Ég er voðalega fegin að þurfa ekki að baka neinar smákökur í ár. Ekki það að ég hafi nokkurn tíman bakað smákökur en í ár hef ég hina fullkomnu afsökun að ég er "í megrun" og ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera meira en léleg húsmóðir. Í ofanálag við að vera lélegur bakari finnast mér smákökur ægilega vondar. Það eru alveg sér vísindi að baka góðar kökur, maður þarf að vera nákvæmur í vigtun og fylgja vissum vísindalegum reglum sem ég á erfitt með að gera. Ég er svona "slump" kokkur, sem hentar vel í matargerð en alls ekki í bakstur. En ég sakna smákökugerðarinnar af öðrum ástæðum. Það fylgir henni alveg sérstök jólatilfinning. Á Fullveldisdaginn var hveitið, smjörið og sykurinn dregið fram, Willy Nelson skellt á fóninn og svo bakaði mamma og jólahátíðin kom í húsið með lyktinni og tónlistinni. Þessari athöfn fylgdi gífurleg vellíðan og öryggistilfinning. Og mér finnst hálf leiðinlegt að ég búi ekki til svona stemmingu fyrir Láka. Mér finnst heimatilbúinn ís hinsvegar alveg svakalega góður. Ég er þessvegna að spá í að splæsa nokkrum hitaeiningum í ís og fá Láka til að hjálpa mér. Og skella Willy Nelson á fóninn. Hann er alveg sykurlaus og hitaeiningafrír.
sunnudagur, 29. nóvember 2009
Við eiginmaðurinn tókum nett ferðalag aftur til ársins 2007 í dag og keyptum okkur svona sjónvarp eins og var svo í tísku þá. Við erum bara svona hopelessly hallærisleg og verðum bara að lifa með þeim ósköpum. Þetta er svona flatt og þunnt sjónvarp, plasma skjár og er alveg ægilega fínt. Stofan verður öll svona mun straumlínulagaðri við þetta. Og ég hlakka voðalega til að gera æfingarnar mínar í fyrramálið og hafa svona stóran skjá við það. Ég notaði líka tækifærið svona á fyrsta sunnudegi í aðventu og þreif allt í kringum sjónvarpið, ótrúlegt hvað það safnast mikið ryk undir því. Og dreif svo líka jólaskrautið upp. Það er orðið ægilega jólalegt í litla húsinu mínu, aðventukrans á borðinu, handprjónaðir jólaskrattar og svo er sænski kertastjakinn minn búinn að fá falleg rauð kerti og breyttist við það á augabragði í lifandi aðventuljós. Ég ætla að geyma útiljósin, það er ómögulegt að koma þeim upp. En við keyptum líka jólatré og ljós á það. Þetta er fyrsta lifandi tréð sem við höfum fengið. Ég hef hingað til bara látið jólaherðatréð duga en þegar ég sá normannsþyn á fæti á 18 pund í ASDA þá stóðst ég ekki mátið. Og dró það hingað heim. Það stendur núna úti í garði og bíður eftir Þorláksmessu. Ég verð bara að fá mér vel í glas og afhenda Dave og Lúkasi það með látum og bægslagangi svona fyrst að hér eru engir Kívanis kallar til að gera það fyrir mig.
föstudagur, 27. nóvember 2009
Í gleði minni og hamingju svona bara almennt dansaði ég í eldhúsinu um leið og ég vaskaði upp í gærmorgunn. Ég meina hver getur staðist að dilla sér ákaft við Doorbell með White Stripes? Og við eitt væga vinstra hoppið brákaði ég helvítis hnéð enn eina ferðina. Mikið djöfull er ég orðin leið á þessu. Og það er margra mánaða bið eftir að komast til sérfræðings. Þetta er algerlega að hindra alltsaman. Hvað um það, ég saup hveljur í smá stund og svo jafnaði það sig nokkuð hratt. Og sem betur fer var þetta bara smá hnykkur og skildi ekki eftir sig neina bólgu. Þannig að ég sagði fokk it og fór út og hljóp. Jebb, ég skokkaði einn hring um hverfið. Ekkert svona alvarlegt, bara aðeins til að prófa en mér tókst það og skemmti mér konunglega og meiddi mig ekki neitt. Ég fór ooooofur varlega og fyrir flesta áhorfendur hef ég sjálfsagt ekki litið út fyrir að vera hlaupa en mér fannst ég fljúga hringinn. Þannig að núna er sko algerlega efst á jólaóskalistanum ipod svo ég geti hlaðið inn couch to 5k prógramminu og hlustað á dauðarokk á meðan ég hleyp og eins og eitt par góðir hlaupaskór. It´s all happening now baby!
