föstudagur, 30. nóvember 2012

Ég er búin að glutra hverju einasta spikpriki dagsins úr höndunum á mér. Og það fyrir helbert hugsunarleysi, akkúrat það sem ég var að reyna að forðast! Til að byrja daginn þá svaf ég aðeins of lengi til að geta skoppað. Sleppti því sem sagt alveg. Ég fór svo með konfektkassa í vinnuna í dag, það er svona smávegis "ætlast" til þess að stjórinn geri vel við starfsfólkið á aðventunni og ég lét undan þrýstingi (hvort sem hann var raunverulegur eða hugarburður minn) og keypti Roses dós og gaf teyminu. Svo áður en ég vissi af var búið að rétta mér kaffibolla og ég er að stinga upp í mig mola númer tvö í miðri sögu um íslenska jólasveina áður en ég fatta hvað ég var að gera. Sjift! hugsaði ég og kyngdi. Sagði svo við sjálfa mig að þetta væri nú varla heimsendir, ég tapa fimm spikprikum og held svo bara áfram mínu striki. Og það gekk ljómandi vel. Í uþb hálftíma. Þegar heilinn í mér byrjaði röksemdarfærsluna sem byrjaði á "þú ert hvort eð er búin að fá þér tvo mola þannig að þú getur alveg fengið þér fleiri" og endaði einhvernvegin í ósköpunum á því að "og svo passar akkúrat að stoppa við í Thornton´s og kaupa súkkulaðihúðaðar karamellur á leiðinni í Marks til að ná í hálft dúsín af möndlucroissant" vissi ég að ég var komin í klandur.

Ég gerði ekkert af þessu en ákvað samt að taka af mér öll spikprik. Fyrir syndsamlegar hugsanir, græðgi, öfundsýki og ólæti á almannafæri á aðventunni. Ég er að reyna að kenna sjálfri mér eitthvað hérna og það lærist ekkert ef maður verðlaunar sig stanslaust fyrir ekki neitt.

0 spikprik. Nú verða leikar spennandi.

fimmtudagur, 29. nóvember 2012

Mánudagur : 20 spikprik. Engin hreyfing - maturinn ljómandi fínn. Þakið lekur í allri rigningunni og ég hringdi í tryggingarnar. Smá nojuð að bíða eftir því að heyra hvað gerist næst. Ég var smá leið yfir því að borða ekki brauð. Og nojuð yfir því að virka leiðinleg af því að ég borða ekki brauð eins og venjulegt fólk. En svo mundi ég eftir Barney Stinson og ákvað að hætta að vera venjuleg og vera ofur í staðinn.
Þriðjudagur: 20 spikprik. Engin hreyfing en maturinn aftur outstanding. Ég ákvað að hafa engar áhyggjur af tryggingum og leka, það þýðir ekkert að eyða tíma sínum í að hafa áhyggjur. Af nokkrum sköpuðum hlut. Awesome!

Miðvikudagur: 22 spikprik. Hreyfing var göngutúr - matur tipp topp. En ég var smávegis döpur, langaði í eitthvað sem ég vissi ekki hvað var. Chester er orðin svo jólaleg og það er súkkulaði út um allt og allt á frikkin tilboði. Súkkulaði út um allt! En svo ákvað ég að hætta að vera leið og var bara æðisleg í staðinn. Sönn saga.


Fimmtudagur 22 spikprik. Hreyfing langur göngutúr og matur  eins og hjá einhverjum heilsugúru.  Ég er á svo rúllandi sving núna að ég á skilið high five. Tek kvöldið í nefið. 

sunnudagur, 25. nóvember 2012

Vikan endar í 124 spikprikum. Ekki amalegt það. Ég tapaði heilum fimmtán prikum í dag. Fimm fyrir að fá mér tvær brauðsneiðar. Grófkorna artisan brauð með graskersfræjum og trönuberjum. Og svo öðrum fimm fyrir að fá mér spaghetti bolognese í kvöldmat. Enn öðrum fimm tapaði ég fyrir að borða þegar ég var ekki svöng eða nokkurn staðar nálægt því að vera svöng. Prikunum tapaði ég bara fyrir kurteisissakir, brauðátið og pastað var planað. Það er bara gott fyrir líkamann að fá smá sterkju öðruhvoru til að sjokkerast og sjálf var ég tilbúin í slaginn ef ég ætlaði eitthvað að fara að baula og hrista mig til í fíkilskasti, en það gerðist ekki þannig að ég er bara alveg hress með þetta. Það að tapa prikum fyrir græðgi er svo bara til að minna sjálfa mig á að þetta á líka að vera smávegis vinna.

Ég fór og keypti í matinn fyrir vikuna og náði mér líka í jólin. Mandarínur og hnetur komnar í skál á borðið og aðventan má þessvegna bara alveg koma. Ég meira að segja setti upp aðventukransinn og kveikti a einu kertinu þar til ég fattaði að ég var viku á undan áætlun. Alltaf á undan minni framtíð. Eða kannski að ég fylgi bara því sem mamma stakk upp á og hef fimm aðventusunnudaga í ár. Ekkert mál.


