sunnudagur, 31. júlí 2011

Í tilefni þess að ég stóðst lokapróf buðu mennirnir í lífi mínu mér út að borða í dag. Við keyrðum til Englands og fundum þar í þorpinu Barton í Cheshire þennan frábæra veitingastað sem heitir Cock o´ Barton. Húsið sjálft var byggt 1607 og hefur verið krá síðan þá. Sem íslendingur er ég náttúrulega rosalega hrifin af svona gömlum húsum, þau vantar á Íslandi.

Það var 25 stiga hiti en engin sól og mjög rakt úti. Við Lúkas hlökkuðum mikið til að fá okkur kaldan drykk.

Um leið og ég kom inn og sá þenna ofvaxna anglepoise lampa vissi ég að mér myndi líða vel á staðnum. Mig er búið að langa í svona lampa í tvö ár núna (og hús sem passar fyrir hann líka). Ég er algjör sökker fyrir svona innanhúsarkítektúr.

Kalt, þurrt hvítvínsglas i vínstofunni til að kæla sig niður fyrir mat.

Mennirnir mínir tveir eru svona líka ljómandi félagsskapur til að fara út að borða með, sér í lagi sá minni. Hann er alinn upp við að finnast gaman að fara út að borða. Það eina sem tókst vel í uppeldinu.

Þegar heim var komið tókum við risafrisbí leik úti í garði til að ná af okkur smávegis ofáti. Ég er ánægð með að tilkynna að ég fékk mér ekki eftirrétt. Bara kaffibolla. Það gerðist síðast... aldrei! Ég hef aldrei áður sleppt eftirrétti! Batnandi kjéllingum er best að lifa og allt það. Ég var bara södd og sá ekki ástæðu til að panta neitt. Ég er enn hálf agndofa yfir þessu. Yndislegur dagur og við eigum eftir að fara þangað aftur. Og ég er svo glöð yfir þessu öllu saman.

laugardagur, 30. júlí 2011

Um daginn var ég hálf nojuð yfir því að vera að fara í frí. Ég sá fyrir mér að ég myndi smá saman sleppa tökunum á sjálfri mér, tökum sem mér hafa fundist að undanförnu vera frekar máttlítil. En ég gleymdi að taka með í reikninginn nokkuð sem skipti bara heilmiklu máli. Ég er búin að vera feit og með skringilegt samband við mat og át í 30 ár. Ég er bara búin að vinna í að vera heilbrigð og sátt við sjálfa mig og mat í rúm tvö ár. Og síðast þegar ég fór í frí þyngdist ég um 3 kiló. Fríið þar á undan þyngdist ég um 6 kíló. Ég er alltaf að læra á þetta alltsaman og á sjálfa mig. Ef við tökum þetta bara út frá tíma þá er mér miklu eðlilegra að haga mér eins og bestía en að haga hlutunum á heilbrigðari veginn. En ég er líka alltaf að verða duglegri og duglegri. Ég er alltaf að læra betur hvernig ég stjórna aðstæðum í stað þess að leyfa aðstæðum að stjórna mér. Ég er alls ekki búin að fatta þetta alltsaman, ég er allsekki búin að finna lausnina, ég veit ekkert meira um heilbrigðan lífstíl en næsti maður; ég veit bara aðeins meira en ég vissi fyrir rúmum tveimur árum. Og bara það að vita meira í dag en í gær gerir þetta ekki endilega auðveldara að díla við. Þegar erfiðu stundirnar koma þá eru þær bara erfiðar og það er ekkert meira um það að segja. Það eina sem ég veit er að ég vel heilbrigðari kostinn miklu oftar en ekki. Ég á alltaf eftir að vera "á meðan". Ég sé ekki fyrir mér að ég verði nokkurn tíman "eftir". En ef við spáum í því skiptir það í alvörunni einhverju máli? Ég vaknaði í morgun, á laugardagsmorgni, fékk mér overnight oats og fór svo út að hlaupa. Af því að mig langaði til þess. Ég er ný manneskja. 200 grömm í plús eftir viku í fríi í ár hljóta að vera vísbending að ég er búin að læra heilmikið síðan ég fór í frí síðast. Þessi uppgötvun hefur skilið eftir sig bjartsýni og jákvæðni sem mig var búið að vanta í nokkrar vikur. Og þessi uppgötvun er akkúrat það spark sem mig vantaði núna til að halda áfram. Svörin búa alltaf innra með manni.
Krybburnar syngja, páfagaukar tísta, nágrannarnir grilla og skrafa saman á portúgölsku, það glamrar í bjórflöskum þar sem fólk gengur framhjá með innkaupin úr Bargain Booze, sólin grillar á mér leggina - það mætti halda að ég væri í útlöndum!

