sunnudagur, 29. september 2013

Og allt er komið í sínar vanalegu skorður; eftir ofur fitu (og vatns-)tap fyrstu vikurnar er ég núna komin á eðlilegt ról með um það bil kíló í missi. 97.5 kg í morgun og það orðið alveg ljóst að hormónaendursetning virkar ekki á mig, þ.e.a.s ekki ef tilgangurinn er að léttast. Í þessari viku borðaði ég lambalæri með sósu og grænmeti, bolognese með hrúgu af parmesan, eggjabökur og beikon, kjúklingakorma með blómkálsgrjónum, kjúklingaleggi og salat,  steinaldarbrauð með osti eða lifrakæfu, flaxgraut með rjóma, avókadómús með rjóma, chia búðing með rjóma, kókósbúðing með rjóma, rjóma með rjóma.... Ég gæti ekki verið ánægðari. Bara sleppa hveiti og sykri og ég er góð. Ég borðaði mikið af hnetum í vikunni en sleppti jógúrti alveg. Ætla ð gera tilraunir í næstu viku með að bæta við jógúrti til að sjá hvaða áhrif það hefur.

Prófaði í morgun að baka smákökur úr möndlusmjöri. Möndlurnar eru kolvetnaminni en til dæmis jarðhnetur og gefa auðvitað nýtt og skemmtilegt bragð. Þessar tóku 17 mínútur allt í allt að henda saman og baka og komu ljómandi vel út.

170 g hreint möndlusmjör
1 egg
1 tsk lyftiduft
30 ml hlynsýróp
salt
pekanhetumulningur

Allt blandað saman í deig og svo hnoðað í litlar kúlur og sett á silíkón bökunarplatta.Uþb 13-15 kúlur.  Hver kúla flött út og skreytt með kókósflögum, eða meiri pekanhnetum eða pístasíum. Það er líka voðalega gott að strá smá salti yfir líka. Það mætti líka alveg setja dökka súkkulaðibita í degið, það þarf örugglega ekki mikið meira en 30, 40 grömm til að gera gott. Baka svo við 180 g í 8-10 mínútur og láta svo kólna á grind.
Ég á enn eftir að finna upp smákökur sem eru í alvörunni stökkar, þessar verða mjúkar á degi tvö. En með tæp 3 grömm af kolvetnum í hverri smákökur er mínum tilgangi svo sem náð.


laugardagur, 28. september 2013

Þegar ég stóð sem hæst á hrokafjallinu mínu, þegar ég var á fullu í svelti og í stöðugum æfingum, lýsti ég því yfir að ég væri einfaldlega löt og gráðug. Að það væri út í hött að trúa því að allar fitubollur heimsins væru fitubollur út af einhverju sálrænu áfalli úr barnæsku. Þetta var þegar ég horfði enn á offituvandamál sem andlegt ástand til að tækla fremur en líkamlegt. Að maður þyrfti einfaldlega að ná tökum á manni sjálfum og skikka mann til að haga sér.

Núna, eftir að hafa lagt allt mitt í að reyna að grennast er ég ekki svo viss lengur um að þetta sé andlegt, sálrænt eða neitt til að gera með persónuleika. Ég er meira að segja komin svo langt að þurfa að biðja sjálfa mig (og allar hinar fitubollurnar) afsökunar fyrir að hafa haldið því fram að ég sé löt og gráðug.

Hefði ég lagt sama kappið í nám og ég hef lagt í megrunarkúra og líkamsrækt síðustu þrjátíu árin væri ég sjálfsagt post-doc og fremsti sérfræðingur á hverju því svið sem ég hefði kosið mér. Hefði ég lagt sama kapp í að safna peningum og ég hef lagt í megrunarkúra og líkamsrækt síðustu þrjátíu árin sæti ég sjálfsagt á milljóna innistæðu í bankanum. Hefði ég lagt sama kapp í starfsframa og ég hef lagt í megrunarkúra síðustu þrjátíu árin væri ég sjálfsagt bankastjóri.

Alveg sama hvað ég reyni þá get ég ekki grafið upp einn einasta þátt í lífi mínu sem ég hef lagt meiri vinnu, alúð, hugsun og verk en þetta að reyna að verða mjó. Og samt dirfðist ég að halda þvi fram að ég væri bæði löt og gráðug?

Ég vinn fulla vinnu, var í fullu námi, elda og baka flest frá grunni, el upp barn, rækta hjónaband, stunda hreyfingu og samt dirfðist ég að kalla sjálfa mig lata?

Ég man ekki eftir einum einasta degi þar sem ég barðist ekki við sjálfa mig, neitaði mér um eitthvað, hætti áður en ég var í alvörunni södd og samt kalla ég sjálfa mig gráðuga?

