sunnudagur, 25. október 2015

Af sannleika

Ég hef oft velt fyrir mér afhverju mér virðist ekki finnast neitt mál að tilkynna hversu þung ég er á svona opinberum vettvangi sem þessum. Eins mikið og ég reyni að líta á bloggið sem dagbókina mína þá get ég heldur ekki neitað að ég skil hana eftir opna svo allir geta lesið. Ég var 104.4 kíló í gærmorgun, aftur búin að léttast um 700 grömm og er núna nærri 100 en 110. Mér finnst 110 vera þar sem ég fer yfir eitthvað óyfirstíganlegt. Þar er ég aftur orðin svo feit að það skilgreinir mig á einhvern hátt. Undir hundrað og mér finnst ég bara vera mjó. En hvernig svo sem að mér líður þá er það óneitanlega tabú að segja upphátt hvað maður er þungur, sér í lagi þegar maður er feit kona. 
Það gæti falið í sér vandamál fyrir mig að tilkynna hér svona opinberlega hvað ég er þung. Lesendur fylgjast með og ég gæti opnað fyrir allskonar gagnrýni á mig og hvað ég er að gera, rétt og rangt. Og eins gaman og það er að fá tölvupósta sem hrósa eða biðja um ráðleggingar þá er það gífurlega sárt að fá pósta sem rífa mann niður. 
Fyrir mér er þetta margþætt. Í fyrsta lagi er þetta eins og að segja Voldemort. Að hvísla nafnið eða breyta því gefur honum meiri áhrifavald. Ef ég segi óhikað upphátt hvað ég er þung tek ég aftur völdin í mínar hendur. Ég er ekki hrædd við vigtina og hún stjórnar svo sannarlega ekki tilfinningalífinu mínu. Þetta er tala sem segir mér hvað ég veg, ekki hvers virði ég er sem manneskja. Í öðru lagi er mikilvægt fyrir mig að vigta mig til að gera rannsóknir. Ég get fylgst með hvað gerist þegar ég minnka kolvetni eða drekk meira vatn eða prófa að borða mikið á morgnana og lítið á kvöldin eða fasta eða hvað sem mér dettur í hug að rannsaka. Aðalmálið er samt að segja sannleikann. Fyrir mér er enn alveg gífurlegur léttir sem felst í að fela mig ekki. Um leið og ég hætti að ljúga, um hvað ég borða, um hvað ég er þung, um hvernig mér líður, byrjaði þetta allt að smella saman. Ég er enn, eftir öll þessi ár og öll þessi kíló farin og komin og farin og komin, sannfærð um að þetta snýst algerlega um að hætta að ljúga að sjálfum sér.
Fyrir mér skiptir vigtin máli. Þegar ég hætti að vigta mig eða þegar ég byrja að ljúga er eins og ég sé að segja að það skipti ekki máli hvað ég geri, að ég skipti ekki máli. Og það er bara ekki rétt. Ég skipti heilmiklu máli.


104 kíló.

sunnudagur, 18. október 2015

Af gleri

Ekkert gerir mig hamingjusamari en dót. Ég hef fyrir löngu síðan gert sátt við sjálfa mig um allar ahyggjur af því að vera lágkúrulegur plebbi út af þessu og bara held áfram að elska dót. Ég er alveg nógu spiritúalísk að öðru leyti til að mega elska drasl. Þannig er ég búin að vera alveg róleg, hundrað prósent sátt og hef ekki fundið fyrir nokkurri löngun í nammidrasl um helgina af því að ég gat farið inn á baðherbergi öðruhvoru og stunið af ánægju yfir nýju Orla Kiely handklæðunum mínum. Bara það að sjá glitta í staflann þegar ég labbaði framhjá var nóg til að fylla mig stóískri ró og sátt við gvuð og menn.

Sama gildir um hvernig ég ber mat fram. Ég verð hamingjusöm þegar ég set súpu í fallegar skálar. Kaffibolli sem ég helli í úr koparþrýstikönnunni minni er betri en kaffibolli á fínasta artisan kaffihúsi. Bökuð egg í litlu járn Le Creuset pottunum mínum láta hjarta mitt syngja. Þegar ég er með Marimekko servíettur á borðinu bragðast maturinn betur. Já, hann gerir það. Og ég þarf minna af honum. Þetta kemur aftur að þessum mun á ást og misnotkun. Ást mín a mat og svo þegar ég misnota hann felst í hvernig ég ber hann fram. 

