sunnudagur, 31. október 2010

Það er fátt eitt í heiminum skemmtilegra en að kaupa föt. Það er svo gaman að mér tekst svona nokkurn vegin að róa samviskubitið yfir að eyða pening sem ég á ekki til með að ég eigi þetta skilið og að það sé svosum betra að ég eyði i nýja flík en í kexpakka. Og þó ég hafi nú ekki látið það eftir mér í dag, þá var samt nokkuð ljóst að mig vantar nýja peysu. Ég fór í gallabuxur í morgun og greip inn úr skáp svarta rúllukragapeysu sem ég hafði ekki farið í í nokkra mánuði. Og hún var allt of stór. Sem er ekkert merkilegt. Merkilegra er að ég sá í fyrsta sinn vísindin sem liggja að baki því að barmfagrar konur eigi alls ekki að vera í rúllukraga. Ég hef að sjálfsögðu oft heyrt þetta og lesið en aldrei skilið hvað vandamálið var. Í dag sá ég það loksins. Hingað til hefur þetta ekki skipt neinu máli vegna þess að ég var bara einn samfelldur massi hvort eð var og það skipti litlu máli að brjóst og magi og háls runnu saman í eitt. En í dag hurfu allt í einu fallegu viðbeinin mín, brjóst og bringa urðu að einu ægilegu flæmi sem lagði bara áherslu á að enn er maginn of stór. Ojbara, ojbara, ojabara ullabjakk. Þetta var hrikalegt alveg hreint og mér finnst ólíklegt að ég fari í svona flík aftur. Nei, héðan í frá er það bara flegið niðrá nafla. Jebb, jebb, jebb.

laugardagur, 30. október 2010

Ógnvekjandi!
Þrátt fyrir ýmiskonar stress sem er yfirstaðið núna og ég nenni ekki að hugsa frekar um, léttist ég um hálft kíló í þessari viku og er hæstánægð. 94.8 kg. Það má kannski þakka öllum graskerjagrautnum sem ég er búin að vera að borða. Það er náttúrulega hrekkjavaka hér á morgun og allt fullt af graskerjum og nammi og allskonar skrauti í öllum verslunum. Við Lúkas skemmtum okkur konunglega við að skera út grasker og ég hafði hugsað mér að rista fræjin og nota kjötið í súpur og grauta. Ég hafði keypt mér dós með graskerspuré og alla vikuna setti ég góða slettu út í hafragrautinn minn ásamt kanil og vanilludropum. Svakalega gott og kom mér í gott hrekkjavökustuð. En þegar við Lúkas skárum toppinn af graskerinu verð ég að viðurkenna að mig langaði ekki að nýta það neitt frekar en sem skraut. Það var skrýtin lykt af því og ég einhvern vegin átti í erfiðleikum með að aðskilja mat og skraut. Ég var með samviskubit yfir því en ég henti engu að síður því sem við skúbbuðum út. Skrýtið á miðað við hvað mér fannst gumsið í dósinni gott, og ég tjékkaði á því, það var einunugis grasker í dósinni, enginn viðbættur sykur, þannig að það er ekki útskýringin. Allavega, hér er skreytt og fínt, til nammi til að gefa þeim sem koma og banka og Lúkas á svaka fínan beinagrindarbúning enda á leiðinni í partý í kvöld. Happy Hallowe´en!

miðvikudagur, 27. október 2010

Þetta er búin að vera hræðileg vika. Ég er búin að vera að berjast við að skrifa ritgerð og er á sama tíma búin að taka tímabundið yfir sem "flow leader" og er líka að reyna að halda mér á góðu róli í mataræðinu. Ég er svo stressuð akkúrat núna að ég hristist og skelf. Ég bara get ekki þetta allt saman í einu.