Nei, þetta reikningsdæmi gengur bara ekki upp. Ég er hvorki löt né gráðug. Ég er samansett úr genum sem hafa tilneigingu til að upptaka insúlín í meira magni en fólk sem er náttúrulega grannt og framleiða meira fitulag. Ég laðast ósjálfrátt að matartegundum sem ekki bara gera mann feitan heldur kalla síðan líka stanslaust á meira. Og þrátt fyrir þennan fyrirvara hef ég engu að síður tekist að berjast við sjálfa mig og er að grennast.

Þetta er ekki persónuleikabrestur, þetta að vera feitur. Það hefur ekkert með að gera hvernig manneskja ég er. Ekkert. Ég er hvorki löt né gráðug. Eða öllu heldur ég er ekki latari né gráðugri en hvaða næsta manneskja. Að vera feitur er líkamlegt ástand, hefur með hormóna, frumur, gen og mólekúlur að gera og þarf að tækla út frá því sjónarmiði.

Nei, ég er ekki gráðug og ég svo sannarlega ekki löt. Andskotakornið.

þriðjudagur, 24. september 2013

Mitt allra helsta uppáhald er haframjöl. Ég elska haframjöl. Mér finnst það ómissandi í kjötsúpu, ég gæti lifað af hafrakökum, hafrakex er himnasending og best af öllu er hafragrautur. Mér finnst hann allra bestur kaldur. En þar sem ég hef ákveðið að sleppa haframjölinu, alla vega svona á meðan ég finn út nákvæmlega hvað ég þoli af kolvetnum nú þá varð ég að fatta upp á einhverju í staðinn. Flaxið kemur sterkt inn, ég er búin að nota það í brauð og kökur, í mínútumúffur og annað sniðugt og ákvað að prófa að melda það sem hafragraut. Setti 3 matskeiðar af mjölinu, eitt egg, uþb 200 ml af möndlumjólk, 1 matskeið kókósolía, smá salt og smá kanil í lítinn pott og hrærði saman. Setti svo á hellu og hitaði upp og hrærði í allan tímann. Og úr varð svona líka fínn grautur. Ég skreytti hann með ristuðum kókósflögum, smávegis af kókóssmjöri (ekki olía) og vænni slettu af rjóma. Ljómandi gott alveg hreint.

sunnudagur, 22. september 2013

Fyrir rúmum mánuði síðan ákvað ég að prófa að draga mikið úr kolvetnaneyslu, eitthvað sem ég er búin að dúlla mér við í langan tíma en fannst vera kominn tími á að taka af meiri alvöru. Ég tók til við plan sem heitir CarbNite og er ægilega vinsælt um þessar mundir. Það er sjálfsagt vinsælt af sömu ástæðu og ég laðaðist að því, einu sinni í viku má maður borða nammi og pizzu og lasagna og brauð og kökur að vild. Svo lengi sem maður heldur sig undir 30 grömmum af kolvetnum yfir vikuna er nánast allt leyfilegt einu sinni í viku. Auðvitað er þetta aðlaðandi. Hvað annað? Ég vissi reyndar alveg að þetta myndi ekki virka fyrir mig. Ég vissi að lágkolvetnin myndu svínvirka og að ég myndi léttast um hundrað kíló til að byrja með en eftir tvo, kannski þrjá sunnudaga af nammi myndi ég byrja að þyngjast meira en ég næði að léttast yfir vikuna. Ég varð samt að prófa. Ekki ætla ég að fara að halda því fram að ég sé ónæm fyrir svona loforðum um spikrennerí á sama tímaa og maður fær að troða í andlitið á sé!

Ég var 97.7 kg síðasta sunnudag og þann dag tók ég carbnite hleðslu. 7 tommu pizzu, Nóakroppspoka og smá lakkrís. Á mánudagsmorgun var ég 100.9 kg. Og alla vikuna er ég búin að vinna í að ná þessum rúmu þremur kilóum af mér aftur. En tókst bara að losa tvö. Ég var 98.7 kg í morgun. Vikuna þar á undan var ég líka 97.7 kg og þyngdist um tvö kíló eftir sunnudagshleðsluna og rétt náði þeim af mér fyrir vigtun á sunnudagsmorgun. Ég er viss um að fyrir fullt af fólki virka þessi vísindi sem segja að með því að sjokka kolvetnasveltan líkamann með massavís af glúkósa einu sinni í viku renni spikið enn hraðar. En það bara virkar ekki fyrir mig. Hefur aldrei gert. Ég hef reynt þetta milljón sinnum áður, ég bara vissi ekki að þetta væru einhver fræði.