Vigtin sagði 200 g upp á við í dag. Ekki marktækur munur og útskýrður með einum shandy of mikið. Ekki vandamál það. Helst bar á í dag að við fórum og tíndum hindber út í sólinni. Hindberjajógúrt í morgunmat á morgun.

Hindber tínd hjá Bellis Bræðrum i Holt.

föstudagur, 29. júlí 2011

Ó, ó, ó lærin mín í dag. Swing var heldur af miklum krafti í gær þannig að hlaup í morgun voru frekar máttlítil. En góð. Í dag nutum við samvista við Láka, við byggðum Lego sem fengið var í Legoland Discovery Centre og borðuðum affogato. Hvað ég elska ítalska matargerð, svo einföld, svo áhrifarík. Í minni útgáfu fitulítill vanilluís, espresso og sykurlaus svartur súkkulaðispænir. Affogato. Drukknaður ís.

Affogato. Ó svo gottó.

Lego. Klassík.

fimmtudagur, 28. júlí 2011

Í dag er engin sól, bara hiti. Menningin tekin fyrir í dag enda ekki á hverjum degi sem maður fær að vita að maður hafi náð lokaprófi í meistarnáminu. Mikil hamingja og enn einn snúningur í velgengnisspíralnum mínum. Hamagangur í morgunsárið, uppskriftastúss, glasaleiðangur, safn og latté í Wrexham í dag. Mikið er gaman að vera í fríi.

Swing!

Wrexham Museum, Lúkas og faðir hans, Darth Vader.

Thumbs up! Prófi náð, skinny latté kerching!

miðvikudagur, 27. júlí 2011

Í dag: hlaup og quinoaeplakaka með bláberjum og teskeið af clotted cream úti í garði. Og shandy! Ma´r verður að fá shandy!


þriðjudagur, 26. júlí 2011

Við erum eins og landafjandar um allt Norður-Wales og nágrannalönd. Sund og slökun á morgun held ég.

Á ströndinni í Rhyl


Það eru meira að segja risaeðlur í Chester Zoo!


mánudagur, 25. júlí 2011

Í dag ætla ég að koma í verk ýmsu sem ég vil ekki taka frí úr vinnunni til að gera. Fara til læknis og tannlæknis, athuga með rafvirkja út af þessu ljósi í stofunni, setja teygð og toguð föt í ruslið, skrúbba flísarnar í sturtunni, taka til... allskonar svoleiðis. Mikilvægast er þó að fara út að hlaupa. Og það gerði ég snemma í morgun. Ég hafði gleymt að slökkva á vekjarklukkunni sem er forrituð til að hringja mánudag til föstudags klukkan 4:55. Ég þóttist reyndar ekki hafa tekið eftir þeirri hringingu en fór út við "þú þarft að hlaupa á eftir strætó" hringingu klukkan 6:15. Og hljóp mitt besta hlaup hingað til. Eftir upphitun og teygjur lagði ég af stað og komst inn í einhvern takt, einhvern andlegan stað þar sem ég gat skipt á milli þess að einbeita mér aðeins að því hvernig líkama mínum leið og á milli nokkuð árangursíkra hugleiðinga um hvert ég er að stefna og hvað ég vil fá frá sjálfri mér, um hvað ég þarf að gera til að líða vel í eigin skinni og hvað ég þarf að gera til að öðlast innri frið. Ég fann taktinn í dag. Vanalega eru hlaupin mér dálítið erfið. Ég elska eftirtilfinninguna en hef hingað til þótt erfitt á meðan ég er að hlaupa. Í dag er eins og lungun mín hafi stækkað og geti meira, mjaðmir og læri eru sterkari og allt er eins og það sé að smella saman. Og hvað þetta var yndislegt, að fá góðu tilfinninguna ekki bara eftir á heldur á meðan líka!