Þetta nær meira að segja til vatnsins sem ég drekk. Í vinnunni er watercooler, þannig að ég fylli bara á hálfslítra flösku nokkrum sinnum yfir daginn og það er fínt. Hér heima gleymi ég að drekka vatn. Þangað til ég mundi eftir hvað ég elska dót. Og að matur sem er borinn fram í fallegu dóti er betri. Og að drykkur úr glerflösku er bestur allra. Trillaði mér út í Waitrose og keypti eina glerflösku af sódavatni. Og fylli svo á hana úr 17 pence plastflösku úr ASDA. 

Ég er búin að drekka sex lítra um helgina.

laugardagur, 17. október 2015

Af tengingu


Enn léttist ég; 800 grömm í þessari viku sem þykir gott á meðal okkar sem höfum fyrri reynslu af því að léttast. Mér líður alveg rosalega vel. Ég hef alveg haldið því við að telja bara hitaeiningar og er ekkert að hafa miklar áhyggjur af neinu. Ég bý til graut úr quinoa flögum af því að mér finnst gaman að smakka nýtt, ekki vegna þess að ég er að elta trend eða maukast við að forðast kolvetni. Ég set rjóma út á skyr og nýt í botn. Vigta það bara. Já, mér líður vel. Ég er alltaf að venjast betur við þessa hugmynd að ég sé ekki óargadýr og að ég sé hæf til að stjórna magni. Það eru núna komnar þrjár helgar þar sem ég haga mér eins og manneskja. Ekkert binge, ekkert vesen, bara gleði. Það verður alltaf meira og meira virði að vakna hrein og slétt á mánudagsmorgni. Ekkert samviskubit, engin ógleði, engin heitfengin loforð um að standa mig héðan í frá. Nei, bara þessi yndislega tilfinning að ég sé í beinum tengslum við líkama minn. Ég finn hvernig ég sléttist og hvernig ég hreinsast einhvernvegin. Húðin skýrist og neglur vaxa og allt er auðveldara einhvernvegin. Svona eins og maður sé meira lifandi. Þetta er skrýtið af því að öfugt við það sem maður gæti haldið þá tengist ég betur við líkama minn þegar mér líður vel. Þegar ég er þung og ómöguleg aftengist ég alveg, svona eins og til að reyna að verða fyrir minni áhrifum. Erfitt að útskýra. 

Þessi sannfæring mín um að það sé gott að hugsa um mat, elda hann og njóta hefur fengið mig til,að halda áfram að vera forvitin um nýjungar. Ég eignaðist um daginn svona tagine pott, til að elda rétti frá mið-austurlöndum. Eitt af því sem gerir það sérstaka bragð eru súrsaðar (preserved) sítrónur. Maður fattar ekki alltaf hvað það er sem gerir þetta "rétta" bragð, en ég er sannfærð um að sítrónurnar séu það sem gerir kjúklinga tagine-ið mitt "authentic". Og góður skammtur með kúskús fyrir 500 hitaeiningar! Ekki kvarta ég yfir því.


mánudagur, 12. október 2015

Af tilraunum

Ævintýrin með spíraliserann halfa ótrauð áfram. Og við bætist, nú er ég komin með æði fyrir rauðrófum, brakandi ferskum í salati með geitaosti og karamelluðum pekanhnetum. Hvað segirðu? Karamelluðum pekanhnetum? Já, það er ótrúlega gott kombó: muskulegt, þungt bragðið af rauðrófunni blandað saman við mjúkan rjómakenndan ostinn og svo krönsjið í sætri hnetunni. Hrikalega gott. Það er líka voða auðvelt að búa til. Teskeið af smjéri og slurkur af þessum snilldar puðursykri frá Sukrin (nánast hitaeiningalaus) steikt á pönnu í smástund með hnetunum. Ég er líka búin að prófa að nota hann í bakstur og tókst svona vel upp. Þarf að prófa i anzac kexið. Síðasti séns. 


