þriðjudagur, 31. júlí 2012

Alveg frá því ég fyrst smakkaði súrdeigsbrauð hefur það uppáhaldsbrauðið mitt. Svo mikið uppáhald að ég hélt að það væri óhollt, það hlyti bara að vera þannig því ég vanalega vel alltaf óhollari kostinn svona að eðlisfari.

Planið inniheldur lítið af brauði. Mest megnis af tveimur ástæðum; ég fæ litla næringu fyrir allt of margar hitaeingar úr brauði og það sem mikilvægara er að brauð vekur upp hjá mér endalausa löngun í meira. Betra er að sleppa bara. En ég hef reyndar tekið eftir að svo er ekki með súrdeigsbrauð. Það fyllir upp í einhver göt í sálinni minni og ég þarf bara eina eða tvær sneiðar til að vera sátt.

Ég lagðist í örlitlar rannsóknir og hef komist að því að það er skýring á þessu.

Súrdeig er búið til með náttúrulegri gerlun brauðsins án gers. Þetta ferli étur upp þónokkuð af harðgerasta hluta kornsins og gerir það auðveldara fyrir okkur að melta brauðið. Því lengur sem brauðið fær að súrna/gerjast því meira brotnar niður af glúteninu í korninu sem þýðir að margir þeirra sem eru með glútenóþol geta borðað súrdeigsbrauð. Eins og með önnur svona sýru/gerjunar ferlin þá étur bakterían í ferlinu upp sykrur og sterkju úr deiginu (þessvegna er jógúrt hollasti matur í heimi) Þetta minnkar kolvetni í brauðinu sem þýðir jafnari áhrif á blóðsykur. Á sama tíma eru fleiri vítamín og steinefni til staðar en í hefðbundnu brauði. Mjólkursýran sem skapast brýtur niður sterkjuna og meltir í raun kornið fyrir þig. Að lokum þá brýtur ferlið einnig niður "phytic acid" sem er and næringarefni sem er í öllu kornmeti. Phytic acid skemmir steinefni í líkamanum og hefur skaðleg áhrif á meltingu.

Ef þetta sannfærir mann ekki um yfirburði súrdeigsins yfir venjulegt brauð þá ætti bragðið, lyktin og áferðin að gera það. Að ekki sé talað um hversu ánægjulegt það er að búa til súrdeigsbrauð. Ég er núna í marga daga búin að vera að hlúa að og næra "starter". Ég kem heim úr vinnunni og er ægilega spennt að sjá hversu mikið líf hefur kviknað í skálinni. Nú er svo komið að hann er tilbúinn, farinn að bubbla vel og sæt bjórlykt farin að leggja af honum. Ég ætla því að leggja í deig á föstudagskvöld svo ég geti bakað mitt fyrsta súrdeigsbrauð á laugardagsmorgun. Með allri þessari ást sem ég hef lagt uppskriftina, get ég sveiað mér upp á gott brauð um helgina.

mánudagur, 30. júlí 2012

Ég er á fullu í vinnunni nýju og skemmti mér konunglega.

Ég hef loksins byrjað að búa til súrdeig. Súrdeig.

Ég skrifaði loksins ritgerðina sem er búin að hvíla þungt á herðum mér í þrjá mánuði.

Ég er með plan.

Planið skilaði 2.9 kg niður á við hjá mér, 4 kg hjá Dave.


mánudagur, 23. júlí 2012

Success consist of going from failure to failure without loss of enthusiasm. - Winston Churchill. 


Það  er ágætt að minna sig á þetta á svona tímabilum. Ég, eins og Winston, er í stuði. Það sem ég þarf að muna er að ég er ekki undir neinni skyldu bundin að fá mér súkkulaði þegar ég er glöð. Ég verð ekkert glaðari við það. Á sama hátt er það hvergi skrifað í stjörnunar að ég þurfi að fá mér kleinuhringi og köku til að láta mér líða betur ef mér líður illa. Ef mér líður illa þá þarf mér bara að líða illa þangað til það líður hjá. Ef mér leiðist þá er hægt að finna sér ýmislegt til dundurs áður en maður graðgar í sig í hugsunarleysi það fyrsta sem maður nær í. Svo er líka allt í lagi að leiðast öðruhvoru. Ég þarf ekki að nota tilfinningar mínar, góðar eða slæmar, sem réttlætingu á ofáti.

