miðvikudagur, 29. desember 2010

Get ekki annað en að vera örlitið öfundsjúk út í son minn. Hér var ég búin að hlakka til alla aðventuna að fá súkkulaði, plottað og skipulagt til að fá sem mest út úr molunum. Á aðfangadag var góssið svo sett í skál á borðið og ég þurfti að taka á öllu mínu til að láta í friði. Og það þrátt fyrir að vita að ég fyndi ekkert bragð. Láki aftur á móti virtist ekki einu sinni sjá það. Hvernig stendur á því að 7 ára gamalt barn hefur engan áhuga á sælgæti? Það er ekki eins og ég hafi bannað honum að fá sér, hann má fá eins og hann lystir. Hann bara biður ekki um það. Ef hann fær sér þá klárar hann sjaldnast. Ekki get ég ímyndað mér að ég hefði hagað mér svona 7 ára. Ef nammiskálin hefði verið á borðinu og enginn sagt neitt um að mega eða mega ekki get ég ekki ímyndað mér annað en að ég hefði legið ofan i henni þangað til allt væri uppurið. Hann fékk sér annarshugar einn mola og lét þar við sitja. Honum er í alvörunni alveg sama. Getur verið að það hafi verið einhvert mix up á spítalanum? Annars þá er hann farinn að taka allt fitnessið inn á sig; þeir feðgar spiluðu Mario Kart um daginn og Láki sagði við pabba sinn að hann ætlaði að "kick your glutes" í staðinn fyrir að segja "kick your butt." Góður.

þriðjudagur, 28. desember 2010

Ég planlagði og ég skipulagði, ég var með áætlun og ég var með plan. Ég átti til meþódón og ég var með flóttaleið skipulagða, ég var með þetta allt tilbúið. Ég hugsaði og ég skrifaði, ég gerði allt rétt. Nema að standa við það sem ég hafði lofað sjálfri mér. Ég segi og stend við að það skiptir ekki öllu hvað maður borðar í einn eða tvo daga yfir hátíðarnar, það sem skiptir máli er hvað maður gerir alla hina dagana. Engu að síður þegar maður er búinn að lofa sjálfum sér að leggja frá sér konfektkassann en gerir það ekki, heldur bara áfram að troða í sig, troða þangað til að maður er hættur að finna bragð og ónotatilfinningin er ekki bara í heilanum heldur í maganum líka, þá getur maður ekki að því gert en að vera örlítið svekktur út í sjálfan sig. Ég er engu að síður loksins að skríða saman núna í dag. Fór úr náttfötunum og reyndi að hafa mig aðeins til, frunsan blómstrar reyndar, ég er dálítið eins og Hitler með sýfilis, en það er bara ekki alltaf hægt að vera sætur. Ég er tilbúin að komast aftur í rútínuna á morgun. Morgunhaframúffurnar mínar eru að bakast inni í ofni, ég er búin að setja saman túnfiskhúmmús og eggjahvíturnar eru tilbúnar til steikingar í fyrramál. Ljótu leggingsarnar tilbúnar að smeygja sér í við hanagal og ekkert sem getur stöðvað mig í að komast í rækt fyrir vinnu. Það sem ég hlakka til að taka aðeins á langþreyttum Lazarus vöðvum. Og vona svo að ég sé núna búin að vera veik fyrir næstu 5 árin.

mánudagur, 27. desember 2010

Við Láki Jones á aðfangadagskvöld
Mikið sem jólin eru alltaf yndisleg, og það þrátt fyrir hor og slen. Ég var sæt og hress á aðfangadag, alveg þangað til ég var búin að fá mér að borða þegar veikindin helltust yfir mig aftur af fullum krafti. Ég fékk sem sagt einn disk af hamborgarhrygg með öllu en fékk mér engan graut eða konfekt. Svo versnaði ég bara allt kvöldið og fram á jóladag og þrátt fyrir að hafa farið til tengdó og fengið mér kalkún þá sleppti ég öllu öðru, lá bara hálfvönkuð í sófanum. Á annan í jólum var ég farin að hressast, þó ég væri enn með hita og að sjálfsögðu komin með frunsu á stærð við Kákasusfjöllin eins og vera ber. Ég var farin að finna bragð aftur og verð að viðurkenna að ég byrjaði að haga mér frekar illa í einhverskonar þrjósku- og mótmælaskyni við veikindin. Byrjaði daginn á því að borða nánast allan rjómagrautinn sem beið eftir mér inni í ísskáp. Í eftirrétt fékk ég mér svo hálfa dós af Makkintoss og skolaði niður með lítra af appelsíni. Þetta er allt saman fyrir klukkan 10 um morguninn. Svo var það kaldur hamborgarhryggur, ostar og kex, meira konfekt og ýmislegt fleira smálegt sem ég fann hingað og þangað um húsið. Ég er ekki reið, eða svekkt eða hissa, þetta er fullkomlega eðlileg hegðun fyrir mig þegar planið, þ.e. að borða vel og vandlega á aðfangadag, fór úrskeiðis. Ég ákvað að leyfa óstjórninni bara að taka yfir í þeirri fullvissu að ég gæti stoppað í dag. Vaknaði í morgun með heilagar fyrirætlanir og 3 kíló í plús (að hugsa með sér, ein máltíð og einn klikkaður dagur og ég þyngist um 3 kíló). Eftir ágætis morgunmat, 0% gríska og jarðaber og smá hnetur settist ég niður og byrjaði aftur að líða ill. Ég er enn fárveik. Og byrjaði að vorkenna sjálfri mér. Og áður en ég vissi af réðust á mig 5 konfektmolar og yfirbuguðu. Ég réð ekki neitt við neitt. En það þýðir ekki að dagurinn sé ónýtur, nú byrja ég bara upp á nýtt. Ég get ekki hreyft mig neitt í dag, ég er með of mikinn hita en ég GET stjórnað átinu. Koma svo kelling! 