Ég er svo ánægð með tilraunastarfsemina að hún hefur teygt sig í hárið á mér og ég er farin að nota þessa hentugu leið til að krulla yfir nótt. Ægilega sniðugt. Og Rambó.



sunnudagur, 11. október 2015

Af framgangi

Ég léttist um 700 grömm í þessari viku sem er rúmlega vikumarkmiðið. Ágætt alveg og svona nokkuð áreynslulaust. Ég sleit keðjuna á hjólinu mínu á þriðjudaginn og hef ekki komist í að láta laga það þannig að hreyfing var af skornum skammti. Ég stend reyndar enn á því að hvað þyngdartap varðar skiptir hreyfing afskaplega litlu máli og enn fastar á að öll hreyfing sem er gerð af einskærri þrá til að léttast eða í samviskubits/refsingarskyni er verri en engin hreyfing. Hjólreiðarnar er mín geðheilsa. Ekki leið til að léttast. Ég hélt nokkuð nákvæma skrá yfir það sem ég borðaði og hélt mig við 1800 hitaeiningar yfir daginn. Ég hélt þessu líka uppi yfir helgi sem ég er svakalega stolt af, vanalega fer ég alveg yfir strikið um helgar. En, þessi nýja uppgötvun mín um að ég sé hæf til að stjórna mér og magninu sem ég borða þýðir að núna get ég fengið mér tvær kexkökur, eða eina kökusneið eða hvað sem mig langar í án þess að fríka út. Þvílík breyting. 
Ég hugsa enn rosalega mikið um mat, en hef ákveðið að það sé bara allt í lagi. Ég er að plana matseðla og uppskriftir og hanna nýjar uppskriftir og spekúlera. Það er bara allt í lagi. Ég er gífurleg áhugamanneskja um mat og uppskriftir og það er ekkert óeðlilegt að ég spái í. Þetta er áhugamál, ástriða jafnvel, og ég þarf ekki að taka því að þessi áhugi sé bara tengdur við að ég sé of feit. Hver veit, kannski verður þetta meira en áhugamál einn daginn? Ég eyddi smá tíma í að reyna að laga anzac kexið en þrátt fyrir að bragðið sé rosalega gott er áferðin enn röng. Mer tókst hinsvegar að búa til hrikalega gott hnetusmjörskex úr quinoa flögum.

Ég ákvað að ég ætti skilið smá verðlaun og keypti mér loksins Orla Kiely handklæði og handsápu svona til að skreyta baðherbergið aðeins. Betra en nammi.

miðvikudagur, 7. október 2015

Af linsubaunum

 Cottage pie er einn af þessum klassísku bresku réttum sem ég hef lært að meta á þessum árum sem ég hef búið herna. Cottage pie er einfaldur réttur, nauthakk steikt með gulrótum, bragðbætt með Worcestershiresauce og svo bakað með lagi af kartöflumús. Hjartanlegt og djúsí. Og nokkuð hitaeiningaríkt. Það er langt síðan að ég byrjaði að spara mér kartöfluhitaeiningrnar með að setja lag af blómkálsmús í staðinn, en þegar ég svo fattaði að skipta út helmingnum af hakkinu fyrir rauðar linsubaunir varð ég eiginlega að gefa sjálfri mér high five. Ekki bara hitaeiningar heldur peningur sem sparast líka, double whammy! Ég nenni ekki að setja inn alvöru uppskrift, enda hendi eg bara einhverju í pönnuna hverju sinni. Laukur, gulrætur, nautahakk, rauðar linsubaunir, tómatpúré, skvetta af Worcestersósu, súputeningur og smá vatn steikt á pönnu. Salt og pipar. Blómkálsmús með smá parmesan osti smurt yfir og svo bakað í ofni í hálftíma eða svo. Og borið fram með grænum baunum. Saðsamt, djúsí og dugar í tvo daga. Namm.



Af handjárnum og hnúum

"Það er rigningarsuddi sem úðar göturnar í kvöldhúminu á þessu þriðjudagskvöldi í rólegum iðnaðarbæ í Norður-Wales. Óeirðarlögregla stendur í þéttri röð meðfram lestarstöðinni og þvert yfir umferðargötuna þar hjá. Venjulegir "Bobbies" með auðkennanlegan háan hjálminn rölta um tveir og þrír saman. 6 sjúkrabílar eru kyrrstæðir við götuna. Ýlfur og urr heyrast allstaðar að þar sem illúðlegum lögregluhundum er haldið aftur af og yfir öllu heyrast svo þúmp þúmp hljóðin úr þyrlunni sem sveimar yfir. Hvað er í gangi? Yfirvofandi stríð? Heimsókn frá páfanum? Uppvakningainnrás? Nei, Tranmere Rovers ætla að spila fótboltaleik við Wrexham AFC. 

