fimmtudagur, 30. júlí 2009
Ég var farin að örvænta örlítið, en mundi svo eftir að skoða hvað vísindin segja og það er víst alkunna að þegar maður lendir í svona jafnsléttu þá á maður að breyta mynstrinu aðeins. Ég var svo lukkuleg að meiða mig í hnénu á sunnudaginn og hef lítið sem ekkert getað stundað líkamsrækt þessa vikuna. Og sú breyting á æfinga rútínunni (ekkert hopp, bara lyftingar) þýðir að ég er vonandi aftur komin á svíng. Vona nú samt að hnéð fari að jafna sig því ég er búin að kaupa mér sportbrjóstahald í dragnótarstærð með höggdempurum í undirbúningi fyrir að byrja að hlaupa. "Couch to 5K" prógrammið bíður eftir mér í ofvæni nú þegar brjóstin eiga ekki að vera að flækjast fyrir mér og öðrum vegfarandi. Að hugsa með sér. Ég, hlaupandi. Vá.
sunnudagur, 26. júlí 2009
Við fórum í sund í morgun enda hellidemba úti og lítið gaman við að vera við í því. Sundlaugin í Plas Madoc er með ölduvél og við Láki skemmtum okkur konunglega við að æfa okkur fyrir að vera í alvöru öldugangi í næstu viku. Verst bara þetta með skítugu bretana sem enn þvertaka fyrir að sturta sig áður en farið er útí. En það er önnur saga. Þegar heim var komið vantaði mig eitthvað djúsí en létt í hádegismat og ákvað að prófa þessa uppskrift frá Gino D´Campo enda átti ég allt til í hana. 2 portobello sveppir sneiddir og 250 g venjulegir sveppir, steiktir í smá ólívuplíu með einum sneiddum blaðlauk. 70g rocket, 50g sólþurrkaðir tómatar og 100g feta hrært út í sveppina og svo allt sett í form sem smá salt og pipar. Ég bætti reyndar við nokkrum svörtum ólívum bara af því að mér finnast þær svo góðar. Svo eru sex egg hrærð saman og hellt yfir sveppablönduna, parmesan rifinn yfir og svo bakað í 25-30 mínútur við 200 gráður. Borið fram með rocket salati. Nammi namm, þetta fannst mér góður hádegismatur. Ég nota orðið einungis sílikon form, þau eru æðisleg, ég endurtek æðisleg. Ekkert þarf að smyrja og ekkert vesen. Ég myndi ráðleggja öllum sem elda eða baka reglulega að kaupa nokkur svoleiðis. Ég myndi allavega ekki nota lausbotna form í þessa af því að eggin leka út um allt. En hvað um það, þar sem við sátum við át og spjall kom til tals að ég er í fríi á morgun. Lúkas varð ægilega kátur með það og fór að plana allskonar Legó byggingar með mér. Dave sagði eitthvað um að það væri ekki réttlátt að hann þyrfti að fara í vinnu á meðan við Lúkas fengum að vera heima að leika okkur. Ég sagði við Dave að life isn´t fair og þá tók Lúkas undir og sagði alvarlegur í bragði "and life isn´t chocolate!" Mikil spekingsorð sem ég þarf að muna.
laugardagur, 25. júlí 2009
Jæja, þá er best að fara að búa sig, við erum að fara til Wrexham til að kaupa stuttbuxur og sandala á Lúkas og Dave.
fimmtudagur, 23. júlí 2009
miðvikudagur, 22. júlí 2009
þriðjudagur, 21. júlí 2009
Lúkas er loksins kominn í sumarfrí. Ég, öfugt við flesta foreldra sem eru í mesta klandri við að redda barnapíum yfir sumarið, er hæstánægð með að hann sé í fríi. Vinnutíminn minn í samblandi við að eiga tengdamóður sem er æst í að passa þýðir að þessar vikur eru miklu auðveldari fyrir mig en þegar ég þarf að koma honum í skólann á réttum tíma, í straujuðum skólabúning með hollt nesti í töskunni. Ég get farið beint í lyftingar og hlaup og klárað það fyrr á morgnana og hef þar af leiðandi miklu lengri tíma til að stússast í eldhúsinu og til að leika við Lúkas. Í morgun bjuggum við til eggjaköku í morgunmat og svo hannaði ég bauna-túnfisksalat sem ég ætla að prófa í hádegismat. Það er allt fullkomið fyrir utan að hitabylgju sumarið mikla hefur núna breyst í týpískt breskt sumar: rigning, rigning, rigning.
