Mér líður örlitið betur í dag. Hausverkurinn orðinn að daufum undirtón og öðruhvoru sem ég fann fyrir svona bylgju af ógleði. Versta líkamlega þrautin er þessi skrýtni þurrkur í munninum og óbragð af eiginlega öllu. Ég drakk átta lítra af vatni en allt kom fyrir ekki, tungan límist við góminn í eyðimerkurþurrki. Og það var óþol í mér. Svona herpingur í maganum og enn er ég yfirkomin af sorg.
Ég passaði mig vel, fylgdi fyrirmælum þeirra sem hafa hætt á sykri og fyllti matseðilinn með fitu. Og fullt af kókosolíu sem mér finnst vera sæt. Hér hef ég sérstaklega í huga það að fita gefur mikla fyllingu þannig að maður þarf ekki jafn mikið af henni og af öðrum næringarefnum, ásamt því að gefa sálræna fyllingu. Þegar ég fæ hnetur finnst mér ég líklegri til að halda mér við efnið. Vísindin segja að líkaminn skynjar fitu vel og gefur skýr merki um að maður sé orðin saddur þegar maður borðar góða fitu. Þannig er nóg fyrir mig að fá nokkrar möndlur eða ostbita ef ég er svöng og það fyllir mig alveg.
Morgunmatur: Hrágrautur (Rúgflögur, chia fræ, kókóshnetuflögur, 3 ristaðar möndlur, kanill og vanilluhrísgrjónamjólk)
Millisnarl: Grísk jógúrt með kókósolíuristuðum fræjum og pekanhnetum
Hádegismatur: Grænt salat með hvítlauksoliu og quinoaklatta og köld spænsk ommiletta.
Hafrakaka með heslihnetusmjöri
Millisnarl: 6 brasilíuhnetur
Kvöldmatur: Spænsk ommiletta (hinn helmingurinn)
Kvöldsnarl: Harðfiskbiti
Ekki sykurarða í augnsýn. Og ég er alveg pakksökk. Og af einhverjum dýrðlegum ástæðum langar mig í fyrsta sinn á ævinni ekki í eitthvað gott. Ég er svo einbeitt og sannfærð um réttmæti afeitrunarinnar að það virðist vera að hafa þau áhrif á mig að ég þarf ekki að berjast við "cravings". Vonandi að það haldist eitthvað.
Fór út að hlaupa eftir vinnu í kvöld og hafði smá áhyggjur af því að vera orkulaus en það var þvert á móti, ég fór 7 km og skemmti mér vel. Hefði getað haldið áfram en rann út á tíma. Víbrandi af orku.
þriðjudagur, 31. janúar 2012
mánudagur, 30. janúar 2012
Ég er með öran hjartslátt. Ég er með dúndrandi hausverk. Ég er undarlega þurr í munninum og með skrýtið bragð. Ég sveiflast á milli þess að skjálfa úr kulda og fá svitaköst. Ég er skjálfhent. Ég er með svima og mér er óglatt. Ég er svo sorgmædd. Mig langar helst til að rúlla mér saman í kúlu og leggjast bara niður og vera ekki til lengur. Ég er svo reið. Svo, svo reið. Að hugsa með sér! Að ég sé svo háð efni að ég geti látið það hafa áhrif á mig bæði andlega og líkamlega. Hluti af mér er alveg heillaður af ferlinu, hluti af mér er með æluna í hálsinum af reiði yfir því að hafa komið sjálfri mér í þessa aðstöðu.
Ég hefði aldrei trúað því hvað þetta er erfitt. 48 stundir án sykurs og þetta eru áhrifin. Ekki það að ég sé við það að fara út í kaupfélag til að kaupa mér snickers, mig langar ekkert í sætindi. Ég er með of mikinn viðbjóð á þessum fráhvarfseinkennum til að geta hugsað mér að langa í sætindi. Ég hef aldrei verið jafn sannfærð um að ég sé að gera rétt og þessi einkenni eru það sem er að sannfæra mig. Það að líða þetta illa, líkamlega og andlega eru svo skýr merki um að ég sé óeðlilega háð sykrinum. Og að því fyrr sem ég losa mig við þetta eitur úr líkamanum því betra.
En givi minn góur hvað þetta er vont.
Ég hefði aldrei trúað því hvað þetta er erfitt. 48 stundir án sykurs og þetta eru áhrifin. Ekki það að ég sé við það að fara út í kaupfélag til að kaupa mér snickers, mig langar ekkert í sætindi. Ég er með of mikinn viðbjóð á þessum fráhvarfseinkennum til að geta hugsað mér að langa í sætindi. Ég hef aldrei verið jafn sannfærð um að ég sé að gera rétt og þessi einkenni eru það sem er að sannfæra mig. Það að líða þetta illa, líkamlega og andlega eru svo skýr merki um að ég sé óeðlilega háð sykrinum. Og að því fyrr sem ég losa mig við þetta eitur úr líkamanum því betra.
En givi minn góur hvað þetta er vont.
sunnudagur, 29. janúar 2012
Það virðist sem svo að bara tilhugsunin um að gefa sykur upp á bátinn hafi góð áhrif á mig; 88.5 kíló eftir hlaup í morgun og þannig 1.2 kíló farin síðan síðasta sunnudag. Ég segi náttúrulega bara takk og amen við því.
Ég er búin að vera að nota undanfarna daga í undirbúning fyrir sykurlausa lífið. Ég sé það í hendi mér að þetta á eftir að vera meira en að segja það. Ef við horfum gróflega yfir það sem ég borða þá ætti það svo sem ekki að vera mikið mál fyrir mig að taka sykurinn út. Ég borða mikið óunna vöru, elda eiginlega allt sjálf, hef gríðarlega þekkingu á hráefni og er alltaf að spá í hollustu. En svo tínist þetta til; hunang eða sweet freedom í öllu sem ég baka. Döðlur og rúsínur í öllu sem ég baka og í hrágrautum og sem snarl. Agave í möndlumjólkinni minni, St Dalfour sultu með hnetusmjöri, eplabökur, hunang í dressingum og út á grillað grænmeti... fyrir utan það sem svo ég tek ekki eftir. Og þá eru að sjálfsögðu ótaldir upp ávextirnir og smoothie-arnir sem ég borða og drekk. Þetta á eftir að vera meira en að segja það.
Það fyrsta sem ég tók eftir var að heilinn í mér byrjaði strax að tifa til að finna staðgengla. Ég gúgglaði hrísgrjónasýróp og var ægilega glöð þegar ég sá að það var sem mig grunaði og það er frúktósalaust. Svo byrjaði ég að rannsaka stevia, náttúrulegt sykurefni sem er ekki búið til úr frúktósa. Ég er alveg háð því að fá sætt. Ég fattaði meira að segja að ég skipti öllum máltíðum í aðalrétt og eftirrétt. Þar með talinn morgunmatnum. Þannig fæ ég mér egg (savoury) í aðalrétt og svo morgunmúffu (sætt) með kaffi á eftir. Ein máltíð, skipt í tvennt. Hádegismatur er alltaf salat og svo þýskt brauð með hnetusmjöri og sultu, eða eitthvað prótein og svo múffa eða döðlur eða eitthvað sætt á eftir. Sama gerist á kvöldin, ég fæ mér kvöldmat og passa svo að fá mér jógúrt með hnetum eða hungangristaðar hnetur eða eitthvað gott og sætt á eftir.
