þriðjudagur, 29. júní 2010

Það hef ég grun um að ég sé góð eiginkona. Fótboltinn í sjónvarpinu, ég strauja vinnuskyrtur fyrir manninn, sem steinsefur í stólnum sínum og ég skipti ekki um rás. Hann þarf nú reyndar að sama skapi að þola margt frá minni hendi. Hann getur setið rólegur og hlustað á mig tala um mat, lífstíl, kolvetni og prótein, um milljón mismunandi aðferðir til að létta sig og hann kinkar kolli á réttum stöðum. Hann hvetur mig áfram og leyfir mér að svindla þegar ég þarf á því að halda. Hann dáist að vöðvunum mínum og best af öllu hann leyfir mér ekki að gefast upp þegar ég er alveg búin á því. Í allan þennan tíma núna sem ég er búin að vera í pattstöðu hefur hann hlustað á mig pæla í þessu fram og til baka algerlega að spýjubökkum og alltaf segir hann eitthvað uppörvandi og hvetjandi. Og núna þegar ég hef fundið kraftinn aftur, þegar ég er á útopnu og allt er glampandi hamingja minnir hann mig á að það er ekki lífspursmál að hafa lést um einhver x kíló á laugardaginn til að passa að ég verði ekki fyrir vonbrigðum svona ef ekkert gerist. Það er margsannað að fólk sem breytir um lífstíl í samvinnu við aðra, fær sér "megrunar-félaga" eða gerir þetta opinbert á einhvern hátt gengur mun betur en þeim sem ætla sér að gera þetta aleinir og upp á eigin spýtur. Þannig að þeim sem eru með aðdáendaklúbb heima hjá sér hlýtur að ganga alveg sérstaklega vel.

sunnudagur, 27. júní 2010


Gífurlegur sumarhiti hefur líka í för með sér geigvænlega bjórdrykkju. Við vorum mætt til Kelly og Craig um 3 leytið í gær þar sem okkur þótti veðrið gott til grill og gleði. Krakkarnir hlaupandi um í garðinum með vatnsbyssur og hoppandi á trampólín og við fullorðna fólkið tókum þátt í vatnsslagnum líka. Þegar maður stendur við grillið í 30 stiga hita og fær "shandy" í hendurnar er ekki mikið annað að gera en að svolgra í sig. Shandy er uppáhaldssumardrykkurinn minn; bjór blandaður í límónaði. Létt og sumarlegt, en vandinn er að maður glúggar bara í sig og skyndilega var ég orðin svona líka ægilega hress. Sem betur fer fór eins fyrir hinum líka og ég hreinlega vissi ekki af mér af gleði og kátínu fyrr en klukkan var að ganga tvö um nóttina og ég og Kelly vorum farnar að gera æfingar á trampólíni. Þá er tími til að rölta sér heim á leið. Svona drykkju fylgir vanalega samviskubit og það sem ég kalla kemísku depurðina mína. En sem betur fer hefur það ekki komið í dag, ég er eins kát og get orðið. Það eina sem gerðist í dag var að ég var kannski ekki alveg með skynsemis takkann stilltann rétt og er búin að naga mig í gegnum einn Magnum ís, þó nokkuð af Pringles (oj bara) og smávegis af Cadbury´s Fruit and Nut. En mér er eiginlega alveg sama í dag, ég stend enn í stað, og er farin að hugsa með mér að ég eigi kannski bara að vera 95 kíló. Svo lengi sem ég fitna ekki er ég eiginlega bara sátt. Ég er hraust og fitt og falleg og 95 er damn side better en 130. Fyrir utan að þetta er eiginleg orðið svo niðurbrjótandi. Þessi stanslausa vinna, þetta stanslausa púl og ekkert gerist. En ef ég set heilann bara í þann gír að ég sé að vinna þetta mikið til að standa í stað þá líður mér kannski betur. Bara halda ótrauð áfram og munda að láta daginn í dag vera þess virði. You may delay, but time will not.