Sko! Engin teygja!
Jólagjafirnar voru ekki af verri endanum í ár; brún há leðurstígvél sem eru ekki með teygju og baðvog sem segir frá fituprósentu. Ég hafði beðið um vigtina en maðurinn var engu að síður hálfvandræðalegur yfir gjöfinni. Fannst þetta vera svona smávegis eins og að gefa mér ryksugu eða viskustykki. En ég var hæstánægð með pakkann enda finnst mér nauðsyn að geta fylgst með fitunni núna. Það eru kannski ekki alveg nákvæm vísindi en nóg til að geta byrjað að fylgjast með fituprósentu fara niður á við. Nú þegar ég er að lyfta svona mikið og sentimetrarnir segja mér að ég sé að minnka og bæta á mig vöðvum þá vantar mig að fá verðlaun fyrir vinnuna af því að vigtin þokast niður á við mun hægar en ég sætti mig við. Þannig að þær vikur sem ég sé ekkert breytast á vigtinni væri gaman að sjá að fituprósentan hefur minnkað. Ég þori reyndar varla að tjékka á númerinu núna, eftir átið í gær er ég örugglega einungis samansett úr fitu og haldið saman með slettu af karamellusósu. Rækallinn sjálfur!

föstudagur, 24. desember 2010

91 kíló í morgun og þar með nokkuð útséð með að það eru litlar líkur á 10 á 2010. Mér er eiginlega alveg sama, aftur fóru sentimetrar af öllum svæðum, þar með töldum stelpunum sem brátt fara að missa titilinn stærstu brjóst í Evrópu. Það er bara ekkert eftir af þeim. Kvefluðran ekkert að pirra mig of mikið, ég finn ajax lyktina þannig að ég hlýt að finna bragð af veislunni í kvöld. Mikið voðalega sem ég hlakka til. Og ætla að nota tækifærið til að óska ykkur öllum sem hafa fylgst með mér og hvatt mig áfram með fallegum kommentum gleðilegra og bragðgóðra jóla. Ástarþakkir.

fimmtudagur, 23. desember 2010

Bévítans óheppni að hafa nælt sér í kvefóáran þegar ég var veðurteppt á leið í vinnu/rækt í gær. Ég er núna búin að koma mér upp svetti hér heima, er í öllum lopapeysunum sem hafa verið prjónaðar á mig, undir sæng og bryð aspirín eins og um Nóakonfekt væri að ræða. Ég ætla EKKI að missa af jólaveislunni á morgun. Porcini and Sweet Chestnut súpa, hamborgarhryggur með sykurbráð, sykurgljáðar kartöflur, sætur rjómagrautur, sykursætt konfekt (er þema í þessu hjá mér?) og sweet, sweet malt og appelsvín. Ohhhhh malt og appelsín, það sem ég hlakka til. Aðventuna tók ég af festu, einurð og skynsemi og sé ekki eftir neinu, saknaði einskis, en ég ætla líka að fá verðskuldað frí frá lífstílnum á morgun og leyfa hlussunni bara að taka yfir. Hún á það skilið þessi elska. Ég er líka strax farin að hlakka til að mæta aftur í rækt á þriðjudaginn og er tilbúin með sykurlausan brjóstykur til að trappa mig niður eftir ofneyslu. "Svona smávegis eins og meþódón fyrir heróínsjúkling" djókaði Dave þegar hann sá mig setja pakkann upp í skáp. Ekkert að því að plana smávegis fram í tímann og ég veit ég verð fegin að geta stungið þessu upp í mig ef sykurþörfin fer alveg með mig þegar veislunni lýkur. Ég komst þetta langt á skipulaginu sko.