Hér er bjart og fallegt úti, nokkuð kalt en sólríkt. Ljómandi fallegur sunnudagur. Ég hafði í hyggju að fara út í göngutúr en vaknaði með ónot í maganum og ákvað að styrktaræfingar heimavið væru meira við hæfi. Fimm spikprik því komin í pottinn þar sem ég sest niður við morgunverð og kaffibolla.

Ekki get ég kvartað yfir árangrinum fyrstu vikuna í áskoruninni minni. 1.9 kíló farin og ég hef lítið þurft að ströggla í vikunni. Hef einhvernvegin komið þeirri hugsun að hjá mér að mér þyki það mikilvægara að reyna að léttast og losa um þetta gamla spik en að fá ristað brauð.

Ég er líka nokkuð viss um að ég hafi náð að halda þessu öllu á léttu nótunum hjá mér. Ég hef engan áhuga á öfgum eða á því að fá skitu yfir því að fá mér einn heitan kakóbolla með strákunum mínum eða hvíta kartöflu með fiski eða yfir því að það sé kannski sykur í Worcestershiresósudropanum sem ég set út í cottage pie. Ég er ekki að fylgja neinum lífsreglum hellisbúa eða lágkolvetnaflokks. Ég les mikið um hellisbúafæði og á meðan  að ég er mjög hrifin af mörgum kenningum sem þar lifa, og þá sérstaklega hvað hreyfingu varðar, þá finnst mér alveg ómögulegt þegar fólk verður alveg fanatískt í skoðunum sínum á því hvað sé "rétt" og "rangt" hvað mat varðar. Mér þykir algerlega út í hött að persónugera mat og áætla honum gæði eða illsku. Ef maður er 168 cm og uþb 60-70 kíló og getur hlaupið 5 km án þess að drepast, haldið á þremur fullum innkaupapokum upp nokkrar hæðir í blokk og leikið úti á róló með krökkunum í klukkutíma, nú þá sé ég bara ekkert að því að fá sér croissant í morgunmat á laugardegi og snakkpoka í bíó öðruhvoru og pizzusneið þegar pizza er í boði. Matur er hvorki góður né slæmur. Hann er bara. Franskbrauð hefur engar illar fyrirætlanir í huga til að fá mig til að borða það til að skemma fitutap hjá mér. Ég hinsvegar er þannig gerð að franskbrauð einfaldlega hentar mér illa. Fyrir utan að vinna illa úr því þá vekur það upp í mér fíkilshegðun. Það tekur ofurmannlegt átak fyrir mig að fá mér bara eina sneið. Og þessvegna er betra fyrir mig að reyna að sleppa því að mestu leyti. En franskbrauð er hvorki gott né illt.

Áskorunin er ekki til þess gerð að "hætta að borða hvítt hveiti og sykur að eilífu, amen" heldur er hún frekar til þess gerð að minna mig með áþreifanlegum hætti hvað gerist þegar ég er "mindful" yfir því sem ég set upp í mig og því sem gerist þegar ég hnykla vöðvana og hreyfi mig af ákveðni yfir daginn.

Spikprik eða ekki, þetta er bara svo miklu betra svona.

laugardagur, 24. nóvember 2012


 Ah! 20 spikprik í dag. Fimm í plús í morgun, fimm í mínus í dag. En hver getur svo sem staðist praline mocha á Starbucks eftir jólalegt rölt um Wrexham með uppáhaldsstrákunum mínum? Alveg þess virði. 


Föstudagur fór eins og áætlað var, ég fór í langa göngu þrátt fyrir óveður og leiðindi og maturinn var tipp topp. Varð aðeins erfitt um þegar helgarstuðið lagðist í mig og mig langaði til að hafa eitthvað "meira djúsí" en bláber til að nasla á. Ég minnti sjálfa mig þá á að "eitthvað djúsí" getur vel verið hollusta líka og svo lagði ég frekari drög að matseðli helgarinnar sem inniheldur allskonar djúsí drasl og ég hætti að hafa áhyggjur. Ég er löngu búin að sætta mig við að það þýðir ekkert fyrir mig að reyna að hugsa EKKI um mat, það gerir hlutina bara verri. Miklu betra að stýra orkunni bara í áttina að hollari uppfinningum og leyfa mér bara að velta mér upp úr ástríðunni. Svo lengi sem ég missi ekki sjónar á aðalmarkmiðinu. H.L.Hunt sem er vellríkur viðskiptajöfur gaf þessi ráð um hvernig á að ná árangri. Hann sagði að það þyrfti að ákveða hvað maður vill, ákveða hvað maður er tilbúinn að gefa upp á bátinn til að ná því, forgangsraða og skipuleggja og að lokum vinna. Og það er það sem ég er að gera. Ég veit hvað ég vil, hverju ég þarf að sleppa til að fá það, ég er búin að forgangsraða og skipuleggja og ég er að vinna. 22 spikprik í gær. 