Ég ákvað því í morgun eftir hlaup að fá mér einréttaðan morgunmat og "savoury" ekki sætan. Bjó til scrambled egg og ristaði rúgkornabrauðið sem ég bakaði um daginn. Smurði það með smurosti með pipar og lauk. Eggið ofan á og þetta maulaði ég í mestu hamingju. Var smávegis týnd í nokkrar sekúndur þegar ekkert sætt fylgdi en lagaði það svo fljótt með góðum kaffibolla. Og las aftan á smurostpakkann. Og hvað er talið upp? Jú fecking fructose syrup! Maður er semsé hvergi óhultur. Og eins gott að ég hef gefið mér góða viku í undirbúning, hann leynist nefnilega allstaðar sykurinn og það á eftir að taka langan tíma að lesa á allt og venja sig á það. Ég hugsa að það verkefni komi til með að reynast erfiðara en sjálf fráhvarfseinkennin.
Ég er búin að vera að nota undanfarna daga í undirbúning fyrir sykurlausa lífið. Ég sé það í hendi mér að þetta á eftir að vera meira en að segja það. Ef við horfum gróflega yfir það sem ég borða þá ætti það svo sem ekki að vera mikið mál fyrir mig að taka sykurinn út. Ég borða mikið óunna vöru, elda eiginlega allt sjálf, hef gríðarlega þekkingu á hráefni og er alltaf að spá í hollustu. En svo tínist þetta til; hunang eða sweet freedom í öllu sem ég baka. Döðlur og rúsínur í öllu sem ég baka og í hrágrautum og sem snarl. Agave í möndlumjólkinni minni, St Dalfour sultu með hnetusmjöri, eplabökur, hunang í dressingum og út á grillað grænmeti... fyrir utan það sem svo ég tek ekki eftir. Og þá eru að sjálfsögðu ótaldir upp ávextirnir og smoothie-arnir sem ég borða og drekk. Þetta á eftir að vera meira en að segja það.
Það fyrsta sem ég tók eftir var að heilinn í mér byrjaði strax að tifa til að finna staðgengla. Ég gúgglaði hrísgrjónasýróp og var ægilega glöð þegar ég sá að það var sem mig grunaði og það er frúktósalaust. Svo byrjaði ég að rannsaka stevia, náttúrulegt sykurefni sem er ekki búið til úr frúktósa. Ég er alveg háð því að fá sætt. Ég fattaði meira að segja að ég skipti öllum máltíðum í aðalrétt og eftirrétt. Þar með talinn morgunmatnum. Þannig fæ ég mér egg (savoury) í aðalrétt og svo morgunmúffu (sætt) með kaffi á eftir. Ein máltíð, skipt í tvennt. Hádegismatur er alltaf salat og svo þýskt brauð með hnetusmjöri og sultu, eða eitthvað prótein og svo múffa eða döðlur eða eitthvað sætt á eftir. Sama gerist á kvöldin, ég fæ mér kvöldmat og passa svo að fá mér jógúrt með hnetum eða hungangristaðar hnetur eða eitthvað gott og sætt á eftir.
Ég ákvað því í morgun eftir hlaup að fá mér einréttaðan morgunmat og "savoury" ekki sætan. Bjó til scrambled egg og ristaði rúgkornabrauðið sem ég bakaði um daginn. Smurði það með smurosti með pipar og lauk. Eggið ofan á og þetta maulaði ég í mestu hamingju. Var smávegis týnd í nokkrar sekúndur þegar ekkert sætt fylgdi en lagaði það svo fljótt með góðum kaffibolla. Og las aftan á smurostpakkann. Og hvað er talið upp? Jú fecking fructose syrup! Maður er semsé hvergi óhultur. Og eins gott að ég hef gefið mér góða viku í undirbúning, hann leynist nefnilega allstaðar sykurinn og það á eftir að taka langan tíma að lesa á allt og venja sig á það. Ég hugsa að það verkefni komi til með að reynast erfiðara en sjálf fráhvarfseinkennin.
föstudagur, 27. janúar 2012
Heimild |
Í nokkra mánuði núna hef ég reynt sjálfa mig á því að lifa af meðalhófi. Ég vil trúa því að mér sé treystandi, að ég geti tekið skynsamlegar ákvarðanir, að ég sé nógu vel gefin til að vita hvað er gott fyrir mig og hvað er tilbúin hollusta. Og mér gengur ágætlega. Ég borða hollan og góðan mat á virkum dögum, um helgar fara hlutirnir aðeins úr böndunum og svo tek ég aftur ákvörðun um að borða hollt og gott og geri það alla vikuna. Og ét svo yfir mig um næstu helgi.
Og ég er farin að trúa því að ég geti ekki lifað af meðalhófi. Að sykur hafi meiri og þéttari tök á mér en ég ræð við. Eins heitt og mig langar til að geta sagt að ég sé nógu sterk til að fá mér einn bita, eina sneið, einn mola, þá verð ég núna að viðurkenna að það er bara ekki svo. Ég get haldið nógu vel við mig, svo vel að ég fitna ekki. En ég þjáist enn af lönguninni. Og hún er alveg jafn sterk, alveg jafn brjálæðislega óviðráðanleg og fyrir þremur árum síðan. Láttu mig fá kexpakka og ég hætti ekki fyrr en hann er búinn. Og mér leiðist þessi endalausa barátta. Ég vil bara vera frjáls. Svona eins og ég er frjáls frá sígarettum núna.
Ég prófaði fyrir nokkru síðan að borða engan unninn sykur í mánuð. Mér fannst það fínt, og það var tilraun sem ég var sátt við en þegar öllu var á botninn hvolft þá fann ég ekki mikinn mun. Og ég sé það núna að ég gekk ekki nógu langt. Það er núna kominn tími til að ganga alla leið og taka allan sykur út. Og þá meina ég allan frúktósa. Þar með talið ávexti, ferska og þurrkaða eða í sultuformi. Ég þarf að taka út allan sykur til að frelsa sjálfa mig frá þessari fíkn fyrir fullt og allt. Ég ætla að nota næstu vikuna til að æfa mig og venja mig á þetta smávegis og svo er það bara að taka hann allan út.
Sykur á sér djúpstæðar rætur í okkur öllum. Það er ekki nóg að þurfa að díla við hreina líkamlega fíkn heldur er tilfinningaleg tengsl við sykur ótrúlega sterk líka. Sem verðlaun, huggun, sem félagi. Allt þetta veitir sykurinn og tilhugsunin um að yfirgefa þennan vin er náttúrulega ógnvekjandi. En ég þarf að fá að þekkja líkama minn og þarfir hans án þess stanslaust að berjast við að fæða sykurþörfina fyrst.