miðvikudagur, 23. júní 2010

Sumarhitinn hefur í för með sér meiri löngun í létta rétti og einfaldar tilfæringar í eldhúsinu. Ég bauð upp á tabbouleh í gær og í kvöld var það moussaka. Ég ferðast um allan heiminn í eldhúsinu. Moussakað tókst rosalega vel og þetta yndislega gríska bragð greinilegt með aubergine og oregano. Og fyrir rúmar 200 kalóríur í skammtinum er þetta ekki leiðinlegur fylgifiskur með grillaðri kjúklingabringu. Aubergine, courgette, paprikur og laukur grófskorið, saltað og piprað og smá ólívuolíu hellt yfir og svo inn í ofn í 25 mínútur. 100 g feta maukaður með gaffli og svo 200 g grísk jógúrt og 1 egg hrært saman við. Grænmetið tekið úr ofnum og dós af tómötum (hökkuðum) hellt yfir, kryddað með oregano og svo feta gumsinu hellt yfir. Aftur inn í ofn í 30 mín og svo bara hakka í sig! Venjulegt grískt moussaka er nú búið til með kjöti og sósan ofan á er búin til úr miklu fitumeira efni en núll prósent jógúrti en þegar maður er að telja kalóríur verður maður bara að bjarga sér!

Helst í fréttum er að ég er loksins búin að fá miða til Íslands. Vanalega er það tímaþröng sem varnar heimkomu en í þetta sinnið voru það gömlu, góðu blankheitin. Til að reyna að spara smávegis er Dave því miður kyrrsettur. Hann er ómögulegur yfir þessu, heldur að fólk fari að segja að hann vilji ekki koma en ég vona svo sannarlega að enginn haldi það. Launalækkunin mín þýðir einfaldlega að það er ekki úr miklu að moða sem stendur. Alla vega þangað til að ég fæ alvöru vinnu. Eða þangað til á laugardag þegar ég vinn lottóið. Og nú get ég farið að byrja að dreyma um Lindu Buff, flatkökur með hangikjöti, Appelsín og bragðaref... Og já, verslunarmannahelgi á Íslandi.

mánudagur, 21. júní 2010

Ég fór aftur í rækt í morgun eftir viku hlé. Hnéð orðið svaka fínt og ég búin að ákveða að það sé nóg að vinna yfirvinnu í gegnum hádegishlé, ég vil frekar mæta í rækt en að mæta í vinnu. Ég ákvað að fara bara á cross trainer, ætla að láta hlaupin vera enn sem komið er. Er eitthvað að melda með mér að vera duglegri í brennsluæfingum og kannski lyfta bara tvisvar í viku. Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af ræktinni, ég var orðin óþreyjufull að komast aftur þangað en ég er viss um að áður fyrr hefði það verið heilmikið átak að byrja að mæta aftur eftir svona hlé. Svitanasistinn var þar og alveg á útopnu. Ræddi lengi við mig um greyið Roger sem svitnar svona mikið og veldur henni svona ofboðslegu hugarangri. Ég enn og aftur reyni að brosa og segja sem minnst enda hlýtur hún í alvörunni að vera að tala um mig þó hún segist vera að tala um Roger, ég svitna sko helmingi meira en hann. Í dag var hún svo að reyna að segja mér að ég ætti að fá mér handklæði eins og hún notar. Svona frotté motta með frönskum rennilás til að halda því föstu utan um líkamann. "Þá getur maður svo auðveldlega farið í og úr nærfötum undir handklæðinu." Og þá skildi ég að hún var að benda mér á að ég er að særa blygðunarkennd hennar með því að strípast í búningsklefanum. 7 ára búvera hér og enn gleymi ég hvað bretar eru feimnir með líkama sína. Ég þakkaði ábendinguna en sagðist ekki þola svona mjúk handklæði, þau valdi bara sveppasýkingu. Hún sagði ekki meira eftir það.

