ég sagði við Ástu að mér finndist þetta svo mikið "cop out" úr lífinu. Hvað hjálpar þetta fólk umheiminum með að söngla tóna og gefa súpu í ríku hverfi í ríkri borg með ágætis samfélagsþjónustu? Hverjum er þetta að hjálpa? Af hverju er ekki tímanum og orkunni eytt í eitthvað sem skiptir máli? Og þetta "cop out" hugtak festist aðeins í mér.

Og mér datt í hug hvað þetta er í raun skrýtið að ég skuli enn hugsa um dag þar sem ég hreyfi mig ekki, tel hvorki né vigta né legg einhverja sérstaka hugsun í magn eða gæði matarins sem ég borða, sem dag í fríi. Eins og ég geti tekið frí frá sjálfri mér. En málið er að yfirgnæfandi tilfinningin er að ég sé að kúpla mig út úr lífinu mínu eins og ég vil hafa það. Algjört cop out. Ég skil ekki afhverju ég get ekki tekið dag þar sem ég er ekki mikið að spá í neinu án þess að fara algerlega í hina áttina. Afhverju þarf ég að troða í mig brauði allan daginn? Afhverju get ég ekki slakað á án þess að fremja hryðjuverk á sjálfri mér? Og ég skil ekki afhverju ég þarf enn að hugsa um svona dag sem "frí". Frí frá hverju? Heilsusamlegum lífstíl? Er hann í alvörunni svo hrikalega mikil vinna?

Ég fékk um daginn fallega athugasemd við mynd af mér á facebook þar sem ég var kölluð fyrirmynd. Og fátt þykir mér betra. En mig langar til að vera heil og sönn fyrirmynd. Heil og sönn manneskja sem kúplar sig ekki út öðru hvoru. Slaka á og lesa bók heilan dag, já svo sannarlega. Það vil ég gera ef tækifæri gefst til. En ég vil ekki kúpla mig út og ég vil ekki nota þessa daga til að éta mér til óbóta.

þriðjudagur, 2. október 2012

Ég lagði í hann til Kaupmannahafnar á föstudaginn og fór með EasyJet. Fyrir 60 pund og stutt flug frá Manchester til Kaupmannahafnar kemst maður í heimsókn til Hönnu í Nærum. Hún og hennar slekti eru höfðingjar heim að sækja og ég hefði fattað þetta fyrr hefði ég sjálfsagt komið aðra hverja helgi. Ferðalagið var auðvelt og ég hitti Hörpu á Kastrup þar sem hún kom frá Íslandi og saman tókum við svo lest til Skodsborg þar sem við hittum Hönnu. Ásta var þá þegar komin og Harpa B kom svo frá Stokkhólmi seinna um kvöldið. Hanna var búin að elda handa okkur fínasta kvöldmat sem við nutum saman. 

Þær systur útbjuggu görótta drykki langt fram eftir nóttu, það mikið að við komumst  aldrei út til að kanna næturlífið í Köben, sátum bara við hlátrasköll og læti langt fram eftir nóttu og öngruðum náboerne.

Morgunmatur var svo ekki af síðri endanum á laugardagsmorgninum,  nýbakaðar kornabollur og romm. 

Hanna fór svo með okkur til Kaupmannahafnar til að skoða okkur um og við byrjuðum í því sem ég myndi  kalla himnaríki; markaði sem selur gúrmet matvæli. Brauð, kruðerí, súkkulaði, vín, kjöt, krydd og annað. Þar hefði ég getað eytt deginum og mánaðarlaunum. Við fengum okkur að sjálfsögðu hefðbundna danska negrakossbollu. Allt svo fallegt og artisan.

Danir eru að sjálfsögðu þekktir fyrir að vera frjálslyndir og frjálslegir í meira lagi, svona dálítið eins og þessi ungi maður. 

Það þótti við hæfi að fá mynd við Nyhavn með danska fánann blaktandi við hún í baksýn. 

Slorgellur við kæjann. 

Þegar hér var komið við sögu var að sjálfsögðu kominn tími á smörrebröd en við vorum heldur seinar á ferðinni og öll hefðbundin smörrbröd hús búin að loka, Við fengum þá bara svona fínan frokost platta í staðinn og ekki var hann síðri. Rauðspretta, roastbeef og remúlaði og að allra allra mikilvægasta; Tuborg. 

Eftir að hafa látið Tuborgin sjatna aðeins fengum við svo irish coffee við höfnina. Eftir nokkra rigningu þóttumst  við heppnar með veðrið, ekta fallegt haustveður og írishinn hitaði það sem upp á vantaði. 

Við skoðuðum svo borgina, og hittum fyrir Kristján Tíunda, glapræðiskónginn sem glutraði Íslandi úr höndunum á sér. Spurning hvort við hefðum ekki bara verið betur stödd ef við værum danir.

Þeir passa líka voðalega vel upp á Margréti Þórhildi þessir kappar og kipptu sér ekki upp við nokkur dansspor fyrir utan Amelieborg. 

Eftir frekara rölt og skoðunarferð um Kristjaníu fórum við í kjöthverfið og á  ægilega skemmtilegan veitingastað  sem heitir Mother og fengum súrdeigspizzu. Þar sátum við svo langt fram eftir kveldi og löguðum öll heimsins vandamál. 

Á sunnudeginum fór Harpa B aftur heim til Stokkhólms eftir  morgunmat en við hinar lögðum af stað í hjólreiðatúr eins og sönnum dönum sæmir. Ég hef ekki stigið á hjól í allavega 10 ár og var örlítið smeyk til að byrja með en komst fljótt inn í stemninguna.

Við hjóluðum um Dyrehaven, til Tærbæk þar sem Hanna vinnur, sáum  dádýr  í skóginum ,  fórum á bryggjuna og sáum yfir til Svíþjóðar, stoppuðum á kaffihúsi, sáum allskonar fólk og hús og ég fann Danmörku. 

Hjólreiðamenningin er svo rótgróin að það var alger óþarfi fyrir mig að vera smeyk, hér er gert ráð fyrir hjólreiðafólki og það á að mörgu leyti til meiri rétt en aðrir í umferðinni. Ég komst líka fljótt inn í þetta og þrátt fyrir að hafa eytt um 5 tímum á hjólinu og ástandi sem fljótt fékk nafnið "pjöllusigg" var ég skælbrosandi eftir daginn. Mér fannst ég sjá svo mikið, ég var svo frjáls og ég var svo glöð að vera í svona góðu formi að geta gert þetta rétt sí svona. Enn og aftur var ég minnt á hversu dýrmæta gjöf ég gaf sjálfri mér þegar ég ákvað að breyta lífstílnum. 

Eftir kvöldmat fór Harpa svo heim til Íslands og við systur spiluðum á spil og spjölluðum enn meira. Ásta fór svo heim til London á mánudagsmorgni en ég og Hanna fórum í matvöruverlsun og ég náði mér í nokkuð af dönskum nauðsynjavorum. Rúgbrauð, lifrakæfu, rauðkál og remúlaði. Hver getur án þessa verið?

Ég fór svo með lest til Kastrup og þar fékk ég svo skandinavíska klassík í gjöf frá sjálfri mér; snyrtipung  frá Marimekko með Unikko mynstrinu. Ekki bagalegt að enda ferðina með það í poka. Ég er núna líka harðákveðin í að reyna að innleiða hingað til Bretlands örlítið af þessu náttúrulega hreysti sem Danir búa yfir, í samanburði virðist fólkið hér ósköp óheilbrigt í útliti. Ég sé fram á að byrja að baka rúgbrauð í lange baner til að koma bretum í betra form.