Ég ætla að halda mig við lágkolvetnin. Ég er sannfærð um að það virkar fyrir mig, sér í lagi af því að það virðist halda geðveilunni minni að mestu leyti í skefjum. En að endurvekja klikkunina einu sinni í viku er bara rugl.


föstudagur, 20. september 2013

Á þessum árstíma er einungis ein spurning sem brennur á vörum bresku þjóðarinnar; ertu búin að kynda? Á hverjum morgni spyr einhver mann sposkur á svip og svo er beðið eftir svarinu með andagt. Keppikeflið er að forðast sem allra, allra lengst að kveikja upp í. "Þegar ég kom heim í gær var kalt og hráslagalegt í húsinu en svo fór ég í sturtu og fékk mér te og það var allt í lagi fram eftir kvöldi" sagði ein samstarfskona mín við hópinn í dag og allir hrósuðu henni í hástert fyrir hugvitið. Á eftir henni fylgdu sögur frá þeim öllum. "Ég bara kveiki ekki undir fyrr en í nóvember!" sagði ein og hnykkti til höfðinu. Og allir jánkuðu þessu. Það er bara svo dýrt að kynda húsin að þetta er orðin þjóðaríþrótt að rembast við að lafa fram að allavega Bonfire Night áður en British Gas fær að taka í pyngjuna. Sjálf kinka ég bara kolli og úa og aa með hinum yfir hversu klár þau eru. Og fer svo heim í funheitan kofann minn sem er búinn að vera upphitaður síðan í Júlílok. Ekki ætla ég að segja þeim að Íslendingurinn í hópnum sé kuldaskræfa.



Hitt umræðuefnið er svo nánast óhjákvæmilegt. Nú er ég kannski lélegur feministi þegar ég kalla þetta óhjákvæmilegt. Ég stjórna 18 manna hópi sem skiptist í 13 konur og 5 karla. Og þegar 13 konur sitja saman í 7 klukkutíma á dag virðist það vera óhjákvæmilegt að tala um megrun. Það byrjaði ein ný hjá mér á mánudaginn. Hún er svona að aðlagast hópnum og gengur ágætlega. Í dag var smá spjall í gangi og hún snýr sér að mér og spyr hvernig mér gangi í megruninni. Mig rekur ekki minni til þess að hafa neitt sérstaklega minnst á megrunarkúr við hana, né reyndar neinn annan. Fyrir mér er þetta svo stórt og flókið málefni að ég bara get ekki spjallað um "megrun" svona á léttu nótunum. Og alls ekki á þeim forsendum sem hópurinn minn ræðir málefnið. "Ég verð að byrja í megrun" stynur ein. "Oh, ég var á þessum frábæra kúr í vor, borðaði bara mat sem hét eitthvað sem byrjar á stafnum C, léttist um sjö kíló. En svo fór ég i frí og gleymdi og nú er það allt komið aftur". "Ég ætla að fasta á mánudaginn" "En maður á nú líka skilið að fá gott öðruhvoru" "Já, auðvitað." "Ég ætla að ná mér í snickers....."
Ég, skiljanlega, bara get ekki hlustað á þetta og hvað þá tekið þátt í umræðunum. Og verð að viðurkenna að ég var hálf kjaftstopp þegar ég var spurð rétt sí sonna á hvað kúr ég væri. Er það í alvörunni svo sjálfsagt mál að maður sé bara í megrun? Og þegar ég spáði í því þá eru líkurnar mun hærri á að kona svari því til að hún sé í megrun en að hún segist ekki vera í megrun. Í hreinskilni, þekkið þið einhverja konu sem er ekki "að passa sig, í megrun, búin að breyta um lífstíl, er að gera litlar breytingar, ætlar að hreyfa sig meira....."

Ég er ekki í megrun. En að reyna að útskýra hvað ég er að gera er samtal sem ég get ekki leyft á meðan ég er með fólk á tímakaupi þannig að ég sagðist vera hæstánægð með megrunina mína. Hæstánægð. Hún fælist í að stunda svetti í stofunni heima. Ég væri nefnilega með kyndinguna á fullu blasti.

sunnudagur, 15. september 2013

Það var eins og mig grunaði, flaxbrauðið var brilljant í kryddbrauðsmynd. Ég bara stóðst ekki mátið í morgun og bakaði einn hleif.  Verð bara að vera aðeins klárari og muna að drekka vatn með hverri sneið til að forðast klandur.

