sunnudagur, 31. janúar 2010
Eftir gríðarlega yfirlegu er vikumatseðillinn svona nokkurn veginn tilbúinn. Mér tekst ekki alveg að halda mig við fyrirfram ákveðna skammta. Það er ekkert mál að halda sig við 160 grömm af kolvetni, ég er meira að segja hálf hissa hvað það var auðvelt að halda þeim hluta matseðilsins fínum, ég hélt að það yrði miklu flóknara að skera kolvetnin í burtu. Erfiðleikarnir koma þegar að próteininu kemur. Ég bara kem ekki meira af því ofan í mig án þess að fara langt yfir fituskammtinn. Þetta er eitthvað sem ég þarf að skoða og læra svona as I go along. Sem stendur er á listanum hafragrautur, kotasæla, baunir í ýmsum formum, edemame, kjúklingabringur, quinoa, spínat, grískt jógurt, grænmeti, þýskt brauð, hnetur og ýmislegt fleira. Ég þarf allavega þessa viku til að breyta og bæta og venjast að hugsa í fæðutegundum frekar en kalóríum og svo sjáum við hvað setur. Þetta er allavega svaklega spennandi. Meira spennandi en veðrið, hér snjóar aftur. Uss og svei.
föstudagur, 29. janúar 2010
Eftir vonbrigðin á vigtinni í gær lagðist ég í nákvæmar rannsóknir. Kalóríur inn og kalóríur út, eins einföld og grunnfræðin eru þá er alltaf hægt að betrumbæta vísindin. Hvaða kalóríur inn og hverjar skulu út? Það liggur í augum uppi að það er betra fyrir heilsuna að borða 2000 kalóríur af próteini, flóknum kolvetnum og góðri fitu en 2000 kalóríur af sykri og hvítu hveiti. Það er auðveldara fyrir líkamann að vinna betur úr hollari fæðunni. En hvernig er best að skipta á milli próteins og kolvetna? Það kannast allir við kolvetnislausa kúra eins og Atkins og gífurlegt fitutap og grey kolvetnin hafa fengið frekar slæmt orðspor undanfarin ár. Svona dálítið eins og fita fyrir 20 árum. Fitutapið skapast, ef maður má einfalda fræðin, vegna þess að líkaminn neyðist til að nota fitu sem eldsneyti fremur en sykurinn úr kolvetnum og að auki þess skapar prótein hærri "hita" bruna. En við erum ekki sköpuð til að sleppa kolvetnum og eins og allir "megrunarkúrar" er óðs manns ráð að reyna að skera lífsnauðsynleg fæðuefni algerlega úr mataræðinu. Það heldur það enginn út til lengdar. Til þess að finna út hvað ég á að gera komst ég að því að ég er því miður "endomorph" líkamstýpa frá náttúrunnar hendi. Ég er mjúk og lin og með grófa beinabyggingu og það er "þungt í mér pundið". Ég þyngist auðveldlega og á mjög erfitt með að létta mig. Kolvetni eru þessvegna ekki besti vinur minn. Enda það efni sem ég er fíknust í. Ég á því að reyna að fara eftir 40-40-20 reglunni og koma eins mikilli cardio hreyfingu að til að halda brunanum gangandi. 40% þess sem ég neyti á að vera prótein, 40% kolvetni og 20% fita. Stærðfræðin er einföld; í einu grammi af próteini og í einu grammi af kolvetni eru fjórar kalóríur. Ef það eru 20 grömm af próteini í því sem þú ert að borða eru sem sé 80 kalóríur. Í fitu eru hinsvegar 9 kalóríur. Þannig að til að fá 1600 kal yfir daginn skipt niður 40-40-20 þá á ég að fá 160 g prótein, 160 g kolvetni og 35 g fita. Ég klauf niður daginn í dag og ég kem til með að borða 63.5 g prótein, 212.7 kolvetni og 33.6 af fitu. Kolvitlaust sem sagt. Og ef vísindin eru rétt og sönn þá útskýrir þetta hversvegna ég léttist svona hægt. Þrátt fyrir að borða flókin og góð kolvetni þá borða ég of mikið af þeim. Og það þrátt fyrir að halda mig við rétt kalóríumagn.
Þetta er heilmikil áskorun. Ég get talið kalóríur í svefni. En að þurfa að skipta réttlátlega niður í fæðuefnin líka, reikna út grömm og hlutföll, það er eitthvað alveg nýtt. Og ég þarf greinilega að skoða matseðillinn minn með nýjar prótein uppskriftir í huga. Nýtt og spennandi! Jess! Ég er uppfull af gleði yfir þessu! Nú verður næsta vika skemmtileg. Tilraunastarfsemi og útreikningar. Og svo sjáum við hvað gerist á vigtinni. Every day without learning something new is a day wasted.