Frúktósi veitir enga fyllingu, hann meira að segja vekur þau viðbrögð í líkamanum að troða og troða í sig. Margar rannsóknir sýna að frúktósi hefur ekki sömu rísandi áhrif á insúlin í líkamanum og glúkósi. Þessvegna heldur fólk því fram að agave (90% frúktósi) sé hollustuvara. En þetta er ekki endilega sniðugt vegna þess að insúlin er eitt af hormónunum sem sem stjórnar matarlyst. Að gefa líkamanum því næringarefni sem hann sér sem enga ástæðu til að segja manni að maður sé orðinn saddur, búinn að fá nóg, er þessvegna ekki sniðugt. Og bara ávísun á ofát. Sykur (frúktósi) ruglar í hormónakerfinu í líkamanum, skapar löngun og þráhyggju og leiðir þannig til hins óhjákvæmilega vítahríngs megrunar og ofáts.
Ég ætla þvi að gefa því sjéns að prófa að sleppa frúktósanum í nokkrar vikur og sjá hvernig mér líður. Án þráhyggjunnar ætti ég að geta fundið jafnvægið sem ég er alltaf að leita að.
Ég ætla að sleppa (að venjulegum hvítum sykri og hvítu hveiti að sjálfsögðu meðtöldu):
Ávextir
Ávaxtasafi
Þurrkaðir ávextir
Sulta
Tilbúnar sósur (tómat og bbq)
sojasósa
balsamic edik
hunang
agave
sweet freedom
hlynsýróp
pálmasykur
og auðvitað súkkulaði, gosdrykkir, kex og kökur.
Ég er gífurlega spennt. Mér finnst ég hafa rannsakað málið til hlýtar og hafa komist að vel ígrundaðri niðurstöðu. Mér finnst ég hafa vísindin með mér í liði. Ég hef líka engar sálrænar ástæður fyrir ofátinu. Það eru engar tilfinningabeinagrindur í mínum skáp. Ég verð þessvegna að líta til hins líkamlega og fara að íhuga að ég er kannski bara sykurdópisti. Að ég sé að berjast við efni sem ég hef litla stjórn á. Og að lokum þá veltur velferð mín og hamingja á því að geta verið frjáls. Og til að fá að reyna frelsið verð ég að gefa dópið upp á bátinn. Mér líður betur nú þegar.
þriðjudagur, 24. janúar 2012
Við Ásta í London í nóvember. |
Ég ætti að hugsa um sykurmat og hveitibrauð á sama hátt. Mig langar kannski alltaf smávegis í og stundum, við sérstakar aðstæður, kemur mér til að langa alveg voðalega mikið í. En ég fæ mér samt ekki af því að ég veit að það er verra fyrir mig að fá mér en að sleppa því bara.
Ég er búin að vera svona þenkjandi síðan á mánudag. Og sem stendur er ég með skýrasta móti. Ég er að sætta sjálfa mig við tilhugsunina um að "langa alltaf smá" en að það sé bara svona í bakgrunninum og færist svo fjær og fjær. Það eru núna oft löng tímabil þar sem ég man ekkert eftir því að mig langi í smók. Heilu mánuðirnir. Kannski að það verði að lokum bara þannig með glassúrinn og fransarann?
Ja, nema ég fái mér bara rettu og kók?
mánudagur, 23. janúar 2012
Þrjú ár af skólamyndum, loksin í ramma. |
Horft inn í stofu |
Nýtt sófaborð, hliðarborð, körfur, lampi, kaffibolli. Vantar málningu. |
Hvað ég elska IKEA mikið. Nú er allt í lífi mínu komið í röð og reglu, allt komið ofan í körfu, sett í ramma, í stíl og nett samansett. Það á að sjálfsögðu eftir að mála veggina, það þarf að bíða eftir að gipsið þorni alveg, og við þurfum víst líka að hafa tíma til að gera það almennilega. En þetta er allt í áttina hjá okkur.
Næsta IKEA við okkur er í Warrington, í uþb klukkustundar keyrslu frá Wrexham. Og við áttavilltu hjónin erum ekkert of spennt að leggja á okkur að villast þetta. Eins gaman og mér finnst í IKEA þá er bara heilmikið á hjónabandið lagt þegar við keyrum út. Síðast keyrðum við hring um hafnarsvæðið í Liverpool áður en við komumst aftur heim. Ég held því fram að guðirnir passi vanalega upp á það að úthluta í samband einum lóðsara og einum áttavillingi. En eitthvað fór þetta úr skorðum hjá okkur Dave þvi við erum bæði svo áttavillt að vandræði stafa af. Í hvert sinn sem við reynum að komast eitthvað reynir á hjónabandið til hins ýtrasta þar sem taugarnar þenjast við hverja vitlausa beygju og sveigju og eftir því hversu langt við færumst frá áfangastað. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að við hreinlega gefumst upp og förum bara heim aftur. En hjónabandið blífur þannig að kannski eru þessir litlu útúrdúrar okkar bara gerðir til að gera okkur að vandaðra pari.
Warrington sjálf er sérlega óspennandi bær, og lítið þangað að sækja. Nema náttúrulega þetta flennistóra IKEA. Við vorum undirbúin, skildum Láka eftir hjá tengdó, vorum með innkaupalista og nógan tíma fyrir okkur. Ég fyllist einhverju ská þjóðarstolti þegar ég kem þangað, ég veit hvað senapssild er og skil nöfnin á húsgögnunum. Við röltum um í rólegheitum, tíndum ofan í körfuna af listanum og skoðuðum eldhús. Fengum okkur að sjálfsögðu kjötbollur og sultu áður en við héldum heim aftur.
Og öllum að óvörum tókum við bara einn aukasveig á leiðinni heim, fórum yfir bæði River Mersey og River Dee og komumst klakklaust frá Englandi heim til Norður Wales. Batnandi fólki er best að lifa.
Ég er núna búin að skrúfa saman stofuborði, hliðarborði og leslampa, setja myndir í ramma og setja allt smáleg í körfur. Allt á sínum stað. Ég er búin að hreinsa út úr öllum skápum, henda drasli og senda í endurvinnslu. Ég er að vona að svona tiltekt, uppfæring og röð og regla sé það sem ég þarf til að koma afgangnum af sjálfri mér í röð og reglu. Mig langar svo til að vera aftur skipulögð og með eld í maganum.
sunnudagur, 22. janúar 2012
Helvítis. Ég bætti á mig öðru hálfu kílói þessa vikuna. Það er kíló í plús síðustu tvær vikurnar og ég nánast aftur á byrjunarreit. Eins og Janúar hafi bara ekki skipt máli. Ég er greinilega enn ekki með hausinn í leiknum. Mér til varnar verð ég þó að segja að ég vann 60 tíma í þessari viku ásamt því að læra, skrifa og aðstoða við flutninga. Síðan á þriðjudag hef ég ekki haft tíma í heilsusamlegan lífstíl. Mér er sama hversu mikill vani þetta er, ég þarf samt amk klukkutíma á kvöldin til að undirbúa mig og ég þarf að komast í búð eða hafa tíma til að komast á netið til að panta matarsendingu. Ég hef ekki haft tækifæri til þess. Í ofan á lag hefur verið of vont veður þegar ég kem heim á kvöldin til að hlaupa.
Jaddí jaddí jada. Það er samt engin ástæða til að þyngjast. Tímaleysi og stress og ég ætti bara að borða minna. Ég hefði átt að hafa í huga minni hlaup og minnka matinn þessvegna. Fokking fokk. Djöfull er ég leið á þessu.
Og vegna þess að ég er greinilega ekki í fallegu skapi akkúrat núna og mér finnst ég ekki geta skrifað mig frá því þá ætla ég að taka eina eða tvær sun salutations og ná aftur jafnvægi.
