mánudagur, 31. október 2011

Í dag einbeiti ég mér að því að vinna að því að fá breiðari herðar, frekar en að óska eftir léttari byrði. 

sunnudagur, 30. október 2011

Í dag lauk næst síðustu vikunni á 10 km hlaupanámskeiðinu sem ég er á. Síðasta vikan byrjar á þriðjudag og svo er það bara að setja fratgeltu í rassgatið og hlaupa 10 kílómetra. Ég endurtók hraðaprófið sem við tókum í viku tvö núna í morgun. Bætti tímann minn um 5 sekúndur. Ekkert stórfenglegt. En samt hraðar en þeir sem enn eru sitjandi á sófanum.

Við Lúkast stússuðumst svo við að búa til hrekkjavöku cupcakes. Skreyttum þær með smjörkremi og nammi. Þetta var að sjálfsögðu voðalega skemmtilegt og það sem var erfiðast var að leyfa honum bara að búa til sín eigin skrýmsli, og vera ekki að fetta fullkomnunarsinnafingur út í vinnuna hans. Sjálf var ég rosalega ánægð með mína hönnun, bjó til legstein úr Oreo kexi, skrifaði R.I.P á hann með bræddu súkkulaði og lét tvo sykurpúða drauga svífa um legsteininn. Og Jack Skellington tóks líka rosalega vel. Þetta var auðveldara verkefni en að skera út grasker eins og við gerðum í fyrra, þó það hafi verið rosalega flott þá var það alveg svakaleg vinna. Og án þess að röfla of mikið um það þá er ég kúguppgefin. Ég er búin að vera að vinna í 10 og 12 tíma á dag, 6 daga vikunnar í dálítinn tíma núna og það er allt komið í hönk hjá mér. Ég hef reynt að passa upp á lífstílinn og hlaupin en annað hefur alveg farið í vaskinn hjá mér. Það er drulluskítugt hérna heima, við búum orðið í sífellt smærri hring í miðjunni þar sem drullug hornin stækka sífellt, ég hef ekki tekið upp skólabækur svo vikum skipti og ég get veitt Lúkasi lágmarks athygli. Ég sé hann í klukkutíma á dag. Það er allt og sumt. Lukkan yfir okkur að hann er vel af guði gerður og þarf ekki mikið að láta ala sig upp.

Bloggið hefur líka þjáðst aðeins, allt sem ég er að spá og pæla kemst aldrei niður á blað almennilega. Ég er með svakalegar pælingar um "Healthy at Every Size" hreyfinguna og hvernig ég passa þar inni í. Sá pistill bíður betri tíma. Ég vigtaði mig reyndar í gær í fyrsta sinn í margar vikur og það er gaman að segja frá því að ef fer sem horfir þá er 85 kg mynd væntanleg innan skamms. Það væri nú skemmtilegt.

miðvikudagur, 26. október 2011

Skink´og ostur hvað!
Mánuðurinn senn á enda, og þar með buddan jafn galtóm og búrið. Ég fæ ofbirtu í augun þegar ég opna ísskápinn, og það má jafnvel heyra þar bergmál. En það er ekki hægt að gefast upp og á þessum síðustu og verstu verður maður að nýta sér það litla sem maður finnur aftast í matarkistunni. Og það verður líka að halda áfram að fylgja lögmálunum um hollustu ofar öllu. Ég á alltaf til dós af kjúklingabaunum. Og hvítlauksgeira og smávegis ólívuolíu. Stundum er ég heppin og á smá tahini líka. Ég get sem sagt eiginlega alltaf smellt í smá húmmús. Og þegar maður á húmmús er allt hægt. Ég á það líka til að passa að eiga alltaf nokkrar gulrætur. Ég átti líka til inni í frysti ægilega góðan hlunk af grófu brauði sem ég hafði bakað fyrir nokkru. Og datt í hug að ég hafði einhverstaðar séð gulrótarsamloku. Þannig að það var það sem ég gerði. Raspaði niður gulrót, blandaði við hana matskeið af húmmús og smurði svo blöndunni á brauðið. Kryddaði aðeins með svörtum pipar og hey prestó! Besta samloka sem ég hef nokkurn tíman borðað. Hádegi í vinnunni var hreinn unaður. Voðalega er gaman að bjarga sér.