fimmtudagur, 26. nóvember 2009
Nú ríkir ástin ein enda eitt kíló af hatri farið í morgun. Þetta er allt í rétta átt. Ég verð að viðurkenna að ég er bæði hissa og ánægð því ég gerði ráð fyrir að þessi vika væri stopp vika eftir velgengnina síðustu tvær. En svona er þetta bara. Ég borðaði að meðaltali 1400 kalóríur á dag og æfði að meðaltali fyrir 250 kalóríur. Sem er nákvæmlega það sem ég geri að meðaltali í hverri viku. Þannig að það er stundum skrýtið hvað það er lítið samhengi í hvað ég léttist, nema reyndar að þegar maður skoðar meðaltalið. 800 grömm á viku. Sem er ekki spennandi, en mjög gott svona út frá öllum kenningum. Þetta er víst ákkúrat það sem maður á að léttast til að eiga mestu möguleikana á að halda spikinu af sér. Það verður að hafa það í huga að ég er að berjast við mjög lélegar líkur; aðeins 3% af þeim sem tekst að léttast um 30 kíló eða meira tekst að halda þeim af sér í lengri tíma en 5 ár. Þetta er ekki hvetjandi. Eða kannski er þetta hvetjandi því mig langar til að vera með í þessum elítu hóp.
Eitt af því sem hefur gerst með þessu megrunarstandi er að giftingar-og trúlofunarhringirnir mínir eru orðnir of stórir. Ekki nógu stórir til að láta minnka þá strax en nógu stórir til að þeir detta af þegar ég vaska upp og sveifla hendinni þannig að ég er smá stressuð yfir að tína þeim. En þeir eru líka orðnir að einu af "tækinu" sem ég nota. Ég nudda viðbeinin þegar mig langar í einhverja vitleysu og ég hreyfi hringana þegar ég er við það að falla. Og ég hætti við. Brilljant.
Eitt af því sem hefur gerst með þessu megrunarstandi er að giftingar-og trúlofunarhringirnir mínir eru orðnir of stórir. Ekki nógu stórir til að láta minnka þá strax en nógu stórir til að þeir detta af þegar ég vaska upp og sveifla hendinni þannig að ég er smá stressuð yfir að tína þeim. En þeir eru líka orðnir að einu af "tækinu" sem ég nota. Ég nudda viðbeinin þegar mig langar í einhverja vitleysu og ég hreyfi hringana þegar ég er við það að falla. Og ég hætti við. Brilljant.
þriðjudagur, 24. nóvember 2009
Ég hef áður minnst á það hversu mikilvægt það er að fá sér morgunmat. Ég er hætt að þurfa að berjast við sjálfa mig og neyða mig í að borða, svo lengi sem ég þarf ekki að gera það fyrir klukkan 9. Ég náttúrulega tími alls ekki að sleppa tækifæri til að borða mat! Þá daga sem ég sleppi morgunmat, eða fæ mér eitthvað sem er kannski ekki alveg það besta svona næringafræðilega séð, þá fylgir oftar en ekki dagur yfirfullur af mat sem er kannski ekki sá besti næringafræðilega séð. Svona eins og að ég verði að byggja traustan grunn á hverjum degi eða öll spilaborgin hrynji bara niður. Á sama hátt er mikilvægt fyrir mig að byrja daginn á líkamsrækt. Ef ég geri það á morgnana þá hugsa ég allan daginn að ég tími ekki að skemma erfiðið sem ég lagði í æfinguna í morgun. Hafragrautur er uppáhalds morgunmaturinn minn. Og hann var alveg sérlega ljúffengur í morgun. Út í hann fór maukað grasker, kanill og múskat ásamt smá hunangi, mjólkurdreitill og 5 möndlur. Ó boj óboj! Eins og að fá pumpkin pie í morgunsárið. Getur maður beðið um eitthvað meira?