Ég hugsa að þetta sé það allra erfiðasta við þetta allt saman. Það er erfiðast að vera þolinmóð á meðan skapsveiflurnar líða hjá. En ég hef líka lært að það er ekkert sem segir að mér eigi eftir að líða eins í dag og mér kemur til með að líða á morgun. 

Ég þarf stanslaust að minna sjálfa mig á að þessi tímabil niðurrifs koma og þau fara. Það sem ég þarf að gera er að muna að vanalega læri ég eitthvað mikilvægt þegar þessi tímabil koma. Svo þarf maður bara að pakka sér saman og halda áfram. Ég trúi því að það sé meira varið í það sem er framundan en það sem á undan hefur farið. 




laugardagur, 21. júlí 2012

Eftir sumarfrí tekur alvara lífsins aftur við. Nýja vinnan bíður, ég búin að kaupa killer hælaskó til að líta út eins og ég sé að taka á verkefnunum af alvöru og ég hlakka ægilega til að sjá hvaða áskoranir bíða mín. (Ég er ekki vön að ganga um á átta og hálfum sentimetrum svona dagligdags.)

Þetta var fjórða sumarfríið mitt EL. (Eftir lífstílsbreytingar) Ég hef alltaf þyngst eitthvað smávegis, á bilinu fjögur til tvö kíló eða svo. Í ár var engin undantekning þar á og ég er búin að éta á mig fimm kíló. Ég ætlaði að fá angistarkvíðakast yfir þessu en svo kom í ljós að ég hef ekki áhyggjur af kílóum per se. Ég hef meiri áhyggjur yfir hugarástandinu sem hefur fylgt þeim. Ég hef trekk í trekk staðið mig að því að venja mig af góðu venjunum sem ég var komin upp á. Einföldu hlutirnir sem ég hélt að væru orðnir inngrónir og ég þyrfti ekki lengur að leggja á mig neitt til að viðhalda. En það kemur í ljós að rúm þrjátíu ár af ósiðum eru yfirsterkari þremur af góðum siðum.

Pulsa og kók. "Worth it" matur? Ekki viss. 
Þannig er ég farin að svíkjast undan hreyfingu. Jú, ég fer út að hlaupa en vegalengdirnar eru alltaf að styttast. Og það sem verra er að ég hef litla sem enga ánægju af því að hlaupa lengur. Ég sé þetta orðið sem kvöð núna. Ég er nánast alveg hætt að gera líkamsþyngdaræfingar og pilates er aðeins gert til hátíðarbrigða. Mér finnst ég  vera að gera fullt en það eru margir dagar þar sem ég geri ekki rassgat og ég er svo sannarlega ekki að hreyfa mig hálft á við það sem ég gerði fyrir sex mánuðum síðan. Ég var búin að koma þessu þannig fyrir hjá mér að ég vaknaði bara á morgnana, fór í hlaupagallann og út. Engin umræða, ekkert val, bara út. En ég er búin að leyfa sjálfri mér að rökræða þetta eitthvað við sjálfa mig og það er oft sem Hlussan vinnur þær rökræður. (Hún sest bara ofan á mjóu Svövu sem getur sig þá hvergi hrært.)

Krispy Kreme donut. Soooooo worth it!
Á sama hátt er það alltof oft sem ég stoppa við í kex- eða súkkulaðirekkanum í Co-Opinu. Og gríp eitthvað með mér. Það er ekki langt síðan ég var búin að koma því þannig fyrir að ég tók ekki einu sinni eftir þessum rekkum, labbaði bara framhjá. En núna teygir Hlussan feita puttana eftir einhverju gúmelaðinu og kjamsar á því um leið og hún kemur heim. Og mjóa Svava bara fylgist með. Segist ekki ráða neitt við neitt.