Við Kelly náðum reyndar að ná síðasta sólardeginum og fórum með krakkana í lautarferð í Erddig-skóg. Það var heljarinnar stuð, fjallganga sem endaði í buslugangi út í læk. Ben er með Lúkasi á myndinni. Sést vel hvað Lúkas er miklu stærri, það er mánuður á milli þeirra, og Ben er sá eldri. Svona eru líka allir skólafélagar Lúkasar, hann er höfði og herðum hærri en þeir allir.
sunnudagur, 19. júlí 2009
Við buðum Salisbury fjölskyldunni í matarboð og smá partý í gærkveldi sem útskýrir smá þynnku í dag. Þetta var heljarinnar stuð, þau eiga 3 börn, Freya, Ciara og Ben, á aldrinum 11 til 5. En þröngt mega sáttir sitja og allir skemmtu sér konunglega. Mér finnst þetta mjög skemmtileg leið til að eyða laugardagskvöldi og við höfum nokkrum sinnum farið til þeirra en ég alltaf hikað við að bjóða þeim hingað út af plássleysi. En ég hefði ekkert þurft að hafa áhyggjur, það komust allri fyrir og ég fékk loksins að vera "hostess" sem ég alveg elska. Ég hafði líka alltaf miklað skemmtanir fyrir mér svona út af Lúkasi, hélt að maður þyrfti barnapíur og svoleiðis en þetta skipulag sem við Kelly höfum komið upp virkar bara svín vel. Við hittumst um 5 leytið, borðum um 7 og endum kvöldið um hálf ellefu. Krakkarnir leika sér saman og skemmta sér konunglega, við drekkum vín og borðum og skemmtum okkur án þess að þurfa að stússast í krökkunum og erum samt farin það snemma aftur heim að enginn bíður skaða af. Kannski má ekki drekka vín fyrir framan krakkana, ég veit ekki hvernig þær reglur eru, en það verður enginn fullur, bara hress, og ég er nokkuð viss að þau bíði ekki skaða af. Og það er svo gaman hjá okkur.
fimmtudagur, 16. júlí 2009
þriðjudagur, 14. júlí 2009
sunnudagur, 12. júlí 2009
Við hjónakornið héldum upp á brúðkaupsafmælið með því að fara á ítalskan veitingastað hér í Wrexham. Ég var búin að taka eftir staðnum, enda í einu af fallegasta húsinu í Wrexham, en við höfðum aldrei látið vera af því að prófa. Og biðin var þess virði, þetta var frábært kvöld. Fallega innréttað, þjónustan góð og maturinn æðislegur. Það er ekki oft sem við fáum að vera bara við tvö og við nutum þess alveg í botn. Og það er líka bara nauðsynlegt fyrir sambandið að stundum bara vera saman og ekki tala um barnið. Við erum ægilega ánægð með hvort annað. Sem er náttúrlega voðalega fínt. Við vorum ekkert að telja kalóríur neitt en ég samt svona ómeðvitað passaði mig. Sem ég er rosalega ánægð með, finnst eins og ég sé að læra að haga mér eins og venjuleg manneskja. Ég fékk mér forrétt, ítalsk kalt kjöt, ost, salat og ólívur og borðaði bara rúman helming. Gnocchi í aðalrétt og hætti um leið og ég varð södd. Rúmur helmingur eftir á disknum. Og auðvitað Tiramisu í eftirrétt. Ekkert skilið eftir þar. Og rauðvín með. Þannig að ég var ægilega ánægð með frammistöðuna þar líka.
Svo er nammidagur í dag. Sem ég ætla að sleppa mestmegnis vegna þess að ég er búin að fá vikuskammtinn af góðgæti með því að fá kökuna í gær. Og allir eru ánægðir.
fimmtudagur, 9. júlí 2009
miðvikudagur, 8. júlí 2009
Og að öðru alvarlegra máli; það er komið upp svínaflensutilfelli í vinnunni. Vonandi að það verði ekki meira, sá sem er veikur er í sóttkví og það fattaðist fljótt hvað var að, en engu að síður þá er fólk svona smá órótt og við erum með skýr fyrirmæli um hvað á að gera ef fleiri veikjast. Ég hef engan tíma fyrir flensu, er farin að hlakka til Krítar, bara rúmar 3 vikur í brottför.