þriðjudagur, 21. desember 2010

Hvað ef...
Ég fnæsti út um þanda nasavængina og rétti úr mér með 55 kíló á herðunum. Taldi einn, tveir á leiðinni upp og einn á leiðinni niður aftur. Þetta er allt annað og erfiðara mál þegar það er búið að bæta inn tempóinu. Svo mikið erfiðara að ég er með harðsperrur allstaðarí dag, þar með talið í hárinu. Mér líður engu að síður eins og ég sé að þokast nær og nær því að lyfta af "alvöru" frekar en bara svona að gamni eins og ég hef verið að gera að undanförnu. Ég vildi að ég gæti skilgreint hvað mér finnst svona æðislegt við að lyfta, þetta er jú drulluerfitt, en ég fæ bara eitthvað alveg hrikalegt kikk útúr þessu. Ég þarf reyndar að einbeita mér aðeins meira að "líkamsþyngdar" æfingum eins og armbeygjum. Ég get ekki alvöru armbeygju til að bjarga lífinu. Mér datt líka í hug þar sem ég starði á formið mitt í speglinum að það er möguleiki að ég hafi farið á mis við glæstan feril sem lyftingakappi. Ekki veit ég hvort mér eða nokkrum öðrum hefði dottið í hug þegar ég var yngri að þetta væri eitthvað sem væri í boði fyrir mig en ég get ekki að því gert en að velta því fyrir mér. Ef ég hefði hreinlega vitað að þetta væri til sem íþrótt. Hvað þá að þetta er íþrótt fyrir konur sem skapar ekki endilega líkama sem er það sem maður myndi kalla Austur-Þýskan Kúluvarpara. Bara stælt og sterk með fallega vöðva sem er nýtanlegir í allskonar verkefni í daglega lífinu. Það skiptir sjálfsagt litlu máli að ég komi ekki til með að lyfta gullinu (aldrei hægt að segja að ég sé hógvær) fyrir Ísland á Ólympíupalli vegna þess að bara það að hafa uppgötvað lyftingarnar og að hafa komið þeim inn í lífið núna eru verðlaunin mín. Ég fæ hvort eð er örugglega Nóbelsverðlaun í megrun bráðlega.

mánudagur, 20. desember 2010

Ég ætla að setja það hér mamma.
Í gær var brotið blað í sögu fjölskyldunnar. Við skreyttum tréð í gærkvöld. Ég er alin upp við að Kiwanis jólasveinarnir komi með tréð á Þorláksmessu og það er ekki skreytt fyrr. Ég ímynda mér að kannski hafi þeir flestir ekki verið komnir í land fyrr en þá og þessvegna ekki hægt að fara með trén í hús fyrr. Það var alltaf svakalegt stuð á þeim, stuð sem ég fattaði ekki fyrr en árum seinna að kom mestmegnis til af jólaglöggi og einhverjum göróttum drykkjum. Mér datt í hug um daginn að eiginkonur þessara jólasveina hafi verið umburðalyndari og skilningsríkari en ungar eiginkonur í dag; ég hef það einhvernvegin á tilfinningunni að nútíma Kiwanis eiginkonur myndu ekki líða fylleri í Þorláksmessu og þynnku á Aðfangadag. Að skreyta tréð er svona í mínum huga lokapunkturinn eða hátindurinn á skrautinu og það sem allt hitt svona leiðir upp að. Ég er afskaplega fastheldin á siði og venjur og það að búa hér í Wales hefur gert jólasiðina jafnvel enn mikilvægari fyrir mig. Mig langar svo að halda eins íslensk jól og mögulegt er, aðallega til að fá bernskujólin mín endurupplifuð, smávegis til að Láki alist upp alsiðaður í íslenskum venjum og að hluta til vegna þess að mér finnast bresk jól ömurleg. En það kom líka í ljós að við getum búið til okkar eigin siði og venjur sem samt væru íslensk og þar sem að hér eru engir Kiwanis jólasveinar, við fórum sjálf og völdum tré til að höggva og drógum svo hingað heim, þá er í raun ekkert sem segir að við megum ekki búa til okkar eigin hefðir í sambandi við tréð. Ég á svo mikið af fallegu skrauti sem allt er tengt einhverri góðri minningu og það er eiginlega synd að það fái ekki að njóta sín sem lengst. Ég tók því þá ákvörðun að tréð myndi héðan í frá fara upp síðasta aðventusunnudaginn. Við kveikjum svo bara á ljósunum á því með viðhöfn á aðfangadag. Það er fínn síður og alveg sérstakur fyrir okkur Jones-fjölskylduna. Og ég er alsæl með ákvörðunina. "Kertin stand´á grænum greinum, gul og rauð og blá..."