Og svo hefst annar sólríkur dagur í Wales.

sunnudagur, 24. júlí 2011

Ég var aftur orðin 86.3 kíló í morgun. Það er enn minnsta talan sem ég hef séð á vigtinni. Það sem er mikilvægara er að mér líður vel. Og ég ætla að halda áfram að láta mér líða vel.

Dýragarðurinn í Chester í dag, sól og blíða og ekki eftir neinu að bíða.

fimmtudagur, 21. júlí 2011

Ég hef áhyggjur af því að fara í frí. Að undanförnu hef ég nefnilega bara haft fingurgómatak á sjálfri mér. Að undanförnu hefur mig langað til að borða. Þessi löngun til að borða er miklu djúpstæðari tilfinning en að vera svöng eða að langa í "eitthvað gott". Mig hefur langað til að borða á einhvern hátt sem er mun kröftugri og frumstæðari tilfinning en bara hungur. Og ég get ekki annað en viðurkennt upphátt að ég er greinilega matarfíkill. Ég held reyndar að það sé engin spurning um að maður verði ekki 130 kíló án þess að það sé eitthvað að því hvernig maður notar mat svona í grundvallaratriðum. Mér tekst að mestu leyti að halda í við þessa fíkn mína og ég held að sú staðreynd að ég stunda reglulega líkamsrækt og elda hollan mat hafi leitt mig til þess að trúa því að ég sé ekki fíkill, eða a.m.k. að ég hafi nægilega stjórn á fíkninni til þess að þetta sé ekki vandamál lengur. En mér datt í hug í dag að nú þegar rútínan sem ég legg allt mitt traust á er að fara að riðlast eitthvað til að ég þyrfti kannski að fara að skoða betri stjórn á fíkninni en það sem ég hef gert hingað til. Ég trúi því ekki að ég geti ráðið niðurlögum hennar en ég er líka með það á hreinu að ég geti gert eitthvað til að forðast þennan hringferil sem ég fer í; allt æðislegt ekkert mál, oftrú á velgengni, ofát, baráttan við að ná tökum aftur, líða betur, allt æðislegt ekkert mál, oftrú á velgengni, ofát, barátta... og svo framvegis og framvegis. Ég er greinilega í niðursveiflu akkúrat núna. Tveir sunnudagar í röð þar sem ég lofa sjálfri mér að borða minna en ég svo geri, og vika sem fylgir á eftir þar sem ég borða eins og púritani uppfull iðrunar. Þetta er leiðinlegt ferli og mig langar til að brjótast út úr því. Það fer óskaplega í taugarnar á mér þegar ég stend ekki við það sem ég lofa sjálfri mér. Þegar ég skoða það sem ég hef gert hingað til og hefur skilað mér besta árangrinum er þegar ég breyti hegðunarferli. Og ég er núna greinilega búin að koma mér aftur upp hringrás hegðunar sem er ekki að skila vellíðan, hamingju eða árangri. Ég er að hugsa um að skoða hugleiðslu til að læra tækni til að róa hugann, róa þessa frumhvöt að borða. Ég er vanalega illa tengd við alheiminn og krafta hans, til þess er ég of sjálfhverf, en ég held líka að ég hafi litlu að tapa. Ég hef í þessu ferli mínu opnað hugann (og líkamann) fyrir allskonar nýjum hugmyndum og því ekki hugleiðslu? Og kannski finn ég þetta blessaða jafnvægi sem ég er alltaf að leita að.