föstudagur, 18. júní 2010

Eftir aðra góða törn í yfirvinnu og engri rækt fékk ég frí á föstudegi. Það finnst mér gaman. Ég fór með Láka í skólann og fór svo í bæjarferð. Gemsinn minn sem ég erfði frá tengdamóður minni gafst loksins upp og mig vantar nýjan. Ég nota hann svosem ekkert svakalega mikið en finnst vond tilhugsun að vera alveg án og nú sérstaklega þegar ég vinn í Chester. Það er betra að geta hringt heim til að láta vita þegar lestinni seinkar um klukkutíma. Og það hefur gerst oftar en einusinni núna. Ég hringsnérist nú um símabúðirnar, það eru svo svakalega mörg mismunandi tilboð í gangi að það var heilsdagsdjobb að ráða í hvaða tilboð hentaði mér best. Ég endaði á pay as you go systemi og keypti Tocco Lite snertiskjá síma. Mig langaði mest í Blackberry en hann var ekki hægt að kaupa án þess að vera á samning hjá eina fyrirtækinu sem er með símsamband í Rhos og á samning var dýrast að senda smess til Íslands. Ég sagði að þetta væri flókið! Hvað um það. Ég er í algjörum vandræðum með sjálfa mig. Það er svo gaman að kaupa föt nefnilega. Og svona þegar ég er bara ein að stússast og hef nógan tíma til að skoða og spekúlera enda ég alltaf með poka fullan af einhverju glamúrdressi. Ég er eiginlega alveg viss um að ég þurfi á því að halda núna að kaupa mér föt. Það er nefnilega sú athöfn sem minnir mig mest á að halda mér við efnið. Ég er ekki viss um að það sé hægt að gera sér grein fyrir hvað þetta er erfitt. Að erfiða í ræktinni, að pæla allan daginn í kalóríum inn og kalóríum út, að reyna að breyta um áætlun, að halda sig við gömlu áætlunina, nota sálfræði, nota skynsemi, prófa viku án þess að borða neitt, allt þetta vesen og samt er enginn árangur á vigtinni. Ég sver að það eina sem ég dreg mörkin við er stólpípa. Þannig að þegar ég labba inn í verslun, tek af slá kjól í 16 og hann passar þá man ég eftir því hversvegna ég er enn að. Afhverju ég er ekki búin að gefast upp. Af því að er nánast ekki neitt sem jafnast á við að vera í mátunarklefa og vera í alvörunni ánægður með það sem maður sér í speglinum. Ekki bara ánægður með að maður er bara fínn á miðað við að vera 130 kíló, heldur í alvörunni ánægður með mann miðað við hvern sem er.

Ég er rosalega mikið búin að spá í þessu afhverju ég stend bara í stað. Ég les rosalega mikið af erlendum bloggurum og samkvæmt mjög óvísindalegri könnun komst ég að því að fólk sem aldrei hefur farið í megrun, fitnar bara í gegnum árin og svo einn daginn ákveða hingað og ekki lengra, gengur miklu betur að léttast en okkur hinum sem erum búin að vera í megrun alla ævi. Við megrunaratvinnumennirnir kunnum öll trixin, allar lygarnar, og ég er komin á þá skoðun að líkaminn hlusti ekki á okkur lengur. En ef ég held bara áfram, gefst ekki upp þá bara hlýtur þetta að fara einhvertíman. En ég verð að finna mér eitthvað annað til að minna mig á að halda áfram vegna þess að ég á ekki pening fyrir öllum þessum fötum. Bíllinn ónýtur núna og við þurfum að fara á morgun að kaupa nýjan. Sem þýðir að það er enginn peningur eftir til fyrir flugmiðum eða nýjum fötum. Er það nú ástand. En ég get samt ekki annað verið en glöð, það er föstudagur, ég spókaði mig um bæinn í pínlulitlum sumarkjól með sólgleraugu og fannst ég vera algjör gella og það er góð tilfinning. Mjög góð tilfinning.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Ekki vissi ég að það væru til milljón mismundandi tegundir af eplum. Eftir því sem ég vissi best þá voru til rauð epli og græn epli. En kemur svo bara ekki í ljós að það er endalaust val. Ég hélt alltaf að maður væri bara heppinn ef maður hitti á brakandi, safaríkt eintak og óheppinn ef bitið væri í lint og mjölmikinn óskapnað. En nei, nei það eru til granny smith og delicious red og bramley og chisel jersey og fern pippin og það besta í öllum heiminum; Pink Lady. Þau eru að sjálfsögðu þau dýrustu en ég smakkaði eitt óvart og nú er ekki aftur snúið. Pink Lady það er fyrir mig. Það er svo komið að þessi epli eru eiginlega uppáhalds ávöxturinn minn. Eftir öll ævintýrin í grænu og ég enda á gamla góða eplinu. Hitt sem ég er svo afskaplega svekkt yfir er að ég er bara alls ekki hrifin af sætum kartöflum. Þær eru svo hollar og góðar og ættu að vera eitthvað sem er fastur liður á matseðlinum og ég hef reynt allt, bakað, steikt, grillað, maukað, í súpu, í kássu, hvað sem er en, það er eitthvað sem ég gúddera ekki við bragðið og áferðina. Mjög leiðinlegt en svona er þetta bara. Það er bara ekki hægt að elska allt.