fimmtudagur, 28. janúar 2010
Ég sit hérna og klóra mér í hausnum. 400 grömm upp og ég skil ekki alveg afhverju. Á miðað við hæð, þyngd og aldur er "Resting Metabolic Rate" þ.e. kalóríu fjöldinn sem ég brenn á dag við grunnhreyfingu eins og að anda er 1600. Ef ég bæti svo við líkamsræktinni sem ég stunda þá brenni ég 2100 kalóríum yfir daginn. Þannig að til að standa í stað má ég borða rúmar 2000 kalóríur á dag. Til þess að léttast um hálft kíló þarf maður að skapa 3500 kalóríu mínus. Sem þýðir að með líkamsrækt má ég borða 1600 kalóríur á dag. Sem er fullkomið af því að ef maður fer undir RMR þá er maður að skapa "hungursneyð" fyrir líkamann sem hægir á brennslu og er ekki gott fyrir fitutap. Að sjálfsögðu ef maður heldur það út nógu lengi þá að sjálfsögðu endar maður á að léttast; það er víst enginn feitur í útrýmingarbúðum, en það er ekki lífstíll sem ég hef áhuga á. Ég skipti kalóríunum mínum yfir vikuna þannig að ég nota stóran hluta á sunnudögum, mjög lítinn á mánudögum og held mér svo í 1500 hina dagana. Og þessi vika var ekki neitt öðruvísi. Eini munurinn er að ég skrifaði ekki neitt niður. Sem þýðir að ég hef greinilega stungið hinu og þessu upp í mig og án þess að skrá það niður þá laumast þær kalóríur undir radarinn. Mér finnst það samt léleg afsökun, ég hlýt að hafa gert eitthvað meira vitlaust en bara get ekki sett fingurinn á það.
Það sem aðallega gerist er að ég fer að hugsa of mikið. Ég leyfi vigtinni alltof mikið að stjórna líðan minni. Þetta skiptir engu máli. Ég held bara mínu striki. Engu að síður er ég sár, svekkt og sorrí, ríf í hár mitt og skegg og fæ magakrampa við áhyggjur af framtíðinni. Ef ég þyngist um 400 grömm á 1600 kalóríu kúr hvað gerist þá þegar ég verð léttari og léttari og má borða minna og minna? Hvernig ætla ég að halda þessu út að eilífu? Eins mikið og ég segji sjálfri mér að þetta snýst ekki um áfangastaðinn heldur ferðalagið þá get ég ekki að því gert en að hugsa um daginn sem ég stend á vigtinni og sé 71 kíló. Og 400 grömm upp á við tefja það andartak.
Oh, well, nevermind. Þetta skiptir í alvörunni engu máli. Það eina sem skiptir máli er að halda áfram. Þetta hefur virkað hingað til og ein vika hefur ekkert að segja þegar við horfum á tímann sem það tók mig að verða þetta feit og tímann sem það kemur til að taka mig að verða eins og ég vil vera. It´s not whether you get knocked down; it´s whether you get back up.
Það sem aðallega gerist er að ég fer að hugsa of mikið. Ég leyfi vigtinni alltof mikið að stjórna líðan minni. Þetta skiptir engu máli. Ég held bara mínu striki. Engu að síður er ég sár, svekkt og sorrí, ríf í hár mitt og skegg og fæ magakrampa við áhyggjur af framtíðinni. Ef ég þyngist um 400 grömm á 1600 kalóríu kúr hvað gerist þá þegar ég verð léttari og léttari og má borða minna og minna? Hvernig ætla ég að halda þessu út að eilífu? Eins mikið og ég segji sjálfri mér að þetta snýst ekki um áfangastaðinn heldur ferðalagið þá get ég ekki að því gert en að hugsa um daginn sem ég stend á vigtinni og sé 71 kíló. Og 400 grömm upp á við tefja það andartak.
Oh, well, nevermind. Þetta skiptir í alvörunni engu máli. Það eina sem skiptir máli er að halda áfram. Þetta hefur virkað hingað til og ein vika hefur ekkert að segja þegar við horfum á tímann sem það tók mig að verða þetta feit og tímann sem það kemur til að taka mig að verða eins og ég vil vera. It´s not whether you get knocked down; it´s whether you get back up.
þriðjudagur, 26. janúar 2010
Mér finnst alveg óskaplega gaman að lyfta. Það er alveg sú líkamsrækt sem mér finnst skemmtilegust. Það er eitthvað alveg spes við að finna vöðvana hnyklast við átökin og það skapast einhver efnaskipti sem flæða um allan líkamann sem gera mig hamingjusama. Það er óneitanlega heilmikill testesterón fnykur af lyftingum. Og kannski er ég svona karllæg en ég fíla þetta alveg í botn. Ég er að skemmta mér konunglega við hlaupin en ég held að mín stærsta ást sé á járninu. Skemmtilegast finnst mér kúltúrinn í kringum lyftingarnar. Það er spes fólk sem fílar að fnæsa sig í gegnum 200 kíló í bekkpressu. Það talar annað tungumál en við hin. Flestir tala um sjálfan sig í þriðju persónu með greini; The Iceman, The nugget, The Gunner. Á íslensku er þetta svo alveg eins, Naglinn, Gillinn, og núna náttúrulega Svavan. Svavan reif í járn í morgun og þrusaði í gegnum reppið. Svavan fílar reyndar ekki nafnið, kannski að hún prófi Murtuna. Murtan vaknaði í morgun og dúndraði í sig prótein í takt við graðhestamúsik á meðan hún hnyklaði kögglana. Betra. Helst myndi Murtan vilja fá að vera The Ironmaster en grunar að svoleiðis nafngift þurfi að koma frá öðrum, hún megi ekki bara nefna sig sjálfa. Kannski að Murtan haldi sig bara við fyrstu persónu svona þangað til að hún er orðin aðeins meiri köggull? Hvað sem því líður og hvort sem maður er tilbúinn að taka öllum lyftingarlífstílnum inn á sig þá er því ekki að neita að lyftingar eru sú líkamsrækt sem er hvað best til fallin fyrir byrjendur og offitusjúklinga. Því meiri vöðvamassa sem þú hefur því meiri hitaeiningum brennir þú. Það er algjör misskilningur að vilja ekki fá vöðva af því að þá þyngist maður. Eins og sést á myndinni er ekki betra að vera 90 kíló af vöðvum en 80 af fitu? Fólk sem á erfitt með að hreyfa sig í hoppi og skoppi getur auðveldlega náð sér í lóð og byrjað að pumpa. Það er svo miklu líklegra að fólk haldi sig við hreyfinguna og nái að gera líkamsrækt að hluta af daglega lífinu ef því líður ekki eins og það sé að að deyja við áreynsluna af hoppi. Og svo eftir því sem maður styrkist meira er hægt að bæta við "cardio" æfingunum. Þetta er svo elementary að ég skil ekki afhverju fituhlunkar eru ekki sendir með læknaávísun í pumpið. Murtan hefur talað.