laugardagur, 23. október 2010

Ég vaknaði í morgun með gígantískt óþol í heilanum. "Naaaammmmiiii" beljaði hlussan inni í mér nánast um leið og ég opnaði augun og komst til meðvitundar. "Það er laugardagur, það er nammi dagur!" tilkynnti hún og hossaði sér upp og niður í spenningi. "Nei, sunnudagar eru nammidagar", tók þá mjóa tíkin til máls, "fyrir utan", hélt hún áfram, "að þá eru sunnudagar líka dagar til að passa sig. Það má bara borða smá nammi þá." "Haltu kjafti mjóa tussan þín",  hvæsti innri hlussan á hana, "ég er búin að vera ógeðslega dugleg í þrjár vikur, ég má sko alveg fá mér eitthvað gott í dag." "Þú ert ógeðsleg" svaraði mjóa tíkin með fyrirlitningarsvip, "hlussast um í spiki, hefur enga sjálfstjórn og enga sjálfsvirðingu! Lætur feitann magann ráða yfir þér! Ég ræð yfir mér og enginn annar, ég get lifað á vatni einu saman, mér finnst goooott að vera svöng", hélt hún svo áfram með sjálfbirgingslegt glott á andlitinu og gerði nokkrar léttar hnébeygjur og hnyklaði vöðvana svona til að spæla hlussuna aðeins meira. "En lífið er ekki þess virði að lifa því ef ég fæ ekki nammi", vældi hlussan og snökti. "Ég meina það, hvað er gaman að þessu spínat og prótein helsjúka lífi? Ég er bara fín eins og ég er, og þó ég fitni meira, hvaða máli skiptir það?" "Aumingi", ullaði mjóa tíkin. "Nasisti", gargaði hlussan til baka.
Slakiði báðar á sagði ég við sjálfa mig, ég fer niður og vigta mig og svo skulum við hugsa málið. Rölti mér niður og steig á vigtina. 100 grömm í mínus sem er fínt, ég gerði ekki ráð fyrir neinu öðru, ég er ekki vön að léttast mikið lengur en tvær vikur í einu. Ég horfði á sjálfa mig í speglinum og þuldi upp: "Í dag ætla ég ekki að borða neitt sem lætur mér líða illa. Í dag hef ég tekið ákvörðun að þessi dagur sé dagur sem þokar mér í átt að markmiðum mínum. Í dag er dagur sem ég ætla að berjast við drekann og ég ætla að sigra. Í dag ætla ég að vera stolt af sjálfri mér og öllu sem ég geri. Ef eitthvað er þess virði að gera, þá er það þess virði að gera það vel. Ég ætla að taka daginn í dag eftir minni bestu getu, ég ætla ekki að hugsa um morgundaginn." Mér leið aðeins betur og ég bað hlussuna afsökunar. Þetta verður sjálfsagt ekki hennar dagur. Engu að síður þá vantaði mig ennþá EITTHVAÐ. En eitthvað hvað? hugsaði ég með mér, settist í sófann í smástund og reyndi að gera æfinguna þar sem maður skilgreinir tilfinninguna áður en maður ræðst á Toblerone fjall. Ok, mig langar í eitthvað annað en hafragrautinn minn eða spírað brauð. En mig langar heldur ekki í eitthvað rugl. Mig langar til að setjast niður og borða eitthvað fallegt. Og þar kom það. Laugardagsmorgun, ég hef nógan tíma, mig langaði einfaldlega til að setjast niður, við borðið mitt, drekka gott kaffi og borða morgunmat með fjölskyldunni. Vá, hvað ég er fegin að ég skilgreindi þetta áður en ég leyfði hlussunni að ráða. Þannig að ég bjó til morgunverðareplapæ.

Morgunmatur í lagi.
4 græn epli, skrölluð og sneidd og lögð í lítið eldfast mót
1/3 bolli hafrar blandaðir með teskeið af ýmsum fræjum og cacao nibs
1 mtsk gróf spelt
1 tsk olía
1/2 mtsk demerara sykur og allt hrært saman
hellingur af kanil og 1/2 mtsk demerara sykur
kanill og helmingi af sykrinum stráð yfir eplin og svo hafrablandan ofan á og inn í 180 ofn í 35 mínútur. Borið fram með grískri jógúrt og góðum kaffibolla.  Og ég er núna alveg róleg og hress og til í að berjast við drekann í allan dag. Ég lofa engu um morgundaginn en svona er þetta bara. Þannig að ef að þið sem lesið haldið að ég láti þetta megrunarvesen líta út fyrir að vera auðvelt þá vona ég að ég hafi veitt smá innsýn inn í heilabúið á mér og átökin sem ég á í á hverjum einasta fokkings degi. Hlussan og Mjóa Tíkin eru ekki auðveldar í umgengni og báðar eru þær high maintenance. Það er ekki auðveld að feta þennan fátroðna meðalveg. En þetta er þess svo mikið virði að ég er tilbúin í þetta og ég er tilbúin til að gera þetta að eilífu. Sérstaklega nú þegar ég hef öll þessi vopn til að hjálpa mér í stríðinu. Og ég vona að þið öll eigið góðan dag í ykkar baráttu, hver svo sem hún er.
 

fimmtudagur, 21. október 2010

Vigtin mín er búin að vera að sýna allskonar mismunandi jákvæðar og neikvæðar niðurstöður núna nokkra undanfarna daga. Og í gærmorgun sýndi hún bara alls ekki neitt. Ég tók því til við reikningslist og komst að þeirri niðurstöðu að batteríin væru búin. Rölti mér því í hádeginu í Maplin Electronics til að kaupa ný. Þegar í búðina var komið tók á móti mér huggulegur ungur maður sem var boðinn og búinn að hjálpa mér. Sagði mér margoft hvað hreimurinn minn væri fallegur og brosti til mín. Fann svo handa mér þessi skrýtnu, flötu batterí og svo var komið að því að borga. Hann spurði mig þá hvort ég vildi láta hann fá e-milinn minn svo hann gæti sett mig á póstlistann þeirra. Ég játti því og hann spurði míg þá um titil; "Are you Mrs or Miss?" Mrs svaraði ég og hann sagði þá "thats a shame!" Og brosti svo svakalega fallega til mín. Ég gat ekki að því gert en að vera upp með mér og ég var með bros á vör það sem eftir lifði dags. Ég er greinilega svona grunnhyggin að mér þykir gott að vita að fleirum en Dave þykir ég aðlaðandi. Það er bara alveg hreint ljómandi gaman.