sunnudagur, 23. október 2011

Ég var þreytt í dag. Ég er búin að vinna og hlaupa og hlaupa og vinna, og fá lítinn tíma til að slaka á. Og þetta á eftir að halda áfram. Í dag sagði líkami minn því við mig að ég ætti að taka því rólega. Mig langaði smávegis út að hlaupa en ég fann það að það var ekki góð hugmynd. Ég er enn að venjast auknum kílómetrafjölda og með annarri líkamsrækt sem ég stunda er bara nauðsynlegt að leyfa kroppnum að fá smá pásu líka. Og það sem er allra mikilvægast; að leyfa mér að skilja að frídagur er ekki neitt til að hafa samviskubit yfir heldur nauðsynlegir til að geta haldið áfram og orðið betri í því sem ég er að gera. Þannig að ég gerði það sem ég geri best til að slaka á, stússaðist í eldhúsinu. Byrjaði á alveg hrikalega óhollum brauðbollum sem ég kalla norskar enda minna þær mig á brauðbollurnar sem ég fékk hjá Ástu (Tynes) í noregi. (30 ár liðin og ég man enn bragðið). En ekkert veit ég betra en að bera nýbakað og nýuppáhellt á borð og sitja við rólegheitaspjall yfir sunnudagsbrunchi með strákunum mínum. Og finn stressið líða úr líkamanum. Svo var það venjulegt bras við múffur, nú með hnetusmjörsdropum og pestoeggjamúffur. Svo prófaði ég mig áfram með "crackers" bakaðar úr kjúklingabaunum og endaði á bauna-og brokkólí carbonara.

Baunacarbonara
Það er mikill misskilningur að carbonara sé þykk rjómasósa sem er bannvara fyrir okkur fitubollurnar. Alvöru carbonara er búin til úr pancetta, eggi og parmesan. Og það var það sem ég gerði. Breytingin frá hefðbundnum ítölskum rétti var fólgin í að sleppa pastanu og bæta inn baunum og brokkólí. Ég létt steikti örfáa pancetta bita á pönnu með mörðum  hvítlauk og smellti svo dós af smjörbaunum þar út á og hitaði í gegn. Á meðan gufusauð ég tenderstem broccoli. (það er brokkíló með lengri stilk, ég veit ekki hvað það heitir á íslensku. Næst ætla ég reyndar bara að nota venjulegt brokkólí því það er auðveldara að dreifa sósunni um það) Ég hafði hrært saman einu eggi og uþb 35g af rifnum parmesan, saltaði og pipraði og hellti svo pancetta, hvítlauksblöndunni út í brokkoli pottinn. (Ég held reyndar að betra væri að hella eggjablöndunni út á pönnuna eftir að taka hana af hitanum. Hræra út og hella svo brokkólíinu þar út í.) Þar út í fór svo eggjahræran og ég hrærði vel til að láta hitann elda eggið. Skreytti svo með ristuðum furuhnetum. Ekkert pasta, en þetta verður miklu hollara með baunum og alveg frábær máltið. Og ég ætla að fara með með mér kalt í vinnu á morgun.

1 hvítlauksgeiri, marinn
2 msk pancetta bitar eða 2 sneiðar fitulítið beikon, smátt skorið
1 msk EVOO
1 dós smjörbaunir
200 g tenderstem brokkólí (eða venjulegt brokkólí)
1 egg
35 g ferskur parmesan
salt og pipar
ristaðar furuhnetur til skrauts

laugardagur, 22. október 2011

Í þessari viku er ég búin að hlaupa 21 kílómetra. Er það ekki hálft maraþon?

fimmtudagur, 20. október 2011

Mér þykir ekki mikið um að vakna snemma. Það er bara fínt. Það er það sem ég geri. Mér líkar líka ágætlega við rigningu, hún flækist ekki fyrir mér og þá ekki heldur myrkrið. Mér er ekki vel við rok en sem betur fer var ekkert rok í dag. Mér þykir líka bara fínt að mæta þessum örfáu hræðum sem eru á ferli á sama tíma og ég þó flestir stari á mig í forundran. Mér þykir reyndar voða skemmtilegt þegar ég hleyp framhjá náunganum sem stendur á sínu horni að bíða eftir farinu sínu því hann hvetur mig áfram með hrópum og köllum og í morgun æpti hann "go you superwoman you!" Það er ekki klént að vera súperkjelling, ekki ætla ég að efa það. 