sunnudagur, 24. janúar 2010
Öll heila ástæðan fyrir breyttum og betruðum lífstíl kom í ljós í dag. Við Láki ákváðum að veðrið væri nógu gott til að skokka út á róló og kanna hverning róluvöllurinn kom undan vetri. Ponciau Banks sem er svæðið sem telst til útivistar og skemmtunar er alveg svakalega skemmtilegt og vel heppnað hjá Wrexham County Borough Council. Þar eru skemmtilegir krákustígar til að þræða, míní útgáfa af Stonehenge (ekki hugsa um Spinal Tap), tennisvellir, svakalega flottir hjóla- rampar, hljómsveitarpallur og síðast en ekki síst þessi líka fínasti róluvöllur. Við Láki erum búin að stunda þennan róluvöll núna í tæp sex ár og í allan þann tíma hef ég kjagað um svæðið og svona smá tekið út fyrir að þurfa að vera þar. Það var einfaldlega of erfitt fyrir mig. Og þessi tilfinning að vera með honum þarna að leika og geta ekki; beygt mig niður, kropið á hnjánum, hlaupið á eftir honum, klifrað upp, hangið í rim, sveiflað mér og rennt mér á rennibraut var svo hræðileg að ég bara gat ekki meira. Ég varð að gera eitthvað í þessu. Tilhugsunin um að vera lélegri móðir en ég gæti verið var bara of sár. Og í dag hlupum við í gegnum Rhos, framhjá Stiwt leikhúsinu og Rhos Colliery Club og niður í Ponciau Banks. Þar fórum við í eltingarleik í kringum Stonehenge og klifruðum svo stein af steini. Við róluðum og hringsnérumst í hringekju, þóttumst vera skrímsli og héngum í apanetinu. Skemmtilegast var að klöngrast upp á litla kastalann sem er með rennibraut. Síðast þegar við vorum á róló klifraði ég þangað upp en gat svo ekki beygt hnén til að setjast niður svo ég gæti rennt mér. Ég gat hvort eð er ekki þröngvað rassgatinu á mér í gegnum járnstangirnar sem rennibrautin byrjar á. Það var of stórt. En í dag, í dag fór ég upp á kastalann, greip í járnið og sveiflaði mér niður. Ég festist á miðri leið en það var meira út af gallabuxum sem renna illa en að rassinn væri of stór. Láki hló og hló og hoppaði upp og niður af gleði yfir að mamma væri að renna sér á eftir honum, og ég fór næstum því að grenja það var svo gaman að sjá svipinn á honum. Þetta er búinn að vera góður dagur.
laugardagur, 23. janúar 2010
Dave greip mig í morgun áður en ég lagði af stað í laugardagsmorgunskokkið. Hann sagði að ég væri "slender" og vildi endilega festa á filmu. Þegar við fyrst sendum hvort öðru myndir þá var möguleikinn um að hittast einhvern tíman enn frekar fjarlægur þannig að ég sendi honum mynd af mér sem var tekin þegar ég var hjá Magna og var rosa flott. Í alvörunni þá var ég búin að þyngjast aftur um 20 kíló en mig grunaði ekki að ég myndi nokkurn tíman hitta hann og hafði litlar áhyggjur af svindlinu. Þegar svo að því kom að hittast þá varð ég að viðurkenna fyrir honum að ég væri aðeins feitari en á myndinni minni. Sem betur fer var hann meiri maður en svo að það skipti hann máli. Engu að síður þá finnst mér gaman að geta núna sjö árum síðar verið konan sem hann pantaði eftir mynd á netinu! Enda getur hann ekki skilað mér og fengið endurgreitt.
fimmtudagur, 21. janúar 2010
1.4 kíló farin þessa vikuna. Ég er 98.5 kíló. 2 kíló í viðbót og ég verð eins og ég varð léttust hjá Magna. Mikið sem ég er fegin, núna finnst mér eins og ég sé komin aftur af stað og hef ekki í hyggju að leyfa neinu að stoppa þetta "momentum" sem ég er búin að ná upp. Ég er búin að borða "hreint" alla vikuna og ætla að halda því áfram. Það er rosalega flókið að skera út sykur og hvítt hveiti að því að maður þarf að lesa allar innihaldslýsingar svo nákvæmlega, því þetta leynist gersamlega allstaðar. Mér líður bara svo miklu betur þegar ég sleppi þessu, og það verður alltaf auðveldara og auðveldara. Teymið mitt var að tala um mat í gærkveldi, allir töldu upp það sem þau ætluðu að borða þegar þau kæmu heim. Þegar ég var spurð þá sagðist ég bara ætla að njóta sjálfstjórnar. Það er gaman að hugsa til þess að fyrir 10 mánuðum þá fannst mér það algerlega óhugsandi að koma heim úr vinnu án þess að fá mér nammi. En ég er ekkert að grínast. Þegar þetta er auðvelt er tilfinningin að hafa stjórn á átinu eins og að maður sé ofurmenni. Og þegar þetta er erfitt og maður hefur samt stjórn á átinu er það eins og maður sé forseti alheimsins. Þegar hinsvegar þetta er erfitt og maður leyfir sér að ekki bara svindla einu sinni heldur ákveður að fyrst maður hafi svindlað smá þá sé í lagi að skemma allan daginn eða alla vikuna þá er líðanin eins og maður sé 4. flokks manneskja. Er nema skrýtið að maður verði háður sjálfstjórnar tilfinningunni? Það jafnast eiginlega ekkert á við hana.