Í dag var svo vöðvaæfing og rösk heimilistörf ásamt göngutúr sem bíður mín. Svo þarf sjálfsagt líka að kíkja á jólaljósin í Wrexham seinna í dag. Morgunmaturinn algerlega bjútífúl og setur tóninn fyrir daginn. Ég er meira en kát. Stefni á 25 spikprik í dag. 

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Mikið voðalega var erfitt að vakna í morgun. Ég hefði alveg getað sofið lengur. Ýtti á snús tvisvar og rökræddi við sjálfa mig. Það eru fimm spikprik í boði minnti ég sjálfa mig á. En það var ekki nóg. Ég hugsaði með mér að ég hefði nógan tíma til að safna spikprikum. Og ég ýtti aftur á snús. Það sem var svo til að fá mig fram úr var minning. Ég man hvernig það var að vakna klukkan fimm og byrja að hreyfa mig var jafn sjálfsagður hlutur og að geispa og pissa. Ég man líka hvað ég gerði til að koma því þannig fyrir. Það var ósköp einfalt. Ég neyddi sjálfa mig til að gera það fyrstu vikuna, svo varð það eðlilegra og eðlilegra. Þessi minning var það sem kom mér fram úr. Ef ég fer fram úr í dag þá er ég mun líklegri til að gera það á morgun og daginn þar á eftir og þar á eftir.

Þegar sprikli lauk datt mér í hug að eins næs og það nú er að eiga inni fimm auka spikprik þá er ég strax farin að ná því sem er aðalmarkmiðið; að koma mér aftur inn í heilsusamlega rútínu.

Maturinn fylgdi svo eins og ekkert væri í dag, og lauk í kvöldmat með íslenskum fiski og grænmeti. Ég fæ mér svo örugglega frosin bláber með rjómaslettu (já, gleymdi ég að segja að rjómi er ekki á neinum bannlista?)  í eftirrét og hreyki mér af heilum 25 spikprikum í dag.

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

Rétt náði að skrapa saman 15 spikprikum í dag; þetta var ofur langur dagur í lest og á fundum, ég rétt náði að afþakka boðnar samlokur og skófla í mig eigin salati og stinga nefi út í 15 mínútna labb um Manchester til að framfylgja grundvallarreglum. Flaskaði svo rétt undir lokin þegar ég þurfti að bíða í 40 mínútur í Crewe og fékk mér heitt kakó af einskærum leiðindum og kulda. Ekki þess virði. Mínus fimm prik þar og engin inn unnin. Ah well, you win some, you lose some.

Þreytt núna.

þriðjudagur, 20. nóvember 2012

Ég vaknaði rétt eftir þrjú í morgun böðuð í svita og ónotum eftir heldur óskemmtilega martröð. Og gat engan vegin sofnað aftur af áhyggjum yfir allskonar skrímslum og öðru verra. Lak svo loksins út af rétt eftir fimm og gat bara allsekki vaknað í pilates eins og planað var. Reyndi að bæta úr því með löngum göngutúr í hádeginu (Chester er svo falleg núna í síðhaustveðrinu) og tók svo bara pilates tíma eftir kvöldmat. Ekki mikið vandamál.

Spikprik dagsins standa því í 22. 20 stig fyrir óaðfinnanlegt mataræði, 2 stig fyrir pilates.

Svo verður spennandi að sjá hvernig mér tekst til í Manchester á morgun. Er búin að pakka hollum nestispakka en veit bara ekki hvort það verður við hæfi að draga boxið upp ef okkur verður boðið upp á mat. Ég er að hugsa um að segjast bara vera með ofnæmi og brosa svo bara.

Verkefni morgundagsins er þessvegna að halda sínu striki þrátt fyrir að lífið sé óútreiknanlegt.

mánudagur, 19. nóvember 2012

Spikprikin hreinlega hrúgast inn og ég er himinlifandi í uppsveiflunni sem nýrri áskorun fylgir. Ég vaknaði ofurhress í morgun og rauk til í snarpa líkamsþyngdaræfingu. Hef greinilega misst niður heilmikið þol því ég var pungsveitt og másandi að æfingu lokinni. Engu að síður þá voru 5 spikprik komin í sarpinn og það allt fyrir klukkan sex í morgun. Maturinn fór svo alveg eins og planað var og ég bætti við röskri göngu fimm stoppistöðvum lengra en nauðsynlegt er þannig að sem stendur eru öll 25 spikprik dagsins söfnuð og seif.

Á morgun ætla ég að vakna 10 mínútum fyrr en nauðsynlegt er. Þannig hef ég gefið sjálfri mér nægan tíma til að sleppa við allt stress og hamagang í morgunsárið. Ég hef þannig líka tíma til að teygja vel á öllum kroppnum og ætti þannig að vera búin að leggja grunn að öðrum súper spikprik degi.