Ég var með plan í dag. Ég hljóp hægt í tuttugu mínútur, meðal hratt í næstu tuttugu, hægt í fimm og svo súperhratt og hægt til skiptis í mínútu hvort í síðustu fimm mínúturnar. Og ég hljóp og hljóp, leið eins og milljón kalli og fannst eins og ég hefði hlaupið hraðar og lengra en nokkru sinnum fyrr. Þannig að ég verð að viðurkenna að ég var svekkt þegar ég sá að ég hafði bara farið 7.5 km á 50 mínútum. 

Mig langar til að hlaupa hraðar. Ég er ekki að bera mig saman við neinn, mig langar bara til að geta hlaupið þannig að ég finni almennilega fyrir því í langan tíma. Mig langar til að geta gert eitthvað sem fyrir nokkru síðan var óhugsandi. 

Mig langar til að finna að ég sé að sýna framfarir, að ég sé að verða betri en ég var í gær. Ég sé engan tilgang í að hlussast áfram á 7 mínútum á kílómetrann endalaust. Og ég er komin niður á að ég þurfi að vera léttari til að geta hlaupið hraðar. Að það sé einfaldlega ekki líkamlega mögulegt fyrir mig að auka mikið hraðann á meðan ég er enn þetta þung. Mér finnst það liggja í augum úti. 


Þannig að ég þarf að léttast meira. 



En hér er vandamálið. Ég er, í fyrsta sinn síðan ég var átta ára, í alvörunni hamingjusöm í sambandi mínu við mat. Ég er ekki reið, hrædd, skömmustufull, klikkuð, sár eða full gremju. Við erum í fullkomu jafnvægi. Ég borða hollan, óunninn mat að mestu leyti og öðruhvoru borða ég vitleysu. Ég borða að mestu leyti rétta skammtastærð. Akkúrat núna er ég að borða kalóríur sem viðhalda líkamsþyngd minni. Mér finnst ég voða fína og sæt, og ég er í alvörunni ánægð með sjálfa mig. Og ég er að klandrast með þessar tvær andstæður. Að vilja léttast meira en vera hamingjusöm á sama tíma. Mig langar bara alls ekki til að stugga við þessu nýfundna frelsi mínu frá öllum þessu veseni sem hefur verið að plaga mig í næstum 30 ár en mig langar líka í alvörunni til að léttast meira. Hvernig á ég að koma þessu heim og saman?

miðvikudagur, 19. október 2011

Hugmynd sem þarf að skoða betur; borða ómeti með vinstri hendi. Brýtur vana og gerir átið erfiðari athöfn.

þriðjudagur, 18. október 2011

Pekankubbarnir lukkuðust rosalega vel og ný uppskrift að baunacarbonara komin í undirbúning. Þarf að setja niður á blað áður en ég gleymi.

mánudagur, 17. október 2011

Tomato ketchup cheddar frá Alex James
Ég fékk vikulega matarsendinguna frá ASDA núna í kvöld. Online shopping hefur gersamlega breytt hvernig ég eyði frítíma mínum og bara til hins betra. Sem þáttur í breyttum og bættum lífstíl er matarverslun á netinu gersamlega ómetanlegur. Þegar maður sér ekki vitleysu, kaupir maður ekki vitleysu. Einfalt. Stundum poppa þó upp tilboð og kynningar á hinu og þessu sem ég tek eftir. (Núna eru Quality Street Makkintoss dósir á tilboði; 2 kíló af súkkulaði á fjögur pund og fimmtíu. Gott að ég bý yfir viljastyrk úr stáli!) Um daginn sá ég auglýstan ost sem ég stóðst bara ekki að kaupa. Man einhver eftir hljómsveitinni Blur sem var ægilega vinsæl á níunda áratugnum ? Alex James sem var bassaleikarinn er núna orðinn bóndi og býr til osta. Og ostarnir hans voru á tilboði í ASDA. Ég hreinlega varð að prófa. Og ekki skemmdi fyrir að osturinn er eins og blautur draumur frá mér; með tómatsósubragði.
"Við erum það sem við gerum endurtekið. Að vera framúrskarandi er þar af leiðandi ekki einstakur viðburður heldur vani." -Aristoteles. 