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Frá og með föstudegi klukkan fimm erum við öll komin i sumarfrí. Skólinn hans Láka lokaði núna á þriðjudaginn og við Dave komumst svo loksins í frí núna á föstudag. Það er ekki á áætlun að fara langt frá Plas Cerrig, við ætlum að reyna að hafa fríið létt og skemmtilegt héðan að heiman. Við höfum reyndar ekki í hyggju að sitja í garðinum heima, við ætlum að kanna allt sem við öll þrjú höfum gaman af hér í næsta nágrenni. Þegar við settumst niður og lögðum öll hugmyndir í púkkið kom í ljós að í fyrsta lagi höfum við ekki tíma til að gera þetta allt saman, við þurfum að velja og hafna af listanum og svo er það hitt að þegar við lögðum saman hvað allt þetta myndi kosta vorum við komin upp í ferð til Íslands sem er ekki á fjárhagsáætlun þannig að við þurfum líka aðeins að velja það besta úr til að halda okkur innan áætlunar. Eftirfarandi eru hugmyndirnar sem upp hafa komið, við sjáum svo til hvað við veljum að gera.

Það er eiginlega alveg ómögulegt að taka sumar án þess að heimsækja Chester Zoo. Í sumar hafa þeir sett upp sýningu um risaeðlur sem hefur fengið sérstaklega góða dóma. Við erum vön að pakka niður pikknikk og eyða svo deginum í góðu yfirlæti þar og að hafa risaeðlur sem eitthvað nýtt að sjá er skemmtileg tilhugsun. Ég gæti reyndar eytt heilum degi í leðurblökuhúsinu, það er sko í algeru uppáhaldi hjá mér.

Lúkas bað um að fá að fara í Sealife centre. Hann er alveg heillaður af hákörlum og fiskum og þarna er víst hægt að ganga í göngum undir vatnið og sjá fiskana synda fyrir ofan mann. Örugglega ágætis skemmtun og ég fann afsláttarmiða sem segir BOGOF þannig að ég geri ráð fyrir að við skoðum þetta. Ekki að ég geri mér neinar grillur en það er líka IKEA í Warrington þannig að kannski væri hægt að renna þar við á leiðinni heim. Ég á engin glös....
Það er svo engin spurning um að við förum í Legoland, Manchester. Lúkas er búinn að bíða eftir þessu í hálft ár núna og er búinn að vera að safna penníum sem hann finnur út á götu til að geta keypt sér Lego Star Wars Chewbacca. Ég er eiginlega bara spennt líka út af því hversu spenntur hann er. Sjálf er ég svo rosalega svag fyrir Portmeirion. Það er þorp sem var byggt af smá klikkuðum arkitekt hér á vestur strönd Wales og allt í mismunandi arkítektúr og er rosalega spes að sjá. Ef einhver man eftir sjónvarpsþáttum sem hétu Cold Feet þá fór hópurinn þangað til að dreifa ösku Rachel. Mig er búið að langa til að fara þangað síðan ég flutti hingað og sá heimildamynd um staðinn, þetta er svo rosalega spes.