Það er merkilegt að hugsa þannig. Ráða ekki neitt við neitt. Ég var farin að hugsa að þetta væri ekkert mál. Að ég væri búin að breyta mér og hvernig ég hagaði mér í vissum aðstæðum þannig að ég þyrfti ekki að kreppa sjálfstjórnarvöðvann lengur. Hélt að ég gæti jafnvel notað innsæið eitt til að stjórna hverju ég borða og hvernig ég hreyfi mig. (Því miður þá virðist sem svo að innsæjið segi mér að borða eins og skógarhöggsmaður.) Kveinkaði mér svo í máttleysi þegar ég leyfði lélegum ákvörðunum að ráða för. Klóraði mér í höfðinu og sagðist ekkert skilja í þessu. Málið er að ég var búin að gleyma að þetta var heilmikið mál. Þegar ég fyrst byrjaði að hreyfa mig þurfti ég að pína sjálfa mig til þess. Bókstaflega rífa sjálfa mig upp á feitu rassgatinu til að tussast til að gera eitthvað. Sama var með kexrekkann. Ég tvísté oft lengi fyrir framan hann og kvaldist þangað til ég neyddi sjálfa mig til að labba í burtu. Þetta voru sigrar. Svo varð þetta eðlilegt og svo fór ég allan hringinn og hélt ég gæti sleppt hreyfingunni og fengið mér súkkulaði öðruhvoru. Að ég gæti gert bæði í einu. En ég hef ekki forgangsraðað á réttan hátt að undanförnu.

Nú er svo komið að ég þarf að byrja aftur. Ég þarf að neyða sjálfa mig út og ég þarf að labba grátandi framhjá kexinu án þess að grípa með mér pakka. Þetta hljómar eins og ég sé að refsa mér eða gera eitthvað slæmt en það er ekki svo. Ég veit hver verðlaunin eru fyrir að gera það, ég veit hvernig vellíðanin er sem kemur eftir smástund. Ég þarf bara að halda mér við efnið í nokkra daga.

Þetta er ég í svörtu fötunum. Búin að klifra og klifra. 
Ég þarf að koma mér aftur í skikkanlegt ástand. Og með skikkanlegu ástandi á ég ekki við einhver x kíló. Ég er meira að tala um að vera aftur í því hugarástandi þar sem mér leið eins og milljón dollurum. Þar sem flestar ákvarðanir sem ég tók voru í mína eigin þágu, ekki gegn sjálfri mér. Mér finnst þetta nefnilega skemmtilegt. Meira að segja þegar þetta er erfitt þá er þetta gaman. Mér finnst gaman að ögra sjálfri mér og það er í alvörunni ekkert betra en þegar maður getur gert eitthvað eins og að klífa vegg eða keypt sér eitthvað i minni stærð en maður er vanur. Það verður bara að hafa það hversu vandræðalegt það er að enn einu sinni byrja upp á nýtt. Ég kaus sjálf að gera þetta svona opinberlega.

Þetta er rússbíbanareið en hversu erfitt sem það virðist að hanga á þá er það oftast það eina sem er í boði. Ég er ekki fullkomin en þetta snýst heldur ekki um að vera fullkomin. Þetta snýst um að sýna sjálfum sér virðingu, samhyggju og þolinmæði. Þetta snýst um að hafa úthald, halda sér við efnið og að lifa lífinu, skemmta sér og reyna að velja besta kostinn við hvert tækifæri. Og þannig skapar maður besta lífstílinn fyrir sig. Og vonandi getur maður lifað lífinu án samviskubits, án skammar og af fullkomnum gleðilátum.

sunnudagur, 15. júlí 2012

Og um leið og ég eignast alvöru espresso vél og get búið til latte macchiatos hægri vinstri tek ég ástríðu við kaldbruggað kaffi. Týpiskt!

Það er ekki það sama að nota kaffi sem maður hefur soðið og bruggað og látið kólna og kaffi sem maður bruggar kalt frá byrjun. Kalda kaffið hefur ekkert biturt eða súrt við sig, öll sýra einhvernvegin verður ekki til staðar og eftir verður bara þetta mjúka bragð sem maður heldur að maður fái bara ef maður borgar fjögur pund á kaffihúsakeðju.

Búin að kaldbrugga og setja í krukku. Og alveg að verða búin að drekka það allt. 