þriðjudagur, 19. október 2010

Ég var að skoða mig um á Bravissimo um daginn í þeirri von að finna eitthvað meira blúndótt og sexí í stað segldúkanna og hvalbeinsins sem vanalega halda Stærstu Brjóstum í Evrópu TM í skefjum. Ég verð að viðurkenna hálfgerð vonbrigði þegar það kom í ljós að þrátt fyrir að hafa minnkað um þrjár bakstærðir og fjórar skálar að ég er enn dæmd til að vera í matrónulegum búning. Ég sá líka að það voru til nokkur bikiní, í minni stærð, á útsölu. Mér datt strax í hug að hér væri komið ágætis markmið að stefna að og sagði því upphátt við Dave að ég myndi fara í bikiní í sumar. Fór svo út frá því að hugsa af hverju ég þyrfti endilega að verða þvengmjó áður en ég færi í bikiní. Ég hef alltaf þjáðst af ofurtrú á sjálfri mér, finnst ég vera sæt og klár, og fátt sem ég get ekki gert. Hversvegna er þá svona erfitt fyrir mig að yfirfæra þetta sjálfstraust á yfirmagann? Er allt þetta sjálfsálit bara orðin tóm? En það er einhvernvegin eins og það að fara í bikiní sé ekki í mínum höndum. Samfélagið segir mér og öðrum að það að bera á borð svona ófullkomnun og ljótleika eins og maginn á mér er sé hreinlega ógeðslegt og ekki fyrir aðra að þurfa að horfa upp á. Ég er núna alltaf að verða ánægðari með líkama minn. Ég get lyft og ég hef úthald. Og eftir því sem ég grennist meira sé ég alltaf meira og meira fallegt.Viðbeinin min, kinnbein, löng og sterkleg læri, grannir fingur, mjaðmabein, grannt mitti, vottur af rifbeinum, ávalar línur mjaðmanna. Og mig langar bara til að líða svona vel gagnvart líkama mínum. Hvort sem ég grennist meira eða ekki. Mig langar til að vera alltaf svona ánægð með mig eins og ég er núna. Mig langar ekki til að vera endalaust frústreruð yfir ófullkomleika eða því sem samfélagið hefur dæmt ógeðfellt. Og þessvegna ætla ég að segja að hvort sem ég verð mjó eða feit næsta sumar; um leið og sólin byrjar að skína ætla ég að opinbera náfölan magann. Ég er hætt að skammast mín.

sunnudagur, 17. október 2010

I´m loving me!
Lúkas biður stundum um að fara á McDonald´s. Þar vill hann fá Happy Meal, sem hann hefur reyndar engan áhuga á, hann vill bara fá draslið sem fylgir. Best er ef draslið tengist bíómynd sem við höfum séð. Það er langt síðan við fórum síðast þannig að þegar hann spurði í gærkveldi hvort við gætum farið á Makkann í hádegismat í dag þá ákváðum við foreldrar hans að það væri í fínasta lagi. Dave af því að honum finnst McDonalds kjúklingasamlokur góðar, mér af því að ég sá út úr þessu smá búðarölt um Wrexham og í Holland og Barrett´s þar sem ég fæ hneturnar mínar. Ég fékk matarsendingu vikunnar í gær og hafði þar pantað dós af Ben og Jerry half baked rjómais af því mig langaði svo í hann. Hugsaði hann sem svona sunnudagsvitleysuna mína. Þannig að þegar ferð á McJónas var skyndilega líka í spilunum og ísinn til inn í frysti ákvað ég að ég þyrfti að spekúlera aðeins. Nú stóðu til boða nokkrir valmöguleikar. Ég gæti fengið mér kjúklingaborgara í hádegismat, 5-600 kalóríur, kallað það gott og sleppt Ben og Jerry. Ekki sjéns! Ef ég veit af ísnum inni í frysti er ekki nokkur möguleiki að láta hann vera fyrr en dósin er búin. Annar möguleiki var að kalla þetta bara fínan sunnudag, fá mér makkann og ísinn og segjast bara ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessu. Borga bara fyrir það í vikunni. Þriðji möguleikinn var að borða ekki, sitja bara með vandlætingar-og  helgislepjusvip og horfa á þá tvo graðga í sig og borða svo ísinn í kvöld. En ég vissi að þá myndi ég vera orðin hrikalega svöng þegar aftur væri heim komið og þar með byði ég hættunni heim á óhóflegu áti þá. Ég tók því fjórða kostinn og hætti þar með á augngotur og pískur. Ég setti tómat- og gúrkusneiðar ásamt smá osti á þýskt brauð, braut saman og setti í nestisbox. Ég tók með mér nesti á McJónas! Dave og Láki fengu sínar hamingjumáltíðir og ég tók mína upp úr töskunni minni. Svo sátum við og borðuðum og hlógum að mér og skemmtum okkur konunglega. Röltum í haustsólinni um Wrexham og ég gat hlakkað skýlaust til að borða ísinn minn í kvöld. Er ég klikkað skipulögð, klikkað sniðug eða bara klikkuð? Mér er eiginlega alveg sama, ég fæ Ben og Jerry að launum.