sunnudagur, 16. október 2011

Ég hleyp, ég fer í vinnu, ég kem heim, ég stússast, ég sofna. Ég hleyp klukkan fimm, er farin í vinnu klukkan 7 og kem heim rétt fyrir 7 tólf tímum síðar. Og líka á laugardögum akkúrat núna. Ég er kúguppgefin en þetta er vonandi bara tímabundið ástand. Og þess virði. Hljóp 10 km í morgun. Bara af því mig langaði til að prófa. Tók mig 75 mínútur en þar innifalin er Gutter Hill. Sem er brekka. Er að hanna pekan kubba núna. Er dálítið þreytt.

þriðjudagur, 11. október 2011

Ég eyddi alveg hreint sérstaklega áhugaverðum klukkutíma hjá "osteopath" eftir vinnu í dag. Hann er ekki sjúkraþjálfari, ekki hnykkjari og ekki nuddari. En eitthvað á þá leið. Ég pantaði tíma hjá honum af því að ég er náttúrulega alltaf með smá verki í hnénu og vildi bara fá að vita hvað ég get gert til að stjórna sársaukanum betur, eða hvort það sé hægt að lækna mig eða hvort hún detti kannski bara af mér löppin innans skamms. Aðallega var ég að hafa áhyggjur af því að hlaupin séu kannski ekki það sniðugasta fyrir mig. Og þegar ég fékk síðan verkinn í ökklann um daginn ákvað ég að það væri virkilega kominn tími til að fara í yfirhalningu.

Ekkert nema góðar fréttir. Ég er með laust hné. Allar sinar og það í kringum hnéð er teygt og togað og það skrollar allt til. Þannig að ég læsi hnénu allt of mikið til að reyna að koma í veg fyrir hnykk. Þetta er ekki hægt að laga en það er hægt að gera ástandið skárra með því að styrkja alla vöðva þar í kring. Ég fékk nokkrar æfingar hjá honum til að gera til að styrkja mig. Ökklinn er bara eðlilegt hlaupara mein og með því að teygja betur á get ég komið í veg fyrir að það gerist aftur. Og ég má hlaupa eins og mig lystir. Ég gæti sjálfsagt valið skárri líkamsrækt, með minna álagi á hnén. En ef ég geri æfingarnar mínar og reyni að halda líkamsþyngd í eðlilegu horfi þá er ekkert því til fyrirstöðu að ég hlaupi eins og vindurinn.


Og talandi um að hlaupa í vindinum; men hvað það var mikið rok í morgun! En ég læt það ekki á mig fá, treð mér bara í húfu frá Láka mínum og rúlla mér út. Tæpir átta á 50 mínútum. Allt að koma.