Góðar stundir.

sunnudagur, 18. nóvember 2012

Þá er aldeilis farið að hitna í kolunum í undirbúningi fyrir spikpriksöfnunina. Ég ákvað að þar sem að aðaltilgangurinn með verkefninu er að komast aftur almennilega inn í góða siði og venjur fyrir fullt og allt þá væri alveg fatalt að gera það sem ég stundum geri og fríka út dagana á undan. Svona eins og þegar maður ákveður að fara í megrun á mánudaginn og borðar svo heila rjómaköku á sunnudeginum. Nei, ekkert svoleiðis hér og vikan var bara fínasti undirbúningur.

Í morgun var ég 95 kíló og það verður notað sem viðmiðunartalan. Ég hef margoft reynt að mæla mig en fæ alltaf mismunandi svör út þannig að ég sé engan tilgang þar í. Buxnastærð er líka dálítið erfið til viðmiðunar. Þannig á ég gallabuxur úr Next í stærð 14 sem passa fínt og ég geng líka í buxum úr Zara sem eru númer 18 og eru eiginlega of þröngar. Þannig að mér finnst það ekki marktækt. En vigtin mín segir mér hvað ég er þung, í engum fötum, eftir piss á morgnana. Og er nokkuð samkvæm sjálfri sér. Þannig að vigtin er viðmiðunin.

Það er líka alveg útilokað að vaða út í svona án þess að vera með plan. Og ég er búin að setja upp stundatöflu fyrir hreyfingu og mat.

Mánudagur - Frí/Ganga
Þriðjudagur - Bjöllur/Zumba
Miðvikudagur - Pilates/Ganga
Fimmtudagur - Bjöllur/Shred
Föstudagur - Ganga
Laugardagur - Bjöllur/Pilates/Shred
Sunnudagur - Bjöllur/Ganga/Shred

Hér ætti að vera nóg úrval til að leyfa mér að velja aðeins eftir skapgerð hvers dags og gefa mér möguleika á að gera meira en eitt ef ég svo vil. Svo er það bara undir mér komið að safna sem flestum spikprikum.

Maturinn er gróflega áætlaður svona;

Mánudagur - Sæt ommiletta með kókós
                     Big Ass Salat og sæt kartöflu"brauð"bolla
                     Gulrótarsúpa - Bláber
Þriðjudagur - Grísk jógúrt með pomegranate
                     BAS, bolla - "gulrótarkaka"
                     Grænmetishlaðiðkalkúna chili - ber
Miðvikudagur- Sæt ommiletta
                        BAS, bolla - kaka
                       Chili
Fimmtudagur- Grísk og ávöxtur
                      BAS, bolla
                     Fiskur og grænmeti
Föstudagur- Sæt ommi
                    BAS, bolla - Kaka
                    Sirloin með sveppum og lauk - sæt kartafla - Avókadómús
Laugardagur - Quinoa morgunbaka
                      Hlaðin ommiletta
                      Kjúklingafajitas - Avókadómús
Sunnudagur - Quinoa morgunbaka
                      Bakaður lax með aspas og blómkálsmús - Hnetur og rúsínur/
                      Afgangar - Kókóshnetuís

Þetta er að sjálfsögðu bara grunnplan og breytist alltaf smávegis en er mjög hjálplegt engu að síður. Breytingarna sé ég helst á miðvikudaginn þegar ég þarf að fara til Manchester á fund og fer snemma að heiman og verð komin seint heim aftur. Ég þarf líka að setja inn nokkrar uppskriftir eins og t.d að brauðbollunum sem ég bakaði í morgun úr sætum kartöflum, osti og kókóshnetuhveiti, sykur-og hveitilausu gulrótarkökunni og sætri morgunommilettu.



"Ætlar þú að vera með?"

miðvikudagur, 14. nóvember 2012

Frekari útskýringar

Það sem hvað mest hefur vafist fyrir mér í sambandi við áskorunina var stigagjöfin. En í samtali við Ástu núna áðan kom nafnið; Spikprik. Ég er semsagt að safna spikprikum. Og um leið og maður er komin með smá rím  og vott af stuðlum nú þá er ekkert eftir en að vera í stuði.

Þess ber að geta að vilji einhver annar fara að safna spikprikum nú þá er hið besta mál að gera svo. Mér dettur helst í hug að hver þáttakandi sníði reglurnar eftir sínum stakki. Þannig er hveiti og brauð kannski í fínu lagi hjá sumu fólki en það þyrfti að taka eitthvað annað út. Segjum tildæmis 5 spikprika frádráttur fyrir of mikið rauðvín. Eða mjólkurvörur. Eða snakk eða McJónas.

Fyrir mér er þetta sérlega skemmtileg leið til að koma heilsusamlegri vana aftur í réttan farveg. Maður er með svona áþreifanlegt og visjúalt daglegt verkefni og margþætt verðlaun að áskorun lokinni. Þannig má gera ráð fyrir spikbræðslu, léttara skapi, hraustlegra útliti og því að eftir fjórar stanslausar vikur í góðum vana að sá góði vani haldist við lengur. Það eru auðvitað aðalverðlaunin.

Tilhugsunin um að spreða 300 pundum í vitleysu er reyndar voða ljúf líka.