laugardagur, 16. október 2010

Mig langar til að halda að ég sé afvegaleiddur íþróttamaður. Það er að segja ég er er íþróttamaður alveg innst við beinið en ég hafði ekkert val um að verða neitt annað en fitubolla. Ef ég hefði alist upp einhverstaðar annarstaðar en í Þorlákshöfninni minni kæru, einhverstaðar þar sem boðið var upp á aðra íþróttaiðkun en sund, hefði ég kannski nært íþróttamanninn í mér af meiri alúð og leyft honum að vaxa? Ef ég hefði getað uppgötvað fyrr þessa ást mína á vöðvum, hefði ég aldrei leyft hlussunni í mér að dafna svona vel? Ég er að velta þessu fyrir mér af því að ég skil ekki alveg hvað hefur gerst til að breyta mér svona. Mér finnst að ég hafi aldrei hafa haft neitt val um að verða þetta feit. Mér fannst alltaf að þetta væri hluti af persónuleika mínum. Ég man t.d. eftir að hafa verið ægilega spennt þegar ég fattaði hvernig ég gat búið til mitt eigið nammi. Það var að sjálfsögðu mjög sjaldan til nammi á æskuheimili mínu, það var bara eitthvað spes. Það var alltaf verið að telja kalóríur. Þegar ég svo fattaði að það tók eina mínútu að henda saman í skál smjéri, sykri, kakó og kókós til að búa til ljúffengt krem sem hægt var að sleikja þá gerði ég það óspart. Ha! Það er sko hægt að komast í kringum reglur um laugardagsnammi ef maður er klár! Ég veit líka fátt betra en að kúra í sófa með góða bók og nammi og það hefur alltaf verið þannig hjá mér. Ekki man ég eftir neinni hreyfingu sem olli sama spenningi hjá mér og góð bók og nammi.  (Ég lýg þvi reyndar, en það er víst ekki hægt að stunda heimaleikfimi sem keppnisíþrótt fyrir utan að mér skilst að amma sé að lesa.) Hversvegna er þá núna allt í einu betra en snickers að geta gert hnébeygjur? Afhverju fattaði ég þetta ekki þegar ég var yngri og hefði getað sparað sjálfri mér áralanga baráttu? Ég heyri stundum sagt að feitt fólk sé bara latt og að það skorti bara viljastyrk. Það ætti að dusta snakkið af bringunni og drífa síg út að hlaupa. Að það velji að vera feitt. En þegar matarfíknin byrjar áður en maður nær sex ára aldri hefur maður í alvörunni eitthvað val? Þegar maður er enn of lítill til að skilja afleiðingar þess sem maður velur að gera? Ég hef þekkinguna núna og ég geri mér núna grein fyrir og tek ábyrgð á ákvörðunum mínum. En ég er líka að berjast við 30 ára gamla vana og siði og það er meira en að segja það að breyta því. Ég verð bara að vera þakklát að afsnúni íþróttamaðurinn fær loksins að njóta sín. Það hefði nefnilega alveg getað farið svo að hann hefði aldrei séð dagsins ljós. Maður er þakklátur fyrir kraftaverk. Þetta er nefnilega verk sem þarfnast krafta.

Vigtin sýndi hálft kíló í mínus í morgun. Örugglega ólympísku glímunni að þakka.

fimmtudagur, 14. október 2010

Einn af mínum "go to" réttum er Parmesan kjúlli. Það eru til milljón mismunandi útgáfur en mér finnst best að fiðrilda kjúklingabringu (skera opna þannig að hún verður þunn og helmingi stærri) og dýfa svo í egg sem hefur verið hrært með slettu af balsamic sýrópi. Dýfa svo í blöndu af parmesan og brauðmylsnu. Ég rista vanalega vel eina sneið af grófu kornabrauði og ríf svo niður með rifjárni til að búa til brauðmylsnuna. Krydda smá með oregano, salti og pipar, legg nokkrar tómatsneiðar ofan á og set svo í eldfast mót inn í ofn í 40 mínútur. Set spínat hrúgu á diskinn minn og legg kjúllann ofan á. Set svo slettu af léttum hvítlauksrjómaosti með svona ef manni finnst þurfa eitthvað blautt með. Og er þar með komin með kjúkling á spínatbeði. Það er svakalega fínt að fá mat á spínatbeði. Einfalt, fljótlegt og hrikalega ljúffengt.