sunnudagur, 9. október 2011

Ég bakaði pizzu í gærkveldi. Laugardagskvöld, við þrjú saman hér heima, horfandi á laugardagsskemmtiefni í sjónvarpinu og maulandi heimagerða pizzu. Næskvöld. Lúkas fékk svo súkkulaðimús í eftirrétt, ég og Dave heimagerðan latte. Voðalega gott. Það var ýmislegt sem var frábrugðið við þessa pizzu og aðrar sem ég hef gert. Vanalega myndi ég setja volgt vatn, ger og olíu í skál og sulla svo hveiti þar út í þar til ég var ánægð með áferðina. Þessi aðferð skilaði mér vanalega tveim vænum pizzum þannig að ég gat gert tvær bragðtegundir ásamt því að borða þangað til ég gat ekki meir og samt átt afgang til að fá kalda sneið í morgunmat. Það var mjög mikilvægt að búa til sem stærstu deiglummuna til að fá sem mestu pizzuna út úr því. Í kvöld breytti ég til. Í fyrsta lagi þá fylgdi ég uppskrift. Það er mjög óvanalegt fyrir mig. En mig langaði bara til að fá "rétta" skammtastærð. Og ég verð að viðurkenna að pizzudeig samkvæmt ítalskri uppskrift sem á að fæða fjóra virkaði oggulítið. Svo lítið að gamall svitaskjálfti tók sig aftur upp örsnöggt. (Það er ekki möguleiki að þetta sé nóg, ég fæ ekki nóg að borða ómægod ómægod ómægod) en svo sló ég á þá hugsun og minnti sjálfa mig á að ég hreinlega þarf ekki allt þetta magn lengur, þetta snýst um gæði ekki magn. Og ef ég verð aftur svöng, nú þá fæ ég mér bara meira að borða. Bjó til eina pizzu fyrir okkur þrjú, setti í hana alla mína ást og hún var alveg hrikalega góð. Við fengum öll nóg að borða og öllum leið vel í maga og sál á eftir. Hitt sem var svo eiginlega enn meira frábrugðið því sem vanalega gerðist var það að ég bakaði pizzu yfir höfuð. Pizza er nefnilega einn af kveikjumatnum mínum. Eitthvað sem ég borða og það verður svo til þess að ég get ekki hætt að borða. Og ekki bara pizzuna, það að borða hana virtist alltaf bara vera byrjunin, það sem gaf mér grænt ljós á að troða hverju sem mér datt í hug í andlitið á mér. Þannig að ég forðaðist bara orðið að hafa pizzu á boðstólum. En í gærkveldi gaf ég sjálfri mér leyfi til að borða pizzu, njóta hennar í botn og minna sjálfa mig á að ég gæti fengið mér pizzu hvenær sem er þannig að það var engin ástæða til að haga mér á "síðasta pizzan ever" mátann. Og svo hitt að ég væri ekki viljalaus aumingi. Að ég get fengið mér pizzu og látið þar við sitja. Að pizza er pizza og hún er rosalega góð en þýðir ekki open season á nammirekkann í kaupfélaginu. Og það var það. Ég átti mitt næskvöld með minni míní fjölskyldu með pizzu í eðlilegri stærð og það var allt og sumt. Hversu frábært er það?


Í morgun var svo sunnudagur samkvæmt venju; ég úti að leika mér með sippuband, (þarf ég að útskýra það eitthvað frekar?) bakstur fyrir vikuna, tilraunir með sætabrauðsbakstur úr sætum kartöflum og gulrótum (geggjað ristað með hnetusmjöri og jarðaberjasultu) þrif, heimanám (ég og Lúkas) og almenn afslöppun. Læt uppskriftina fylgja. Þurrt saman. Í annarri skál blanda olíu og hunangi og svo eggjunum einu í einu. Svo vanilla, kartöflumauk og gulrætur þar út í. Svo þurrt smá saman við og blanda varlega. Í aflangt brauðform og baka í 45 til 50 mínútur. No problem.




1/4 bolli kókosolía
1/2 bolli hunang
2 egg
120 ml sojamjólk
1/2 bolli sæt kartöflumauk
1 bolli rifin gulrót
1 tsk vanilludropar
1 og 3/4 bolli heilhveiti
1/2 bolli grófir hafrar
1/4 bolli flax (ég veit ekki hvað þetta heitir á íslensku, þetta eru "flaxseeds" sem hafa verið mulin niður í hveitikennt ástand, sneisafullt af omega3)
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
3/4 msk kanill
1/2 tks múskat

fimmtudagur, 6. október 2011

Það beið mín hérna umslag þegar ég kom heim úr vinnu í kvöld. Númerið mitt í kapphlaupinu 4. desember! Nú er þetta sko orðið alvöru.