4 egg, hrærð
1/2 bolli möndlumjólk
1 tsk vanilludropar
1/3 bolli kókósolía, fljótandi
20-30 g pálmasykur (eða hvaða annað sætuefni)
2 bollar flaxmeal
1 matskeið lyftiduft (já ég sagði matskeið)
fingurgrip salt
1 matskeið kanill
1/2 teskeið negull
1 teskeið múskat (hafa ber í huga að þetta er vel kryddað og hver og einn má aðlaga að sínum smekk. Ég vil hafa mikið kanil, múskat, negul bragð)

Allt hrært saman og sett í aflangt sílíkón form og bakað við 180 í 40 mínútur. Undursamlegt með stórri smjörklessu, og jafnvel ostsneið. Ef reiknað er með 10 sneiðum eru uþb 7 g af TOTAL kolvetnum í sneið, 3g af NET kolvetnum. Þeir sem telja kolvetni myndu telja 3g. Ef pálmasykrinum er sleppt fer þetta niður í <1g a="" af="" bara="" drekka="" g--="" kolvetnum.="" me="" muna="" net="" vatn="">
Lukkan liggur yfir mér; kúkaði kílói og allir sáttir. Áfram veginn fetum.

laugardagur, 14. september 2013

Í gær og í dag er mig búið að langa í.....eitthvað. Ég er líka á sama tíma með ægilegan "innri þrýsting" af því sem ég tel að sé ofneysla trefja. Trefjar eru lífsnauðsynlegar til að viðhalda eðlilegri meltingarstarfsemi í gangi, en ef maður gerir eins og ég, og borðar ofgnótt af þeim án þess að drekka vatn með, nú þá klessast þær bara hressilega í meltingarveginn og allt stoppar. Trefjar eru líka voða fínt orð. Mér dettur í hug að það gæti orðið eitt af þessum nýmóðins íslensku mannanöfnum, svona eins og Gnær eða Blámi. Trefjar Gnær Davíðsson gæti ég skírt ef ég eignast annað barn. Nei, nú er ég komin út fyrir efnið. Ég vona reyndar að ég komist yfir innri þrýstinginn því ég er með killer uppskrift að kryddbrauði i huga sem notar einungis flaxmjöl, sneisafullt af trefjum.

Allavega. Mig langaði sem sagt í eitthvað. Þegar ég segi eitthvað þá á ég að sjálfsögðu við nammi. Og kannski kex. Jafnvel köku. En nammi hefði dugað. Að vissu leyti var ég glöð, því ég var farin að hafa áhyggjur af þessu ægilega lystarleysi. Á hinn bóginn var ég hundfúl því lystarleysið hefur hentað vel. Þessi vika er reyndar búin að vera dálítið öðruvísi hvað mat varðar. Ég er búin að vera að gera tilraunir með kolvetnamagn og hef verið að fara upp undir 40 og 50 grömm á dag. Hnetur, flaxmeal (ég bara get ekki munað hvað það heitir á íslensku), grísk jógúrt, allt í lagi svona smávegis og öðruhvoru en greinilega ekki í því magni sem ég hef verið að borða það. Mér finnst einhvern vegin að það að snarla svona á hnetum og jógúrti hafi endurvakið matarlystina. Sem stendur er ég líka búin að þyngjast um kíló í vikunni, held reyndar enn fingrum krosslögðum fyrir velheppnaðri klósettferð sem allra fyrst, en engu að síður. Það er nokkuð ljóst að allt yfir 30 grömmum af kolvetnum yfir daginn stöðvar fitutap hjá mér.

Hvað um það. Einhvern veginn varð ég að fá mér eitthvað til að láta mig hætta að langa í eitthvað. Og þó mér hafi nú ekki tekist að búa til alveg kolvetnalaust nammi þá er þetta nú samt skárra en snickers.

Kókóssmákökur. Þessar eru eins og smjörkökur, ekki of sætar en með skemmtilegu kókósívafi. Macadamia hneturnar búa til þetta smjörbragð.Tvær eða svo með góðum kaffibolla og maður er búinn að fá "eitthvað". (Breytt og endurbætt frá( http://kateshealthycupboard.com )

1 bolli kasjúhnetur
1/2 bolli macadamia hnetur
1 bolli kókósmjöl (ég notaði bland af kókósmjöli og kókósflögum)
20 grömm pálmasykur (hér má að sjálfsögðu nota eitthvað af þessum sætuefnum, og minnka kolvetnamagnið, ég myndi mæla með 1/3 bolla)
1/2 tsk lyftiduft
fingurgrip af salti
1 tsk vanilla
1 mtsk bráðin kókósolia
2 mtsk feitur rjómi

Hnetur í matvinnsluvél og malaðar í duft, allt hitt sett út í og maukað þar til helst saman. 18 litlar kúlur settar á sílókon bökunarflet og flattar aðeins út. Bakað við 190 gráður í 8 mínútur. Látið kólna aðeins til að harðna og færið svo á grind til að kólna og storkna. 2.7 grömm kolvetni á hverja smáköku sem gæti verið betra, en gæti líka verið mikið, mikið verra. Ég er glasið er hálffullt kjélling.