miðvikudagur, 20. janúar 2010
Dagur tvö í viku eitt. Fimm mínútur rösk ganga, ein mínúta hlaup, ein og hálf mínútu ganga til skiptis í tuttugu mínútur. Ég byrjaði daginn á að lyfta rösklega í hálftíma og fór svo úr lyftingagallanum og í hlaupagallann og fór þannig með Láka í skólann. Og byrjar ekki að snjóa aftur. Skaðræðishríðarbylur. Á augabragði varð að hvítt og á gangstéttum varð allt að slabbi. Og hvað ég varð glöð þegar mín fyrsta hugsun var "djöfullinn get ég ekki hlaupið í þessu slabbi?" ekki "jeij ég hef afsökun til að sleppa hlaupinu." Skilaði Láka af mér og hljóp svo bara af stað. Men! hvað þetta er erfitt! Og men! hvað þetta er gaman. Ég er alveg hrikalega asnaleg, rétt lyfti löppunum upp og ég efast um að það sjáist mikill munur á hlaupinu og göngunni en engu að síður, ég er úti, að hlaupa. Ég brosi bara allan hringinn.
þriðjudagur, 19. janúar 2010
Án þess að taka neitt sérstaklega eftir því hef ég hætt að borða tómatsósu. Algerlega óvart og án þess að fatta það er sá matur sem hefur hvað helst fylgt mér í gegnum þykkt og þunnt bara færst aftast í skápinn og situr núna þar og safnar ryki. Ég hélt að ég borðaði tómatsósu með öllu. ÖLLU. En nei það kemur í ljós að það er ekki gott að setja hana út á hafragraut. Eða salat. Eða neitt sem er gott á bragðið. Ég er meira að segja hætt að setja hana út á pizzur. Pizzan mín er núna með feta og spínati og einhvernvegin þá fannst mér tómatsósan ekki passa við feta ostinn. Ég fattaði svo líka að þetta er bara gott mál af því að ef mér er alvara að reyna að skera úr sem mestann sykur úr fæðunni þá er bráðsniðugt að byrja á tommaranum því hún er stútfull af sykri. Að hugsa með sér. Og þegar ég hugsa um þetta í samhengi; að ég geti hætt að nota tómatsósu, og það ÁN ÞESS AÐ TAKA EFTIR ÞVÍ, þá er í alvörunni ekkert sem ég get ekki hætt að borða og það án þess að sakna óþverrans. Ekkert.
sunnudagur, 17. janúar 2010
Í endurnýjuðu bjartsýniskasti mínu horfi ég fram á veginn og sé verðlaunin fyrir að verða sjötíu kíló. Eru þær ekki fallegar? Þegar ég horfi á svona falleg form og fallega liti líður mér vel. Er það ekki alveg magnað? Hitt sem svo lætur mér líða svo vel að ég fer að leita uppi svona fallega liti og form er að ég lét af því verða í dag. Ég fór í búninginn minn, festi i-pod á upphandlegg og fór út og hljóp. Þvílík tilfinning! Sólin glampaði á nánast bráðinn snjóinn og allstaðar var fólk að snúa trýni í sólarátt. Með vindinn í fangið og þannig að hárið blés frá andliti lét ég gangstéttarnar finna fyrir því. Þetta var örstutt, rétt rúmur hálftími og ég labbaði mun meira en ég hljóp enda var Lúkas með mér og þrátt fyrir að hafa byrjað vel (run Mamma run!) þá gafst hann upp fljótlega og lét sig detta með tilþrifum. (It´s blood Mamma, BLOOD I TELL YOU!) En þetta gaf mér hugmynd um hvað ég get og hvað ég get ekki. Þannig að á morgun ætla ég að stilla græjuna mína og halda ótrauð af stað. Dagur eitt af viku eitt í Couch to 5K prógramminu. RUN FORREST RUN!