þriðjudagur, 13. nóvember 2012

Áskorunin

Nú hef ég oft heyrt að skilgreiningin á geðveiki sé að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við mismunandi niðurstöðu. Og af því að ég er ekki geðveik þá ætla ég að gera eitthvað alveg nýtt. Alveg ný áskorun sem ég held að sé skemmtileg og hressandi og aðeins öðruvísi en annað sem ég hef gert hingað til.

Ég ætla að gefa sjálfri mér stuðpunkta fyrir góða frammistöðu. Ég hef alltaf virkað betur á jákvæðum nótum frekar en neikvæðum.

Þannig byrjar dagurinn sjálfkrafa á 20 stigum. (Alltaf gott að byrja í plús!)

Hægt er að fá 5 aukastig fyrir 20 mínútna hreyfingu eða 2 aukastig fyrir 40 mínútur á hverjum degi. 20 mínútna hreyfing þarf að vera nokkuð áköf, þeas ketilbjöllur, crossfit eða bodyweight æfingar af krafti. 40 mínútur geta verið lengri æfingar af minni ákafa. Þó má ekki telja eðlilega hreyfingu eins og göngur á milli staða eða ráp í búðum til hreyfingar. Það er bara bónus.

5 stig tapast ef maður borðar hveiti, brauð, pasta, kornmeti.
5 stig tapast ef maður borðar sykur.
3 stig tapast ef maður borðar meira en 25 grömm af hnetum yfir daginn.
10 stig tapast ef maður borðar nammi.
10 stig tapast ef maður borðar hvaða mat sem er í óeðlilegu magni.

Þannig er mögulegt að enda daginn á mínus stigagjöf.

Haframjöl og quinoa er undanskilið kornmetisbanninu.
Annar sykur eins og hunang, hlynsýróp, döðlusýróp og þurrkaðir ávextir ber að forðast eftir fremsta megni þó ekki tapist stig fyrir neyslu. Semsé löglegt en siðlaust.
Óeðlilegt magn er fyrir hvern og einn að dæma, það er eins og klám; maður þekkir það þegar maður sér það.

Mest er hægt að vinna sér inn 25 stig yfir daginn. Áskorunin stendur yfir í 4 vikur, frá sunnudeginum 18. nóvember til mánudagsins 17. desember. Þannig eru 700 stig í pottinum.

400-500 stig gefa £150 í verðlaun til að eyða í vitleysu á afmælisdaginn minn 17. desember.
501-600 stig gefa £200 í verðlaun til að eyða í vitleysu á afmælisdaginn minn 17. desember
601-700 stig gefa £300 i verðlaun til að eyða í vitleysu á afmælisdaginn minn 17.desember

Djöfull verður þetta skemmtilegt!



mánudagur, 12. nóvember 2012

Upp- og niðursveiflur

Ég er búin að vera í algerri niðursveiflu síðan að ég las þessa árans grein um tilgangsleysi þess að setja sér tímaskilyrt markmið. Nú er ég sammála vísindamönnunum sem skrifuðu, og ég veit manna best hvernig þetta fúnkerar þetta hringsól á milli markmiðasetningar og ofurkátínu og hyldýpi örvæntingarinnar þegar maður svo tekur feilspsor og markmiðin færast fjær en ekki nær. Að sjálfsögðu er þetta erfitt og slítandi.

Og ég tók þessu þannig að ég væri bara alveg ómöguleg manneskja sem er háð adrenalíninu sem fylgir því að setja sér markmið en gæti svo aldrei haldið neitt út.

Hætti svo bara öllu. Hætti að æfa, hætti að vigta og telja, hætti að setja mér markmið. Það er jú, hvort eð er tilgangslaust af því að í kjölfar háleits markmiðs fylgir bara óhjákvæmilega brotlending raunveruleikans.

Í gær fékk ég svo algerlega upp í kok.

Hvað með það þó ég setji mér markmið sem fara svo kannski á annan veg en áætlað var? Já, hvað með það!? Var það ekki með markmiðasetningu sem ég náði af mér því sem ég er þó búin að ná af mér? Ég veit vel hvernig ég er og ég veit vel að ég missi áhuga og tapa athyglinni fljótlega inn í nánast hvaða verkefni sem er. En þannig er ég bara og ég vil frekar taka nokkur skref í átt að aðalmarkmiðinu og mistakast svo smá og klára ekki og byrja svo bara á einvherju nýju sem færir mig fleiri skref í átt að aðalmarkmiðinu en að sleppa þessu bara alveg.

Þannig að núna ætla ég að setja mér markmið. Eitthvað sem hefur með ákveðið margar æfingar, afmælið mitt, vissan kílóafjölda að gera. Ég þarf aðeins að hugsa það betur.

Ég veit það eitt að mér leið skítt í gær. Í dag hinsvegar er ég himinlifandi.