mánudagur, 23. nóvember 2009
Nú er komið svo að það er tími til komin að hætta sér í eina netta verslunarferð í The Trafford Centre. Kelly er alveg æst í að við tökum dag úr lífinu og förum þangað saman, eyðum deginum í að versla jólagjafir og aðra þessháttar kvenlega tómstundariðju. Við erum því búnar að fá frí í vinnunni á föstudaginn og ég er á fullu að skrifa niður lista. Það er bara tvennt sem er að. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að kaupa handa strákunum mínum, hvorugur biðja þeir um neitt, og ætlast bara til að mér detti eitthvað ægilega sniðugt í hug. Hitt sem er verra er að síðasta og reyndar eina skiptið sem ég hef farið í Trafford Centre þá var það ekki ferð til frama. Dave hélt að hann væri að gera voða gott við mig þegar hann planaði ferð þangað með mig; heill dagur í verlsunarmiðstöð og ég mátti gera þar það sem mig lysti. Ég labbaði þangað inn, fékk vægt taugaáfall og heimtaði að fara aftur heim. Greyið Dave vissi ekki hvaðan sig stóð veðrið, hvað hann hafði misskilið þarna. Það kom þá í ljós að ég alveg hata verslunarmiðstöðvar. Ég vil bara vera niður í bæ, í fersku lofti og ég vil helst ekki hafa of margar búðir heldur. Mér fallast bara hendur ef það er of mikið val. Hann lærði mikið um mig þann daginn. En Kelly er svona ægilega spennt að fá að fara í svona "girlie" ferð með mér, og ég get ekki skemmt þetta fyrir henni. Þannig að ég ætla að vera ægilega skipulögð, skoða hvaða búðir eru þarna á netinu og gera áætlun. Hvert ég ætla að fara og hvað ég ætla að kaupa. Þannig að það er engin hætta á taugaáfalli. Og það er líka John Lewis þarna þannig að vonandi fæ ég bara að vafra þar um góðan hluta dagsins. Ég eeeeelska John Lewis. Kannski að maður komist í svakalegan jólafílíng við að fara í pílagrímsferð í Mekka kaupóðra.
föstudagur, 20. nóvember 2009
Mikið rosalega var þetta góður hádegismatur! Gúrka, tómatar og smá ólívuolía, fimm korna súrdeigsbrauð með pínu húmmus og örþunnt "deli" kjöt. Ég er enn að smjatta. Er líka í voða fínu skapi af því að ég komst að því að ég er ekki langt frá því að vera fullkomin. Bara 0.1 frá því nánar tiltekið. Vísindalegir vísindamenn sem hafa rannsakað vísindi á vísindalegum grunni hafa semsagt komist að því að það er til formúla fyrir hinni fullkomnu konu. Það er alveg sama hvaða lag af konu er í "tísku" allar eiga þær það sameiginlegt, hvort sem það er Marilyn Monroe eða Twiggy, að ef mál er tekið af mitti og mjöðmum (í tommum) og því svo deilt í hvort annað kemur svarið alltaf tilbaka sem 0.7. Og þetta geta karlmenn víst reiknað út í huganum og það án þess að vita af því. Því konur með málið 0.7 eru líklegastar til að geta af sér sterkustu afkvæmin. Og við sem héldum að karlmenn gætu ekki lokað tannkremstúbu hjálparlaust! Og svo geta þeir bara framkvæmt flóknar reikniformúlur í huganum um leið og þeir stara á rassinn á konum og það í undirmeðvitundinni! Merkileg þessi vísindi.
fimmtudagur, 19. nóvember 2009
Ég er voðalega hugsi í dag. Maður alveg búinn að losa sig við Íslandsspikið (gæti þetta ekki verið nafn á freigátu?) og bara eftir að rússa af hatursvikunni. 1.4 í dag, takk og amen. Næsta setning ætti að vera: "og þá er það bara að verða 95 kg fyrir jól" en ég held að það sé ekki raunhæft takmark. Ekki það að ég sé ekki "up for a challenge" og allt það en það getur líka verið niðurdrepandi að setja sér of háleit markmið. Ég er búin að vera að svipast um eftir "non-scale goal" en dettur eiginlega ekkert í hug. Kelly vill endilega að ég kaupi mér flík í númeri of litlu sem ég get svo miðað mig við. Vigtin segir nefnilega ekki alltaf alla söguna. Mér finnst nú einhvern vegin að mér þætti það bara pirrandi. Að eiga eitthvað fínt inni í skáp sem ekki er hægt að fara í strax, núna, já núna eða ég vil það ekki! Mér dettur heldur ekki neitt svona líkamlegt takmark í hug, eins og að geta tekið 300 kg í bekkpressu eða hlaupið 5 km á 29 mínútum. Nema kannski að geta gert teaser pósuna í pilates. Hmm...það er reyndar ágætis hugmynd. Hvað um það, mér datt svona helst í hug að takmarkið væri að halda sér undir hundrað kílóum, og þá meina ég vera stanslaust undir hundrað og þannig að allar sveiflur á vigtinni fari aldrei yfir hundraðið þannig að ég viti að ég sé örugglega undir hundrað yfir öll jólin og áramótin. Þannig að ég geti byrjað 2010 algerlega pottþétt á því að ég sé manneskja undir hundrað. Þetta undir hundrað er nefnilega svo svakalegur hornsteinn. Og tilhugsunin um að verða svo næst 90, 80, 70 er eiginlega of mikið fyrir mig að melta. Þetta hljómar ósköp mikið eins og ég sé að skjóta mér undan ábyrgðinni og að ég hafi í hyggju að stoppa bara hér, vera bara alltaf 99.9 kg. Það er ekki það sem ég meina. Ég þarf bara núna einhvernveginn að festa þessa tölu niður þannig að ég geti farið að hugsa um heiminn í tveggja stafa tölu. Og ég er eins og oft hefur komið fram áður, in this for life, þannig að ég verð að gera þetta þannig að hentar mér. Ég þarf að læra að hugsa um sjálfa mig sem grennri manneskju sem getur gert allskonar hluti. Þannig að ég segji ekki alltaf nei, ég get ekki, ég er of feit. Þannig að ég sé viss um að ég skemmi ekki fyrir sjálfri mér. Meikar þetta einhvern sens?