mánudagur, 14. júní 2010

Kvöldmaturinn í gær var ægilega góður og meira að segja Dave var hæstánægður þó svo að kjötið hafi vantað. Ég svissaði bara á pönnu lauk, hvítlauk, papriku, courgette og aubergine og kryddaði aðeins til. Hellti svo út á pönnuna dós af tómötum og smá vatni og lét þetta þykkna. Bjó svo til fjórar holur og skellti eggi í hverja holu og lét malla þar til eggin voru elduð. Bar fram með grófu brauði og húmmús. Ég keypti mér grænmetisréttamatreiðslubók sem er uppfull af svona djúsí uppskriftum og ég er uppveðruð í tilraunastarfsemi. Fjarlægð frá mat er ekki góð fyrir mig. Í tvær vikur hélt ég mig frá mat, gerði sálrænar æfingar sem áttu að kenna mér að matur er bara eldsneyti ekkert meira, og það gekk vel og ég held að ég hafi haft mjög gott að setja hlutina aftur svona í samhengi en það sem mikilvægast er að ég er alveg orðin sannfærð að fyrir mig virkar miklu betur að vera í nálægð við mat. Matur verður fyrir mér aldrei bara eldsneyti. Mér finnst gaman að elda og spá og spekúlera og mínum tíma er miklu betur varið í að finna bara holla og góða uppskrift, hugsa um matinn og hlakka til að borða hann í eðlilegri skammtastærð frekar en í æfingar sem að lokum skila mér bara í geðveikiskasti sem endar í dós af Ben and Jerry´s.

föstudagur, 11. júní 2010

Ekki veit ég alveg afhverju ég ákvað að ég ætti að vera 74 kíló. Svona þegar ég pæli í því þá hugsa ég að mér hafi fundist það vera hæfilega bjartsýnislegt og á sama tíma nógu þungt til að það væri ekki hægt að segja að ég væri að reyna að verða eitthvað örmjótt skar. Það er líka óskaplega þungt í mér pundið, eitthvað sem pabbi segir að sé í ættinni. Og þó ég segi sjálf frá þá hugsa ég að það sé ekki fjarri lagi, þegar ég er fallega klædd eru örugglega ekki margir sem giska á að ég sé næstum hundrað kíló. Ég setti upp plan þar sem ég vann að því að léttast um 10% líkamsþyngdar á hverjum þremur mánuðum. Þannig átti ég að léttast um 13 kíló frá mars og út maí, 11.7 kíló frá júní og út ágúst og svo koll af kolli. Þannig átti þetta að taka mig rétt um 18 mánuði. Það tímamark er nú útrunnið en ég er svo sem ekkert nojuð yfir því. Ég gerði alltaf ráð fyrir að þetta myndi í alvörunni taka lengri tíma. Og fór svo líka að skilja að "þetta" tekur meira en langan tíma, "þetta" er lífstíðarverkefnið mitt. Þetta er búið að vera upp og ofan hjá mér, sjálfri finnst mér ennþá að mér gangi rosalega vel og það án þess að vera að sýna fram á svakalegt fitutap að undanförnu. Jú, auðvitað öfunda ég smávegis fólk sem hríðléttist eins og fyrir kraftaverk, ég er jú enn með 74 kíló í huga, en mér finnst líka oft eins og að ég sé að þessu fyrir eitthvað svo miklu meira og merkilegra en að verða 74 kíló. Eins og til dæmis þetta. Ég grét allan daginn á miðvikudag af sársauka og af því að mér leið eins og ég væri svo mikill aumingi að þurfa að gefa hlaupin upp á bátinn. Á fimmtudag mætti ég ekki í ræktina heldur ákvað að leyfa líkamanum að jafna sig aðeins. Í morgun bætti ég svo 2.5 kílóum við hnébeygjurnar. 35 kíló plús 20 kílóa stöng. Djöfull er ég kúl. Ég hugsa að ég taki með mér myndavél næst. Og just like that hætti ég að gráta og finn mér nýtt takmark. Þessar tölur allar eru nefnilega bara teknar úr loftinu. Ég veit og sætti mig við að ég léttist afskaplega hægt og get bara ekki leyft mér að hengja hamingju mína á tölu á vigtinni. Það er einfaldlega of erfitt, of heartbreaking. Ég er ekki megrunarrokkstjarna, frekar svona megrunarþjóðlagasöngvari.