Það verður bara að hafa það þó það sé tímabundið.


sunnudagur, 11. nóvember 2012

Út á þekju

Ég hugsa að stundum ofhugsi ég hlutina. Það er tilgangslaust fyrir mig að reyna að ljúga því til að það sé allt í fínu lagi hérna megin af því að það er það ekki. Mig langaði svo til að hafa öll svörin og á tímabili var ég með á hreinu að ég væri búin að fatta þetta allt saman. En af einhverjum ástæðum hef ég ekki haft döngun í mér til að halda mér við efnið. Mig langar bara til að borða nammi og lesa bók. Ég hef engan áhuga á að elda mat og hreyfa mig. Og ég skil það ekki vegna þess að mér líður ekki vel núna. Og ég veit að mér líður vel þegar ég elda mat og hreyfi mig. Ég man vel hvernig það var að vera 140 kíló. Og ég veit vel að næst þegar ég fitna þá verð ég ekki 140 kíló, ég verð 160. Og ég hef engan áhuga á að láta það gerast. ....

Og svona hélt ég áfram ad nauseum. En þegar ég leyfi sjálfri mér svona sjálfsvorkunnarinnhverfisíhugunarvæli þá gerist líka lítið annað.

"... næst þegar ég fitna..." !!!!! Hvur andskotinn!!! Næst þegar ég fitna!!! Eins og það sé valmöguleiki eða á dagskránni! Hvað er ég að spá?!!

Ég var 140 kíló. Ég ætla ekki að verða það aftur. Mér er alveg sama hvort ég verði bara 95 kíló og hraust eða hvort ég nái að verða 70 kíló og hraust. Það skiptir í alvörunni engu máli.

Og það er bara ein leið þangað og það er ekki að halda áfram að borða nammi og lesa bók.

Ég er farin út að labba.

Fokk og enter.

fimmtudagur, 8. nóvember 2012

Heilbrigð skynsemi

Hvernig væri að skoða tjékklistann núna til að taka púlsinn og tjékk´ á stöðunni?

Sjálfskoðun er ekki bara mikilvæg, hún er lífsnauðsynleg. Skyn samlegt er að rannsaka sjálfið til að komast að því hversvegna maður er að gera það sem maður er að gera. Er það fyrir heilsuna, fyrir útlitið, fyrir eitthvað annað, fyrir einhvern annan? Best er að skrifa markmiðið niður og setja það þar sem það er auðsjáanlegt.

Sumar vikur eru betri en aðrar og það er forkastanlegt að ætlast til þess að þetta komi allt bara af sjálfu sér. Það tók tíma að éta þetta á sig; það tekur tíma að ná þessu af sér. Og það er ekki sjálfgefið að maður finni taktinn og gleðina bara rétt sí sonna. Það er nauðsynlegt að vera forvitinn og tilbúin að prófa nýja hluti til að höggva ekki stanslaust í sama knérunn. Prófa nýjan rétt, nýja matartegund og nýja hreyfingu eins oft og hægt er.

Það er voðalega sniðugt að vera ábyrgur fyrir gjörðum sínum. Skrifa markmiðin niður þar sem maður sér þau og þar sem aðrir sjá þau líka. Einnig er sniðugt að setja niður á blað það sem maður borðar yfir daginn til að sjá svart á hvítu hvað maður er að gera. Getur maður staðið reikningskil í lok dags?

Raunsæi er æskilegt í alla staði. Ef sett eru raunsæ markmið er mun auðveldara að halda sér við efnið. Að keyra sig út á æfingum eða svelta sig er einungis til þess fallið að fella mann. Smáar breytingar og staðfesta er svarið alla leið. Það sem þetta snýst um er að gera sér grein fyrir að breytingar fela oftast í sér afturför og að þegar syrtir í álinn er enn mikilvægara að halda áfram að trukka.

Sko! Ekkert mál.

sunnudagur, 4. nóvember 2012

James Prochaska og Carlo Diclemente (1982) þróuðu líkan fyrir breytingar. Ég held að upphaflega hafi líkanið verið gert til að lýsa breytingum sem reykingafólk fer í gegnum en líkanið virkar til að lýsa hvað hegðunarbreytingum sem er. Þannig lýstu höfundarnir að það er nauðsynlegt að fara í gegnum öll fimm stigin til að gera varanlegar breytingar á hegðun. Það er líka eðlilegt að þurfa að fara nokkrum sinnum í gegnum stigin. Þannig má líta á mistök, eða afturför sem eðlilegan þátt í breytingarhegðun.


  1. Pre-contemplation (for-íhugun) Hér er breytingin hugmynd sem er ekki alvarlega íhuguð.
  2. Contemplation (Íhugun) Hér er hugmyndin um breytingar íhuguð og skilningur kemur á nauðsyn þess að breyta hegðun en engin skref eru tekin til að gera eitthvað.
  3. Determination (Ákveðni) Hér ákveðum við að gera eitthvað og kaupum hlaupaskó, eða mánaðarkort í ræktina, kaupum undanrennu í staðin fyrir mjólk og segjumst aldrei framar ætla að borða brauð.
  4. Action (Virkni) Hér gerum við svo það sem við ætluðum; við förum út að hlaupa og mætum í ræktina, notum undanrennu út á múslíið og snertum ekki á brauði.
  5. Maintenance. (Viðhald) Hér er svo virkninni haldið svo vikum eða mánuðum skiptir. En flestir virðast ekki getað haldið þessu stigi út og færast aftur tilbaka á stig númer 1 eða 2.