miðvikudagur, 18. nóvember 2009
Gærdagurinn var alveg merkilegur. Ég gleymdi að borða hádegismatinn minn. Ég fór snemma í vinnuna og tók með mér sveppasúpu sem ég hafði búið til á mánudaginn. Og svo um þrjú leytið fannst mér ég vera ægilega svöng og fékk mér möndlurnar mínar. Og sá þá súpuna. Ég hef áður sleppt því að borða, ég hef áður ekki haft tíma til að borða, en ég hef aldrei, aldrei gleymt að borða. Vanalega skipti ég deginum niður í kringum máltíðir, ég plana allt í kringum næstu máltíð. Allt. Og eitthvað gerðist í gær sem tók það að borða og setti það í allt annað sæti í forgangsröðinni. Nú veit ég að það er alls ekki sniðugt að sleppa máltíðum og ég hef ekkert í hyggju að gera það, en mikilvægið hér liggur í að í fyrsta skipti á ævinni þá voru heili og magi í fullkomnum tangó, og ég fékk engin boð um að borða áður en ég varð svöng. Svona hlýtur það að vera sem heilinn í mjóu fólki virkar. Þannig að ég fékk að vera mjó, í heilanum, í smástund í gær. Og það var æðislegt.
Hér er alveg svakaleg rigning. Ég er að velta fyrir mér hvort ég tími að fara út í nýju stígvélunum mínum. Há, svört, flatbotna leðurstígvél. Alveg ægilega flott. Og keypt svona because I´m worth it og allt það. Ég keypti mér líka svona gammósíur eða leggings eins og þær eru nú víst kallaðar. Svona til að vera í við stígvélin. Ég hafði séð stelpur í svona í dálítinn tíma og man að ég hugsaði með mér að það væri nú leiðinlegt að mér þætti þetta svona ógurlega ljótt af því að gammósíur eru fullkominn fitubollu fatnaður. Teygja! En að ég færi nú aldrei í svona. Þetta væri örugglega bara eitthvað sem hallærislegir Bretar væru í. Svo voru Ólína og Helga báðar í leggings þannig að ég þurfti að endurskoða málið. Og er í þeim núna. Og mér finnst þetta ekki fallegt. Ég verð nú bara að segja það. Ég er gömul og hallærisleg. Og er núna á leiðinni að láta lita á mér hárið fjólublátt um leið og ég næ í fullorðinsbleyjurnar mínar.
Hér er alveg svakaleg rigning. Ég er að velta fyrir mér hvort ég tími að fara út í nýju stígvélunum mínum. Há, svört, flatbotna leðurstígvél. Alveg ægilega flott. Og keypt svona because I´m worth it og allt það. Ég keypti mér líka svona gammósíur eða leggings eins og þær eru nú víst kallaðar. Svona til að vera í við stígvélin. Ég hafði séð stelpur í svona í dálítinn tíma og man að ég hugsaði með mér að það væri nú leiðinlegt að mér þætti þetta svona ógurlega ljótt af því að gammósíur eru fullkominn fitubollu fatnaður. Teygja! En að ég færi nú aldrei í svona. Þetta væri örugglega bara eitthvað sem hallærislegir Bretar væru í. Svo voru Ólína og Helga báðar í leggings þannig að ég þurfti að endurskoða málið. Og er í þeim núna. Og mér finnst þetta ekki fallegt. Ég verð nú bara að segja það. Ég er gömul og hallærisleg. Og er núna á leiðinni að láta lita á mér hárið fjólublátt um leið og ég næ í fullorðinsbleyjurnar mínar.
