þriðjudagur, 31. mars 2009
Námið er svo að skemma fyrir mér nýja lífstílinn. Það er fulltæm djobb að halda úti heilsusamlegum lífstíl og ég verð að eyða tíma í það. En þá fer námið veg allrar veraldar. Ég verð að setjast niður og finna betri stundaskrá fyrir sjálfa mig, ég verð að koma þessu öllu fyrir einhvernvegin, ég er ekki tilbúin í málamiðlanir. Það er bara allt eða ekkert.
sunnudagur, 29. mars 2009
Ég segi oft við Láka að við séum í stuði og að nú sé stuð og að spyr hvort allir séu ekki í stuði. Mér finnst nefnilega svo sorglegt að Dave viti ekki að ég sé í stuði. Hann veit að ég er "happy" og "in a party mood" og "feeling great" og "electrified" og allskonar þessháttar en hann skilur ekki að ég sé í stuði. Og ég vil að Láki skilji orðið og tilfinninguna sem er svona sér íslensk. Reyndar þá finnst mér að Íslendingar ættu að fá einhverskonar stuðverðlaun frá alþjóðasamfélaginu fyrir það eitt að hafa lafað á skerinu í þúsund ár og mestmegnis í stuði allan tímann. En það er víst ekki hægt því það erum bara við sem skiljum hvað að er að vera í stuði. Skilja Færeyingar orðið? Mér er spurn.
föstudagur, 27. mars 2009
fimmtudagur, 26. mars 2009
sunnudagur, 22. mars 2009
Þá er fyrsta tönnin farin og hefur skilið eftir skarð í neðri góm. Lúkas sem er vanalega stressaður yfir smá slysum og blóði er alveg stóískur yfir tannleysinu. Ég er eiginlega alveg hissa.
Hér er svo mæðradagur í dag, og hefð fyrir að gefa kort, blóm og súkkulaði. Ég er nú lítið fyrir svona vesen en verð að viðurkenna að ég var hrærð yfir kortinu sem sonur minn bjó til og gaf mér. Hann hafði greinilega lagt alla sína ást í það og var svo stoltur af verklaginu. Við þurftum svo að fara með kort til Heather eða hún hefði aldrei talað við okkur aftur. Dave bjó kortið reyndar ekki til, en það var keypt til að þóknast smekki hennar; það var skreytt með bleikum böngsum með hjörtu og blóm og blöðrur og glimmer stafir sem stöfuðu MUM. Ég tek út fyrir að þurfa að kaupa og gefa svona óskapnað en stundum er bara nauðsynlegt að "go native".
Í öðrum fréttum er svo að hér er aftur komin áminning um hversu ljúft það er stundum að búa í útlöndum; hingað er komið vorið með tilheyrandi léttleika. Vetrarkápur komnar inn í skáp og allt orðið iðagrænt. Með vorinu kemur svo aukinn kraftur í að vera úti að stússast, og þar með enn fleiri tækifæri til kaloríubrennslu. Það er fátt jafn gott og kröftug ganga í góðu veðri.
miðvikudagur, 18. mars 2009
Eins og svo oft hefur komið fram áður þá er ég alveg svaðalega sjálfumglöð og hrokafull, sjálfhverf og sjálfselsk. Hluti af því lýsir sér í því að ég sé sjálfa mig í huganum sem háa og granna. Ég get engan vegin sætt þessar tvær myndir; mig eins og ég er í alvörunni og sést hér á mynd og Claudiu Schiffer konuna sem ég sé þegar ég hugsa um sjálfa mig. Ég fæ alltaf jafn mikið áfall þegar ég sé sjálfa mig á ljósmynd. Myndirnar sem voru teknar í vinnupartýinu um daginn voru það sem komu þessu átaki af stað. Ég hafði farið út það kvöldið haldin þeim ranghugmyndum að ég liti bara vel út. Og sjokkið þegar ég sá myndirnar á Facebook. Madre de dios! Hvað um það, nú ætla ég ekki að missa sjónar á sjálfri mér, ég er 125 kíló og það sést. (Öfugt við það sem ég held.) Og ég ætla ekki að stoppa fyrr en hugmyndin sem ég hef af sjálfri mér er orðin raunveruleikinn. End of.
þriðjudagur, 17. mars 2009
Það sem aðallega er fyrir mér núna er námið. Ég á að vera að skrifa ritgerð og bara get það ekki. Og svo bíður mastersritgerðin eftir mér líka. Ég er svona aðeins farin að hallast að því að ég hafi tekið aðeins of mikið að mér núna. Ég ætlaði að klára þetta á tilskyldum 2 árum en er farin að halda að það sé til of mikils ætlast. Ég vil samt ekki biðja um fresti því ég er alveg viss um að ef ég geri það þá dankist þetta bara niður alveg. Ég verð bara að gera magaæfingar á meðan ég skrifa!
miðvikudagur, 11. mars 2009
laugardagur, 7. mars 2009
Ég er búin að vera svona síðan á þriðjudaginn. Í dag er laugardagur. Ég er orðin mighty þreytt á þessu ástandi. Ég verð alveg rosalega oft veik. Allavega tvisvar á ári. Og það er síðan að ég flutti í þetta pestarbæli sem Bretland er. Ég þoli bara allsekki bakteríurnar sem hér þrífast. Ég á að vera úti núna að æfa mig í að bakka fyrir horn en bara á erfitt með að fókusa, hvað þá að standa upp og gera eitthvað. Þetta er ekki fallegt.