miðvikudagur, 5. október 2011

Ég fattaði að djúpúðgan og viskan sem ég lét frá mér í gær gæti leitt fólk til að halda að ég hafi ekki farið út að hlaupa. Þvert á móti þá hljóp ég og hljóp. Og hljóp. 8.2 kílómetra allt í allt á klukkutíma. Svartamyrkur úti klukkan fimm að morgni til. Það var eins og ég væri ein í heiminum. Bara ég og skugginn minn og stjörnurnar. Ég horfði á skuggann minn á gangstéttinni og reyndi að greina hvaða hlaupastíl ég hef. Ég er nánast í 90 gráðu vinkli, mig grunar að brjóstin togi mig niður á við. Bölvað þyngdaraflið. Ég verð að reyna að rétta úr mér. Ég nota hné og fætur kolvitlaust, hoppa allt of mikið. Ég naut hinsvegar í botn að sjá pínkulítið mittið mitt ásamt mjúkri línu mjaðmanna. Stórglæsileg. Ég er alltaf að verða þolmeiri og þolmeiri, hljóp í 40 mínútur án þess að stoppa í síðustu viku og plana 45 í fyrramálið. Eins mikið og ég nenni ekki að telja kalóríur þá gat ég ekki annað en tekið eftir að i-pod hafði talið til einar 700 kalóríur brennt á síðasta hlaupi. Ekki slæmt. Það er stundum skrýtið að hugsa til þess að það er ekki svo langt síðan að svona líkamsrækt var út úr myndinni. Ég gat varla labbað hvað þá hlaupið. Ég man í fyrst sinnið sem ég hugsaði þessa hugsun var þegar ég fór á trampólín í fyrra sumar. Ég var þá rétt undir hundrað kílóum og aðvörunarmiðinn sagði max weight 100 kíló. Það var þá sem ég í alvörunni skildi frelsið sem felst í því að geta hreyft sig óhindrað. Það var geggjað, upp og niður, boing boing. Og það er ennþá geggjaðra að fara út að hlaupa. Nei, það er sko ólíklegt að ég sleppi því að hlaupa.

þriðjudagur, 4. október 2011

Það er ólíklegt að maður sjái eftir því að fara út að hlaupa. Að ákveða að sleppa því er hinsvegar líklegra til að bera með sér eftirsjá.

sunnudagur, 2. október 2011

Mér fannst ég vera ægilega sniðug í dag. Þrátt fyrir vott af þynnku sem þýddi að ég nennti alls ekki að taka skemmtiskokkið mitt í dag, var ég ægilega skipulögð hvað matseld varðaði. Ég eldaði létta sunnudagsteik og útbjó í leiðinni salatið fyrir næstu viku. Ég sauð quinoa og þegar það var tilbúið hellti ég einni dós af blönduðum baunum þar út í. Kryddaði svo til með bláberjasaltinu góða, teskeið af hunangi og teskeið af ólífuolíu. Ég hafði líka skorið niður eitt butternutsquash (hvað heitir það á íslensku?), einn rauðlauk, eina rauða papriku og nokkra hvítlauksgeira. Velti svo upp úr balsamic, olíu, hunangi og kryddi og grillaði svo inni í ofni í 45 mínútur. Hellti svo þar út í afgangnum af gulrótum og rósakáli sem var í hádegismat og blandaði svo að lokum þessu öllu saman við quinoa - baunablönduna. Á núna inni í ísskáp salat sem ég get gripið með mér í hádegismat alla vikuna. Set bara mismunandi kál eða spínat með og breyti kannski um dressingu. Prófa tahini sósu, eða set balsamic sýróp. Gríp svo með mér rósmarín bollu og ég eins hamingjusöm og hægt er. Fallegt og hollt. Það má vera að ég hafi fengið einum og mörgum bjórum í gær (segi kannski þá sögu síðar) en ég er nú samt enginn vitleysingur og læt þynnku- fitu og sykurlöngunina slá mig út af laginu. Ekki hana mig.