Jaddí jaddí jada. Það er samt engin ástæða til að þyngjast. Tímaleysi og stress og ég ætti bara að borða minna. Ég hefði átt að hafa í huga minni hlaup og minnka matinn þessvegna. Fokking fokk. Djöfull er ég leið á þessu.
Og vegna þess að ég er greinilega ekki í fallegu skapi akkúrat núna og mér finnst ég ekki geta skrifað mig frá því þá ætla ég að taka eina eða tvær sun salutations og ná aftur jafnvægi.
þriðjudagur, 17. janúar 2012
Matseðillinn í dag var ferskur og hressandi. Svona drauma "lífstíls" matseðill.
Morgunmatur; 0% Grísk jógúrt með heimalöguðu granóla og frosnum bláberjum.
Snarl; gulrót og matskeið af marokkó kryddaðri húmmús.
Hádegismatur; Kale (grænkál) og kjúklingabaunasalat með radísum og parmesan, næpusnakki og hálfri, grófri kornabeyglu.
Eftirmiðdegissnarl; Kaffibolli og kubbur af hrá-hjónabandsælu.
Kvöldmatur; Cavolo Nero létt svissað á pönnu með hvítlauk og sítrónu og smávegis af serrano skinku.
Kvöldsnarl; handfylli af möndlum sem ég ristaði í hunangi.
Æðislegt.
Skítt þessvegna að ég komst ekki út að hlaupa í dag. Og enn skítlegra að mig langar hrikalega í nammi í kvöld. Þetta er bara þannig kvöld einhvernvegin.
Morgunmatur; 0% Grísk jógúrt með heimalöguðu granóla og frosnum bláberjum.
Snarl; gulrót og matskeið af marokkó kryddaðri húmmús.
Hádegismatur; Kale (grænkál) og kjúklingabaunasalat með radísum og parmesan, næpusnakki og hálfri, grófri kornabeyglu.
Eftirmiðdegissnarl; Kaffibolli og kubbur af hrá-hjónabandsælu.
Kvöldmatur; Cavolo Nero létt svissað á pönnu með hvítlauk og sítrónu og smávegis af serrano skinku.
Kvöldsnarl; handfylli af möndlum sem ég ristaði í hunangi.
Æðislegt.
Skítt þessvegna að ég komst ekki út að hlaupa í dag. Og enn skítlegra að mig langar hrikalega í nammi í kvöld. Þetta er bara þannig kvöld einhvernvegin.
sunnudagur, 15. janúar 2012
Ég hef verið að hugsa þetta allt saman vitlaust að undanförnu. Ég er alltaf stoppandi á þessu að það sé í lagi með mig núna, að fólk horfi á mig og sjái ekki feita manneskju lengur. Og ég finn enga hvatningu í því lengur. Þetta að verða venjuleg. Ég er ofur venjuleg núna.
En ég skráði mig í þrjú mismunandi hlaup núna í kvöld. Í mars, apríl og mai hlaupin í 12 á 12 markmiðinu mínu. Og ég fattaði að ég hef verið að hugsa þetta öfugt. Akkúrat núna eru hlaupin hvatningin mín. Og eitt af tólunum til að verða betri hlaupari er að nota næringuna á réttan hátt. Á sama hátt og það er lífsnauðsyn að fara út í það minnsta þrisvar sinnum í viku, að gera hraða- og taktæfingarnar, að gera líkamlega háttinn á réttan hátt og á áhugarverðan máta, þá á næringin að vera einn meginþátturinn í æfingaprógramminu. Það er þannig sem ég þarf að hugsa þetta allt saman. Borða til að hlaupa. Ekki öfugt.
Það setur óneitanlega skemmtilegri vinkil á málið, ik?
En ég skráði mig í þrjú mismunandi hlaup núna í kvöld. Í mars, apríl og mai hlaupin í 12 á 12 markmiðinu mínu. Og ég fattaði að ég hef verið að hugsa þetta öfugt. Akkúrat núna eru hlaupin hvatningin mín. Og eitt af tólunum til að verða betri hlaupari er að nota næringuna á réttan hátt. Á sama hátt og það er lífsnauðsyn að fara út í það minnsta þrisvar sinnum í viku, að gera hraða- og taktæfingarnar, að gera líkamlega háttinn á réttan hátt og á áhugarverðan máta, þá á næringin að vera einn meginþátturinn í æfingaprógramminu. Það er þannig sem ég þarf að hugsa þetta allt saman. Borða til að hlaupa. Ekki öfugt.
Það setur óneitanlega skemmtilegri vinkil á málið, ik?
Mig grunar að það sé hægt að segja að ég sé fórnarlamb eigin velgengni. Þegar ég lít tilbaka á síðustu tæpu þrjú árin finnst mér að fyrstu tvö hafi farið í nokkuð stöðugt fitutap og þó nokkra einbeitni af minni hálfu til að léttast. Síðasta árið hef ég svo hinsvegar tekið ægilega á því í viku, svo hálfkákað næstu vikuna, tekið einn dag í algert rugl, nokkra daga í meira hálfkák, heila helgi í rugl, svo aftur í smá tiltekt og þar fram eftir götunum. Ég finn ekkert langt tímabil þar sem ég var einbeitt og heil í verkefninu "léttast um síðustu 15 kílóin." Það kemur að miklu leyti til af því að ég er oftast bara ánægð með sjálfa mig. Ég veit að ég get borðað svo og svo mikið til að viðhalda mér eins og ég er, ég ekki lífshættulega feit lengur (og er stundum meira að segja bara dálítið sæt) og ég get gert vel flest það sem mig langar til að gera núna þegar kemur að hreyfingu. Ég er nokkuð viss um að þetta sé að halda aftur af mér að léttast um þessi síðustu 15. Það er engin örvænting í mér núna.
Örvænting er svo reyndar ekki tilfinning sem ég nenni að díla við lengur. En ég nenni heldur ekki hálfkákinu. Mér finnst ég hafa mér til varnar að ég var eldhúslaus í síðustu viku og þessvegna ætla ég að segja að þetta hálfa kíló sem ég þyngdist um sé ekki vegna hálfkáks eða einbeitningarleysis, heldur vegna "c´est la vie". Svona vikur koma stundum þar sem lífið tekur fram fyrir hendurnar á manni og það verður bara að kljást við þær og gera það besta úr þeim. Ég er ekki með hálfkák, ég er, og var alla síðustu viku, að vinna að markmiðum mínum af fullum krafti og heilindum. Hálft kíló er rassgat í bala og ég læt það ekki slá mig út af laginu.
Ég ákvað að það jákvæða sem ég myndi læra á svona djöfulviku væri að hatast ekki við granóla stykkin sem ég kenni um þyngdaraukninguna heldur hanna uppskrift að mínum eigin sem væru holl og góð. Mér tókst reyndar ekki að búa til stykki sem héldu formi, en á núna góðan skammt af granóla út á jógúrtið í næstu viku. Kókós- og heslihnetugranóla. Gómsætt.