Þetta eru stig sem ég þekki vel og virðist einmitt ganga í gegnum í reglulegum hring. Það sem ég virðist ekki ætla að læra á þessu hringsóli mínu er að það er eðlilegt að fara frá 5 og til 2 aftur og aftur. Ég verð alltaf jafn pirruð og fúl út í aumingjann mig þegar ég hætti viðhaldi. Það að mistakast er hinsvegar hluti af ferlinu. Það er allt í lagi að mistakast. Það sem ég þarf að skilja er afhverju ég færist frá 5 að 2 og 3. Ég skil ekki ennþá hvað ég geri sem fær mig til að byrja að leiðast og langa til að gera eitthvað nýtt. 

Ég las alveg rosalega áhugaverða grein um daginn sem útskýrir þetta að hluta til. Þannig er það nóg fyrir mig að ákveða að hreyfa mig, eða borða hollan mat til að láta mér líða betur. Mér finnst ég vera við stjórnvölinn, ég hef stjórn á hegðun minni og það eitt að ákveða mig lætur mér líða eins og ég geti náð markmiðum mínum. Það sem svo gerist er að þegar fyrsti ástarbríminn líður hjá þá kemur í ljós hversu mikil vinna felst í að viðhalda breytingunni. Maður setur sér markmið þegar maður er langt niðri. Á sunnudagskveldi þegar maður er búin að liggja í sófanum allan daginn, raða í sig ristuðu brauð, lambalæri og köku er auðvelt að setjast upp og segja hingað og ekki lengra! Á morgun fer ég í megrun! Og það eitt að ákveða það lætur manni líða betur. Ég er manneskja sem setur sér markmið! Ég er ekki glötuð. En svo gerist það óhjákvæmilega; það eitt að setja markmið er besti hluti ferilsins, vinnan sem felst í  að ná markmiðinu er erfið og löng og færir ekki þá tilfinningalegu vellíðan sem maður gerði ráð fyrir. 

Þannig að ég verð að spyrja sjálfa mig hvort ég sé að reyna að forðast tilfinningalegt niðurrif frá sjálfri mér með því að setja mér tímabundin markmið eða hvort ég sé í alvörunni að reyna að ná markmiðinu? Akkúrat núna er ég nokkuð viss um að ég sé föst í að fá kikkið og vímuna sem markmiðasetningunni fylgir fremur en að ég sé í alvörunni að reyna að verða heilbrigð. Ég veit fátt betra en mánudag, mánaðarmót, nýja dagbók eða nýtt excel skjal. Allt eitthvað sem markar nýtt upphaf, nýtt markmið. En endalausa vinnan, streðið sem kemur svo á eftir? Ekki jafn hrifin. 

Þetta er gífurleg uppgötvun fyrir mig. Ég er háð ákvarðanatökunni en get ekki haldið út viðhaldinu. Ég ber mér á brjósti og lýsi yfir hinu og þessu og líður vel í smástund en þegar allt fer svo í klessu líður mér aftur illa og allt þetta byrjar upp á nýtt. Ég þarf að finna það sem fær mig í alvörunni til að vilja breyta hegðun minni og þá get ég hætt að kvelja sjálfa mig með þessum tilfinningarússibana. 

Fallegi strákurinn minn.
Ég er óttaleg kjélling þegar að tölvuleikjum kemur. Ég er mikið búin að reyna að vera kúl mamma sem getur spilað með en ég í alvörunni verð eins og hreyfihömluð þegar ég fæ stjórntækið í hendurnar. Ég get engan veginn ýtt á tvo takka í einu, ég ber engan skilning á samhenginu á milli þess sem ég geri og því sem gerist á skjánum, ég hef enga þolinmæði til að plana mitt næsta skref en er á sama tíma sein og hægfara. Dave er miklu betur til alls þessa falinn og hefur tekið yfir þetta hlutverk. Ég fæ enn að byggja Legó með Lúkasi en þar sem að tölvuleikir eru að mestu hluta það sem hann gerir í frítíma sínum er ég oftast í því hlutverki að fylgjast með og spyrja aulalegra spurninga.