Við erum vön að fara í sunnudagsrúnta hingað og þangað. Hér er rosalega fallegt og margt að sjá í náttúrunni. Merkilegastir finnast mér alltaf allir kastalarnir sem eru hér út um allt í misgóðu áskigkomulagi. Við eigum eftir að sjá Harlech Castle. Ég sé fyrir mér pikknikk og næs göngutúr um svæðið.
Það er alltaf gaman að skreppa til Llangollen og þá sérstaklega til að fá sér að borða. Þar eru fullt af litlum sérkennilegum sérverslunum sem ég fæ allskonar olíur og krydd og þar er líka fallegt um að litast. Þar er líka skemmtileg á sem er hægt að vaða í þannig að við ættum öll að finna okkur eitthvað til dundurs.
Við Dave værum svo alveg til í kvöldferð til York. Skilja Láka eftir hjá frændum sínum og gista eina nótt á hóteli í York og fara á draugarölt, skoða borgina, fara út að borða og taka svo lest heim aftur daginn eftir. Bara svona til að gera eitthvað skemmtilegt og öðruvísi.
Okkur var líka bent á Crocky trail sem er bráðskemmtilegur eins og hálfs kílómetra langur "róló" þar sem börn og fullorðnir ganga í gegnum ýmsar þrautir sem eru bæði skemmtilegar og reyna smávegis á. Hljómar skemmtilega og ekki verra að fá smá líkamsrækt út úr skemmtuninni. Svo verður maður að fá smá menningu og við höfum í hyggju að kíkja á nýja safnið okkar hér í Wrexham þar sem ný er sýning sem ber yfirskriftina Welsh Wonders og á að kynna fyrir börnum og fullorðnum allt sem er gott og fallegt hér í Wales. Ekkert að því að vera smá menningarlegur í fríinu. Við getum svo dregið úr menningunni og stoppað við á Starbucks og fengið okkur frappucino.
Við förum svo örugglega í lautarferð til Ty Mawr eins og við gerum reyndar oft þegar við eigum frí, þar er bæði fallegt og gott að vera.  Mér datt líka í hug í ljósi þess að ég er enn ekki farin að rækta mitt eigið grænmeti að við gætum kannski farið í Pick your own bóndabæ og náð í grænmeti sjálf. Svo er alltaf gaman að liggja í bakgarðinum og við gætum kannski reynt að byrja á grænmetisræktinni. Ég hef svo að sjálfsögðu í hyggju að halda uppi reglulegum hlaupum og vöðvaáreynslu ýmiskonar ásamt því að drekka smávegis af rauðvíni, hvítvíni og bjór. Ég er bara hálfþreytt eftir þetta allt saman. Þyrfti að fá frí eftir fríið!

þriðjudagur, 19. júlí 2011

Um daginn skildi ein af stelpunum á hlaupanámskeiðinu eftir þau skilaboð á umræðuborðinu að hún væri þreytt á þessu öllu saman, þetta væri of erfitt, að hún hefði ekki búist við að þetta væri svona erfitt, henni væri illt í sköflungunum, hún nennti ekki á fætur fyrr á morgnana til að koma hlaupunum að og svo framvegis og framvegis. Hún fékk þó nokkur svör frá hinum konunum þar sem þær vorkenndu henni fyrir að vera svona þreytt og stungu upp á ýmsum ráðum við því (fara fyrr að sofa, drekka heita mjólk, slökkva á sjónvarpinu hálftíma áður en hún færi að sofa) eða þá að hún fékk meðaumkun yfir sköflungunum (hún ætti að fá kærastann til að nudda sig, hún þarf að setja klaka á bágtið, hún ætti að fá sér smávegis súkkulaði af því að hún ætti það skilið). Hún skildi svo eftir skilaboð með mynd af fjórum cupcakes sem hún ætlaði að borða sem verðlaun fyrir að vera svona dugleg að fara út að hlaupa þó svo að henni væri illt í fótunum. Mér brá smávegis yfir viðbrögðunum hjá sjálfri mér. Ef ég segi satt og rétt frá þá varð ég bálreið, út í hana og aumingjaskapinn, út í hinar konurnar fyrir að leggja aumingjaskapnum lið, út í sjálfa mig fyrir að vera svona skilningslaus á þjáningar feitu stelpunnar. Mig dauðlangaði til að skilja eftir skilaboð sem bentu henni á að hún hefði skrifað langa pistla í upphafi námskeiðins um hversu leið hún væri orðin á að vera þetta feit, að hún ætti það inni hjá sjálfri sér að leggja vinnuna á sig til að létta sig. Hvort hún væri búin að gleyma nú þegar hlaupin eru orðin aðeins erfiðari að það fæst ekkert ef maður leggur ekki eitthvað á sig? Mig langaði líka til að benda henni á að í staðinn fyrir fjórar kökur hefði hún kannski frekar átt að kaupa sér kælikrem á sköflungana eða betri hlaupaskó. Aðallega langaði mig þó til að segja henni að halda kjafti og drulla sér út að hlaupa. Að þetta væri ekki flóknara en það. Bara halda kjafti og hlaupa. Og svo skammaðist ég mín fyrir að vera svona harðsvíruð. Auðvitað veit ég hvað þetta er mikil barátta og hvað þetta er erfitt. Ég er að berjast akkúrat núna. Er á jafnsléttu og er að berjast við sömu þrjú kílóin og er mikið búin að gæla við uppgjafarhugsanir að undanförnu. Ætti ég ekki að sýna meiri samúð, meiri samkennd? Kannski að ég varð svona reið yfir þessu afsakanahlussugrenji í henni af því að ég heyri í sjálfri mér segja sömu hlutina? Og hvað segi ég við sjálfa mig? Haltu kjafti og haltu áfram að hlaupa.