miðvikudagur, 9. júní 2010

Ég er hætt að hlaupa. Ég er með grátstafinn í kverkunum og er búin að halda aftur af tárum í allan dag en ég bara hef ekki um neitt annað að velja. Ég kláraði hnéð í morgun. Það er þannig komið að ég komst varla í vinnuna, skrönglaðist þangað einhvernvegin og þurfti að taka lyftuna upp á hæðina mína. Sat svo í allan dag hálfvolandi við skrifborðið mitt. Það er ekki að ég komi til með að sakna hlaupanna sjálfra svo mikið per se, mér finnst margt annað skemmtilegra í ræktinni, það sem er að hrjá mig er að tilfinningin er að ég geti ekki hlaupið af því að ÉG ER OF FEIT! Og ég hélt að mér myndi aldrei þurfa að líða þannig aftur. Það er hræðilegasta tilfinning í öllum heiminum, þessi ótti um að passa ekki í sloppinn, að brjóta plaststólinn, að geta ekki fest bílbeltið, að komast ekki í gegnum hliðið, að vera of feitur fyrir daglegt líf. En ég bara get ekki sett aðra hreyfingu í hættu fyrir hlaupin. Það er mikilvægara að ég haldi áfram sársaukalausri hreyfingu en að hlaupa. Mér finnst bara svo kúl að segjast hlaupa, ég held að fyrir utan að telja upp kíló í bekkpressu finnist mér ekkert flottara en að segjast hlaupa hina og þessa vegalengdina. Það er einhvernvegin toppurinn á að vera í góðu formi. Svo eru hlaupin líka svo tilfæranleg, það eina sem þarf eru góðir skór og i-pod og off you go. En svona er þetta, ég er bara of mikil hlussa. Ég er að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég sé öfug við alla aðra í heiminum og að það að ég hafi hætt að léttast þegar ég byrjaði að hlaupa. Það passar svona nokkurn vegin, ég byrjaði að hlaupa fyrir 4 mánuðum og hef staðið í stað síðan þá. Já, ég er örugglega eina manneskjan í öllum heiminum sem léttist ekki við að hlaupa. Að hugsa með sér! Einhvern vegin finnst mér það nú samt klén útskýring. Búhúhú!

mánudagur, 7. júní 2010

Hér er spennan aldeilis farin að magnast fyrir Heimsmeistarakeppni í fótbolta. Og ég sé aðeins meira af þessu í ár af því nú er ég að vinna í Englandi. Veilsverjarnir eru ekkert of spenntir fyrir að Englandi gangi of vel, ég man fyrir fjórum árum þegar allir hér í Wrexham flögguðu fánanum frá Trinidad og Tobago af því að einn af þeirra mönnum spilaði þá fyrir Wrexham. Og af því að Trinidad spilaði við England og allir hér vonuðu að England myndi tapa fyrir þeim. En af því að Wales er ekki með þá er lítið skreytt. En á vinnustaðnum mínum eru flestir enskir og þessvegna eru núna komnir fánar og blöðrur upp um allt. Við erum öll byrjuð að veðja um hitt og þetta og allskonar leikir í gangi. Ég dró út Grikkland og vantar núna að þeir vinni svo ég fái £100. Frekar ólíklegt en þeir unnu jú Evróputitilinn fyrir nokkrum árum síðan þannig að það má alltaf vona. Dave minn tekur þessu aðeins alvarlegra en ég og er búinn að plotta út alla leiki sem þarf að taka upp og er búinn að fara til veðmangarans og byrja að veðja. Svo notar hann það sem hann vinnur til að veðja meira og svo framvegis. Hann að sjálfsögðu óskar Englandi alls hins versta eins og sannur Veilsverji, þó það sé nú svona smá "tounge in cheek." Það er nú ekki jafn svakalegt eins og Simon vinnufélagi minn sem er Englendingur er vonaði að England tapi vegna þess að hann getur ekki hugsað sér að sjá liðsmann úr Man. U sem fyrirliða landsliðsins lyfta heimsmeistarabikarnum! Svona er það að vera frá Liverpool. Sem er reyndar allt breytt nú þegar Stevie G er orðinn kapteinn. Jæja. Ekki nóg með að ég hlaupi, lyfti lóðum og borði spínat heldur er ég núna farin að röfla um fótbolta. Ég er farin að ná í naglalakkið mitt til að vega aðeins upp á móti þessari vitleysu.