Árum saman hef ég verið heltekin af öfundsýki og reiði út í allt þetta granna fólk út um allt. Hvernig stendur á því að þau geta borðað eins og þeim lystir en ef ég fæ það sem ég vil þá fitna ég? Hvernig dirfast þau svo að segja við mig að maður þurfi bara að borða minna og hreyfa sig meira? En það hefur núna runnið upp fyrir mér ljós. Ég predika stanslaust yfir þeim sem vilja og vilja ekki heyra að það eina sem þetta snýst um eru kalóríur inn og kalóríur út. Og það er sama reglan fyrir grannt fólk. Grannt fólk þarf að passa sig alveg jafn mikið og ég. Og fyrir sum þau er þetta alveg jafn flókið og þetta er fyrir mig. Eini munurinn er að þau föttuðu að maður verður að passa sig og hreyfa sig áður en þau náðu hundrað og þrjátíu kílóum. Grannt fólk einfaldlega veit að það á að borða undir 2000 kalóríur yfir daginn hvort sem sú vitneskja er meðvituð eða ómeðvituð. Og þetta breytir öllu fyrir mér. Ég sé núna að ég er ekkert spes eða fötluð eða að þetta sé einkaklúbbur sem ég er ein í. Og þessi tilfinning um að það skilji enginn hvað ég á erfitt er horfin. Við erum öll í sama báti. Og eins erfiður og róðurinn er þá er ég guðslifandi fegin að vita að það er ekki bara ég með árarnar í gangi.
föstudagur, 15. janúar 2010
fimmtudagur, 14. janúar 2010
Það er allt með kyrrum kjörum hérna á baðvoginni minni, allt stendur í stað. Ég er eitthvað að segja við sjálfa mig að þetta sé vegna þess að ég sé á vissum stað í kvenlegri hringrás og að þetta sé eðlilegt fyrir mig, léttist mikið eina viku, smá þá næstu og svo ekkert í tvær. Svo byrjar rútínan aftur. Þetta gæti líka verið með það að gera að þrátt fyrir að hafa verið trú og trygg sjálfri mér og heilbrigðri skynsemi hvað mat varðar síðan á mánudag þá var sunnudagur sérlega skrýtinn, uppfullur af heitri eplaköku og vanilluís. Maður uppsker sem maður sáir. Þetta er mjög einföld reikningslist, kalóríur inn, kalóríur út. Og svona er það bara. Hvað um það. Ég og Lúkas vorum heima í gær, skólinn hans var lokaður og svo var einnig um skrifstofuna mína. Þegar það er svona kalt úti og maður hefur nógan tíma þá er um að gera að búa til góðan mat. Við borðum vanalega ekki kvöldmat saman út af vinnutímanum mínum þannig að það er alveg spes gaman þegar við höfum tíma til að gera það. Ég eldaði stormsúpu, þykka grænmetissúpu með hnausþykkum pancetta bitum. Og bakaði brauð með. Ég dúllaði heilmikið við brauðið, blandaði saman ýmsum grófum hveititegundum og korni, notaði hnoðkrókinn á hrærivélinni í góðar tíu mínútur og lét það svo lyfta sér og lamdi niður þrisvar sinnum. Dúllaði svo við að búa til svona fallegan bolluhring. Og þetta var allt þess virði, besta brauð sem ég hef bakað. Þetta var góður dagur, og góð kvöldstund saman.
miðvikudagur, 13. janúar 2010
Nú verður lífið vart betra. Glee er komið til sýninga á E4 og ég hef fundið minn heilaga kaleik hvað sjónvarpsefni varðar. Allt til staðar; Ammrískur "high school", dans og söngur, klappstýrur, fótboltakappar og nördar, keppni þar sem liðið mitt er undirmálsfiskurinn, ástir og hatur, ýktir karakterar og frábær húmor. Ég hef ekki verið svona hamingjusöm síðan 1990 og Beverly Hills 90120 var í imbanum. Ég að sjálfsögðu er ein um að horfa á þetta á þessu heimili, þeir hinir eru of hámenningarlegir til að taka þátt í þessu en ég er með í maganum af spenningi til að sjá hvað gerist næst. Þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að vera ekki hluti af markhópnum er mér alveg sama, sit og brosi allan hringinn í þann klukkutíma sem þátturinn er á. Og svo er Dancing on Ice líka byrjað aftur. Enginn svaka frægur í ár, nema kannski Heather Mills sem var gift Paul McCartney. Hún er einfætt sú og á eftir að vera spennandi að fylgjast með hvernig henni gengur að skauta. Verst hvað hún er ógeðfelld manneskja. Og þeir eru ekkert að spara brandarana um hana hérna Bretarnir. Enda framdi hún ofurglæp þegar hún skildi við Paul hinn heilaga. Það er gott að hafa svona skemmtiefni í kassanum þessa dagana, það er ekki eins og maður geti gert mikið í þessu óveðri sem ræður hér ríkjum.
þriðjudagur, 12. janúar 2010
Það er fátt í heimi hér sem veitir meiri vellíðunartilfinningu en að setja sér markmið,vinna svo að því og ná því svo. Ég kláraði í morgun 6 vikna áskorunina. Ég þurfti að stunda líkamsrækt í alla vega hálftíma á dag fimm daga vikunnar og mér tókst það. Reyndar þá finnst mér orðið svo gaman að hreyfa mig að þetta var orðin lítil áskorun. Næstu 6 vikur verða svo teknar aftur en erfiðleikinn aukinn. Ég hlakka til þess, ég er orðin smávegis háð kikkinu sem ég fæ út úr ræktinni, eiginlega svo mikið að ég á mér orðið draum um að vinna í líkamsræktarstöð. Ég skrifa þetta og flissa smávegis í leiðinni af því að þetta er svo brjálæðislega fáranlegt en ef einhver segði við í dag að ég mætti velja mér hvað vinnu sem er þá myndi ég ekki hika við að segja líkamsræktarþjálfari. Að mæta bara í ræktina á morgnana og æfa allan daginn og kannski hjálpa einhverjum í leiðinni. Algjör draumur. Givi minn góur! Þessari vellíðan fylgir svo svona frekar vandræðalegt ástand. Ég stend sjálfa mig að því nefnilega að dást að sjálfri mér svona út um allt. Ég á það til að taka skyndilega tvær hnébeygjur, bara svona af því að ég get það, en á meðan að ég er að tala við yfirmann minn. Frekar vandræðalegt. Eða ég hnykla vöðvana og kreisti og sé svo að allir samstarfsmenn mínir eru að stara á mig. Vandræðalegt. Eða þá að ég labba upp stigann í powermode. Og uppsker skrýtin augnlit frá þeim sem ég mæti. Mjög vandræðalegt. En ég bara get ekki af þessu gert, í mér er kraftur sem ég bara stundum ræð ekki við, hann bara brýst út. Þetta er svo mikils virði, að njóta líkama sem hingað til hefur verið bara til vandræða.