Örvænting er svo reyndar ekki tilfinning sem ég nenni að díla við lengur. En ég nenni heldur ekki hálfkákinu. Mér finnst ég hafa mér til varnar að ég var eldhúslaus í síðustu viku og þessvegna ætla ég að segja að þetta hálfa kíló sem ég þyngdist um sé ekki vegna hálfkáks eða einbeitningarleysis, heldur vegna "c´est la vie". Svona vikur koma stundum þar sem lífið tekur fram fyrir hendurnar á manni og það verður bara að kljást við þær og gera það besta úr þeim. Ég er ekki með hálfkák, ég er, og var alla síðustu viku, að vinna að markmiðum mínum af fullum krafti og heilindum. Hálft kíló er rassgat í bala og ég læt það ekki slá mig út af laginu.
Ég ákvað að það jákvæða sem ég myndi læra á svona djöfulviku væri að hatast ekki við granóla stykkin sem ég kenni um þyngdaraukninguna heldur hanna uppskrift að mínum eigin sem væru holl og góð. Mér tókst reyndar ekki að búa til stykki sem héldu formi, en á núna góðan skammt af granóla út á jógúrtið í næstu viku. Kókós- og heslihnetugranóla. Gómsætt.
laugardagur, 14. janúar 2012
Nýr veggur, nú þarf gipsið að þorna og svo má mála. |
Og hvað gera bændur? Jú, klára að þrífa kofann og fara svo út að hlaupa í fyrramálið og halda bara sínu striki. Fokk og enter.
sunnudagur, 8. janúar 2012
Ég fór með voðalega mikinn harðfisk með mér heim að heiman um daginn. Svo mikið að ég fékk bakpoka lánaðann hjá pabba. Þegar ég svo hljóp til Wrexham í gær ákvað ég að fara með bakpokann svo ég gæti tekið með mér veski, lykla og síma. Bakpokinn er ægilega fínn, úr svona öndunarefni og með mittis- og brjóstkassaólum svo það er hægt að reyra hann fast að líkamanum. Hann er líklegast hannaður fyrir fjallgöngur eða eitthvað slíkt. En ég var hæstánægð með hann. Ég prófaði að hlaupa með hann nánast tóman og svo líka eftir að ég fór í H & B og var með tvo hveitipoka og fernu af möndlumjólk og það var ekkert mál. Ólarnar halda honum alveg föstum á bakinu þannig að það er ekkert mál að hlaupa. Og út frá því fékk ég súperdúper hugmynd. Þegar veðrið skánar aðeins og ég hætti að vera í þungum vetrarfatnaði þá ætla ég að pakka með mér hlaupagallanum í vinnuna. Skipta svo um föt, setja vinnugallann í bakpokann eftir vinnu, taka strætó frá Chester til Wrexham en hlaupa svo frá Wrexham til Rhos. Hversu brilljant er það?! Eina er að pabbi heldur örugglega að hann fái bakpokann tilbaka aftur...
Í morgun fór ég svo í fjallgöngu/hlaup. Ég hef eitthvað laskað á mér hægri ristina í gær og hún er stokkbólgin. Ég er alltaf frekar til í að meiða mig meira til að kanna hvort ég sé í alvörunni slösuð eða hvort ég sé bara að veina að ástæðulausu. Við skulum segja að ég sé ekki að búa þetta til og ég kem til með að slaka á á morgun. En verð nú líka að segja að sársaukinn var útsýnisins virði.
Vigtin og ég góðar vinkonur í dag, upphafsreitur var 90 kíló. Í dag er ég 88.7 og sátt við 1.3 kíló væk eftir vikuna. Öll sorg farin og eftir situr bara gleði og kraftur.
Í morgun fór ég svo í fjallgöngu/hlaup. Ég hef eitthvað laskað á mér hægri ristina í gær og hún er stokkbólgin. Ég er alltaf frekar til í að meiða mig meira til að kanna hvort ég sé í alvörunni slösuð eða hvort ég sé bara að veina að ástæðulausu. Við skulum segja að ég sé ekki að búa þetta til og ég kem til með að slaka á á morgun. En verð nú líka að segja að sársaukinn var útsýnisins virði.
Við fjallsræturnar, uþb 500 m frá húsinu mínu. Flossie fær sér gras. |
Rétt að komast á toppinn. |
Horft eftir fjallveginum. |
Horft niður til Rhos. |
Á akrinum þar sem ég festist í drullu. |
Nýju skórnir mínir búnir að fá vígslu. |
Og svo heim í nýbakaðar rúgmjölsmúffur sem ég skellti í áður en ég lagði í hann. |
Vigtin og ég góðar vinkonur í dag, upphafsreitur var 90 kíló. Í dag er ég 88.7 og sátt við 1.3 kíló væk eftir vikuna. Öll sorg farin og eftir situr bara gleði og kraftur.
laugardagur, 7. janúar 2012
Um leið og ég kom heim úr vinnu í gærkvöld smellti ég mér í partýgallann, setti krakkann í pössun og við Dave röltum okkur á einn af lókal pöbbunum hérna í næsta þorpi. Þar hittum við mágkonu mína og svila, Tracy og Garry, sem voru að fá sér öl af því að Garry átti afmæli. Ég er búin að búa hér síðan í júní 2003 og enn er það þjóðfélagsstúdía fyrir mig að fara á pöbbinn hérna. Ég veit bara fátt skemmtilegra því menningarmismunur Íslendinga og Breta er hvergi skýrari en á lókalnum. Við fórum á New Inn sem er í Johnstown. Húsið er eldgamalt og var áður hesthús eða etthvað slíkt en hefur verið pöbb núna í rúma öld. Þegar inn er komið blasir við myndarlegur bar úr þykkri eik og vertinn sem nikkar til manns. Við barinn standa fastagestirnir með dökkan bjór og virðast ekki hafa hreyft sig síðan ég sá þá þegar ég síðast kom þangað í október. Á gólfinu er þykkt og fallegt teppi með rósamynstri og af því leggur aldargamall þefur af humlum og hlandi. Lágt til lofts og gestirnir sitja við lítil borð sem er dreift um fjögur herbergi og skot sem mynda allan pöbbinn. Innst er snooker borð og þar eru nokkrir ungir menn að spila. Hljómsveitin í kvöld er úr þorpinu. Aðalsöngkonan er stórglæsileg kona á sextugsaldri. Hún er í þröngum svörtum rokkbuxum og alskreytt hálsmenum og armböndum. Hún er með sítt, hvítt hár sem fer henni vel. Bandið er á aldrinum 40- 60 ára og eru allir í bolum sem lýsa því yfir að þeir hlusti á The Who, Jimi og Creedence Clearwater Revival og með mismikið af hári. Dave fer á barinn og nær sér í uppáhaldið sitt John Smith sem er ekki lager heldur dökkur bjór sem er kallaður bitter. Sjálf er ég að drekka vatn. Ég spurði sjálfa mig spurninganna sem ég hef einsett mér að spyrja áður en ég borða eða drekk eitthvað sem ekki fellur að heilsusamlegum lífstíl. Þ.e. ég þarf að spyrja er þetta hjálplegt til að koma þér nær markmiði þínu? Ef svarið er nei þá þarf ég líka að spyrja hvort þetta sé hjálplegt til að ég geti lifað raunhæfu lífi án þess að vera súr og "deprived" og