Kaffi, klakar, teskeið af hlynsýrópi, matskeið af léttmjólk, teskeið af rjóma.

Himnaríki í glasi! Næstu bragðtilraunir; möndlumjólk, kókósmjólk, karamellusýróp, súkkulaðisýróp....

Ég á rosalega erfitt með að skrifa núna. Mér finnst mér hafa tekist að halda uppi tveimur þriðju hlutum af heilsusamlegum venjum að undanförnu og ég held að ég geri það svona nokkurn vegin ósjálfrátt. Ég fer út að hlaupa, ég geri pilates eða bodyweight æfingar og ég er meðvituð um það sem ég er að velja að borða. Ég bara er ekki alltaf að velja það besta fyrir mig. Ég virðist ekki geta farið í frí án þess að slaka á sjálfstjórnarvöðvanum. Og þetta þýðir líka að ég er alls ekki að ná neinum markmiðum, ég er ekki að gera neinar uppgötvanir og ég hef ekkert fram að færa eða til málanna að leggja í umræðunni um heilsusamlegan lifstíl.

Mér finnst einhvern vegin eins og ég missi alltaf sjónar á því sem ég er að reyna að gera. Hlutirnir fara í einhverja rútínu og svo gleymi ég hvað ég er að gera. Ég byrja að trúa ruglinu í sjálfri mér. Bara af því að ég er hætt að borða í offorsi (binge) þýðir það ekki að ég sé ekki enn að raða í mig án þess að veita því nógu mikilli athygli.

Ég hef tapað þessari örvæntingu sem var fyrst minn stærsti hvati til að léttast. Mér finnst ég bara voðalega fín. En svo passa ég ekki í eitthvað eða er kjökrandi af sársauka í hnjánum eftir hlaup og þá man ég að ég er enn ekki nógu létt til að viðhalda þeim lífstíl sem ég vil lifa.

Við erum að fara í burtu í viku. Þegar ég kem tilbaka ætla ég að setjast niður og skoða hvað það er sem ég vil fá út úr lífinu og hvað ég er tilbúin að gera til að fá það.

fimmtudagur, 12. júlí 2012






 Ég fór í klippingu í dag. Sat bara salíróleg í stólnum og bað stúlkuna um að klippa á mig topp. Mig langaði í eitthvað nýtt og spennandi án þess að klippa neitt af síddinni. Ég er með mjög sítt hár núna, það nær eiginlega niður í mitti og mig langar til að halda því á meðan ég er enn nógu ung til að geta sveiflað því um án þess að vera kjánaleg. Einn lítill hluti af mér hafði örlitlar áhyggjur að ég væri að gera svona drastískar breytingar í einhverri tilraun til að draga athyglina frá því að ég er smávegis að þyngjast. En stærsti hlutinn af mér fannst ég bara vera ægilega trendí. Ég díla svo við hitt þegar ég er búin í fríi. Fo´ sure!

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Þegar maður klikkast svo smávegis í hausnum og fer að finnast það ægilega góð hugmynd að prófa allar nýju Cadbury´s súkkulaðibragðtegundirnar sem hafa verið settar á markað í takt við Ólympíuleikana er kominn tími til að bretta upp ermar og prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu.

Avókadó ís með sykurlausri súkkulaðisósu


Avókadó ís með kanilsteiktum eplum.

þriðjudagur, 10. júlí 2012

Delonghi Icona espresso
Við Dave héldum upp á sjö ára brúðkaupsafmæli í gær. Við gerðum ekkert merkilegt, fórum með Lúkas í skólann, fórum svo á rölt um bæinn, fengum okkur að borða og keyptum okkur svo voðalega fína espresso vél í brúðkaupsafmælisgjöf til hvor annars. Hér í Wrexham er ljómandi góð sérverlsun með kaffi og te og það er ágætis áhugamál að deila saman að drekka gott kaffi. Okkur er líka búið að langa rosalega lengi í vélina, vorum meira að segja með mynd af henni uppi við heillengi bara svona af því að við héldum ekki að við myndum tíma að kaupa hana. En svo koma svona spes dagar eins og ullarbrúðkaupsafmæli, frí og smá kæruleysi og við keyptum ekki bara kaffivélina heldur líka brauðrist og ketil í stíl.  Við erum bara að njóta þess að vera í fríi, ásamt því að reyna að nýta tímann vel til að gera hluti sem við fáum annars ekki tækifæri til að gera. Eins og að búa til geðveikan kaffibolla með ekta crema lagi og sitja saman og spjalla yfir morgunmatnum og drekka kaffi.