sunnudagur, 17. júlí 2011

Súper lífsglöð egg.
Ég hef reynt að hafa það fyrir reglu að kaupa hamingjusöm egg. Að undanförnu hef ég þó mestmegnis neyðst til að kaupa í meðallagi ánægð egg þar sem allar klær eru núna úti til að halda sig innan fjárhagsáætlunar. Og hamingja hænsna er ekki ókeypis. Ég er greinilega ekki meiri prinsipp manneskja en svo. Ég fékk svo gefin í gær egg sem ég veit fyrir víst að eru 100% yfir sig ánægð með lífið og tilveruna. Mamma vinar hans Lúkasar heldur hænur og reyndar endur líka ásamt því að rækta allskonar grænmeti í bakgarðinum hjá sér. Vinur hans Lúkasar kom í heimsókn í gær og þegar ég skilaði honum aftur heim var ég leyst út með nokkrum heimaalnum hænueggjum. Ég tími ekki að nota þau í eggjamúffur eða bakstur, ég ætla að nota þau alveg hrein í ommilettu, til að finna bragð- og gæðamun, ef einhver er. Það er eitthvað alveg spes við svona heimaræktað. Ég sé þetta alveg í hillingum, þetta með hænurnar og grænmetið. Ég er með dágóða landspildu hér á bakvið og ef ég væri alvöru manneskja þá væri hér kominn lítill húsdýragarður og grænmetisrækt. En hillingar og ímynd er ekki það sama og alvara. Ég hef síðan ég breytti um lífstíl séð það fyrir mér að ég myndi setja á mig garðhanska og drífa mig þarna út og sá og rækta en það hefur enn ekki gerst. Það fer svo fallega saman, nýja Svava og Heimaræktað grænmeti. Ég er reyndar við að gefa upp vonina um að ég geti breytt mér svo mikið úr þessu. Er grænmetisrækt ekki eitthvað sem er í blóðinu á fólki? Og hún er svo sannarlega ekki í mínu blóði, þar er bara salt og sandur. En svo hugsa ég um mig sem hlaupara og held í vonina örlítið. Ef ég gat byrjað að hlaupa er í alvörunni svo fjarstæðukennt að ég geti sáð nokkrum kartöflum?

laugardagur, 16. júlí 2011

Í þessari viku hef ég ákveðið að rétt skuli vera rétt. Og það er óréttlátt að ég þurfi að miða þyngd mína við aðrar meðalkonur af minni hæð sem klárlega þurfa ekki að burðast um með 6 kíló af mjólkurkirtlum með sér. Í nafni réttlætis og alls þess sem er fallegt og gott hef ég því ákveðið að draga 2.5 kíló af heildarþyngd minni til að jafna leikinn. Og segist því hér með vera 84.5 kíló í réttlátum og jöfnum heimi.