sunnudagur, 19. desember 2010

Joseph Pilates gerir teaser
Eftir mjög ánægjuleg endurkynni við poppadums, naan, masala sósu og síðasta Nóa Kropps pokann í dalnum ákvað ég í morgun að það væri líka grjótmyljandi stemning fyrir pilates. Það er ár og öld síðan ég síðast setti þann disk í tækið enda var hann þar sem ég byrjaði hér fyrir tæpum tveimur árum síðan. Ég man að hafa hugsað með mér að pilates væri bráðsniðugt fyrir svona svaðalega hlussu eins og mig því það væri lítið sem ekkert álag á hné og hopp var ekki innifalið. Þetta leit meira að segja bara vel út; maður liggur á mjúkri mottu og veifar skönkunum eitthvað út í loftið, how hard can it be? Ég var að sjálfsögðu hissa þegar í ljós kom að þetta var heilmikið erfitt og aðallega vegna þess að allt spikið var svo mikið að flækjast fyrir mér. Ég er kattliðug og get beygt mig í báðar áttir en maginn stoppaði mig frá að geta beygt mig og bukkað eins og ætlast var til. Fyrir utan að "core" vöðvarnir mínir voru bara ekki að taka þátt í þessu. En eins er það með pilates og allt annað, æfingin skapar meistarann og þegar ég hætti að nota diskinn var ég farin að geta gert allar æfingarnar nema þrjár sem ég gerði enn með auðveldara forminu. Ég var því bæði glöð og stolt í morgun þegar í ljós koma að ég get núna gert allar æfingarnar, þar með talinn "teaser" sem er drulluerfið magaæfing. Og skemmtilegast að sjálfsögðu að maginn flækist nánast ekkert fyrir mér. Þegar ég ligg á bakinu er ég alveg slétt og sé og finn mjaðmabein. Þau get ég líka fundið upprétt þó þau sjáist ekki. Ótrúlegt að ég sé með svoleiðis. Ótrúlegt.

Ég hlakka til að takast á við daginn í dag. Sunnudagar eru vanalega valfrjálsir en af því að ég notaði frímiðann í gær er það ekkert sem heitir en að fara aftur í prógramm í dag. Pilates æfingin kom mér í rétta, jákvæða gírinn og ég er tilbúin til að vera hér heima í allan dag án þess að stara inn í eldhússkápana. Ég hef nóg að stússast fyrir utan að mantran í dag hljómar inni í mér; 89.9 fyrir áramót, 89.9 fyrir áramót. Ég stefni enn á það markmið að hafa lést um 10 kíló árið 2010. 10 á 2010. Það er ekkert til of mikils ætlast.

föstudagur, 17. desember 2010

Coco, mín kæra.
Já maður verður víst ekki 22 ára á hverjum degi og dagurinn í dag engin undantekning þar á, ég varð 36 ára. Að hugsa með sér, 36 ára gömul og aldrei verið í betra formi. Dagurinn í dag frekar venjulegur, létt átök við járnin í morgun, vinna og svo hingað heim. Með smá stoppi í Boots til að kaupa afmælisgjöf handa sjálfri mér; nýjan Chanel varalit. Oh, ég elska hann og pokann sem hann kom í. Ég ætla í tilefni þess að ég er orðin svona svakalega gömul og hrum að færa nammidag yfir á laugardag og fá mér indverskan með poppadom og naan og öllu annað kvöld og hnykla svo íviðhaldsvöðvann á sunnudag. Það er bara gaman og setur fútt í þetta að breyta aðeins út af plani. 36 ára. Ég á ekki eitt einasta aukatekið.

fimmtudagur, 16. desember 2010

Svo eru venjulegar kartöflur lika góðar!
Mér hefur hingað til ekki þótt mikið til sætra kartafla koma. Og var eiginlega alveg búin að taka þær út af matseðlinum. En út af því hversu hollar þær eru ákvað ég að leggjast í smá rannsóknir og prófa mig áfram þar til ég væri komin með ásættanlega uppskrift. Og er búin að finna killer aðferð við að troða þeim í mig. Baka eina mjög væna eða tvær venjulegar sætar þar til innvolsið er mjúkt. Þá á að mauka saman við það matskeið eða tveimur af kjúklingabaunum, hvítlauk, smá olíu og smá sítrónusafa. Salt og pipar og smá chili. Þetta er svo gott að bera fram með kjúklingabringu og spínati (á beði) og ég set teskeið af chilisultu til að toppa alveg. Klikkað, I'm telling ya! Ef maður nennir ekki að vesenast svona þá er náttúrulega tilvalið að sletta bara smá af húmmús út í sætu músina og hey presto! Tilbúið.