sé þannig hjálplegt þegar ég skoða stóra samhengið. Í þetta sinnið var svarið líka nei, því ég sá að ég myndi skemmta mér alveg jafnvel án víns. En það er önnur saga. Við sitjum hjá Tracy og Garry og upp spretta líflegar umræður um ferskan fisk, tónlist, sumarfrí og mataruppskriftir. Garry er ástríðukokkur og getur talað um mat allt kvöldið. Hinir gestirnir eru í svipaðri stemningu, þegar ég lít í kringum mig eru ég og Tracy einu konurnar. Mennirnir eru allir miðaldra og eldri, sumir fullir, sumir hálffullir, allir í góðu skapi, engin læti. Inn koma svo fleiri gestir, nú menn á aldri við Sigga afa og með þeim ein kona, um sjötugt. Þeir kaupa sér allir "pint", hún fær "half pint". Svona er það bara. Svo byrjar hljómsveitin að spila og það er erfiðara að tala saman. Ég tek eftir að gömlu kallarnir syngja með, "I can´t get enough of your love" syngja þeir með gömlu rokkurunum og dilla sér. Ég er alveg dolfallin. Ekki sér maður fólk á þessum aldri á pöbb á Íslandi og hvað þá syngjandi með rokkslögurum. Svo fer unga fólkið að koma, allir heilsast og faðmast, flestir eru úr þorpinu og eru sjálfsagt skyld. Eins og ég færi á pöbbinn og hitti Huldu ömmu. Það þætti mér varið í hugsa ég með mér og set bak við eyrað að heimta að hún fari á Happy Hour með mér næst þegar ég kem heim. Unga fólkið er fyllra en það gamla. Meiri læti í þeim, eldra fólkið er fullt en ekki með læti. Svo sé ég að þau eru öll að klappa fyrir söngkonunni og hún veifar til þeirra allra og knúsar svo á milli laga. Tracy segir mér að hún sé aðstoðarskólastjórinn og velskukennarinn í Grango skólanum í Rhos, þorpinu mínu. Þau eru sjálfsagt öll gamlir nemendur. Svona eins og mamma væri í bandi með Labba í Glóru og væri að syngja á Gauknum (er hann enn til?) og krakkarnir í Þolló kæmu að sjá hana. Frábært. Svo koma inn fjórar konur á fertugsaldri. Greinilega búnar að staupa sig aðeins heima og þær byrja allar að dansa í svaka stuði. Þær eru heldur glyðrulega klæddar að mínum smekki en það er eitt hér í Wrexham sem ég þarf bara að venjast, konurnar eru glyðrur. Svona er það bara. Þær dansa og skemmta sér og undir lok kvölds er ein þeirra komin í hörkusleik við rótarann. Result! Við lokalagið byrja svo tveir ungu mannanna að slást og er hent út. Örugglega eitthvað með sætu, rauðhærðu stelpuna að gera. Eða þá að þeir eru bara knobheads. Það er ekkert ólíklegt. Bandið klárar svo á bítlalagi og við Dave kveðjum Tracy og Garry og stöndum upp til að rölta upp Gutter Hill, Dave örlítið valtur á fótunum. Bráðskemmtilegt kvöld og eins og ég segi, alltaf jafn gaman að sjá hvernig Bretar gera þetta. Mér finnst skemmtilegt hvað kynslóðirnar blandast vel saman, allir á einum pöbb og ekkert mál. Og að sjá eldra fólkið úti líka er svo gaman. Eitt gera þeir þó alveg eins og við Íslendingar; þeir verða alveg blindfullir.
Á meðan Dave svaf svo á sínu rykuga eyra í morgun fór ég út að hlaupa. Hljóp til Wrexham. 7 km á tæpum 50 mínútum. Þurfti að stoppa og labba aðeins, ég er greinilega aðeins að missa þol. Bara mánuður síðan ég hljóp 10 km en núna með jólin í maganum og minna hlaup út af veðri er ég ekki jafn góð lengur. Ekkert mál, það vinnst fljótt upp aftur. Ég rölti aðeins um bæinn, fór í Holland og Barrett að kaupa rúgmjöl, stoppaði við í New Look og skoðaði skó og fór á Café Nero og fékk mér latte og muffin til að laga smá svima sem ég fann fyrir. Það var ekki fyrr en þá sem ég fattaði að ég hafði sem sagt verið að stússast um bæinn og sat nú á kaffihúsi í hlaupagallanum! Ég er ekki í lagi. Tók svo strætó heim og ætla að slaka á áður en við förum í matarboð. Svo er það bara að stíga á vigtina á morgun. Upphafsþyngd eftir jól: 90 kiló. Fjögur í plús sem þurfa að hypja sig áður en ég er aftur komin á sama reit og fyrir jól. Spennandi.
Á meðan Dave svaf svo á sínu rykuga eyra í morgun fór ég út að hlaupa. Hljóp til Wrexham. 7 km á tæpum 50 mínútum. Þurfti að stoppa og labba aðeins, ég er greinilega aðeins að missa þol. Bara mánuður síðan ég hljóp 10 km en núna með jólin í maganum og minna hlaup út af veðri er ég ekki jafn góð lengur. Ekkert mál, það vinnst fljótt upp aftur. Ég rölti aðeins um bæinn, fór í Holland og Barrett að kaupa rúgmjöl, stoppaði við í New Look og skoðaði skó og fór á Café Nero og fékk mér latte og muffin til að laga smá svima sem ég fann fyrir. Það var ekki fyrr en þá sem ég fattaði að ég hafði sem sagt verið að stússast um bæinn og sat nú á kaffihúsi í hlaupagallanum! Ég er ekki í lagi. Tók svo strætó heim og ætla að slaka á áður en við förum í matarboð. Svo er það bara að stíga á vigtina á morgun. Upphafsþyngd eftir jól: 90 kiló. Fjögur í plús sem þurfa að hypja sig áður en ég er aftur komin á sama reit og fyrir jól. Spennandi.
miðvikudagur, 4. janúar 2012
Möndlu- og döðlusmákökur.
1.5 bolli heilar möndlur í hýði
20 döðlur, létt lagðar í bleyti
3 kúfaðar msk náttúrulegt hnetusmjör
1/4 bolli cacao nibs (eða sykurlaust kakó)
salt
1/2 tsk kanill
tsk vanilludropar
Svo er öllu skellt í matvinnsluvél og hakkað þangað til deiglík kúla kemur í ljós. Ég á ekki alvörumatvinnsluvél þannig að ég þurfti að gera þetta í mörgum litlum skömmtum í litlu hakkavélinni minni. Svo bleytti ég hendurnar vel með köldu vatni og vann þannig út lokadeigið. Svo skipti ég því í 14 litlar kúlur, flatti út og setti á bökunarpappír og inn í ofn í svona 15 eða 20 mínútur (tók ekki tímann) við 160 gráður. Þetta var smá drullumall en voðalega gott að eiga í krukku inni í skáp þegar nagþörfin tekur yfir.
Enn og aftur get ég ekki lagt nógu mikla áherslu á að hér er um að ræða fullt af hitaeiningum. Fullt af þeim. Og það má ekki bara leggjast í að éta þessar eins og um grænkál væri að ræða. En á móti kemur að þær eru líka stútfullar af trefjum, próteini og hollri fitu sem hjálpar til við að gefa fyllingu og maður þarf bara eina til að svala græðginni. Og allt er eins og það á að vera.
