fimmtudagur, 30. október 2008

Ég er með svona æsings-, kvíða-, vesenis-, tilhlökkunarhnút í maganum. Ég er að taka dálítið mikið að mér í einu og þarf núna aðeins að setjast niður og anda í gegnum nefið.

þriðjudagur, 28. október 2008

Já nú gerðist margt í einu, eins og maðurinn sagði. Ég sagði upp í vinnunni og staðfesti dagsetningu á nýju vinnunni, fór í fyrsta ökutímann, fann út að ég hef ekki tíma til að koma heim og heimtaði að mamma og pabbi kæmu hingað í staðinn til að koma með jólasteikina. Já, margt í einu heldur betur. Það er náttúrulega leiðinlegt að komast ekki heim en að sumu leiti auðveldara að fá bara mömmu og pabba hingað, ég held að það sé erfiðara fyrir mig tilfinningalega að koma heim og í svona stuttan tíma enn verra. Nú er bara að þjösnast í gegnum bílprófið.

sunnudagur, 26. október 2008

Ég fór á rúntinn í fyrsta sinn hér í Bretlandi í dag. Við skildum Láka eftir hjá Heather og ég tók svo smá hring á lítt förnu svæði. Þvert á það sem ég hafði haldið þá var ekkert mál að keyra, tæknilega hliðin lá alveg fyrir mér. Ég gat skipt um gír og fannst það allt ekkert mál, enda góður bíll og gott að keyra hann. En ég verð að viðurkenna að tvisvar þeyttist ég eftir götunni, vitlausu megin. Skrýtið að eftir rúm fimm ár hérna er enn eðlilegra fyrir mér að vera hægra megin. Og ég sem er svo vinstrisinnuð. Merkilegt.

miðvikudagur, 22. október 2008


Lúkas og skólafélagar hann birtust á heilsíðu í "Wrexham Evening Leader" sem er Mogginn okkar hér í Wrexham. Er hann ekki fínn? (Á neðri mynd, í efri röð.)

Myndirnar birtust með grein um fyrstu skóladagana í lífi barna.

Engar myndir birtast af mér þar sem ég er að læra á bíl. Fer í fyrsta ökutímann á þriðjudaginn. Og er svakalega spennt.

Bíð enn frétta frá skattinum. Er farin að halda að þeir séu að refsa mér fyrir að vera Íslendingur.

Get ekki skrifað um ástandið á Íslandi því ég verð svo brjáluð við tilhugsunina um ráðamenn sem verður ekki refsað fyrir landráðin sem hafa verið framin. Um milljónamæringana sem missa ekki húsin sín meðan þjóðin er gjaldþrota. Sem valda því að ég get ekki flutt heim og passað að Láki alist upp sem Íslendingur. Föðurlandssvikarar og landráðamenn. Hvað segir stjórnarskráin um föðurlandssvikara?

Brjáluð.

Guði sé lof fyrir hvað Láki er æðislegur. Velskur.

föstudagur, 17. október 2008

Mikil ósköp sem lukkan lýsir hér og skín alltaf hreint. Eftir miklar reddingar frá Kalla bróður er háskólaprófsskírteini í höfn og samkvæmt skattinum ætti allt að vera komið á hreint frá þeim á þriðjudag. Þá get ég sagt upp og fengið dagsetningu á hvenær ég hef störf hjá þeim. Og get þar með keypt flugmiða í flottræflaferðina mína til Íslands. Þegar ég svo kom heim biðu mín jól í kassa, jólaskrautið í ár tilbúið til notkunar (kannski ekki alveg strax samt.) Best af öllu var að ökuskírteinið mitt var líka tilbúið. Ég er sumsé með skírteini sem segir að ég megi keyra svo lengi sem einhver með bílpróf sitji í bílnum hjá mér, og ég má byrja að keyra með ökukennara. Ég er svo spennt og er búin að finna bílinn sem ég ætla að kaupa. Lúkas kom svo heim úr skólanum þar sem hann fékk að vera Helpu Heddiw (helpú hefjú) í dag. Að vera helpu heddiw er mikil upphafning, maður fær að vera "leader" og hjálpa kennaranum og bara besta og kurteisasta barnið fær að vera "hjálpari dagsins". Ég er svo stolt af honum. (Og mér.)

miðvikudagur, 15. október 2008

"Launafólk ber ekki ábyrgð á kreppu auðvaldsins." Loksins að ég fann setninguna sem útskýrir fyrir mér það sem er að gerast á Íslandi og í heiminum öllum. Við berum ekki ábyrgð á gráðugum mikilmennskubrjálæðingum sem eru núna búnir að skíta á sig. Við tókum ekki þátt í góðæri og eigum þessvegna ekki að vera þvinguð til að taka þátt í kreppu. Hversvegna ættum við og börnin okkar og barnabörn að borga fyrir annarra milljónabrúðkaupsveislur, leðurgólflísar og einkaþotur. Þeir sem notuðu þennan gerfipening eiga að borga brúsann. Ekki við.
Ég hélt að Ísland hefði sokkið í sæ í nótt. Þeir hringdu í mig í morgun frá skattinum og þurfa að fá háskólaskírteinið mitt á íslensku. Ég hafði verið hjálpleg og fengið það útprentað fyrir þá á ensku en reglur segja að þeir þurfi upprunalega textann og þýða sjálfir. Ok það þarf að fylgja reglunum en ég er desperat að segja upp og þessvegna vil ég að þetta gerist allt núna. Það eina sem beðið er eftir er skírteinið. Vandinn er að ég á þetta ekki til. Þannig að enn þarf mamma að redda mér og fara í nemendaskrá (sjá erfiðleikana sem því fylgja á sigriks.blog.is) en til þess að hún geti reddað mér þarf ég að ná í hana sem fyrst. Þannig að þarna var ég að hringja til Íslands klukkan 8 í morgun. Og línan slitnaði alltaf. Ég reyndi nokkrum sinnum en alltaf það sama. Prófaði svo Hulduömmu og svo HulduFrænku og enn slitnaði. Ég gat því ekki dregið aðra ályktun en að annaðhvort væri landið sokkið, kiknað undan skuldum eða þá að þið væruð öll sigld í burtu. Ég sá ykkur fyrir mér á sælli siglingu til hlýrri stranda undan breskum og hollenskum handrukkurum. Hlæjandi.