Tranmere er bær rétt utan við Liverpool sem, eins og flestir bæjir norður í Bretlandi hafa séð fífil fegri. Atvinnuleysi og menntunarleysi og hátt hlutfall bótaþega eru eftirstöðvar af Thatcher árunum og erfitt hefur reynst að spýta atvinnu og möguleikum inn í þessa staði öfugt við stærri borgirnar eins og Manchester og Liverpool sem undanfarin ár hafi verið í stanslausri uppgöngu. Fótbolti hefur verið ódýr og þægileg lausn frá hversdagsleikanum fyrir fólkið á þessum stöðum og hefur líka verið vettvangur fyrir útrás á uppsafnaðri gremju og/ eða fávitaskap, hvernig svo sem maður lítur á það.

Tranmere Rovers féllu niður um deild í vor og eru því núna komnir í utandeildarstöðuna sem Wrexham hefur verið í síðust átta árin. Við höfum ekki mæst í leik í 10 ár. Eins og alltaf með lið sem eru nágrannar skapast gífurleg spenna í kringum leikina. Fleiri stuðningsmenn hafa tök á að koma af því að ferðalagið er stutt og það er skilningur á aðstæðum hvors annars. Ég hafði nú samt ekki alveg gert mér grein fyrir lögregluviðbúnaðinum. Dave var búinn að útskýra þetta fyrir mér en ég satt best að segja trúði honum ekki. Hann var að tala um leiki á níunda áratugnum þegar fótboltabullur léku lausum hala, þetta væri ekki svona núna. Ég missti því andlitið þegar við gengum framhjá lestarstöðinn þar sem Tranmere áhangendur voru stíaðir af á meðan löggan beið eftir að Wrexham áhangendur löbbuðu framhjá og að vellinum. Hróp og köll og krepptir hnefar heyrðust og sáust og mér varð um. Sér í lagi þegar kom í ljós að við þurftum að fara inn annarstaðar en vanalega og við enduðum á að ganga í flasið á hóp af Trannies sem voru syngjandi af spennu. Rauði trefillinn minn hefði getað komið mér í klandur en sem betur fer komumst við framhjá þeim óséð og inn á völl.

Leikurinn var svakalega spennandi og endaði 2-2 eftir mikla baráttu. Við vorum nokkuð sátt þó sigur á heimavelli sé alltaf æskilegri, en Tranmere eru í öðru sæti í deildinni, við í áttunda þannig að við gátum alveg búist við erfiðum leik. 

Tranmere fólkið söng okkur út sem olli mér vonbrigðum. Vanalega syngjum við allan tímann og þöggum niður í öllum mótbárum en þeir höfðu okkur þar. "He left cause you're shit" góluðu þeir á okkur þegar Jay Harris, fyrrverandi leikmaður okkar kom á völlinn, en hann spilar núna fyrir Tranmere. Gamalkunnugt sheepshaggers söngl og þessháttar. Einn af þeim var svo reyndar handtekinn fyrir að æsa upp kynþáttahatur sem mér fannst ægilega fyndið því kynþátturinn sem um ræddi var velskur. Ég vissi ekki að það mætti ekki djóka þannig með Veilsverja! Allavega, við reyndum að svara með "sign on, sign on, with hope in your heart and you will never work again" sungið við You'll never walk alone. Tilvísun í að Tranmere er bara stoppistöð í Liverpool og hversu illa stödd þau eru hvað atvinnuleysi varðar.

Að leik loknum lentum við svo aftur í klandri þar sem festumst með Tranmere fólki fyrir innan lögreglumúr. Tranmere fólkið var pirrað og í leit að slag eftir jafnteflið og yfir að vera haldið aftur. Við náðum svo að láta eina lögguna hleypa okkur í gegn og komumst aftur í hóp Wrexham fólksins. Héldum svo heim nokkuð sátt með frammistöðu okkar manna. 

Ég skil að vera ástriðufull þegar kemur að velgengni liðsins þíns. Ég skil hópsamstöðuna og ég skil vellíðanina sem fylgir skoruðu marki og unnum leik. Ég skil meira að segja sorgina sem fygir þegar illa gengur og pirring gagnvart sérstöku liðið. En slagsmál? Fyrir slagsmálanna sakir?