Ammæliskaka
Það lá því við að ég myndi elda handa honum uppáhaldsmatinn hans til að halda upp á afmælið. Dave gæti leikið með honum á Minecraft, ég myndi færa þeim allskonar skemmtilega rétti. En svo kom babb í bátinn. Það kemur í ljós að Lúkas á engan uppáhaldsmat. Fyrir honum er matur bara matur, eitthvað sem maður fær þegar maður er svangur og borðar þar til maður er saddur. Hann er matvandur, en hann er jafnhendis matvandur á ruslfæði og heilsufæði. Þar gerir hann ekki upp á milli. Ég stóð sjálfa mig þannig að því í gær að búa til mat sem ég lýsti yfir að væri uppáhaldið hans en sannleikurinn var að mig langaði bara í þetta sjálf. Byrjaði á amerískum pönnukökum með hlynsýrópi í brunch. Bakaði svo og skreytti súkkulaðiafmælisköku. Svo var það gomma af góðgæti frá "Chippie" í kvöldmat. Lúkasi gæti ekki verið meira sama. Hann setur ekkert samasem merki á milli matarins og þess að við séum að halda upp á afmælið hans. Þetta var allt gert fyrir mig. Ég vona bara að hann haldi þessu sambandsleysi á milli matar og fagnaðar því ég dauðöfunda hann af þessum hæfileika. Kannski ef ég þyrfti að stjórna átinu með X-box stjórnpinna þá væri þetta í lagi hjá mér?


laugardagur, 3. nóvember 2012

Með tækið góða.
Lúkas Þorlákur verður 9 ára á þriðjudaginn komandi. Hann verður í skólanum þann daginn og við foreldrar hans í vinnu. Við ákváðum þessvegna að við myndum flýta fögnuði og halda upp á afmælið í dag. Við vorum búin að fá það hjá honum að hann væri til í að sleppa veislu og fá í staðinn stærri gjöf sem ég verð að viðurkenna að mér þóttu góðar fréttir, ég er búin að vera með hland fyrir hjartanum síðustu þrjú árin yfir þessum partýum. Við veltum fyrir okkur lengi hvað stór gjöf væri og komumst svo niður á að kaupa handa honum X-Box 360 og gefa honum tölvuleik sem hann er búin að langa í lengi. Við vorum ægilega spennt að mausa við að halda þessu leyndu og að byggja upp spenning og eftirvænting. Við ákváðum líka að setja allt draslið upp og tilbúið í gærkveldi svo hann gæti bara komið niður og byrjað að spila.

Við eyddum því gærkveldinu í að koma öllu í gang. Og þar sem Dave sat við að tengja saman kapla datt mér í hug hvað allt hefur breyst á því sem mér finnst vera skammur tími. Við getum núna horft á sjónvarpið og DVD diska í gegnum X-boxið og talað við vini í leiðinni sem líka eru að spila leik á sínu x-boxi. Við getum stoppað sjónvarpið í miðjum þætti og farið á klósettið. Við getum ýtt á takka og tekið upp heila seríu af sjónvarpsefni ásamt því að spóla fram og tilbaka. Við erum með 600 sjónvarpstöðvar. (Og ekkert sem er þess virði að horfa á.) Við getum horft á sjónvarp í gegnum tölvu og talað við fólk í gegnum skype og séð það í leiðinni. 1996 eyddi ég ári í háskóla í Antwerpen í Belgíu. Ég hafði þá aldrei notað internetið. Ég var ekki með gemsa og hringdi heim úr peningasímum. Hringdi í skiptiborð þar sem ég var stundum heppin og hitti á Ástu eða Hörpu og gat spjallað við þær áður en þær tengdu mig kollekt við mömmu. Nokkrum árum þar á undan var kerfið heima hjá mér þannig að við áttum vídeótæki og mamma setti númer á spólurnar. Svo var þar stílabók með númeruðum síðum og maður átti að skrifa á tilheyrandi síðu hvað maður hafði tekið upp á spóluna. Svo átti maður að strika yfir og skrifa nýtt efni ef maður tók yfir eitthvað. Fyrir utan mömmu þá vorum við hin á heimilinu léleg við útstrokin og það endaði alltaf á að maður þurfti að horfa á allar spólurnar til að finna það sem leitað var að. Við fengum fyrst vídeó tæki 1979 eða 1980 og ég man eftir stílabókinni upp undir 1990 þannig að þetta er ekki langt síðan. Ég hristi höfuðið yfir því hvað mér finnst þetta allt vera breytt. 9 ára og Lúkas er vanur heimi sem er svo ólíkur þeim sem ég ólst upp í. "Ótrúlegt alveg hreint" sagði ég um leið og Dave lagði lokahönd á uppsetninguna. "Nei," sagði Dave um leið og hann stóð upp. "það eina sem er ótrúlegt er að við séum saman. Ef ég hefði vitað að þú værir manneskja sem notaði ekki fullkomna kerfið hennar mömmu þinnar, sem er sama kerfið og ég notaði á mínar spólur, þá hefði ég aldrei gifst þér!"

fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Og þannig leið október, hálfvegin í pásu, hálfvegin sannfærð um að ég sé bara að lifa lífinu, engar stórfenglegar uppgötvanir, engar hyldjúpar pælingar. Vigtin stóð í stað en mér finnst ég sjálf hafi fleygt áfram í þessum hugsunarhætti sem segir að ég sé bara alveg hreint ágæt. Að ég sé nógu góð til að vera ánægð með mig eins og ég er en að ég geti líka á sama tíma unnið að því að laga samband mitt mat. 

Notalegur nóvember framundan.