Allt klabbið. 


Ég er að ströggla aðeins með hreyfingu og mataræði núna. Frí hefur aldrei farið vel í mig hvað það varðar. Ég tók ægilega syrpu í brauðáti og það þýðir bara eitt fyrir mig; þyngdaraukning, harðlífi og samviskubit. Ég nenni því síðan alls ekki, hef engan áhuga á að eyða friinu mínu í samviskubit. Hef reyndar heldur engan áhuga á að eyða fríinu mínu í að þyngjast um fimm kíló. Ég hef þessvegna valið. Leyfa mér örlítið meira en ella í mataræðinu og nota meiri frítíma í að hreyfa mig meira eða taka betri ákvarðanir hvað mataræði varðar ef ég er spenntari fyrir að liggja í sófanum og lesa bók.

Þetta hefur alltaf verið mitt val. Og útkoman hefur alltaf oltið á því hvað ég vel sjálf.

sunnudagur, 8. júlí 2012


Þá er endurbótum lokið í bili og við að verða búin að setja allt á sinn stað. Þetta horn í stofunni fékk rakavörn og nýtt gifs til að slétta veggina. 
Sama hornið nýmálað. Allt annað líf. 
 
Í stigaganginum var rakavörnin líka löguð og nýtt gifs sett á vegginn. Það er rosalega hátt til lofts þarna og við höfum aldrei málað almenninlega. 

Þannig að það er ótrúlega gaman að hafa þetta allt loksins hreint og skínandi  nýmálað. 

Veggurinn í eldhúsinu sem var allur að molna í burtu. Húsið er byggt í kringum 1870 og það er kominn tími til  að dytta að því all svakalega. Verst að við Dave erum glötuð hvað DIY varðar og verðum að fá mann í öll verk. 

Hér er búið að laga vegginn, en af því að hann var svo ónýtur þá er gifsið enn að þorna. Gæti tekið 2 vikur að þorna alveg. En maðurinn kemur aftur til að klára að mála. 

Mitt fyrsta verk í nýja eldhúsinu var að sjálfsögðu að bjóða upp á nýbakað brauð í morgunmat. Fyrsta brauðið sem ég borða í tvær vikur. 

Ég er núna loksins búin að raða þannig að það er hægt að nota breakfast bar almennilega. 

Svefnherbergið fékk aðeins andlitslyftingu, málað og allar bækur teknar og rykhreinsaðar. Ótrúlegt hvað þær safna miklu ryki. Við eigum nú orðið Kindle og Kobo og ég sé ekki fram á að fleiri bækur verði keyptar. Nema kannski Pratchett. Við eigum hann allan hingað til og maður verður að halda því við.  

Svo var málað og veggir jafnaðir í milliherberginu. Það vantar núna bara nýtt á gólfið. Sennilega eina verkefnið sem er pressandi í húsinu núna. 

Bjart og fallegt og vantar bara herslumuninn á gifsið að þorna.
Það var svo ánægjulegt að fá mann til að gera þetta fyrir okkur. 
Ég er núna búin í gömlu vinnunni og komin í sumarfrí. Ég kláraði á föstudaginn og fékk falleg kort og gjafir og margt fallegt sagt við mig. Við fórum svo á pöbbinn þar sem ég hafði um lítið að velja en að verða rallhálf þar sem hvert glasið á fætur öðru var lagt fyrir framan mig. Allir vildu kaupa handa mér glas í kveðjuskyni. Við skrölluðum um Chester, fórum í karaoke og svo var dansað fram eftir nóttu. Sérlega skemmtilegt allt saman og gaman að enda á skemmtilegheitum með gömlu vinnufélögunum. Ég var frekar framlág í gær enda orðin gömul kona og þoli illa svona útstáelsi. 