Í næstu viku; Ég rannsaka meðalþyngd mannshöfuðs og leiði líkur að því að ég sé óeðlilega höfuðstór. Hver segir svo að það sé erfitt að létta sig? Þetta er bara spurning um réttlæti og meðaldreifingu.

föstudagur, 15. júlí 2011

Góð byrjun
Meðfylgjandi þessum kaffiáhuga mínum var eiginlega bara tímaspursmál þangað til að ég færi að skoða biscotti, hefðbundna ítalska kaffismáköku. Grunnurinn að biscotti er einfaldur og það ætti að vera minnsta málið að endurhanna uppskriftina þannig að hún sé, ef ekki holl, þá hollari. Það er bara eitthvað svo ægilega smart við að sötra Lavazza kaffi lagað uppá ítalska mátann og maula heimagert biscotti með. Ég er heltekin af því að þykjast að vera kontinental og smart. Fyrsta tilraun var bara alveg hreint ágæt. Hingað til hef ég aldrei nennt að spá í biscotti út af þessu tvíböku dæmi, virkaði allt of flókið. En svo var þetta bara ekkert mál. Ég notaði kókóshnetuhveitið mitt og pálmasykurinn, ásamt ristuðum kassjú hnetum og cacao nibs. Bara það sem ég átti í skápnum. Ég ætla að fara til Chester á sunnudaginn held ég samt og kaupa mér tilbúið kexið til að hafa til samanburðar svo ég geti haldið áfram að þróa mitt eigið. Hef nú samt ekki í hyggju að gera þetta að neinum vana, mig langar til að halda kaffivananum mínum óspilltum og ótengdum við kexát. En neita ekki að þetta var ljómandi góður morgunmatur eftir hlaup í morgun; mjúkur hvítur froðukaffibolli og biti af biscotti.

miðvikudagur, 13. júlí 2011

"Það er auðveldara að halda bara áfram en að byrja upp á nýtt." Þannig hef ég ákveðið að ég ætla ekki að kalla það að byrja upp á nýtt í hvert sinn sem ég misstíg mig en frekar að hugsa það sem ég sé að halda áfram. Og ég hugsa að þetta sé líka góð ráðlegging til þeirra sem eru að feta sig áfram á þessum lífstílsgöngustíg. Það er engin ástæða til að bíða með þetta, að bíða gerir verkefnið bara stærra og erfiðara og ef einhverjar misfellur verða á þessu þá er best að halda bara áfram. Ekki hætta og byrja upp á nýtt seinna.
Rosalega er ég mikil mannvitsbrekka.
Ein af ástæðunum fyrir því að ég dreif mig út að hlaupa á laugardagsmorgunn síðastliðinn var hvernig hlaup láta mér líða. Mér finnst ég alltaf vera svo máttug þegar ég er búin að hlaupa. Á meðan að lyftingar eru uppáhaldið þá eru þær það sjálfsagt af því að ég er sterk nú þegar; ég get lyft og gat það líka á meðan ég var feit. Feitari. Nei, feit. En hlaupin eru svo fjarstæðukennd ennþá að ég fyllist alltaf einhverri ofurkonu tilfinningu þegar ég hleyp. Og Ofurkonan ég er svakalega mikil kynvera. Þannig að vitandi að ég ætlaði í lítinn svartan kjól og í hæla á laugardagskvöld langaði mig til að ýkja þessa kynþokka tilfinningu og það að hlaupa gerir það fyrir mig. Ég held að þetta sé einn af jákvæðum fylgifiskum þess að vera líkamlega aktívur sem lítið er talað um. En það er engin spurning um að maður hressist allur við í kynlöngun. Ég man eftir að hafa lesið það einhverstaðar að kynlöngun er það fyrsta sem fer þegar fólk berst við þunglyndi. Og það er ekkert ósvipað þegar maður er svona feitur. Fyrir utan líkamlegu hliðina sem einfaldlega þýðir að loftfimleikar miklir eru bara ekki möguleiki þá er ég orðin sannfærð um að það eru einhver efnaskipti svipuð þunglyndi sem rænir manni kynlöngun. Kannski er það bara að þegar maður liggur afvelta út af í sófanum með súkkulaðið í munnvikjunum að þá er kynlíf það síðasta sem maður hugsar um. Ég er ekki að tala um hversu aðlaðandi maður er samkvæmt einhverjum stöðlum, það er einstaklingsbundið hvað fólki finnst aðlaðandi og kynþokki er ekki mældur í mittismáli. En það er líka engin spurning um að það að vakna á morgnana yfirfullur af útgeislun og orku smitast út í alla þætti lífsins. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu. Að þessi máttugleiki væri samtvinnaður við kynþokka. Hopsassa.
Á sex ára brúðkaupsafmælinu.