miðvikudagur, 15. desember 2010

Ég þarf alltaf smávegis að berjast við sjálfa mig til að viðhalda heilsusamlegum lífstíl. Og ég verð bara að sætta mig við að svona verður þetta hjá mér. Ég hef ákveðið að ég vil frekar vera hraust en feit og þetta er vinnan sem í því felst. En það er líka óþarfi að sitja hér heima 24/7 rífandi í hár mitt og skegg af söknuði og sorg eftir súkkulaði og kleinum. Það á að gera þetta allt saman eins auðvelt og skemmtilegt og mögulegast er hægt. Það sem gerir baráttuna auðveldari fyrir mig eru nokkur meginatriði. Eins og til að mynda að versla í matinn á netinu. Ég kaupi ekki kex eða snakk ef ég sé það ekki. Ég set saman grófan matseðil fyrir vikuna og kaupi í matinn eftir þeim innkaupalista. Ég er líka svona nokkurn vegin með á hreinu hvað ég kem til með að borða yfir daginn, fyrir mig er það bara ávísun á djúpsteikt snickers ef ég kem heim og hef valfrjálst í matinn. Ef mig svo langar í kex eða snakk þá þýðir það að ég þarf að hlaupa út í Co-Op. Og um leið og það að fá kex þýðir að númer 1 taka ákvörðunina, 2, fara í skó og  3, labba út þá er mun auðveldara að taka ákvörðunina að það sé bara ekkert sniðugt að fara út í Co-Op yfir höfuð. Annað sem auðveldar þetta er að ég borða líka bara það sem mér finnst gott. Ég er til að mynda bara ekkert hrifin af ávöxtum. Ég get borðað banana og mér finnast öll ber góð og melónur eru ágætar. En helst vil ég bara sleppa þessu sem mest. Og ég geri það þá bara. Ég sé enga ástæðu til að neyða sjálfa mig til að borða appelsínu ef mér finnast þær vondar. Ég fæ c-vitamín úr spínati og brokkólí. Ég reyni líka að búa til allar máltíðir með það að leiðarljósi að ég fái sem mesta fyllingu. Hversvegna að fá sér eina ristaða brauðsneið þegar stór skál af ljúffengum hafragraut er í boði? Og svo það sem ég er að vinna hörðum höndum að; kaupa minni einingar af gæða gúrmeti. Eins og t.d. litla dós af Ben and Jerry frekar en 2 lítra af  ódýrum vanilluís. Ég á enn í smá klandri með þetta, enda jafn gráðug og JR í olíupolli. Matarklámið reynist mér líka vel. Ég þarf ekki að borða í alvörunni eftir að slefa smávegis yfir Nigellu og Ellu Helgu. Þetta allt saman hefur reynst mér vel undanfarna mánuði og ég er alltaf að læra meira og betrumbæta strategíuna mína. Og það er svo gaman að læra.

þriðjudagur, 14. desember 2010

Einn af strákunum í ræktinni í gær impraði eitthvað á að "gloves are for girls." Ragga Nagli hafði líka um daginn skrifað eitthvað um að alvöru lyftingafólk notaði ekki hanska heldur væri með sigg. Það kallar sko mig enginn pussy tvisvar og ég hef hér með lagt hönskunum. The gloves are off. 52.5 kg í rúmenskri réttstöðulyftu í gærmorgun. Æjæjæjæj litlu hendurnar mínar...

mánudagur, 13. desember 2010

Stroppy kaffeee
Á sunnudagskveldi í desember, eftir vel heppnaðan dag, er við hæfi að fá sér fínan kaffibolla. Þegar maður fær sér svona fínt kaffi á sunnudegi er líka við hæfi að opna Sanna Annukka kexdósina, dást að hönnuninni og fá sér svo súkkulaðikex. Og við alla aðra í heiminum en mig myndi ég segja endilega fá sér. Þetta er hágæða kex og það á að kitla kölska öðruhvoru. En af því að ég er ég þá setti ég mér smávegis verkefni á meðan ég naut veitinganna. Ég er nefnilega alltaf að maukast þetta með hvað ég á erfitt með magnið á gæðunum. Og ákvað að reyna að skilgreina hvað ég geri vitlaust til að reyna að geta spornað við þessu frekar en bara að byrja á að skammta mér. Maður fórnar sér sko og allt í nafni vísindanna. Og út úr þessum rannsóknum kemur í ljós að ég á við smá vandamál að stríða. (Understatement of the year:) Þegar ég fæ nammigott þá get ég ekki borðað hægt. Ef ég reyni að hægja á mér þá byrjar mér að líða illa. Ég nýt góðgætanna ekki ef ég þarf að tyggja hægt, njóta bragðsins og láta treina. Ég fyllist angist og vanlíðan á milli hvers bita. Hinsvegar ef ég fæ að borða hratt og örugglega eins og mér finnst best þá nær magi engan veginn að segja heila að hann sé orðin stútfullur og að það eigi að hætta að troða. Og mér dettur ekkert í hug til að laga þetta. Það eru tveir valkostir, báðir jafnslæmir; illt í hjarta eða illt í maga. Hvort á ég að velja?