þriðjudagur, 17. nóvember 2009
Á leið okkar Láka í skólann í morgun löbbuðum við framhjá bekkjarsystur hans þar sem hún stóð með móður sinni fyrir utan Spar verlsunina hér á Market Street. Móðirin hafði greinilega ekki skipulagt vikuna (eins og sumir) og þurft að stoppa við í búðinni til að kaupa í nestisbox stelpunnar. Sem er gott og blessað, það geta ekki allir verið með svona gríðarlega skipulagshæfileika (eins og sumir). Það sem verra var að í boxið fór einn snakkpoki með ostabragði (svona fyrir trefjarnar), ein dós af Fanta (örugglega sneisafullt af c-vítamíni), "sausage roll" smjördeig utan um svínahakk og fitu (fínn prótein skammtur) og eitt tvöfalt Milky Way (er mjólkursúkkulaði ekki rómað fyrir kalk innihald?) Þetta er glæsilegur hádegismatur fyrir 6 ára gamla stelpu. Og hún er sko ekki sú eina sem fær svona í bitaboxið sitt. Nú er ég allsekki að segja að Láki borði hollann og góðan mat. Hann eiginlega bara borðar ekki neitt. Og ég er búin að gefast upp. Að því leytinu til að ég er hætt að neyða mat ofan í hann og ég er hætt að vera með tárin í augunum yfir þessu. Hann er með náttúrulegan stoppara í sér og bara virðist ekki þurfa að borða mikið. Svo smá saman bætist alltaf meira við í safnið. Og ég þekki fólk sem var orðið yfir tvítugt þegar það loksins fékkst til að smakka t.d. lauk og sveppi. En ég neita líka alveg að gefa honum svona í nestisboxið. Ég fæ frekar eplið og bananann óétið heim daglega. Ég man að mér fannst ég alltaf vera eina feita barnið í skólanum mínum, og svo þegar ég eldist og var kannski ekki sú eina sem var feit þá var ég allavega alltaf sú feitasta. Mér sýnist að börn í dag þurfi sko ekki að hafa áhyggjur af því að vera sá eða sú eina feita, þau eiga öll eftir að vera rorrandi um í spiki. Sem náttúrulega eru frábærar frábærar fréttir fyrir mig, því eftir því sem aðrir verða feitari virka ég mjórri þannig að ég segji sko bring it on! Minn tími er kominn!
mánudagur, 16. nóvember 2009
Mikið svakalega var þetta leiðinleg færsla hjá mér í gær. Í guðanna bænum ekki taka mark á svona sjálfumglöðum þvættingi. Ég bara veit ekki um hvað ég var að hugsa. Hvað um það. Jólin. Já, þau eru á næsta leyti og ég er farin að hlakka til. Er að reyna ekki en get ekki að því gert. Ég hlakka til að skreyta, ég hlakka til að kaupa gjafir, ég hlakka til að hlusta á tónlistina, ég hlakka til að finna gleðina í hjartanu sem ég finn, ég hlakka til að það kólni enn meira svo ég geti farið að nota húfuna mína, ég hlakka til ljósanna, ég hlakka til að búa til kort og senda. Og ég hlakka til að halda upp á matarjól þar sem þau standa yfir í einn dag. Ég er með hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld og svo á ég smá makkintoss og í ár ætlum við bara að láta það duga. Ekkert rugl í ár. Ég nenni ekki þessu tvö skref áfram, eitt tilbaka kjaftæði. Jólin fyrir mér í ár ætla að snúast um allt annað en mat. Amen.