Ég get ekki beðið eftir að hætta í vinnunni og byrja í þeirri nýju. Og um leið og ég veit dagsetningar get ég pantað ferð til Íslands. Ætli að ég komi ekki einhverntíman á bilinu 14. nóv. til 27. nóv og allt þar á milli.

mánudagur, 13. október 2008

Ég var að fatta eftir vinsamlega ábendingu frá Frænku að nú er ódýrt fyrir mig að ferðast til Íslands. Ég borgaði tæp 600 pund til að koma mér og Láka til landsins í sumar en get núna komið seinustu helgina í nóvember fyrir tæp 200. Eigum við ekki bara að segja sjáumst þá?

fimmtudagur, 9. október 2008

Þetta er nú meira klandrið sem við Íslendingar erum búin að koma okkur í. Eða kannski sem við Íslendingar höfum leyft glæpamönnum að koma okkur í. Meira að segja ég sem er núna búin að búa í Bretlandi í fimm og hálft ár og á engin viðskipti við Ísland, þarf að borga hærri sveitafélagsgjöld til að bæta upp tap breskra sveitafélaga á viðskiptum sínum við íslenska banka. Að hugsa með sér. Hvernig er það svo, á ekki að setja þá sem eru ábyrgir í gapastokka á Lækjartorg?

miðvikudagur, 8. október 2008

Ég ætla að skella mér á enskunámskeið eins og góðvinkona mín Auður benti mér á að gera, því ég misskildi höfnunarbréfið frá skattinum. Þeir voru ekki að hafna mér heldur bjóða mér starf! Ég er nú meiri kjáninn. Allavega, þegar "police check" er lokið get ég sagt upp störfum hjá Dollond & Aitchisons og hafið störf hjá Her Majesty´s revenue and customs. Glæsilegt.

mánudagur, 6. október 2008

Ég sat og starði út í loftið í dag, kom engu í verk. Ætlaði að hringja í Huldu, Hörpu og Huldömmu en dagurinn bara rann frá mér. Arranseraði "insulation" (sjitt er búin að gleyma íslensku!!!!) í þakið hjá okkur. Þá ætti að vera hlýrra inni hjá okkur í vetur. Við þurfum þá að nota minni orku til að hita húsið og getum þannig lagt okkar af mörkum til að afstýra hlýnun jarðar. Mér finnst voða leiðinlegt að eyða fullt af peningum í eitthvað sem sést ekki. Sér í lagi þar sem ég er núna komin með eldhús á heilann. Ég álpaðist inn í mfi (þar sem ég fékk baðherbergið) og fann eldhúsið mitt á útsölu. Sem verður væntanlega búin þegar ég er búin að finna pening fyrir þessu öllu. Allavega, í stað þess að eyða tímanum í dag í að finna betur launaða vinnu svo ég geti fengið nýtt eldhús starði ég út í loftið og upphugsaði lausnir á hvar ég gæti kreist inn uppþvottavél.

Fór svo í BodyTone (sem ég sé ekki betur en að sé eróbikk) og leið betur, ég kom þá allavega þeim hluta lífsins í verk.

laugardagur, 4. október 2008

Þegar ég kom heim úr vinnu í gærkveldi beið mín bréf frá skattinum sem sagði að þrátt fyrir að eftir viðtal hafi ég verið "recommended for the post" þá væru aðrir umsækjendur með meiri reynslu og að ég hafi verið sett á biðlista. Ég held að það komi ekkert út úr þeim biðlista, það er meira svona til að soften the blow. Ég er með þvílíkan niðurlút yfir þessu. Ég er núna búin að fá nei frá öllu sem ég hef sótt um. Þetta er ekki til að hjálpa sjálfstraustinu. Guði sé lof að ég er með yfrum nóg af því til að byrja með! Það þýðir ekkert að gráta Björn bónda, nú er bara að safna liði og halda ótrauð áfram. Mánudagurinn fer víst aftur í að leita. Já, maður verður að vera hress og í stuði. En ég er samt smá döpur líka. Það má stundum.

miðvikudagur, 1. október 2008

Það er ekkert meira um það að segja, ég verð að taka bílpróf. Ég get ekki stólað á stelpurnar með að komast í leikfimi og það er ekki hægt að gera þetta á strætó. Það er ómögulegt að stranda á því að fara í rækt vegna farartækis! Nei, nú finn ég mér ökukennara og kýli á það. Úff.