Fyrir utan að ég skildi hnúajárnin eftir heima og gat ekki tekið þátt.

sunnudagur, 4. október 2015

Af næringu

Á laugardagskvöldi horfir gamalt, leiðinlegt fólk eins og ég er á Strictly come dancing á BBC1 og sofnar svo í sófanum. Það hvað helst hressir uppá tilveruna og veitir tímabundna lausn frá eintóna leiðindum lífsins er nammi. Ég var búin að plana veisluna allan daginn, taldi út hitaeiningar og vigtaði næringarefni í tilraun til að fá hvað mest "bang for my buck." En þegar að kveldi kom var lítið eftir af hitaeiningum úr að moða. Ég sat með 25 grömm af karföfluflögum og hálft chunky Kitkat. Þvílík vonbrigði! Þetta var ekki upp í nös á ketti. Ég maulaði engu að síður á "veislunni" minni, kláraði og leit svo í kringum mig í forundran. Ég var sátt! Þetta var nóg fyrir mig. Þegar ég svo vaknaði á sunnudagsmorgun varð ég að stoppa við og þakka góðum vættum hversu vel mér leið. Ekkert kolvetnakóma. Engir liðverkir, engin ónot í maga og best af öllu, ekkert samviskubit. Og ég fattaði að ég hef verið að ljúga að sjálfri mér í áratugi. Hvenær sannfærði ég mig að ég væri fíkill? Að ég gæti ekki bara fengið mér einn? Hvenær byrjaði ég að trúa lyginni um sjálfa mig? Að ég væri þessi óalandi og óferjandi bestía sem hefði enga stjórn á sér?

Þetta var svona algert uppljómað móment þar sem ég sá sjálfa mig í algerlega nýju ljósi, allar "reglur" breyttar. Ég velti þessu fyrir mér í allan dag. Nýjar reglur, hvernig virka þær þá? Þýðir þetta að eg geti farið að treysta sjálfri mér, að ég geti í alvörunni valið það sem er best fyrir mig.

Það forðaði því reyndar ekki að ég fann aftur fyrir tómleika tilfinningu í dag. Mig vantar enn eitthvað í lífið sem veitir næringu. Ég vel það orð vegna þess að ég hef hingað til valið að borða til að fylla upp í tómarúmið. En það er ekki næring í formi matar sem mig vantar heldur frekar andleg næring. Ég þarf að hugsa þetta betur en mer finnst eins og að þetta sé alveg beisikk stöff. Eina skiptið sem ég hef grennst án þess að hugsa um það var árið sem ég bjó í Belgíu. Það var vegna þess að ég var fullkomlega nærð allt það ár, vinir, tónlist, menning og listir og ómælt magn af bjór. Ég þarf að finna út hvað nærir mig.

Nýjar reglur. Spennandi.

laugardagur, 3. október 2015

Af réttum hlutföllum


 
Ég er nokk viss um að flestir væru mér sammála þegar ég segi að góð sambönd byggja á málamiðlun. Þannig fá báðir samningsaðilar einhverju sínu framgengt og geta auðveldlegar látið gossa það sem þarf. Og ég hugsa að flestir geta líkað kinkað kolli þegar ég segi að þetta snýst að miklu leyti til um litlu hlutina, litla amstrið í hversdeginum sem endar svo á því að skipta hvað mestu máli. Ég held að ég og útlendingurinn minn séum orðin nokkuð lunkin við málarekstur þennan. Málamiðlunin felst mest í að ég gaf Ísland upp á bátinn og fæ þessvegna að hafa allt annað eins og ég vil hafa það. En svo eru svona einn og einn smahlutur sem við rekumst á með. Uppvaskið er einn slíkur. Ég vil að uppþvottaburstinn liggi í vaskinum, Veilsverjinn leggur hann alltaf á vaskbrúnina. Ég labba framhjá og ýti honum ofaní vaskinn, hann býr sér til kaffi og veiðir hann aftur upp og leggur nett á brúnina. Og så videre. Og ég er ekki að kalla þetta skilnaðarsök, en anskotakornið ef þetta skapar ekki netta spennu svona yfir daginn.

Við fórum í dag í smá göngutúr, fengum okkur morgunmat og röltum svo einn hring um búsáhaldaverslun hér í Wrexham. Fann þar þennan forlata uppþvottabursta. Hann er með litlu haki þannig að hann hvílir bara nett á vaskbrúninni. Algerlega fullkomin málamaiðlun; hvorki í vaski né upp úr. Glöð keyptum við burstann og kysstumst svo fyrir utan búðina og óskuðum hvort öðru til hamingju með hvort annað, það eru jú litlu hlutirnir sem skipta máli.

Ég léttist um tvö kíló í vikunni. Að hluta til vegna þess að ég hef tekið ábyrgð, á sjálfri mér og gagnvart öðrum. En líka vegna málamiðlana. Ég þarf að gefa og taka, fá réttu næringuna og réttu saðninguna í sambland við rétta djúsí faktorinn.

Ég finn svo út úr þessu með klósettsetuna og tannkremstúpuna næst.