1.5 bolli heilar möndlur í hýði
20 döðlur, létt lagðar í bleyti
3 kúfaðar msk náttúrulegt hnetusmjör
1/4 bolli cacao nibs (eða sykurlaust kakó)
salt
1/2 tsk kanill
tsk vanilludropar
Svo er öllu skellt í matvinnsluvél og hakkað þangað til deiglík kúla kemur í ljós. Ég á ekki alvörumatvinnsluvél þannig að ég þurfti að gera þetta í mörgum litlum skömmtum í litlu hakkavélinni minni. Svo bleytti ég hendurnar vel með köldu vatni og vann þannig út lokadeigið. Svo skipti ég því í 14 litlar kúlur, flatti út og setti á bökunarpappír og inn í ofn í svona 15 eða 20 mínútur (tók ekki tímann) við 160 gráður. Þetta var smá drullumall en voðalega gott að eiga í krukku inni í skáp þegar nagþörfin tekur yfir.
Enn og aftur get ég ekki lagt nógu mikla áherslu á að hér er um að ræða fullt af hitaeiningum. Fullt af þeim. Og það má ekki bara leggjast í að éta þessar eins og um grænkál væri að ræða. En á móti kemur að þær eru líka stútfullar af trefjum, próteini og hollri fitu sem hjálpar til við að gefa fyllingu og maður þarf bara eina til að svala græðginni. Og allt er eins og það á að vera.
þriðjudagur, 3. janúar 2012
Í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að hlaupa varð ég að játa mig sigraða í morgun. Ég vaknaði stuttu eftir fimm, tróð mér í gallann og var albúin að fara út. En hreinlega varð frá að hverfa vegna veðurs. Ég hef nú bara aldrei séð annað eins. Eftir götunni fuku ruslatunnur og annað lauslegt, regnið lamdi rúðurnar svo ég sá vart út og ég sá í hendi mér að ég myndi ekki komast langt. Og tók þá epísku ákvörðun að skríða bara aftur upp í heitt bólið hjá eiginmanninum. Og svaf á mínu græna eyra í stað þess að hlaupa. Hafði hugsað mér að hlaupa þá bara eftir vinnu en þegar ég kom heim í kvöld var veðrið bara engu skárra. Og Dave sagði mér að hann lenti í umferðaröngþveiti vegna þess að trampólín hafði fokið úr einhverjum garðinum og lá nú þvert yfir hraðbrautina! Spennandi. Og verra er að mér sýnist samkvæmt spám að sama verði upp á teningnum á morgun. En ég ætla reyndar að gera þá pilates frekar en að leggjast bara á hina hliðina.
Ég kom líka heim úr vinnu í kvöl uppfull af eldmóði og réðist beint í að leika mér í eldhúsinu. Ofnbakaði næpur (parsnips). Mikið ægilega sem það var gott, hafði sem meðlæti með bixí afgangi síðan á sunnudaginn. Ætla næst að prófa að búa til snakk úr þeim, skera þunnar sneiðar og baka eins og kartöfluflögur. Svo bjó ég til ægilega fínar möndlu-og döðlusmákökur, hveiti og sykurlausar. Bjó líka til hveiti úr rúgflögum sem ég hef verið að nota í hrágraut að undanförnu og bakaði úr því bananabrauðbollur í morgunmat en var svo æst yfir að hafa búið til hveiti að ég gleymdi að setja í þær lyftiduft og salt þannig að þær urðu dálítið þungar og braglausar. En hugmyndin góð og ég prófa tvímælalaust aftur og þá með lyftiduftinu.
Þetta allt saman hefur hjálpað mér að díla við sorgina í dag. Ég er nefnilega í ægilegu sykurfráhvarfi núna og það lýsir sér alltaf sem ofboðsleg sorg. Það góða er að ég veit núna að þetta er bara kemísk tilfinning og ég þarf bara að finna mér eitthvað skemmtilegt til dundurs til að dreifa huganum. Og svo líður hún hjá og ég verð aftur eins og ég á að mér. Ekkert mál.
Ég kom líka heim úr vinnu í kvöl uppfull af eldmóði og réðist beint í að leika mér í eldhúsinu. Ofnbakaði næpur (parsnips). Mikið ægilega sem það var gott, hafði sem meðlæti með bixí afgangi síðan á sunnudaginn. Ætla næst að prófa að búa til snakk úr þeim, skera þunnar sneiðar og baka eins og kartöfluflögur. Svo bjó ég til ægilega fínar möndlu-og döðlusmákökur, hveiti og sykurlausar. Bjó líka til hveiti úr rúgflögum sem ég hef verið að nota í hrágraut að undanförnu og bakaði úr því bananabrauðbollur í morgunmat en var svo æst yfir að hafa búið til hveiti að ég gleymdi að setja í þær lyftiduft og salt þannig að þær urðu dálítið þungar og braglausar. En hugmyndin góð og ég prófa tvímælalaust aftur og þá með lyftiduftinu.
Þetta allt saman hefur hjálpað mér að díla við sorgina í dag. Ég er nefnilega í ægilegu sykurfráhvarfi núna og það lýsir sér alltaf sem ofboðsleg sorg. Það góða er að ég veit núna að þetta er bara kemísk tilfinning og ég þarf bara að finna mér eitthvað skemmtilegt til dundurs til að dreifa huganum. Og svo líður hún hjá og ég verð aftur eins og ég á að mér. Ekkert mál.
mánudagur, 2. janúar 2012
Ársmarkmið: Að verða 74 kíló. Þetta eru uþb 15 kíló af eða
rétt rúmt kíló á mánuði. Ég man ekki eftir því að hafa nokkurntíman verið þetta létt og ég veit
ekki alveg afhverju ég hef á tilfinningunni að 74 kíló sé rétta þyngdin fyrir
mig en mér finnst það bara. Ég áskil mér að sjálfsögðu 100% réttindum til að
breyta um þetta markmið, upp eða niður.
2 og ½ mánaða
markmið: Að ná að verða 80 kíló fyrir 13. mars. Þetta eru rétt rúm 3 kíló af á
mánuði og er helvíti snart áætlað fyrir mig, en mig langar til að setja mér
hressilegt markmið til að byrja með og til að ná upp smá veltihraða. Sem stendur er ég stemmd fyrir áskorun og
fyrir smávegis vinnu.
Mánaðarmarkmið:
3.5 kíló af fyrir Janúar lok.
Vikuleg
markmið: Ég ætla að byrja aftur að
skipuleggja vikumatseðil á sunnudegi, verlsa markvisst í matseðilinn og vera
skipulagðari hvað mat varðar. Ég þarf að hafa í huga næringargildi og ég þarf
að huga mun betur að magni. Ég þarf að vigta og mæla betur það sem ég borða. Ég
ætla að byrja aftur að rannsaka nýjar matartegundir og gera tilraunir. Ég ætla
að hlaupa 3 sinnum í viku og gera líkamsþyngdaræfingar 3 sinnum í viku. Ég ætla að endurtaka 10Km prógrammið með það í
huga að ná betri hraða. Ég ætla að verða vöðvastælt og sterk.