laugardagur, 1. október 2011


View Larger Map


Af því að það er laugardagur og ég hef meiri tíma en ella ákvað ég í gærkveldi að skora aðeins á sjálfa mig í dag. Í dag var komið að því að hlaupa til Wrexham. Ég er búin að búa hérna í 8 ár og hef aldrei farið þessa leið á tveim jafnfljótum. Ekki neitt svakaleg skrýtið við það, þetta er svona eins og að rölta úr Árbænum og niður í bæ og ég held að fólk geri það ekkert reglulega.  En samt. Spáin sagði 30 stiga hiti, það er laugardagur og mig bráðvantaði að setja sjálfri mér eitthvað til að keppa að. Það eru bara um það bil 7 kílómetrar frá Rhos, þar sem ég bý, og niður í miðbæinn í Wrexham. Ég herptist öll upp við af spenningi við tilhugsunina. Hluti af mér hugsaði að þetta væri styttra en ég héldi, hluti af mér hugsaði að þetta væri lengra en ég sé fyrir mér.Tilhugsunin um að hlaupa leið sem ég hef alltaf séð fyrir mér sem keyrslu var mjög skrýtin.  Ég ákvað að setja strætókortið í vasann þannig að ég gæti farið eins langt og ég kæmist og tekið svo bara strætó til baka. Setti svo 2 pund í vasann lika af því að ég er ekki vön að hlaupa með vatn og datt í hug að ég gæti þurft að kaupa mér eitthvað að drekka þegar þessu væri lokið. Reiknaði svo smávegis í huganum, og sá fyrir mér að þetta ætti að taka 50 mínútur. Ég á að fara með Láka í sundtíma klukkan 9:45 þannig að til að komast til Wrexham og aftur til Rhos með strætó, í sturtu og svo aftur til Wrexham til að fara í sund, væri best að leggja í hann ekki mikið eftir 7:00.

Lagt af stað í glampandi sólskini
Ég spratt á fætur, hress og kát, gerði morgunverkin, smellti mér í gallann og lagði af stað. Ákvað að labba niður Gutter Hill og að Johnstown þar sem ég myndi byrja að hlaupa. Gutter Hill er snarbrött brekka og mér fannst einhvernvegin eins og það væri að svindla að hlaupa niður brekku. Strategían var svo  10 mínútna hægt upphitunarhlaup og svo þrír 10 mínútna meðalhraðir kaflar með röskri tveggja mínútna hvíldargöngu inn á milli. Ég labbaði því niður í Johnstown og byrjaði að hlaupa hjá New Inn pöbbnum. Og átti í mesta klandri með að hægja á mér. Það var svo gaman að hlaupa í nýju umhverfi, og ég var svo spennt að sjá hversu langt ég kæmist. Ég mætti nokkrum öðrum hlaupurum á leiðinni og allir brosa og segja hiya! sem mér fannst voða skemmtilegt. Ég stoppaði hjá Dee Vallley Water eftir 10 mínútur og teygði vel á. Lagði svo aftur af stað og hljóp súperhratt í 10 mínútur alla leið að Rhostyllen. Blés í eina mínútu og lagði svo aftur af stað. Næsti kafli framhjá Erddig og kirkjugarðinum var rosalega erfiður enda hrikaleg brekka upp á við á þar. Ég fór hana nú samt og var nú komin í Wrexham. Pústaði aftur í eina mínútu og lagði svo aftur í hann. Var greinilega orðin þreytt þegar þar var komið því ég var á 7 mínútna á km meðalhraða en sá samt að ég þyrfti að bæta við smá hring um Bellvue Park ef ég ætlaði að enda á strætóstoppistöðinni. Tók 800 metra hringsól þar um og svo aftur á aðalgötuna inn í miðbæinn og endaði hjá slökkviliðstöðinni. Allt í allt 40 mínútur af hlaupum og 6.02 km á hlaupum. Með labbi var þetta 7 kílómetrar. Ég get enn ekki hætt að brosa ég er svo ánægð með sjálfa mig og afrekið. Þetta var ekki neitt hrikalega langt og ég á eftir að hlaupa lengra í framtíðinni en svona sem andlegt afrek var þetta alveg frábært. Ég hefði aldrei trúað að ég gæti hlaupið þessa leið. Tilhugsunin er svo framandi.

Mmm brunch!
Við fórum svo í sundtíma og ég fékk síðan brunch í Wrexham. Hér er hitinn farinn að slaga upp í 30 stig. Ótrúlegt í október en engu að síður mjög velkomin sumarauki. Við sátum úti og borðuðum croissant og drukkum fínt kaffi og nutum sólarinnar. Í kvöld ætlum við svo að skella okkur á pöbbinn. Lúkas er að fara í sleepover og við ætlum að rölta á New Inn og hitta Tracy og Garry og fá okkur nokkra kalda. Ég er búin að setja Bulmer´s í kæli og hlakka ægilega til. Það er ekki oft sem við förum út. En hver getur setið inni í svona veðri?