fimmtudagur, 12. september 2013

Ég er svo mikil skutla í nýju stígvélunum að ég get ekki einu sinni hjólað í vinnuna. Þegar ég vaknaði í morgun urðu þau til þess að ég setti extra mikinn eyeliner og últra mikinn maskara og hengdi meira að segja á mig allkonar glingur. Og svo byrjaði að rigna og ég bara gat ekki hugsað mér að mæta útrignd og hrikaleg í vinnuna. Ekki þegar ég var í háum stígvélum með lökkuð augnhárin. Snaraði mér bara í strætó og sat þar með krosslagða fætur og dinglaði stígvélunum í hvert sinn sem nýr farþegi kom um borð. Bara fínt.

Ég fór svo í Zara og mátaði nokkra kjóla. Og hrökklaðist aftur út öfug. Lét það reyndar ekki taka frá mér hvað mér finnst ég vera mikil skutla en ef satt skal frá segja þá bognaði sjálfsálitið öööggulítið. Í fyrra, skv. bloggfærslu frá því í Október, var ég 95 kíló og komst í gallabuxur í númer 14. Núna, tveimur kílóum síðar og ég kem þeim ekki upp yfir lærin á mér. Bara tvö kíló. En gætu allt eins verið tvöhundruð. Þetta bendir skilmerkilega til þess hversu mikilvægt það er að hreyfa sig til að fá straumlínur á líkamann. Vigtin skiptir mun minna máli þegar maður er vöðvastæltur og hraustur. Og ætti að verða til þess að minna mig á að byrja að hreyfa mig almennilega aftur. Eða að minnsta kosti ekki láta hégómagirnd hindra þá litlu hreyfingu sem ég þó fæ.

sunnudagur, 8. september 2013

Hann Láki minn verður 10 ára núna í nóvember. Stundum finnst mér erfitt hvað hann er nú þegar orðinn mikill unglingur; þannig erum við foreldrar hans mjög oft "embarrassing" og hann mjög oft svarar beiðnum um hitt og þetta með hnussinu "can´t be bovvered". En hann er líka oft bara litli strákurinn minn sem safnar Halo köllum og vill enn láta mig láta sig fljúga. Við Dave erum reyndar ósköp klén sem foreldrar, ég held að við höfum tvisvar eða þrisvar eitthvað reynt að ala hann upp og það endaði alltaf með ósköpum. Við erum reyndar algerlega með lukkuna yfir okkur af því að hann virðist ósköp vel gerður frá náttúrunnar hendi, rólegur og kurteis og algerlega laus við mörg þau vandamál sem virðast vera svo algeng hjá börnum í dag. Þegar við foreldrar hans gerðum okkur grein fyrir því að hans raunveruleiki er svo ólíkur þeim sem við ólumst upp í varð þetta allt saman miklu auðveldara og við hættum að rembast þetta. Þó að við Dave eyddum allri okkar barnæsku með nefið í bókum þýðir það ekki að það sé eitthvað að Láka þó hann kjósi ekki að gera slíkt hið sama. Dave ólst upp með tvær sjónvarpsstöðvar, ég eina. Láki getur valið um 620. Auðvitað er hans daglega líf ólíkt barnæsku okkar tveggja. Fyrir utan menningarmismuninn á milli okkar. Og við leyfum honum þessvegna bara að þróa tölvukunnáttu og höfum litlar áhyggjur af skriffærni. Hann er fluglæs og klár í stærðfræði. Er það ekki nóg? Nei, við ákváðum að tilraunir til að þrýsta á hann uppeldisaðferðum sem voru gildar fyrir 30-40 árum væru ekki við hæfi lengur. Það er bara ekki hægt að bera okkar reynslu saman við hans og það eina sem við getum gert er að passa að hann viti hvað okkur finnst hann geðsjúklega flottur gæji og hvað við elskum hann mikið.

Eitt veldur mér þó örlitlu hugarangri. Mér finnst svo erfitt að útskýra fyrir honum að flest myndefni sem hann sér af stúlkum og konum í fjölmiðlum eur annað hvort brenglaðar fantasíur eða hreinlega rangar. Við horfðum á MTV um daginn og ég komst í heilmikið klandur með að reyna að stanslaust að kommenta á öll myndböndin; þú veist að svona kemur maður ekki fram við stelpur í alvörunni, er það ekki? Hann er líka búinn að pikka heilmikið upp og virðist kominn með hvolpavit því hann tilkynnir mér oft að hitt og þetta sé "sexual". Og að hann sé "embarrassed" og líði skringilega. Þrátt fyrir að vera glatað foreldri og hafa gefist upp á að ala hann upp svona per se þá er þetta eitt sem ég get ekki látið vera. Sonur minn á að vita hvað er rétt og hvað er rangt í samskiptum kynjanna.