Kvenleg, ekki satt?
 Og svona líka fjórum sinnum betri eftir dag sem byrjar á svona líka gríðarlegum átökum við járnin. Dagur tvö í fasa tvö í lyftingarprógramminu og ég fékk að gera dásamlegar æfingar eins og wide-grip deadlift from box, dumbbell prone Cuban snatch og lateral flexion. Mér var reyndar aðeins um þegar ég beygði mig niður í Bulgarian split squat enda er örlítill hluti heilabúsins sem hefur áhyggjur af ókvenlegheitum þegar kemur að því sem ég geri í ræktinni. Sko, hinar stelpurnar gera ekkert nema lafa á þverþjálfanum allan tímann. Flestar svitna þær ekki einu sinni. Svo er það ég. Í ógissslega ljótum leggings, með leðurgrifflu og svitadropana lekandi niður eftir nefbroddinum, rymjandi og stynjandi með þung lóð allt í kringum mig. Er ekki of langt gengið að breytast í Búlgverska sterakellingu í ofanálag?

miðvikudagur, 13. október 2010

Þegar maður heilsar Bandaríkjamanni kumpánlega með "how´s it hangin´?" er manni einfaldlega svarað með upplýsingum um líðanina þann daginn. Í huga Bandaríkjamanns er verið að inna eftir því. Spurðu Breta how´s it hanging og án undantekninga er svarið "a little bit to the left." Algerlega undantekningalaust. Ég geri mér stundum leik að því að spurja svona, ég kemst nefnilega upp með það af þvi að ég er útlendingur, og það er alveg undantekningalaust sem þeir velta aðeins til vinstri. Ég spurði svo loksins í dag hvernig á þessu standi (hahahaha!) að Ameríkani sér engan dónaskap í spurningunni og fékk þau svör með kímnisglottum að Bretar væru einfaldlega þess þenkjandi. Sjálf bið ég spennt eftir að hitta manninn sem hangir til hægri.

þriðjudagur, 12. október 2010

Rafmagnið hefur farið af hjá okkur fjórum sinnum á siðustu tveim vikum og þegar við fórum að grennslast eftir vandamálinu kom í ljós að það þurfti hreinlega að grafa upp hálfa götuna og skipta um allt innra kerfið. Sem Scottish Power (sem af einhverjum ástæðum eru þeir sem láta okkur rafmagn í té) gerðu núna í dag. Ég sit núna við borðstofuborðið í þeirri von að mér takist að koma smá ójafnvægi á ballestina á þeirri hlið hússins svo það muni detta ofan í holuna sem þeir grófu fyrir utan. Ólíklegt, en það má alltaf vona. Allt þetta þýddi að ég þurfti að taka mér frí í dag til að vera hér til að hleypa þeim inn og út og gefa endalausa bolla af PG te. Það var ágætt líka því ég er enn að berjast við þetta Masters nám og nú er ein ritgerð sem þarf að berja saman fyrir 31. október. Ég sat því við tölvuna í allan dag á milli tegerðar og klóraði mér í hausnum. Heilinn gengur fyrir kolvetnum einungis og það er því ekkert djók þetta að nammi sé heilafóður. Ég er þessvegna tvöfalt ánægð með sjálfa mig eftir daginn. Það er nefnilega (eiginlega alltaf) auðvelt að berjast við drekann þegar maður er í rútínunni sinni en um leið og eitthvað breytist, eins og að vera heima en ekki í vinnu, er rosalega auðvelt að sannfæra sjálfan sig um að það sé allt í lagi að fá sér kex í staðinn fyrir epli og ristað brauð í staðinn fyrir salat og svo meira kex af því að maður er að læra. Ég gerði ekki neitt af þessu. Fékk mér hafragraut í morgunmat, og epli í morgunsnakk, túnfisksalat og jógúrt í hádeginu, banana með hnetusmjöri (besta snarl í heimi by the way) í eftirmiðdegissnarl og baunasúpu í kvöldmat. Og ég mundi ekki einu sinni eftir því fyrr en núna þegar ég settist aftur niður eftir mat að ég hefði getað borðað eins og svín í dag með rútínubreytingu sem afsökun. Mér finnst það eiginlega ótrúlegra og meiri sigur en að hafa barist og sigrað, það að ég þurfti ekki einu sinni að berjast sýnir mér hvað ég er fókusuð akkúrat núna. Ég er með markmiðið í sigtinu. Bújakasja!

sunnudagur, 10. október 2010


96, tel og tel og tel.