sunnudagur, 12. desember 2010

Kysst undir mistileini
Nú er þetta í annað skiptið sem við Jones fjölskyldan förum og eyðum einum sunnudegi í desember á óðalsetrinu Erddig (Erðigg) hér í Wrexham. Þar er öllu viðhaldið eins og Charles Dickens gengi þar um og þó það sé gaman að koma þar allt árið um kring, þá er alveg sérstaklega skemmtilegt að fara á jólamarkaðinn þeirra. Starfsfólkið klæðir sig í sögulega búninga, ýmiskonar handverk héðan úr nágrenninu er til sölu og svo er endalaust af hefðbundnum breskum mat á boðstólum. Í fyrra fékk ég mér það sem mér finnst best af öllu; pork pie, en í ár fékk ég mér alveg klikkaða kalkúna samloku með trönuberjasultu. Og "roasted chestnuts". Svona eins og í laginu; "roasting chestnuts by an open fire." Í alvörunni, verður eitthvað jólalegra en það? Að vera staddur í miðju jólalagi? Það held ég nú ekki. Ég þyrfti nú að fletta upp hvað þær heita á íslensku, en ég kannast bara ekki við að hafa fengið þetta heima. Þær eru stórar og meira á bragðið eins og hnetukennd kartafla en hnetur. Alveg geggjaðar. Ég bjó einmitt til porcini og chestnut súpu í forrétt á afðfangadagskvöld í fyrra og ætla að gera aftur í ár, allt út af því að hafa smakkað þær í Erddig.


Láki og Father Christmas
Láki hitti svo aftur á "alvöru" jólasveininn ("all these other Father Christmas´s are fake ones, but the one in Erddig is the REAL one" sagði hann mér um daginn) og bað svo fallega um einn tölvuleik í jólagjöf. Það verður að sjálfsögðu að láta það rætast svona fyrst alvöru jóli var beðinn. Svona dagar eru svo skemmtilegir, rölt um í glampandi sól og smá kulda, allir svo kátir og glaðir, tónlist í bakgrunninum, matarilmur og hvert sem litið var svo fallegir hlutir. Ég er algjör sucker fyrir svona picture perfect atriðum. Mér finnst svo gaman þegar allt er svona ákkúrat. Og jólin ilja mér um hjartaræturnar. Og eins og Charles Dickens sagði: "I will honour Christmas in my heart and try to keep it all the year."

laugardagur, 11. desember 2010

Vigtin og myndin sammála í dag; 91.8 kíló, fullt af sentimetrum horfnir og ég jafn sæt og ég er lukkuleg. Er farin til Wrexham að eyða peningum.

föstudagur, 10. desember 2010

Alltaf svo ánægð með þetta allt!
Í fyrramálið ætla ég að mæla mig alla og vigta samkvæmt kúnstarinnar reglum. Ég á alltaf í sama stríði við sjálfa mig í sambandi við vigtina. Heilbrigði, skynsami hluti heilans veit að hún skiptir svoooooo litlu máli í þessu stóra samhengi. Klikkaði hluti heilans vill bara fá að sjá tölur niður á við og grætur þegar það gerist ekki. Til að sporna við klikkaða hlutanum ætla ég að horfa á þessa mynd áður en ég stíg á vigtina. Hún var tekin í kvöld þegar ég kom heim frá jólahádegishlaðborðinu með vinnufélögunum. Þar sem ég borðaði eðlilegan skammt af kalkún og kartöflum og afþakkaði pent alla eftirrétti. Og ég ætla að horfa myndina sem sýnir mér greinilega að ég er að minnka. Og ef vigtin segir eitthvað sem klikkaði hlutanum líkar ekki þá á ég myndina sem sönnunargögn um að það er vigtin sem er klikk. Ekki ég.

fimmtudagur, 9. desember 2010

Svona voru þau í gamla daga
Það er ekki nokkur vinnandi vegur að fara út í búð um þessar mundir. Hvert sem maður lítur er allt gersamlega löðrandi í súkkulaði og gúrmeti hinu ýmsasta. Fjallháir staflar af tveggja kílóa Makkintoss kvælæt strít dósum, Maltesers í dósum með myndum af snjókornum, hraugar af After Eight, sætar hnetur og súkkulaðihúðað kex. Allt er þetta líka á tilboði, tveir fyrir einn á After Eight, Maltesers fær maður ókeypis ef maður kaupir M&M og Makkintossið, maður lifandi, tvö kíló á £5! Í alvörunni elsku barn, hvað geta eiginlega verið margar hitaeiningar í einhverju sem kostar bara 5 pund? Það komast varla margar hitaeiningar fyrir! segir innri hlussan við mig þar sem ég skýst á milli freistinganna með kotasæludós í fanginu og einbeitningarsvip á andlitinu. Þetta fær mig til að stoppa við og eygja dósina í smástund. Það er nú búið að breyta hönnuninni frá þeirri sem var keypt í Fríhöfninni í júlí og svo geymd inni í geymslu fram í desember hér í den tid. Og mér fannst í fyrra að molarnir væru öðruvísi á bragðið líka. En samt, svona smá nostalgía í þessu. En þegar þú hugsar þig um hjartað mitt, hver í alvörunni þarf á tveimur kilóum af súkkulaði að halda? Lúkas borðar þetta ekki og þú ætlar bara að fá þér smá súkk á aðfangadagskvöld og það er nú þegar til Nóa Konfekt. Er það bara ekki alveg nóg? Þú þarft ekki að éta þig veika til að kalla fram góðar minningar. Og með það fór ég og borgaði kotasæluna. Og ég læt súkkulaðifjallið ekkert pirra mig meira.