sunnudagur, 15. nóvember 2009
Mér hefur svona hingað til þótt lítið til þess koma að vera að velta sér upp úr lífrænu, heimaræktuðu, vistvænu, "made from scratch" kjaftæði. Ef ég skal segja satt þá fannst mér fólk mest megnis misskilja þetta og flestir hljómuðu í mínum eyrum eins og að þeir héldu að þetta væri tíska og maður þyrfti að borða lífrænt súsjí og spínat með flaxolíu til að vera maður með mönnum. Þessvegna finnst mér ægilega erfitt að svona þegar ég er að dragast meira og meira í áttina að algerlega náttúrlegu efni, heimagerðu og lífrænt ræktuðu þá hljómi ég eins og nýsnobbari sem er bara að fylgja tískunni. Og þessvegna er ég ekki alveg með á hreinu hvort ég á að segja frá því að ég er farin að búa til minn eiginn súputening. Ég hef að undanförnu verið að safna í frystinn beinum og grænmetisafgöngum sem ég svo krydda, sýð, sigta og nota svo sem kraft. En ég bara get ekki að þessu gert. Eftir því sem kalóríurnar mínar verða dýrmætari tími ég bara ekki að eyða þeim í eitthvað gervi ógeð. Og af því að góði maturinn er dýrari tími ég ekki að henda og eyða í vitleysu. Þannig að þetta er bara allt að gerast svona óvart og í eðlilegri þróun. Þannig að eins og væna sneið af peruköku með þeyttum rjóma þarf ég að éta fordóma mína ofan í mig og viðurkenna að lífrænt ræktað er einfaldlega bragðbetri matur og betri fyrir heiminn og að hinir sem föttuðu þetta á undan mér mega hlæja að mér eins og þeim lystir. En ég fer ekki ofan af því að það er enn vænn hópur af kjánum sem taka þátt í til að tolla í tískunni.
laugardagur, 14. nóvember 2009
Nú fara ævintýri í grænu aldeilis að taka flugið. Ég er búin að finna netverslun sem sendir heim lífrænt ræktað grænmeti og ávexti, og matvöru sem er framleidd og unnin algerlega heimavið. Ég kaupi bara kassa af blöndu af ávöxtum og grænmeti og fyrir 99 pens fæ ég þetta sent hingað heim á hverjum föstudegi. Næst á ég til dæmis von á að fá kaki ávöxt, eitthvað sem ég hef ekki einu sinni heyrt talað um áður hvað þá smakkað. Ég fæ líka spes salat kassa, fullan af því salat grænmeti sem er best á hverjum árstíma. Svo pantaði ég líka heimaslátrað lamb, allskonar ost og svona ýmislegt smálegt í eldhúsið. Verður ekki ferskara, Mark bílstjóri fer bara á rúnt um bóndabæi og nær í matinn og kemur svo með hann til mín. Þetta er aðeins dýrara en að kaupa í ASDA en ég er núna komin á það stig að ég borða minna magn, hendi engu og vil frekar fá alvöru mat sem er lífrænn, ferskur og styrkir smáfyrirtæki um allt hér í grenndinni. Að öðru leyti vil ég ekki ræða um pólitíkina í kringum lífrænt ræktaðan mat. Ég meika nefnilega ekki svona snobb í kringum það. En ég er kannski bara gamaldags.
Að öðru leyti er ég að spá voða mikið í framtíðina, svona hvað gerist næst og þannig. Það kemur til af því að við erum óvænt heima í dag, höfðum planað að fara á leðurblökuhátíð í Chester Zoo en það er bara stormur og ekki spennandi að fara út. Stormur hér þýðir alveg gífurleg rigning og leiðinda rok. Og flóð. Reyndar ekki hérna hjá okkur enda erum við uppi á fjalli, en niðri í dalnum myndast ár á öllum vegum. Þannig að við kúrum okkur hér inni og byggjum smá Legó og ég hugsa. Fínt bara.
fimmtudagur, 12. nóvember 2009
Nú þegar sykurþokunni hefur létt sný ég mér í suður og sé aftur til sólar. 3.1 kíló farin þessa vikuna. Þannig að ég ætti að geta snúið sorg í sigur. Þegar fráhvarfseinkennin liðu hjá þá létti líka reiðinni, hatrinu og sorginni. Þannig að ég verð að reyna mitt besta til að láta þetta ekki gerast aftur. Ég er ekki tilbúin til að fara í "afsykrun" og gefa dópið mitt alveg upp á bátinn. En ég verð að passa að ég láti ekki sykurmörkin fara svona hátt upp. Ég ræð við smávegis, þetta snýst allt um meðaljónin. Ég er meðaljón. Jessörríbob. Fokk og enter.