Rúm 130, fyrir talningu
 Það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir óreynda að reyna að byrja að lifa heilsusamlega; hreyfa sig og borða hollan mat. Þetta að greiða úr allri upplýsingaflórunni hlýtur að vera martröð. Hvar á maður eiginlega að byrja, hvaða aðferð á að velja? Ég sjálf gerði mér ekki grein fyrir að þetta gæti verið svona flókið því mér finnst einhvern vegin að ég hafi fengið kalóríutalningu með móðurmjólkinni. Ég hef bara alltaf vitað kalóríu innihald á flestum matvælum og get á eldingarhraða lagt saman í huganum hvað samsett máltíð telur í hitaeiningum og hlutföll af næringarefnum. Ekki biðja mig að gera upp heftið mitt, en hitaeiningareikningur liggur alveg ljós fyrir mér. Ég gerði mér bara ekki grein fyrir því að það væri fólk sem hefur aldrei spáð í þessu og þarf svo að læra þetta allt frá upphafi. Þannig að þegar að ég er spurð hvaða aðferð sé best til að léttast og ég segi "telja kalóríur" þá á ég skilyrðislaust við að það það sé best fyrir mig. Ég á það til að vera ofboðslega hrokafull og halda því fram að ég sjái, skilji og viti. En ég er alveg komin á þá skoðun að allar þessar reglur um hvað má og hvað má ekki, hvað sé gott og hvað sé vont að gera til að komast í kjörþyngd og vera heilbrigður er bara rugl. Það þarf að taka langan tíma í að prófa sig áfram og finna út hvað best virkar fyrir mann sjálfan. Meira að segja ef það þýðir að gera mistök. Eiginlega sérstaklega ef það þýðir mistök. Fyrir mig virkar það að vigta mig. Ég skil markmiðið 75 kíló og þá ætla ég bara að nota vigtina sem aðstoðarmann til að komast þangað. Og það þrátt fyrir að flestar ráðleggingar frá sérfræðingum segi að það sé ALVEG BANNAÐ að lifa og deyja með vigtinni. Fyrir mig virkar að telja kalóríur, svo lengi sem ég passa líka að fá góð hlutföll úr öllum fæðuflokkum. Samt er mjög algengt að sjá að það sé ALVEG BANNAÐ að telja kalóríur af því að maður eigi að einbeita sér að því að fá réttu næringarefnin fremur en að festa sig í fortalningu á hitaeiningum. Fyrir mig virkar að setja mér markmið og það skýrt og upphátt. Það er ekki nóg fyrir mig að hugsa einu sinni að ég taki þá ákvörðun að fá mér ekki nammi; ég þarf að segja við sjálfa mig upphátt á hverjum morgni: "Í dag ætla ég ekki að borða nammi." Þetta held ég reyndar að allir sérfræðingar væru ánægðir með, andlega hliðin á þessu veseni öllu liggur betur fyrir sérfræðiráðum. Ég skil ekki afhverju það er slæmt að festa sig í ákveðinni kílóatölu, ef það skilar því að maður er heilbrigður og hraustur. Kannski er viðhorf mitt öðruvísi af því að ég er að koma frá 130 kílóum. Ef maður er 68 kíló og langar til að vera 63 þá er kannski mikilvægara að setja sér "hreystimarkmið" frekar en að festa sig í tölu. En þegar maður er þetta svakalega feitur þá er lífsnauðsyn að skoða tölurnar til að halda sér við efnið. Það er það sem sést best fyrst og er best mælanlegt fyrst. Og ég er búin að prófa að hætta að fylgjast með vigtinni og það virkar ekki. Fyrir mig. Ég held því fram að það sé ekkert sem er ALVEG BANNAÐ. Meira að segja kreisí kúr þar sem maður borðar ekkert nema 18 harðsoðin egg á viku. Endilega prófa það. Maður fattar á degi tvö að það virkar ekki. En maður verður að fatta það sjálfur, það getur enginn fattað neitt fyrir mann alveg eins og það getur enginn mætt í ræktina fyrir mann og haldið uppi sjálfsaganum fyrir mann. Það er bara með því að prófa sig áfram þar sem maður fattar hvað virkar í alvörunni. Vísindin breytast nefnilega stanslaust, það sem eru óhrekjanleg sannindi í dag eru bábiljur og kellingabækur á morgun.

laugardagur, 9. október 2010

I´m back baby; 1.1 í mínus í morgun. Jess! Ég og vigtin erum eins og eitt núna.

fimmtudagur, 7. október 2010


Man vs. Food
Það er mikil guðsmildi og blessun að ég hafi svona gaman af því að elda og stússast í mat og uppskriftum. Ég skil eiginlega ekki fólk sem getur breytt um lífstíl án þess að elda mikið. Það hlýtur að þurfa að reiða sig á 100 kalóríu snakk pakka og weight watchers örbylgjumáltíðir. Sjálf held ég að ég myndi bara drepast ef ég gæti ekki hugsað um, skoðað, velt fyrir mér og tilraunast með nýjar uppskriftir og nýtt hráefni stanslaust. Reyndar er svo komið að margar máltíðir sem hafa fengið gæðastimpil frá Dave ("this one can come back") er ég búin að gleyma. Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt og svo man ég ekki lengur eftir hinu og þessu sem ég hef skapað. Ég skrifa nefnilega aldrei neitt niður, vigta fátt og það er bara heppni ef ég man eftir að setja uppskrift inn hér áður en ég gleymi hráefninu. Þessari matarást allri fylgir náttúrulega gífurlegur áhugi á matreiðslubókum og matreiðsluþáttum í sjónvarpinu. Hugh Fearnly-Whittingstall í River Cottage er mitt uppáhald af því að hann er svo eðlilegur eitthvað og ég dáist að þessu sjálfbæra veseni öllu. Ina Garten, the Barefoot Contessa er líka í miklu uppáhaldi, af því að hún er feit og henni finnst matur svo góður og allt sem hún gerir er svo fallegt. Svo finnst mér líka svo fyndið þegar hún segir "half a cup mayonnaise" en setur svo tvo bolla í skálina. Hairy Bikers eru líka æðislegir en það er örugglega bara af því að ég gæti endalaust hlustað á Geordie eða Newcastle framburðinn. Ég hef enn ekki fundið neinn í sjónvarpinu sem eldar hollan mat sem mér finnst aðlaðandi. Ég stússast frekar bara í að breyta uppskriftum sjálf. Að horfa á góðan matreiðsluþátt er mitt litla klám og ég nýt þess í botn.
Ég datt svo inn á þátt um daginn sem ég er húkkt á núna og það jafnhendis af aðdáun og ógeði. Man vs. Food er ekki beinlínis matreiðsluþáttur þar sem það eru engar uppskriftir en við fylgjumst hinsvegar með kynninum ferðast á milli borga í Bandaríkjunum og naga sig í gegnum allan þann mest djúsí mat sem hann finnur á hverjum stað. Í flestum þáttunum tekur hann þátt í "food challenge" þar sem hann þarf að borða viðbjóðslegt magn af tilteknum mat innan tímamarka. Ég elska amríska matargerð, og þá er ég ekki að tala um McJónas og Kentucky, heldur alvöru amrískan mat, pönnukökur, cheesesteak, fudgecake, biscuits, chowder, ribeye, pecan pie, muffins, ostakökur og ís. Alvöru steikarsamloka á alvöru greasy spoon í miðvesturríkjunum er besti matur sem hægt er að fá. Og að horfa á kynninn fara inn á þessa alvöru staði hingað og þangað og fylgjast með þeim setja saman ommilettur, samlokur, krabba og fudge brownie ís er svo mikið klám fyrir mig að ég horfi á eldrauð í framan af blygðun. Á sama máta er ég við það að gubba af því hversu hrikalegt það er að fylgjast með svona skammarlausu ofáti þegar það er bæði til fólk sem sveltur og fólk sem er að drepa sig á ofáti? Það er einhvernvegin ekki rétt að horfa á fólk vera með svona gleðilæti yfir ofgnótt þegar gæðum heimsins er svona misskipt. Engu að síður, þá horfi ég heilluð á. Ég læt það reyndar vera að reyna að búa til hollar útgáfur af matnum, sumt á bara að vera djúsí. Og í hæfilegri fjarlægð frá mér. Eins eitt Atlantshaf eða svo.