miðvikudagur, 8. desember 2010

Ég fæ stundum alveg ofboðslega fallegar athugsemdir við það sem ég skrifa. Um hvað ég sé dugleg og að ég sé öðrum fyrirmynd. Sjálfhverfa ég verður afskaplega glöð og stolt þegar ég sé þessar kveðjur. En mestmegnis þá skammast ég mín. Mér líður eins og svikahrappi. Hvernig get ég verið öðrum fyrirmynd og innblástur þegar ég er enn næstum því hundrað kíló og hef lítið sem ekkert lést síðan í mars? Og ég fer öll í keng. Núna áðan las ég upp fyrir Dave eitt svona komment sem mér fannst svo fallegt og sagði svo við hann að eins og mér þætti mikið til koma að lesa þetta þá skammaðist ég mín líka því ég væri ekkert búin að léttast. "Skrifarðu að þú sért alltaf að léttast?" spurði hann þá. Nei, ég segi frá hverju einasta grammi upp á við. "Þú ert nú meiri aulinn þá ef þú skilur ekki afhverju fólki finnst mikið til koma. Það er af því að þú ert enn að bisa við þetta. Það getur hver sem er lést um einhver x kíló, og bætt þeim svo á sig aftur. En það sem veitir fólki von að það sé hægt að breyta um lífstíl er þegar það les um hvað þú ert að vesenast." Er nema von að ég hafi gifst honum? Ég ætla að fara að hans ráðum og hætta að líða eins og svindilbraskara, þakka frá hjartarótum fyrir þessi fallegu komment og taka þeim stolt og keik. Takk fyrir mig.

mánudagur, 6. desember 2010

Ég tók svo svakalega á því í ræktinni í hádeginu að ég gubbaði næstum því. Þýðir það að ég sé mín eigin persónulega Jillian Michaels af því að hún þjálfar Biggest Loser bollurnar svo harkalega að þau gubba alltaf í ræktinni?

sunnudagur, 5. desember 2010

Það er með ólíkindum hvað maður er snöggur að koma sér upp rútínu, hefðum og siðum. Hefðir og siðir móta allt okkar lif og oft þannig að maður tekur ekki eftir eða hugsar mikið út í þá. Þannig detta mér alltaf í hug handklæðin hennar ömmu. Amma kenndi mömmu að brjóta saman handklæði á alveg sérstakan máta og svo kenndi mamma mér að brjóta þau saman í þetta sama brot. Og ég stóð í þeirri trú að þetta væri eina viðurkennda aðferðin til að brjóta saman handklæði og að öðruvísi samanbrotin myndu þau ekki standast skoðun í húsmæðraskólanum. Og braut mín saman þannig árum saman. Einhverju sinni innti ég svo eftir því af hverju þetta væri betra samanbrot en eitthvað annað og þá kom í ljós að eina ástæðan fyrir þessu sérstaka broti var að svoleiðis pössuðu þau inn  í skáp sem amma hafði einhver tíman átt. Það skiptir engu máli  hvernig þau eru samanbrotin, bara að þau séu hrein og þurr. Svona ramblar maður í gegnum lífið án þess að spyrja sjálfan sig af hverju geri ég þetta svona en ekki hinsegin og hvað gæti ég gert betra en ég geri akkúrat núna. Þannig er ég búin að ákveða að ég ætla að nota tækifærið í rútínubreytingunni í vikunni og spyrja sjálfa mig hvort ég geti gert eitthvað betur en ég geri það núna. Og jafnvel gera aðeins betur.

laugardagur, 4. desember 2010

93.5 í morgun, hálft kíló upp á við. Ég gefst upp. Ég gefst upp. Ég. Gefst. Upp.

Nei, ekki í alvörunni. Bara smá drama í gangi.

Hvað er eðlilegur skammtur af nammi spyr ég og veit ofur vel allan tíman sem ég er að troða upp í mig að þetta er ekki eðlilegur skammtur sem ég er að borða. Ég get nefnilega ennþá troðið í mig mat af sama magni og þegar ég var 130 kíló. Ekkert mál. Þannig að héðan í frá verður ekkert sem heitir frjáls máltíð. Ég verð að skammta mér góðmetið líka. Alla vega þangað til ég er farin að skilja hvað er eðlilegt og hvað er ekki eðlilegt. Vá, hvað ég er reið út í sjálfa mig. Læra af mistökum, move on.