sunnudagur, 6. júní 2010

Ekki er laust við að ég hafi barist við heimþrá um helgina. Það er alltaf verra svona þegar eitthvað sérstaklega íslenskt og svo sérstaklega Þorlákshafnarlegt er að gerast eins og núna að missa enn og aftur af Sjómannadegi og Hafnardögum. Þannig að ég þurfti að passa að ég væri upptekin til að vera ekki í fýlu. Það er svo mikil tímasóun að eyða deginum í fýlu. Skrýtið samt hvað ég er enn ekki alveg tilbúin til að flytja heim. Ég og Lúkas fórum þessvegna í glampandi blíðu til Chester á meðan Dave greyið fór í vinnu. Og gerðum það sem okkur finnst allra skemmtilegast í öllum heiminum: eyddum peningum sem við eigum ekki til. Það er nefnilega svo gaman núna að geta bara labbað inn í búðir og séð eitthvað á rekkanum, farið og mátað og það ekki bara passar heldur er stundum of stórt! Hver hefði trúað að þetta myndi einhverntíman gerast? Við eyddum dágóðum skilding í GAP, enda barnafötin þar æðisleg og Láka bráðvantaði stuttbuxur og boli. Sjálf fékk ég afskaplega fallega blússu og svo æðislegan kjól í Next. Við spókuðum okkur um, það er alltaf svo gaman að labba um Chester, ég mæli eindregið með henni sem helgarferðarborg, frábært að versla, æðislegir veitingastaðir, gott skemmtanalíf og svo ofboðslega fallegar byggingar. Og svo er náttúrulega hægt að heimsækja mig. Reyndar mæli ég með Wrexham líka, hér er ódýrt að versla og mikið stuð um helgar en kannski ekki jafn menningarlegt og í Chester. Hér búa nefnilega mestmegnis druslur og dólgar. Við fengum okkur Frappucino og Lúkas fékk sér ostaköku. Spekúleraði svo mikið í því afhverju honum þætti ostur vondur en ostakaka góð. Ég er í góðum gír með "fjarlægð frá mat" æfingarnar mínar. Er komin á það stig þar sem mér er svona nokkuð sama um mat, borða bara af því að ég á að gera það. Þetta hentar mér rosalega vel núna, mig vantaði að taka allan æsing og spenning úr neyslunni, til að reyna að læra að þekkja líkamlegt hungur frá sálrænu hungri. Þetta er sko allt í heilanum á mér. Ég varð síðast svöng í alvörunni 1983. Síðan þá hef ég borðað af því að mig "langar í eitthvað gott" en ekki af því að ég er svöng. Og er núna ófær um að þekkja skilaboð frá líkamanum um að ég sé svöng. Ég get sleppt því að borða í tvo til þrjá daga án þess að finna sérstaklega til hungurs svo lengi sem ég fæ að drekka. Og það er náttúrulega ekki eins og það á að vera. Þannig að þessar tilfæringar allar hafa skilað mér svona ágætis skilning á líkamann og hvað hann þarf. Og svo er ég að læra að aðskilja það sem heilinn segir mér að ég þurfi. Og "eitthvað gott" er oftast skilaboð frá heilanum, ekki mallakút. Ég er aðeins búin að léttast þessa viku en ég er meira að fylgjast með hvernig ég passa í buxur sem eru núna aðeins of litlar frekar en vigtinni. Ég vigta mig eiginlega bara af gömlum vana núna og til að setja það inn í spreadsheetið mitt. Ég get ekki hætt að fylla það inn núna, ekki eftir svona langan tíma.
Í dag ætlum við svo í göngutúr, við ætlum að fara á opin sveitabæ þar sem hægt er að rölta um, tína jarðaber og gefa litlum dýrum gras. Það er alltaf gaman að gefa kanínum. Alveg jafn gaman og að vera á Hafnardögum.