Talning stóð í 97 á laugardagsmorgun.

mánudagur, 4. október 2010

Um leið og ég setti punktinn á síðustu setninguna sem ég skrifaði í gær rann upp fyrir mér ljós. Markmið! Ég hef engin skýr markmið! Þegar ég hætti með vigtinni og setti mér ný markmið þá gerði ég þau aldrei skýr og ljós hvorki fyrir mér né öðrum. Ég talaði eitthvað um að lyfta þyngra og hlaupa lengra og eitthvað var ég að hugsa um sentimetra en ég setti þetta aldrei niður í tölustafi og tímamörk. Ég hefði t.d átt að segja að ég ætlaði að taka hundrað kíló í deadlift og að það ætlaði ég að gera með því að bæta við x kílóum á viku í x langan tíma og að þetta myndi allt vera tilbúið fyrir x tíma. Vandamálið er að ég kann ekki á þetta nógu vel til að geta sagt hvað er raunhæft takmark á raunhæft löngum tíma. Mig vantar sérfræðihjálp í það. Ég get ekki hlaupið og þverþjálfinn eða hvað það tæki nú heitir vekur upp núll ástríðu hjá mér til að nenna að setja mér markmið. Ég skil kíló hinsvegar og veit hvað er hægt og hvað er ekki hægt og hvað má gera og hvað má ekki. Ég ætla því að biðja vigtina um að taka við mér aftur. Ég er hvort eð er búin að vera í lausu lofti síðan við hættum saman, búin að daðra við og reyna við fullt af öðrum möguleikum, vera smá drusla um helgar en vigtin vill taka við mér aftur og ég þarf greinilega á aðhaldinu sem hún veitir að halda. Mér finnst ekki erfitt að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Planið. Mamma og pabbi koma í heimsókn í lok nóvember. Ég ætla að vera búin að léttast um 4 kíló þegar þau koma. Það er númer eitt. Til að ná því takmarki þarf ég að byrja aftur að búa til vikumatseðil og fylgja honum. Samkvæmt vísindunum á ég að borða u.þ.b. 1700 kal á dag. Vikumatseðillinn verður settur saman með það í huga. Ég held áfram lyftingaprógramminu mínu en ég ætla að bæta við hálftíma göngutúr í hádeginu og markvissari líkamsrækt á laugardögum. Ég ætla að byrja aftur á ímyndunaræfingunum mínum. Eyða stund á hverjum degi þar sem ég styrki mótstöðuvöðvann og nýt andartaksins. Vá hvað ég er hress og í miklu stuði núna! Hvernig gat þetta farið framhjá mér? Ég veit að ég þrífst bara ef ég hef plan. Mmmmm....plan....

sunnudagur, 3. október 2010


Fuglahræðufjölskylda
Það er ekki oft sem hann Dave minn stingur upp á að gera eitthvað, og það sér í lagi þegar Chelsea v Arsenal er í sjónvarpinu, en engu að síður þá hafði einhver í vinnunni hjá honum minnst á að Hawarden Estate Farm Foods væri með lókal matarframleiðslu kynningu um helgina og hann vissi að mér finnst ekkert skemmtilegra en svona matarhátíðir. Sjálfur var hann spenntur fyrir heimagerðum pickles. Lúkas var svo seldur á hugmyndinni þar eð það átti að vera hægt að fá að ríða um á asna. Ég stakk upp á að fara núna snemma í morgun og þannig gæti Dave líka horft á leikinn, allir vinna. Mér tókst að halda spenningnum í skefjum, var með plan í huga um hvað ég ætlaði að kaupa og það stóðst hjá mér. Svo fengum við að smakka allskonar framleiðslu héðan úr nágrenninu. Í dag stóðu upp úr spelt hafrakökur sem ég keypti til að hafa með dádýrachili paté og sólblómafrækorna-og cacao nibs blandaðir hafrar í graut. Yndislegur sunnudagur, og aftur var matur í fyrirrúmi hjá Jones fjölskyldunni.