Ég ætla héðan í frá að "fæða sálina, ekki magann". Feed the soul. Það er lausnin. Hafa plan, hafa markmið, muna hvað maður hefur gert merkilegt hingað til, nota bjartsýnisröndina, og þegar örvæntingin tekur yfir nota það stuðningsnet sem maður hefur. Takk fyrir mig, bestu vinir í heimi, ég er ekki viss um að þið vitið hversu stóran þátt í þessu öllu saman þið eigið. Rannsóknir sýna (já, ég sagði rannsóknir sýna!) að þeir sem breyta um lífstíl eru mun líklegri til að takast ef þeir fá fólk í lið með sér til að styðjast við. Og þið eruð með mér í liði. Mwahh!
laugardagur, 9. janúar 2010
Tahdah! ég er búin að fatta vandamálið. Mig LANGAR til að misstíga mig. Því þá hef ég LEYFI til að segja að mér sé búið að mistakast og þá MÁ ég halda áfram að skófla upp í mig. Af því að alveg sama hvað ég reyni að segja sjálfri mér að eitt lítið feilspor skipti ekki máli, maður verður bara að halda áfram, þá þrái ég ekkert heitar en að gefast bara upp svo ég fái bara að borða og borða og borða og borða. Nú þegar ég er búin að skilgreina vandamálið þá er bara að finna út hvernig skal laga það. Ég veit að mig langar ekki til að vera feit, ég veit að mér líður milljón sinnum betur við að vera mjó, og ég veit að til að vera mjó þá einfaldlega má ég ekki borða eins mikið og mig langar til að gera. Það er í alvörunni ekki mikil fórn. Nú þarf ég bara að læra að hugsa svona af röksemi ALLTAF. Það er ekki eins og ég fái aldrei aftur að borða. Og það er ekki að ég þurfi að borða ALLA kökuna. Ég veit þetta allt saman. Þetta er sama hugsanaferlið aftur og aftur og aftur.
Í gær þegar ég skrifaði fyrri hluta þessa pistils var ég heltekin af "failure" hugsunum, hegðunarferlinu sem leyfir mér að borða of mikið. Í morgun eftir sérstaklega hressilega líkamsrækt er ég öll önnur, get hugsað skýrt og af skynsemi. Ég ætla að reyna að takast aðeins á við hegðunarferlið mitt af meiri alvöru, hef ekki tök á að komast í alvöru meðferð hjá sálfræðingi en er búin að kaupa mér nokkrar bækur um efnið og vona að það sé ekki of mikil poppsálfræði í gangi. Svo verð ég að koma mér upp tækni sem hjálpar mér í gegnum þessi "örvæntingartímabil". Þegar skynsemin víkur og ég ræð ekki við neitt. Á sama tíma og ég er þakklát fyrir að að mestu leyti er í lagi með mig, ég skil hvernig þetta allt saman virkar þá verð ég líka að viðurkenna að þegar örvæntingin tekur yfir, og það á eftir að gerast aftur, þá gleymi ég öllu sem ég hef lært.
Mig langar á vissan hátt voðalega lítið að birta þetta. Mér finnst eins og að undanförnu hafi verið mjög dapurt í mér hljóðið og svona smávegis uppgjafartónn. Og ég fattaði að ég var farin að reyna að draga úr skriftum um hvernig mér líður í alvörunni af því að ég vildi ekki skemma ímyndina sem ég hélt að ég hefði. Svona súperlífstílsbloggari sem væri búin að finna "lausnina!" En tilgangurinn með blogginu er að skrifa mig frá tilfinningunum og þetta síðasta sálarrannsóknarferðalag er líka búið að vera hluti af ferlinu. Og þó það sé kannski ekki alveg rétt frá sagt þá er bloggið fyrir mig eina, ég er oftast ekki mikið að spá hvort einhver lesi. Og ég ætla ekki að byrja á því núna. Og mér líður líka miklu betur.