Ég byrja svo í nýju vinnunni eftir tvær vikur. Og hlakka alveg voðalega til. En fyrst. Sumarfrí. Ahhhhhh.....

sunnudagur, 1. júlí 2012

Jæja þá er maður búinn að rífa niður allar myndir af veggjum og pakka niður smádrasli ýmiskonar ásamt bókum og svo öllu sem er uppi við í eldhúsinu. Ég á voðalega mikið af allskonar olíum og kryddum sem ég geymi hjá eldavélinni. En nú þegar það er maður að koma til að laga skemmdir í eldhúsveggnum og mála svo allt húsið þarf víst að setja þetta allt í kassa og úr seilingarfjarlægð. Mikið ógurlega sem húsið verður eitthvað skítugt svona þegar maður sér gamalt tóbak og fitu bakvið myndir. Allt verður eitthvað svo berangurslegt og svona lítilfjörlegt. Ég er samt viss um að smá svona óþægindi með drasl í kassa verði þess virði; hugsa með sér lúxusinn, bara koma heim og allt húsið skínandi viðgert og nýmálað! Ekki amalegt það. Tilhugsunin um að þurfa að bæta þessu verkefni ofan á allt hitt hjá mér var bara óhugsandi þannig að þegar að strákurinn sem ætlar að laga skemmdirnar í eldhúsinu sagðist líka geta málað þá ákváðum við Dave að það væri þess virði að borga fyrir þetta til að eiga sumarfríið okkar til að slaka á í alvörunni. Frekar en að nota það í að mála húsið illa í fýlu yfir því að vera svona léleg í DIY.

Ég hlakka svo til þegar hann er búinn. Það ætti að taka hann fjóra daga eða svo að gera þetta þannig að þessi síðasta vika mín í gömlu vinnunni passar ákkúrat. Þegar ég klára og fer í tveggja vikna frí áður en nýja vinnan byrjar kem ég heim í nýmálað og skínandi hús. Við ætlum að nota fyrstu vikuna í að henda drasli og koma okkur aftur fyrir og jafnvel kaupa alvöru kaffivél í nýja eldhúsið og svo ætlum við að fara seinni vikuna til Lincolnshire, til að eyða vikunni á ströndinni við Cleethorpes. Ég er voðalega spennt, mikið til vegna þess að ég hef aldrei áður ferðast innan Bretlands í áttina austur-vestur, vanalega förum við allt norður-suður.

Mesta orkan í dag hefur því farið í kassana. Ég fann nú samt líka tíma til að baka súkkulaðibitamuffins. Ég fann uppskrift aftan á kókóshnetuhveitipokanum mínum og aðlagaði aðeins að grunnhugmyndum um enn frekari hollustu og ég hef bara sjaldan verið jafn ánægð með bakstur. Ég fann engan mun á þessum og á súkkulaðikökunni sem ég og Lúkas bökum stundum. Ég gerði samt þau mistök að biðja Dave og Lúkas að smakka hollar súkkulaðikökur og um leið og ég sagði orðið hollar ákváðu þeir báðir að þetta væri einhver hryllingur og neituðu að smakka. Þannig að þið verðið bara að taka mitt orð fyrir þessu. Hér er náttúrulega enn fullt af hitaeiningum en þetta eru góðar hitaeiningar og mest megnis úr góðri fitu, trefjum og próteini. Það er allavega óþarfi að vera með samviskubit yfir þessum.

Súkkulaðimuffins

1/4 bolli kókóshnetuhveiti
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
Öggulítið salt

3 egg
50 ml kókósolía í fljótandi formi
3 msk hlynsýróp
10 döðlur, skornar í litla bita
30 g ósætt súkkulaði (ég nota Baker´s eða Girandelli)

Allt þurrt sigtað saman og allt blautt hrært saman og svo blandað saman í deig. Blanda svo döðlum og súkkulaði við og sett í muffinsform inn í ofn við 180 gráður í 18 mínútur. Gerir sex múffur.

Mér fundust þær ægilega góðar heitar úr ofninum með köldu mjólkurglasi. Ég ætla reyndar að hanna krem á þær og strá kókós yfir líka. Bara svona af gamni.