Björtu hliðarnar. Ég get lyft 12 kg lóðum í hvorri hendi í hallandi pressu. Það hlýtur að vera smávegis impressive. Ég er búin að minnka um marga, marga sentimetra þó vigtin ulli á mig. Ég kemst núna í buxur sem ég keypti of litlar fyrir mánuði síðan. Ég tók "afterburner" æfingu í EA Active og blés vart úr nös. Ég aðlagaði mig að breyttri rútínu í þessari viku. Ég bjó til nýjar heilsusamlegar ammrískar morgunverðar pönnukökur. Þetta er allt jákvætt. Ég veit hvað ég gerði vitlaust og núna laga ég það. Þetta er ekkert mál. Þetta snýst um ferðalagið, ekki áfangastaðinn.

föstudagur, 3. desember 2010

Jólaskreytingarnar í Marks og Spencer þetta árið hafa svo sannarlega gripið mig. Rautt, hvítt og grænt og svona Skandinavískur þjóðlagafílingur í þeim öllum. Ég hélt að þetta væri allt svona kunnuglegt út af þessu skandinavíska þema en þegar ég fór að rannsaka málið þá kemur í ljós að Sanna Annukka er listamaðurinn að baki skreytinganna. Mig er búið að langa í listaverk eftir hana núna í langan tíma. Það er þess vegna auðvitað að ég kaupi mér dós sem hefur verið skreytt með myndum eftir hana. Það er náttúrulega einskær tilviljun að dósin er sneisafull af bestu smákökum sem herra Marks og herra Spencer framleiða. Það er bara svo, svo mikilvægt að hafa fallegt í kringum sig.

miðvikudagur, 1. desember 2010

Næstu tvær vikurnar verð ég teymistjóri í vinnunni. Það þýðir heilmikil undirbúningsvinna á hverjum degi til að gera allt tilbúið fyrir teymið og ég þarf að vera mætt rétt eftir sjö til að koma þessu öllu í verk. Fyrsta lest fer frá Wrexham til Chester rétt fyrir sjö þannig að morgunrækt er frá núna í bili. Mér er margt til lista lagt en að vera á tveimur stöðum í einu er meira að segja mér ofviði. Þá er ekkert annað en að leggjast í smá planlagningar og finna út hvað gera skal. Og ég reiknaði það út að með smá lagni gæti ég komið þessu við í hádegishlénu mínu. Sleppt röltinu. Ég gæti skotist á klóið rétt fyrir eitt og farið í íþróttahaldarann og bolinn. Farið í strillurnar við skrifborðið og hlaupið svo í ræktina. Ef ég svo hamast í 40 mínútur þá væru 15 aflögu til að fara í þriggja mínútu sturtu, tvær mínútur í að fara í fötin, ein mínúta í maskarann og ein í að setja hárið í tagl. Já, ég ætlaði að sleppa málningu og blástri til að geta lyft. Þetta er mér mikilvægara en að vera tilhöfð. Ég hrylli mig örlítið við þessu en er stolt líka. Og með þessu móti get ég bæði  unnið og æft og allt er eins og það á að vera. Og þetta gekk eftir. Ég tróð mér í haldarann, smeygði mér í strillur og rauk af stað. Smá skokk og ég nota það sem upphitun. Inn í klefa og í ljótu leggingsarnar og rauk svo inn í sal með grifflurnar á lofti. Og eru þá ekki þrír náungar að rúnka sér eitthvað við lóðin. Ekki að lyfta, nei, bara eitthvað að spjalla og maukast. Ég horfði á þá í smástund, væflaðist í kring, leit á klukkuna, reyndi að vera þolinmóð. Gafst svo upp og spurði hvort ég mætti ekki nota lóðin. Það var lítið mál en við hverja æfingu þurfti ég að ýta þeim í burtu. Hvað er þetta eiginlega með karlmenn og það að standa í kringum lóðin án þess að nota þau? Þarna hamaðist ég þar til ég varð fjólublá í framan og allan tíman störðu þeir á mig og klóruðu sér í pungnum  höfðinu. Ég gat ekki að því gert en að uppveðrast og reyndi að bæta í allar þyngdir, sýna þeim smá hvað ætti að gera við lóð. Þetta tókst því að lokum en krappt var það. Og ég maskaralaus í vinnunni eftir hádegi. Það er skrýtið að breyta svona rútínunni og ég efast ekki um að ég fari beint aftur í morgunsprikl þegar ég get en ég er líka hæstánægð með að ég komi þessu öllu að. Maður er víst aldrei of bissí til að hugsa um sjálfan sig.