Hann hefur líka gífurlegan áhuga á málefninu. Um daginn heimtaði hann að fá að vita af okkur Dave "exactly" hvernig börnin koma til. Ég útskýrði á vísindalegan hátt að karlmaðurinn stingi typpi inn i konuna til að koma sæðisfrumum í egg konunnar þar sem eggið og sæðið mynduðu svo barn. "Very interesting", segir hann að máli mínu loknu, "could you two demonstrate?" og bendir á okkur pabba sinn. Ég hélt ég myndi drepast úr hlátri. Vísindalegri skýringu hlyti að fylgja vísindaleg tilraun að hans mati.

Þetta er flókið mál. Verst að ég á ekki eintak af Sjafnaryndi sem hann getur bara stolist í svona eins og ég gerði í den til að læra á þetta allt saman svona sjálfur. Og best við þá bók eru fyrirsæturnar sem valda engum ranghugmyndum um hvernig mannslíkaminn lítur út og tvær flugur þar með slegnar í einu höggi og hann, eins og ég, getur verið feminískur pervert af hjartans lyst.

97.7 í morgun. Það eru 7.3 kíló væk síðan talning hófst aftur fyrir þremur vikum síðan við byrjunarreitinn 105 kg. Ég hef bara aldrei séð annað eins! Er farin í fjallgöngu.

laugardagur, 7. september 2013

Þrátt fyrir svona örlítil mishöpp með náttúrusykrur eins og steviu þá held ég ótrauð áfram með lágkolvetnalífstílinn og líður rosalega vel. Ég hef mestmegnis haldið mig við innan 20 grömm af kolvetnum á dag (ég tel reyndar ekki grænt grænmeti) og sé að með því að halda mig þar þá gersamlega lekur af mér spekið. Það er því komin tími til að hækka aðeins magnið til að sjá hvað ég kemst upp með.

En áður en lengra er haldið er ekki við hæfi að útskýra þetta aðeins meira? Kolvetni eru ástsælt umræðuefni og hafa sjálfsagt verið síðan Atkins kúrinn varð frægur hér um árið. Það virðist sem svo að einhver bóla sé í gangi núna og ég efast ekki um að með henni fylgi margskonar misskilningur og hundavísindi.

Kolvetni eru eitt af þremur meginnæringarefnunum sem byggja upp allan mat. Hin tvö eru svo prótein og fita. Kolvetni eru í mat eins og ávöxtum og grænmeti, brauð- og kornmeti, pasta, baunum og sælgæti. Líkaminn kýs kolvetni allra helst til að nýta sér sem orkugjafa. Kolvetni eru byggð upp af sykrum, eða sykurmólekúlum (molecules) sem binda saman kolefni, vetni og súrefni. (CHO). Líkaminn brýtur niður allar tegundir af kolvetnum og breytir í glúkósa og nýtir síðan sem orku.

Kolvetnunum sjálfum má svo skipta niður í ýmsar tegundir, einföld og flókin, hæg og fljót eða jafnvel góð og slæm! Einföld kolvetni eru fljótt niðurbrotin í líkamanum og fara hratt í blóðið og eru til dæmis ávextir, sykur og hvítt hveiti. Flókin kolvetni eru búin til úr fleiri mólekúlum (aðallega trefjum) og taka lengri tíma að brotna niður og eru þannig einnig talin "betri". Hér er tildæmis um að ræða grænmeti, baunir og hafra.

"Venjulegur" líkami getur yfir daginn brotið niður og nýtt sér til orku um það bil 300g af kolvetnum. Allt um fram það án þess að hreyfa sig últra mikið myndi valda því að líkaminn offramleiðir glúkósa sem hann hefur ekkert við að gera annað en að breyta í fitu.

Þeir sem aðhyllast lágkolvetnalífstílinn halda fram að með því að takmarka inntöku kolvetna hafi líkaminn ekki um neitt að velja en að nýta sér fitu og prótein sem orkugjafa og eftir nokkurn tíma fer líkaminn á stig sem kallast "ketosis" þar sem líkaminn nýtir sér fituforða líkamans til orku og breytir henni í orkuforða sem kallast ketones. Að vera "í ketosis" þýðir að líkaminn hefur brennt stórum hluta fituforða í andsvari við þá staðreynd að hann hafði engan glúkósa til að vinna úr.