Dagleg
markmið: Ég ætla að skrásetja daglega það
sem ég borða – og rannsaka hvað hentar best mínum líkama til að léttast. Ég ætla
að passa það sem ég sting upp í mig án þess að taka eftir því og taka á
því. Ég ætla að drekka meira vatn. Ég
ætla að halda mig innan BMR marka. Og það gildir líka um laugar- og sunnudaga.
Þetta er grófa
planið mitt. Það eru að sjálfsögðu allskonar smáatriði sem þarf að huga að og
svo þarf að koma þessu líka í framkvæmd. Mér finnst dálítið erfitt að setja fram svona
skýr markmið hvað vigtina varðar, það er langt síðan ég dansaði við þann djöful.
En ég er bara í svona stemningu núna. Og ekkert að því að nota svona hressleika
til stórverka.
sunnudagur, 1. janúar 2012
Það er ekkert sem jafnast á við nýtt ár. Maður sér fyrir sér endalausa möguleika á breyttri og betri hegðan, allt gamalt er gleymt og grafið og framtíðin óskrifað blað. Ég fyllist alltaf sömu ákefðinni í að setja upp nýtt plan, gera betur en í fyrra, verða betri manneskja. Að setja upp nýtt plan á mánudegi eða um mánaðarmót jafnast að sjálfsögðu ekkert á við nýja planið sem tekur við á nýju ári. Og ég er orðin nógu vön núna til að segja að ég geti sett upp nýtt plan og svo staðið við það lengur en rétt út janúar. Eða nógu hrokafull.
Þegar ég leit tilbaka og athugaði hvar ég stóð fyrir ári kom í ljós að ég hef ekki notað 2011 til mikilla verka. Ég léttist um 2 kíló allt í allt. Á heilu ári. Frekar klénn árangur. En það er bara þegar maður skoðar "the random number generator" eins og Ragga Nagli vildi kalla vigtina. Ég byrjaði að hlaupa af alvöru og hljóp 10 km hlaup þrisvar sinnum, þar af einu sinni í skipulögðu hlaupi. Ég hélt uppi heilsusamlegum lífstil og sannaði fyrir sjálfri mér enn einu sinni að ég er í alvörunni breytt manneskja. Ég byrjaði árið í skinny jeans í númer 18 og endaði það í super skinny jeans í númer 14. Og það segir meira en vigtin getur sagt.
Framundan eru svo bara skemmtilegheit.
Ég ætla að halda áfram að rækta sjálfa mig og gera betur í að skilja hvað gerir mig í alvörunni hamingjusama og hvað það er sem veitir mér tímabundna hamingju sem er svo í raun bara glópagull. Ég hef sett mér aftur skýr markmið hvað kílóafjölda varðar. Mér finnst gaman að vinna að skýru verkefni og ég hlakka til að vinna í því að lifa innan ákveðins ramma. Ég er búin að gera andlegu vinnuna sem ég þurfti og nú er aftur komið að líkamlega þættinum. Ég ætla að vera orðin 80 kíló fyrir 13. mars. Það er best að smella því bara hér inn til að fá aðhaldið sem því fylgir.
Því markmiði ætla ég að ná með því að byrja aftur að vigta og mæla og ég ætla að byrja aftur að njóta þess að stússast í eldhúsinu. Það var kominn ákveðinn leiði í mig þar en núna er ég aftur að fyllast gleði yfir því að prófa og hanna nýjar uppskriftir.
Ein af stelpunum á hlaupanámskeiðinu sagðist ætla að gera 12 á 12. Það er að segja hún ætlar að taka þátt í skipulögðu hlaupi eða skipuleggja sitt eigið fyrir hvern mánuð á árinu 2012. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ég ætla að taka hana upp sjálf. Ég ætla að setja upp dagatal þar sem ég ætla að fylla inn þau skipulögðu hlaup sem ég finn hér í grenndinni eða á heimangengt í og taka þátt í þeim. Þá mánuði sem ég finn ekkert ætla ég að hlaupa mitt eigið hlaup. Hvort sem það er bara gamli góði hringurinn minn eða hvort ég geri eitthvað úr því skiptir ekki máli, ég ætla að mæla tíma og gera það eins og um kapphlaup væri að ræða. Þetta finnst mér gífurlega spennandi og fyrsta hlaupið var hlaupið í morgun 1. Janúar 2012. 5K um Rhos á persónulegu Garmin meti; 34:44.
Svona byrjaði ég 2012. Hvað með þig?
Þegar ég leit tilbaka og athugaði hvar ég stóð fyrir ári kom í ljós að ég hef ekki notað 2011 til mikilla verka. Ég léttist um 2 kíló allt í allt. Á heilu ári. Frekar klénn árangur. En það er bara þegar maður skoðar "the random number generator" eins og Ragga Nagli vildi kalla vigtina. Ég byrjaði að hlaupa af alvöru og hljóp 10 km hlaup þrisvar sinnum, þar af einu sinni í skipulögðu hlaupi. Ég hélt uppi heilsusamlegum lífstil og sannaði fyrir sjálfri mér enn einu sinni að ég er í alvörunni breytt manneskja. Ég byrjaði árið í skinny jeans í númer 18 og endaði það í super skinny jeans í númer 14. Og það segir meira en vigtin getur sagt.
Framundan eru svo bara skemmtilegheit.
Ég ætla að halda áfram að rækta sjálfa mig og gera betur í að skilja hvað gerir mig í alvörunni hamingjusama og hvað það er sem veitir mér tímabundna hamingju sem er svo í raun bara glópagull. Ég hef sett mér aftur skýr markmið hvað kílóafjölda varðar. Mér finnst gaman að vinna að skýru verkefni og ég hlakka til að vinna í því að lifa innan ákveðins ramma. Ég er búin að gera andlegu vinnuna sem ég þurfti og nú er aftur komið að líkamlega þættinum. Ég ætla að vera orðin 80 kíló fyrir 13. mars. Það er best að smella því bara hér inn til að fá aðhaldið sem því fylgir.
Því markmiði ætla ég að ná með því að byrja aftur að vigta og mæla og ég ætla að byrja aftur að njóta þess að stússast í eldhúsinu. Það var kominn ákveðinn leiði í mig þar en núna er ég aftur að fyllast gleði yfir því að prófa og hanna nýjar uppskriftir.
Ein af stelpunum á hlaupanámskeiðinu sagðist ætla að gera 12 á 12. Það er að segja hún ætlar að taka þátt í skipulögðu hlaupi eða skipuleggja sitt eigið fyrir hvern mánuð á árinu 2012. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ég ætla að taka hana upp sjálf. Ég ætla að setja upp dagatal þar sem ég ætla að fylla inn þau skipulögðu hlaup sem ég finn hér í grenndinni eða á heimangengt í og taka þátt í þeim. Þá mánuði sem ég finn ekkert ætla ég að hlaupa mitt eigið hlaup. Hvort sem það er bara gamli góði hringurinn minn eða hvort ég geri eitthvað úr því skiptir ekki máli, ég ætla að mæla tíma og gera það eins og um kapphlaup væri að ræða. Þetta finnst mér gífurlega spennandi og fyrsta hlaupið var hlaupið í morgun 1. Janúar 2012. 5K um Rhos á persónulegu Garmin meti; 34:44.
Svona byrjaði ég 2012. Hvað með þig?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)