Afrakstur dagsins
Ég keypti eina litla fudge brownie og ætla að borða hana í kvöld og horfa á sunnudags romcom myndina á Sky og mér finnst það ágætt svona í vitleysu helgarinnar. Ég er reyndar búin að borða of stóra skammta af öllu um helgina. Og nú er eiginlega nóg komið hjá mér. Nú er ég farin að hlakka til að komast aftur í rútínuna - mig langar að gera fitutap að aðal fókusnum hjá mér og það þýðir að ég verð að hætta að vola svona hérna í von um klapp á bakið og "þú ert svo mikil hetja, þetta er bara fínt hjá þér" kommentum. Það er kominn tími til að ég segi sjálfri mér að halda kjafti og bíta í skjaldarrendur og taka þetta aftur eins og ég gerði í upphafi. Ef dagurinn er þannig að maður þarf orðið oft að taka ákvörðun um hvort maður eigi að borða eitthvað djúsí eða ekki þá er best að hefja daginn bara á að taka þá ákvörðun að maður ætli ekki að borða neina vitleysu í dag. Þá þarf maður ekki að velta því neitt frekar fyrir sér þann daginn. Og það er það sem ég ætla að gera héðan í frá. Ég vakna á morgnana, ég fer í ræktina og ég segi sjálfri mér að í dag sé dagur þar sem ég er búin að ákveða að borða bara það sem er á listanum, sé dagur þar sem ég er stolt af sjálfri mér allan daginn, sé dagur þar sem ég færist nær markmiðum mínum á markvissan hátt en ekki fjær þeim. Afhverju í ósköpunum að setja sér markmið og vinna svo ekki að þeim?

föstudagur, 1. október 2010

Ég las afskaplega áhugaverðan pistil um markmið núna í vikunni. Sá sem skrifaði sagði að það væri sannað að þeir sem settu sér markmið sem miðuðu að því að einhverju vissu væru líklegri til að ná markmiðum sínum en þeir sem einsettu sér að því að komast frá einhverju. Að því leyti er maður líklegri til að ná markmiðum sínum ef markmiðið væri t.d. að; komast í stærð 12, geta hlaupið 5 kílómetra stanslaust, geta passað í rennibraut, geta lyft líkamsþyngd í hnébeygju og þar fram eftir götunum. Hitt er ólíklegra til velgengnis að setja það að markmiði að hætta að versla í fitubolludeildinni, að hætta að vera illt í hnjánum, að vera ekki fastur inni. Maður á að einbeita sér að því sem maður vill sjá í framtíðinni, ekki að því sem maður vill forðast. Ég hugsa að ég einbeiti mér að þessu. Ég sé mig nefnilega fyrir mér í framtíðinni. Ég er sterk og hraust, ég get hlaupið og ég get lyft, ég get labbað inn í hvaða verslun sem er og (ó mæ god get ég sett þetta á vísakortið?) keypt mér það sem ég sé. Ég er þreytt og pirruð og allt það en ég er líka fullfær um að sjá það sem framtíðin ber í skauti sér. Og framtíðin er björt. Hún bara getur ekki verið neitt annað. (Í framtíðinni er ég reyndar líka alltaf búin að vinna lottóið og opna delicatessen en það er önnur saga.)

Í öðrum fréttum þá sá ég fortíð mína í kvöld. Ég fór út að borða með nýju vinnufélögunum og ein stúlkan í hópnum er eins og ég var fyrir rúmu ári síðan. Mér fannst eiginlega óþægilegt að horfa á hana í kvöld. Hvernig hún togaði í peysuna svo hún hyldi betur magann, hvernig hún kláraði ekki pastað sitt, hvernig hún pantaði sér ekki eftirrétt (maður má ekki borða of mikið á almannafæri), hvernig hún sat aðeins aftur á bak til að virka minni, hvernig hún passaði sig á að stíga létt til jarðar svo hún virkaði léttari, hvernig hún reyndi að draga úr allri sinni lífsorku til að virka minni. Mér fannst þetta óþægilegt vegna þess að ég man hvernig þetta var, hvað þetta var mikil vinna. Þessi feluleikur, þetta að reyna að virka ekki jafn feit og maður er í alvörunni. Og ef ég á að vera hreinskilin þá er það minni vinna að léttast en að halda áfram að vera feitur. Ég ætla að einbeita mér að framtíðinni. Ég er of löt til að vera feit.