Til að kanna hvort matvara sé há- eða lágkolvetna er best að lesa á innihaldslýsingu. Einhver misskilningur er í gangi með "total" og "net" kolvetni, en munirinn þar á er að í "total" kolvetnum eru trefjar (fibre) taldar með en í "net" er búið að mínusa þær frá. Öll lönd hafa mismunandi reglugerðir um hvað þarf að taka fram og ég myndi hvetja fólk til að lesa vel og vandlega á miðann. Þannig eru breskar matvörur alltaf með "net" kolvetni og trefjar hafa þegar verið dregnar frá. Amerískar hinsvegar telja oft upp total carb en eiga það til að segja bara til um skammtastærð frekar en "í 100g". Góð þumalputtaregla er að passa að í hverjum 100g séu ekki fleiri en 20g af kolvetnum (carbohydrates). Segjum sem svo að þú ætlir að fá þér gulrætur og húmmús. Í 100g af gulrótum eru tæp 8g af kolvetnum þegar trefjar hafa verið teknar frá og í 100g af húmmús eru um 16g. Þú fær þér 80 g a gulrótum og 50 g af húmmús og ert þar með búin að fá  14.4g af kolvetnum. Eða umþ helming af því sem ég leyfi mér yfir daginn. Þannig er auðveldast að telja saman yfir daginn. (Og persónulega myndi ég kalla húmmús spari!)

Þegar fyrst er á litið mætti ætla að lágkolvetnamatseðill virðist vera lausnin á fituvandamáli heimsins en það verður einnig að taka það fram að margar rannsóknir hafa sýnt að fólk gefst alveg jafnmikið upp á þessum megrunarkúr og hverjum öðrum. Fitutap er gífurlegt til að byrja með en minnkar svo og jafnast út á við aðra kúra sem takmarka hitaeiningar, eða fitu eða hvað annað.

Ég tel sjálf að lágkolvetnin henti mér vel vegna þess að geðveikin mín stjórnast af kolvetnum. Með því að sleppa þeim kemst ég hjá klikkuninni. En hver og einn verður að gera upp við sig hvað er best fyrir sig. Ég ætla svo allsekki að sitja hér og segja að eitt sé betra en annað.

Mér þykir auðvelt að halda mig innan við þessi 10-30g á dag. Í morgunmat fæ ég mér smjörsteikta ommilettu, oftast með mismunandi kryddblöndu. Hádegismaturinn er svo salat með kjöti og feitri dressingu. Eða lifrakæfa. Kvöldmatur er svo kjöt eða fiskur með grænmeti. Ég borða ost og kjöt í snakk og snarl. Og ég fæ mér frosin bláber með rjóma eða chia búðing í eftirrétt. Grísk jógúrt stundum. Ég hef mestmegnis sleppt hnetum og fræjum því það er svo auðvelt að óverdósa á þeim. Ég nenni ekki að telja kolvetni í grænmetinu sem ég borða, passa bara að velja lágkolvetnagrænmeti eins og blómkál, brokkólí og kál.

Þetta er ekkert mál.

Ég hef enn ekki nennt mikið að vera að stússast í bakstri. Ég sakna ekki að fá mér brauð og kökur. Ég get ekki hugsað mér svona "substitute" brauð úr möndlu, flax eða kókósmjöli, því það er bara ekki brauð. Vil frekar bara sleppa því. Ég var nú þegar orðin lúnkin við að baka kökur úr kókóshveiti, ég á góða grunnuppskrift sem ég nota stundum, en enn sem komið er hef ég ekki mikið gert af þvi. Ég held að það sé eitt af þvi sem fólk flaskar á, það byrjar að búa til öll þessi kruðerí úr "alternative" hveiti og endar svo bara með gommu af kolvetnum án þess að taka eftir því.

Það eina sem ég sakna er haframjöl. Ég ákvað því í morgun að búa mér til hnetugranóla sem er svona spari. Ég er ófær um að nota steviu og hef notað hér pálmasykur, en bara 25g þannig að heildar uppskriftin er um það bil 40 g af kolvetnum. Skipt niður í 10 skammta út á skyr eða jógúrt og bara 4 g af kolvetnum í skammtinum.

1 bolli kasjúhnetur
1 bolli möndlur
fingurgrip af góðu salti
hakkað aðeins þannig að það eru mismunandi klumpar af hnetum
3 mtsk smjör
25 g pálmasykur
1 tks góð vanilla
3 mtks sykurlaust bökunarkakó
allt brætt saman og hellt yfir hnetublönduna
40 g kókósmjöl svo blandað saman og allt flatt út á plötu og sett inn í 80g heitan ofn í 4 tíma.