föstudagur, 8. janúar 2010
Ég er búin að vera að skoða ávana og venjur voða mikið að undanförnu. Mér skilst að vani getur verið brotinn á tuttuguogeinum degi. Þetta kemur frá rannsóknum sem voru gerðar á fólki sem hafði misst útlim. Þannig að ef maður hefur slæman ávana sem maður vill komast frá þá á maður að byrja á því að skilgreina hvað það er sem er að og svo hvaða ágóða maður hefur af því að breyta vananum. Ef maður borar í nefið þá myndi ágóðinn til dæmis vera að maður er betur hæfur í kurteisu samfélagi. Svo þarf maður að reyna að hætta að bora í nefið. Í hvert skipti sem fingurinn færist að nös á maður að setja kross í dagatalið. Af því að maður er orðinn meðvitaður þá eiga krossarnir smá saman að verða færri. Þangað til að maður er alveg orðinn háður vasaklútum. Sama gildir um að koma sér upp góðum venjum. Og mér hefur tekist það ágætlega. Ég til dæmis er búin að koma líkamsrækt svo rækilega inn í daglega rútínu hjá mér að það er nánast útilokað að ímynda sér nokkuð annað en að vakna á morgnana, pissa, bursta tennur, drekka vatnsglas og hoppa svo í hálftíma. Til að byrja með þurfti ég að minna mig á að gera þetta og jafnvel á stundum neyða mig áfram. En núna, ekkert mál, ég hugsa jafnmikið um að lyfta og ég hugsa um að tannbursta mig. Þetta er svo sjálfsagt mál. En það er allt annað mál með matinn. Matur er svo flókið hugtak fyrir mig að ég get ekki einu sinni fundið út hvar ég á að byrja til að flokka mat þannig að ég geti ákveðið hvað ég á að gera til að breyta vondum venjum mínum. Mér bara algerlega fallast hendur. Og þegar ég er í svona skapi þá vomir snikkersið yfir mér og stríðir; "kommon, fáðu þér bara bita, þú getur þetta ekki hvort eð er, þú getur aldrei breytt þér nóg til að halda þetta út, þú getur allt eins gefist upp núna, þetta hefur aldrei tekist áður, kommon, fáðu þér bara bita, ég er svoooo gott á bragðið, koma svo..." 10 mánuðir og enn koma dagar þar sem ég hef enga stjórn. Mikið svakalega fer þetta í pirrurnar á mér. Dagarnir og tímabilin þar sem ég hef algera stjórn eru svo góðir, mér líður svo vel, eins og súperkonu, en samt, samt get ég ekki brotið vanann sem segir mér að verðlaunin fyrir góða hegðun sé matur. Og að refsingin fyrir slæma hegðun sé meiri matur. Tuttugo og einn dagur til að gera hvað? Venja mig af mat algerlega?
fimmtudagur, 7. janúar 2010
Það var farið í morgun þetta leiðinda jóla-og áramótakíló og ég því aftur komin undir hundraðið. Ljómandi alveg hreint og ég ef ekki mikið í hyggju að fara neitt yfir það aftur héðan í frá. Það er engin ástæða til neins annars en að setja fútt í þetta núna og halda ótrauð áfram. Verst bara að það er ekki eins og mér líður. Ég er föst akkúrat núna. Finn að það er tími til að breyta einhverju, ég er orðin of vön rútínunni, er orðin of hrokafull. En er bara ekki alveg viss um hvað það er sem ég vil breyta. Mér leiðist. Mig vantar vímuna sem kemur þegar maður fyrst byrjar og allt gengur vel og allt er ný uppgötvun. Ég svona einvhernvegin dröslast áfram í gegnum dagana núna en vantar þetta fútt. Kannski er vandamálið vonbrigðin með að þurfa að bíða í gegnum þetta óveður með að fara að hlaupa. Ég var algerlega búin að hengja allar mínar vonir á það. Kannski er ég bara illa fyrir kölluð í dag. Ég er ekki vön að vera svona fúttlaus lengi. Kannski að ég setji mér einhvert verkefni, eins og að byrja að drekka grænt te eða eitthvað. Æji, það hljómar nú svo sem ekkert spennandi heldur. Svona er ég andlaus akkúrat núna. Blörgh.
þriðjudagur, 5. janúar 2010
Svo bara hætti ekki að snjóa. Skrifstofunni minni var lokað rétt eftir fimm í dag og við öll send heim. Það sem vanalega er 20 mínútna ferðalag heim tók rúma 2 tíma. Ég er strax búin að fá tilkynningu að skólinn hans Láka er lokaður á morgun þannig að eitthvað þarf ég að arransera morgundeginum. Vonandi bara heldur áfram að snjóa þannig að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvað ég á að gera við hann, hringi bara inn í vinnuna og segist vera föst í snjó uppi á mínu fjalli. Snjórinn og veðrið er vinsælasta fréttaefnið hérna núna, í öðru sæti er svo Ísland. Og ég sit bara og gapi. Vanalega er það gaman að sjá landið mitt í fréttunum. Ég get alveg lofað að þetta er ekki skemmtilegur fréttaflutningur.
Ég hlóð inn öllum upplífgandi og upplyftandi rokklögunum mínum á i-podinn, stillti hlaupaprógrammið á 30 mínútur, setti tölvukubbinn í nýju hlaupaskóna mína, fann til úlpu, húfu og vettlinga og fór svo að sofa í gærkveldi með jafnan skammt af fiðringi og tilhlökkun. Á morgun, á morgun tek ég loksins næsta skref á þessu ferli mínu, næsta skref sem á eftir að skila mér endurnýjuðum krafti og árangri. Og vaknaði svo í morgun við óveður. Allt hvítt, og það sem verra er að undir snjónum er það sem Bretinn kallar "Black Ice". Frosin loftraki sem býr til þá mestu flughálku sem ég hef nokkurn tíman kynnst. Og ég þori ekki að hlaupa í þessu. Hnéð er nógu viðkvæmt fyrir þó að ekki bætist við að ég læsi því til að passa að ég fljúgi ekki á rassinn. Ég er smá hrædd við að ég sé að búa til afsakanir, en er eiginlega alveg viss um að svo sé ekki, það er einfaldlega ekki fært. Smá setback en ég bíð bara róleg eftir betra veðri. Það hlýtur að hlána bráðum.