þriðjudagur, 10. nóvember 2009
Það er búið að vera svakalegt verkefni núna í rúma viku að finna bjartýnisröndina mína. Ég er búin að þykjast og þykjast. En að mestu leyti hefur mér mistekist. Ég er sorgmædd og leið og bara ekki í stuði. Ég var með hatur í hjartanu alla síðustu viku, ég var að borða rétt og gerði æfingarnar mínar en ég gerði það allt með þeirri hugsun að ég gæti bara ekki beðið eftir sunnudeginum og að þá ætlaði ég sko að éta þangað til ég gubbaði. Sem ég og gerði. En það er ekki hægt að gera þetta með þeim hugsunarhætti. Ég verð að njóta vikudaganna jafn mikið eða helst meira en ég nýt sunnudaganna. Og ég gerði allt sem vanalega hjálpar; skoðaði myndir, las blogg, horfði á Biggest Loser, las uppskriftir, gerði extra æfingar, og ég borðaði af matseðli, og ég féll ekki en ég gerði þetta allt með hatri. Ég hataði að þurfa að vigta, telja og skrá. Ég hataði að ég fái bara ekki að vera venjuleg manneskja. Og ég sver að hatur vegur 2 kíló því það var það sem ég hafði bætt á mig á mánudaginn. Upp og niður, upp og niður, ég og vigtin. Og ég skil ekkert í þessu. Ég finn hamingjuna og vellíðunina sem fylgir því að geta hlaupið með Lúkasi. Ég finn hamingjuna í vöðvunum á upphandleggjunum og í kálfunum. Ég finn hamingjuna í að geta labbað inn í Next og keypt mér hvað sem er þar. Ég finn hamingjuna í smakka nýjan og spennandi mat nánast daglega. Ég finn hamingjuna í þessari ofgnótt af upplýsingum sem ég bý yfir núna. Og engu að síður það eina sem ég vil er súkkulaði. Og ég veit að hamingjan er ekki þar.
Ég er semsagt dópisti. Sykurfíkill. Og ég á aldrei eftir að losna við þetta. Það eina sem ég get gert þegar andartak, klukkustund, dagur eða jafnvel vika kemur þar sem ég þykist ekki muna hvar hamingjan býr er að bíta á jaxlinn og vona að það líði hjá eins fljótt og mögulegt er. Vona svo með öllu hjarta að tímabilið þar sem ég er í takt við heilbrigða lífshætti standi yfir sem lengst. Og sætta mig við að ég er ekki venjuleg manneskja. Og muna að stundum er það líka bara gott.
sunnudagur, 8. nóvember 2009
Þegar maður er hálfur víkingur og hálfur kelti dugar lítið minna en tveggja vikna afmælishátíð. Herlegheitin sem hófust á að fá að opna fyrri hluta afmælisgjafar frá mömmu og pabba á flugvellinum 23. október og náðu hápunkti með 50 manna veislu á Íslandi, enduðu svo loksins í dag með ferð á MacJónas og svo kökuveislu með velska hluta ættarinnar hér heima. Og það var eftir að hafa farið í "rauðu dótabúðina" til að eyða afmælispeningunum. Lukkulegri 6 ára snáða má vart finna.
föstudagur, 6. nóvember 2009
Ég fjárfesti í fjórum fíkjum fyrir áframhaldandi ævintýri í grænu. Borðaði eina og ef ég skal segja satt og rétt frá þá var ég ekkert svakalega spennt. Ég hafði hlakkað dálítið til að borða þær; hafði gert mér einhverjar hugmyndir um exótískt og munúðarfullt bragð með örlitlu biblíuívafi. En raunveruleikinn fannst mér heldur bragðdaufur, klénn og vatnskenndur. Ég endaði á að kremja innihaldið úr hýðinu og hræra því saman við gríska jógúrtið mitt. Fínt þannig en fyrir £1.47 fannst mér þetta léleg skipti. Þegar ég fór svo að velta þessu fyrir mér þá ákvað ég það það er ekki bara fíkjur sem mér finnast lítilfjörlegar, það eru bara allir ávextir. Mér finnast ávextir ekki góðir. Nú fæ ég blússandi samviskubit við að viðurkenna þetta, ég á jú að vera í lífstíl sem myndi að öllu jöfnu eiga að innihalda neyslu ávaxta. En mér finnst grænmeti ægilega gott og hef verið ofsalega ánægð með allt nýtt sem ég prófa af því; má ég þá bara ekki bara borða grænmeti og bara sleppa ávöxtunum? Ég fæ til dæmis meira c vítamín úr brokkólí heldur en úr appelsínum. Skiptir þá nokkru máli þó ég láti ávextina að mestu leyti í friði og bara borði því meira grænmeti? Ég held að vandamálið frá minni hendi sé fagurfræðilegt. Mér finnst að til að viðhalda hollum lífstíl verði að vera falleg, litrík ávaxtaskál á borðinu. Annars er maður bara ekki bona fide lífstílari. Hvernig væri þá að setja bara saman fallega grænmetisskál á borðið? Má það?