fimmtudagur, 3. júní 2010

Nú er það ljótt. Ég gersamlega maukaði á mér hnéð í morgun. Og ef þetta væri ekki svona vont þá væri ég flissandi yfir hvað ég er mikill gonkóli. Ég var komin á góðan sprett, var rétt að komast að erfiða kaflanum á þriðja kílómetra þegar eitt af "guilty pleasures" hallærislegu lögunum mínum kom á i-poddinn. Og án þess að muna eftir því að ég var á 10 km hraða byrjaði ég eitthvað að slá trommutaktinn út í loftið, missti hlaupataktinn og snéri upp á hnéð svona líka svaðalega. Það er núna fjórfalt á þykkt og það er meira að segja blár blettur á því sem hefur aldrei gerst áður, svona eins og það hafi blætt eitthvað þarna inni í því. Þannig að enn eru hlaupin komin á smá pásu. Ég get illa labbað, hvað þá hlaupið. Ég er ekki hætt, andskotakornið ég hætti ekki að hlaupa fyrr en það detta af mér táneglurnar, en ég verð að taka smá pásu. Verst þykir mér ef þetta þýðir að ég geti ekki gert hnébeygjur (squats) því ég er komin upp í 40 kíló þar og vil allsekki stoppa núna. Ég er nefnilega ekkert smá kúl með stöngina á öxlunum. Sjáum til í fyrramálið.

miðvikudagur, 2. júní 2010

Mér datt í hug í morgun að ég er lukkunnar pamfíll. Lukkan er yfir mér. Það er fullt af fólki út um allan heim sem á sér draum, draum sem er ólíklegt að nokkurn tíman rætist. Eins og til dæmis allt þetta fólk sem þráir ekkert nema að verða frægt. Og reynir alla ævi en samt endar það bara sem kennarar eða útvarpsmenn eða sjómenn eða leigubílstjórar eða þjónar. Eða fólk sem dreymir um að komast til tunglsins. Það eru nú ekki margir sem geta látið þann draum rætast. En minn draumur er algerlega undir mér kominn. Hann hefur ekkert með heppni, eða annað fólk eða að vera réttur maður á réttum stað að gera. Það er ekkert í mínum draumi sem er undir örlögum komið. Það eina sem ég þarf að gera til að láta minn draum rætast er að borða rétt og hreyfa mig. Er ég ekki bara svo heppin alltaf hreint?

Já, já, enough of the mumbo jumbo. Hvað er planið? Júmm ég er þessa dagana að þjálfa hugann. Ég er að reyna að skapa ákveðna fjarlægð frá mat. Ég er að gera allskonar æfingar sem sýna mér og kenna að matur er bara matur, bara eitthvað til að veita líkamanum orku. Matur skiptir ekki svo miklu máli og er ekki það sem lífið snýst um. Ég er að prófa mig áfram með þetta og so far, so good. Mest megnis er ég bara að borða svona frekar leiðinlegan mat. Ekkert sem æsir mig upp, en nógu mikið til að ég sé ekki svöng og vonsvikin. Og svo geri ég æfingar sem neyða mig til að hugsa ekki um mat. Smá erfitt það. En batnandi manneskju er best að lifa og svona er þetta núna; ég er batnandi. Það væri ósköp gaman ef ég gæti bara gert þetta án allra þessara æfinga, ef ég gæti hætt að þurfa að pæla svona mikið í þessu öllu saman. Stundum hugsa ég með mér að ef ég hætti bara að pæla og fer að gera þá væri þetta kannski bara auðveldara. En svo man ég að það var það sem ég gerði þangað til ég varð næstum 130 kíló og umfaðma bara allar æfingarnar. Réttstaða, lyfta!