Annars þá er veðrið kannski ekki það sem Íslendingar kalla vont, en munurinn er að hér er fólk svo illa undir þetta búið. Sem ég skil ekki alveg, ég meina Bretland er á Norðurhveli jarðar eftir því sem ég best fæ séð. Fólk kann ekki að klæða sig, kann ekki að keyra í þessu, er á sléttum sumardekkjum og það sem verst er býr í húsum sem eru óeinangruð og hituð með rándýru gasi sem ekki allir hafa efni á. En svona er þetta á hverjum vetri. Og svo getum við alltaf vonað að það snjói það mikið að ég verði send heim úr vinnunni. Það væri ekki svo vitlaust.
Annars þá er veðrið kannski ekki það sem Íslendingar kalla vont, en munurinn er að hér er fólk svo illa undir þetta búið. Sem ég skil ekki alveg, ég meina Bretland er á Norðurhveli jarðar eftir því sem ég best fæ séð. Fólk kann ekki að klæða sig, kann ekki að keyra í þessu, er á sléttum sumardekkjum og það sem verst er býr í húsum sem eru óeinangruð og hituð með rándýru gasi sem ekki allir hafa efni á. En svona er þetta á hverjum vetri. Og svo getum við alltaf vonað að það snjói það mikið að ég verði send heim úr vinnunni. Það væri ekki svo vitlaust.
sunnudagur, 3. janúar 2010
Það byrjaði félega hjá mér árið; ég lá á hnjánum og dýrkaði postulínið mestmegnis allan föstudaginn. Ég skemmti mér semsagt voðalega vel hjá Kelly og Craig, eiginlega allt of vel því niðurstaðan var svona frekar niðurdregin Svava Rán á fyrsta degi ársins. En svo fór þetta nú allt að snúast upp á við, laugardagurinn hófst með snarpri lyftinga sessjón og svo fórum við Láki út að hlaupa. Ég tók reyndar ekki græjuna með, enda vorum við bara að leika okkur. Ég byrja í Couch to 5K á þriðjudaginn. Og svo hófst átið. Allan laugardaginn var ég gersamlega óstöðvandi, fylgdist með sjálfri mér svona nánast eins og utan frá, þetta var svo skrýtið. Ég skil ekkert hvað skeði, það var eins og gamla Svava Rán hafi tekið yfir og ráðið ferðinni. Svo fylgdi þessu þunglyndi í morgun. Og svo fattaði ég að það var ástæðulaust að vera eitthvað að væla yfir þessu. Það er nefnilega ekkert eftir af gömlu Svövu Rán. Sú gamla hefði nefnilega verið dauðfegin að hafa fallið, hún hefði notað það sem afsökun til að gefast upp og halda bara áfram að borða kökur og súkkulaði og fitnað aftur um allt sem farið er. Nýja Svava Rán hún er bara allt öðruvísi. Hún hugsar með sér "djöfullinn sjálfur, ekki borðaði ég í alvörunni þrjú chunky kitköt í gær! Damn!" og svo fer hún í íþróttagallann og tekur eitt sessjón af æfingum og heldur svo bara sínu striki. Ekkert vesen. Ég veit ekki hvað það á eftir að taka mig langan tíma að venjast nýju Svövu Rán og muna að leyfa henni að ráða, en ég veit að það er alltaf að verða auðveldara og eðlilegra. Hún er nefnilega miklu, miklu betri útgáfa.
Það er svo skemmtilegur andi í loftinu svona við áramót. Allir lofa betrun og bótum og allar líkamsræktarstöðvar fyllast af fólki með bjartar vonir og heilög loforð um að taka sig á. Vonandi að allt þetta fólk nái takmarki sínu og að það fari ekki fúttið úr betruninni svona um miðjan Janúar. Hvað ætlar þú að gera til að verða betri manneskja? Ég er búin að setja mér mín áramótaheit. Í fyrsta lagi ætla ég að hlaupa 5 kílómetra á undir 30 mínútum fyrir árslok og í öðru lagi þá ætla ég að léttast um 25 kíló fyrir árslok. Og í þessari röð. Árið 2010 ætla ég að reyna að einblína á önnur markmið en bara vigtina. Ég held að það sé komið að því hjá mér að reyna að vera ekki svona fókusuð á grömm og kíló og mæla velgengnina í öðrum stöðlum. Og ég hlakka bara til að takast á við verkefnin.
Það er svo skemmtilegur andi í loftinu svona við áramót. Allir lofa betrun og bótum og allar líkamsræktarstöðvar fyllast af fólki með bjartar vonir og heilög loforð um að taka sig á. Vonandi að allt þetta fólk nái takmarki sínu og að það fari ekki fúttið úr betruninni svona um miðjan Janúar. Hvað ætlar þú að gera til að verða betri manneskja? Ég er búin að setja mér mín áramótaheit. Í fyrsta lagi ætla ég að hlaupa 5 kílómetra á undir 30 mínútum fyrir árslok og í öðru lagi þá ætla ég að léttast um 25 kíló fyrir árslok. Og í þessari röð. Árið 2010 ætla ég að reyna að einblína á önnur markmið en bara vigtina. Ég held að það sé komið að því hjá mér að reyna að vera ekki svona fókusuð á grömm og kíló og mæla velgengnina í öðrum stöðlum. Og ég hlakka bara til að takast á við verkefnin.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)