fimmtudagur, 5. nóvember 2009
Tveir Freyju staurar. Handfylli af Apolló lakkrís. Hálfur poki af Nóa rjómakúlum. Tvær skálar af ís. Kassi af Góu æði. Eitt Nissa. Poki af fylltum lakkrísreimum. Tvær kókómjólk. Tveir lítrar af Egils appelsíni. Eitt Lindu Konga. Sneið af marengs köku og sneið af brauðtertu. Ein pizza. Og verðlaunin fyrir að vera svona dugleg að borða matinn minn? 4.4 kíló í plús. Ég er ekki svekkt eða fúl; ég vissi að þetta myndi gerast, líkami minn bara þolir núll áreiti. Ef ég slaka á í eina mínútu þá fitna ég aftur. Það fær maður í verðlaun fyrir að hafa verið í megrun í 25 ár. En ég er smávegis pirruð, pirruð á sjálfri mér að þrátt fyrir að hafa öll mín vopn með mér þá hrundi ég í það eftir 5 daga á Íslandi, pirruð á að mega ekki fara í frí og borða íslenskt nammi, pirruð á að vera aftur yfir hundrað kíló, pirruð á mat, pirruð á mér, pirruð á þessu helvíti öllu saman. En ég er ekki pirruð á lífstílnum. Ég byrjaði aftur í ræktinni á þriðjudag, hlakkaði meira að segja til að fara að lyfta aftur. Fór beint í að búa til matseðil og pantaði mér fíkjur fyrir ævintýri í grænu. Byrjaði strax að skrá, vigta og telja. Ekkert mál. Eins og ekkert hefði í skorist. Og það gerir mig glaða. Ég sá utan á Vikunni þegar ég var heima fyrirsögnina "missti 106 smjörlíkisstykki á einu ári!". Ég las ekki greinina en stúlkan hafði semsé lést um 53 kíló á einu ári. Ég get ekki neitað að um leið og ég innilega óskaði samfitubollu minni alls hins besta þá helgreip öfundsýkin mig. Afhverju get ég ekki gert þetta svona hratt og örugglega? Meðaltalið mitt er 750 grömm á viku. Það á eftir að taka mig mun lengur en ár að gera þetta. Sér í lagi ef ég þyngist um 5 kíló í hvert sinn sem ég fer í frí. Á hinn bóginn þá er ég líka búin að leita í hjarta mínu og ég er bara ekki til í að gera þetta öðruvísi en ég er að gera núna. Ef ég borða minna en 1000 kalóríur yfir daginn fer líkaminn í sjokk og heldur enn fastar í fituna. Þannig að ég er svöng og léttist ekki og það er bara ávísun á stórslys. Ég æfi eins mikið og ég hef tíma í. Ef ég geri meira þá verð ég leið og gefst upp. Fyrir mér er þetta allt um meðalveginn. Þannig að slow and steady does it for me. Ég verð bara að sætta mig við það. Og þess vegna má ég ekki vera pirruð. Og ég má ekki vera fúl. Ég verð bara að muna að ég tók hverja einustu ákvörðun um að velja, kaupa og borða íslenska nammið mitt. Og að ég naut hvers einasta bita. Og ég verð að muna að hver einasti munnbiti er mér þetta dýrkeyptur. Og næst þegar ég kemst í íslenskt nammi hef ég lofað sjálfri mér að hugsa mig vel um. Muna bragðið í munninum, muna tilfinninguna, muna tilfinninguna í maganum, muna hvað vigtin segir og ákveða svo hvort það sé þess virði. En núna þýðir þetta að 30 kílóa markið um jól verður þetta aðeins erfiðara. 95 kíló 24. desember. Nú er bara að vinna í því og gera sitt besta.
Ísland. Er að sjálfsögðu best í heimi. Mikið sem ég skemmti mér vel. Ég á án efa ekki bara bestu og fallegustu vini í heimi heldur er ég alveg ótrúlega heppin með fjölskyldu líka. Lúkas á sjálfsagt seint eftir að gleyma 6 ára afmælinu sínu. Og allt út af stórfjölskyldunni minni. Ég er alltaf að sjá betur eftir því sem ég eldist hvað það er mikilvægt að eiga stóra fjölskyldu. Og ég hef lofað sjálfri mér að ég ætla að reyna að vera duglegri við að halda hópinn.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)