Út á skyr í morgunmat eða millisnakk eða jafnvel eftirrétt og hamingjan syngur í lífinu.

miðvikudagur, 4. september 2013

Ég er haldin þeirri áráttuhugsun að halda stanslaust að hlutirnir geti alltaf batnað. Það er í sjálfu sér svo sem ekkert vandamál, það þykir seint vont að vera bjartsýnn, en minn Akkilesarhæll er sá að mitt bjartsýni er ósköp hluttengt. Þannig hugsa ég mjög mikið að "ef þetta bara gerist þá yrði þetta hér svo miklu betra." Sem dæmi má nefna að ég hugsa oft með mér að ef ég bara væri mjó þá væri allt hitt svo miklu auðveldara. Oftast nær er þetta þó meira materíalískt. Þannig er ég þessa dagana algerlega sannfærð um að ef ég bara eignist þessi stígvél:

þá lagist fataskápurinn minn algerlega og ég breytist í óaðfinnanlega tískudrós (sem er líka flatbrjósta af einhverjum ástæðum). Mér þykir líklegt að ég fari um helgina og kaupi stígvélin. Ég finn það á mér að ég á ekki eftir að sitja róleg fyrr en ég er búin að eignast þau. Til þess eins að finna út að það eina, það einasta eina sem nú vantar er köflóttur kjóll. Eða eitthvað annað.

Á svipaðan hátt hef ég ekki getað á mér heillri tekið út af steviu leysinu. Ég hafði fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar ég fyrst sannfærðist um að sykur og hveit væri undirrót alls ills, beðið Ástu um að finna steviu, náttúrusykur, í stórborginni og senda mér. Sem hún og gerði. Og ég reyndi tvisvar eða þrisvar að nota en bara gat það allsekki vegna þess hversu ógeðslega vond stevian er á bragðið. Bara hreint ógeð. En nú þegar ég er í alvörunni að lifa eftir lágkolvetnalífstílnum kom stevian aftur inn. Allt "gervi" bakkelsið notar steviu til að ná sætubragðinu. Ég ákvað að ég hlyti bara að hafa verið eitthvað rugluð þegar ég síðast prófaði og pantaði flösku af vanillu steviu í fljótandi formi.

Ég er búin að bíða svo spennt. Allt mitt lágkolvetnalíf myndi umturnast með þessari litlu flösku! Sweet mama! Ef bara ég á steviu þá verður allt hitt í lagi. Þegar ég var svo loksins komin með gripinn í hendurnar rauk ég beint í að búa til avókadóbúðinginn minn. Venjulega myndi ég nota hlynsýróp en nú skyldi stevian sko blífa! Ég smellti búðing í skál, þakti með rjóma og sleikti svo skeiðina með áfergju. Og ekkert hefur breyst síðustu tvö árin. Stevia er enn algjört ógeð. Ógeð. Það vottar ekki fyrir sætubragði, einungis bitur gervibragð sem skilur eftir sig rammt munnvatn og geðstirðleika í sálinni.

Ég hef alltaf haft illan bifur á svona "substitute" matargerð. Og þetta var alveg til að sannfæra mig. Ef ég ætla að lifa án kolvetna, nú þá geri ég það bara. Ég venst því að vera sykurlaus. Og ef ég fríka út og fæ mér eitthvað sætt, þá ætla ég líka að passa mig á að það verði eitthvað sem er þess virði.

Mikið sem ég hlakka til að kaupa stígvélin. Ég verð svo mikil gella!

sunnudagur, 1. september 2013

Þetta voru ljómandi veikindi alveg hreint. Svona dálítið eins og frir passi niður fyrir 100 kiló án þess að þurfa að hafa fyrir því. Mér finnst eins og ég hafi fengið gefins viku þyngdartap alveg ókeypis og er heldur betur sátt við það. Fyrir mér skiptir það öllu að vera undir hundrað. Undir hundrað er ég "venjuleg" og líður ágætlega vel í líkamanum. Undir nítíu er ég svo mjó. En það er önnur saga.

Nú er náttúrlega erfitt að segja til um hvort lágkolvetnafæðið hafi hjálpað til líka en mér tókst að halda þvi alveg í gegnum veikindin og ónotin sem fylgdu á eftir. Það eina sem eftir stendur núna er reyndar að ég er enn hálf viðkvæm í maganum og á erfitt með að taka inn alla fituna sem ætlast er til.

Ég hlakka til að verða aftur góð í maganum til að geta haldið betur áfram tilraunum. Ég var komin á dáltinn svíng inni í eldhúsi, búin að hanna chia graut og beikon salat og ýmislegt annað áhugavert en lystarleysið gerir það að verkum að ég vil ekki vera í eldhúsinu.

Mér sýnist lystarleysið líka vera að skila sér í ritstíflu. Voðalega er ég eitthvað bleh.