þriðjudagur, 12. júlí 2011

Í þessari viku er ég að sjá um kvöldvaktina hjá okkur í vinnunni. Við erum með hóp af fólki sem er að reikna út aukavexti á sparnaðarreikningum tengdum skattaafslætti (engar áhyggjur ég byrjaði að hrjóta af leiðindum yfir þessari setningu líka) og í gærkveldi byrjuðu 15 nýjir starfsmenn. Ég var beðin um að taka þau að mér, fara yfir "health & safety", fara yfir helstu reglur og siði og fara svo í gegnum starfsþjálfun með þeim. Þetta er ágætis tilbreyting frá mínu daglega starfi en vinnutíminn heldur ósiðlegur; frá 4 til 10 á kvöldin. Svona eins og í gömlu vinnunni. Þetta þýðir að ég hef allan morguninn út af fyrir mig hér heima. Sem er auðvitað alveg hreint ljómandi gott, ég þreif kofann í gær frá rjáfri og niður í rafta og kom lagi á þvottahúsið. Og var syngjandi kát. Í dag er ég svo búin að vera andlaus og orkulaus. Hef grun um að ég sé í einhverskonar sykurlosti síðan á sunnudaginn. Ég fór gersamlega yfir strikið í sykurneyslu þá en fór svo yfir strikið í hina áttina í gær og borðaði allt of lítið. Er skjálfhent og með svima í dag. Er stressuð inni í mér, yfir hverju veit ég ekki, og líður rosalega illa. Er með tárin svona rétt innan við hvarma. Mikið sem það er furðulegt að þetta snúist allt um efnafræði þegar öllu er á botni hvolft. Að snickers á sunnudaginn og svelti í gær hafi þessi áhrif á mig í dag. Ég er búin að fara út að hlaupa en endorfínin þar dugðu ekki til að láta mér liða betur. Best ég grenji núna bara í smástund og þá verður örugglega í fínu lagi með mig.

sunnudagur, 10. júlí 2011

Ég var 86.3 kíló á laugardagsmorgun. 500 grömm frá í þessari viku og ég eins sleek og sexí og hugsast gat á laugardagskvöld þegar við Dave minn héldum upp á 6 ára brúðkaupsafmælið. Vá, hvað mér fannst ég vera sæt! Eins og svartur köttur.Ég gleymdi myndavélinni en ein þjónustustúlkan tók mynd og ætlaði svo að senda mér hana í tölvupósti þannig að vonandi fæ ég mynd von bráðar. Við fórum á The Lemon Tree sem er einn af fínni veitingastöðunum hér í Wrexham. Kannski meira style over substance, það er voðalega smart og fínt og „hannað“ þar inni og þjónustan mjög góð. Maturinn var fallegur og fínt framsettur en ef ég á að segja satt og rétt frá þá var hann rétt í meðallagi góður. Ég ætlast alltaf til þess að fá á veitingastað eitthvað sem ég get ekki eldað sjálf en allt sem við borðuðum var eitthvað sem ég hefði getað gert betur. En vínið var gott og félagskapurinn ljómandi, við störðum djúpt í augu hvors annað og andvörpuðum af ást og ánægju með að hafa fundið hvort annað svona yfir höf og lönd. Þannig að ég lét matinn ekkert spilla neinu fyrir mér. Svo röltum við aðeins um Wrexham og skoðuðum mannlífið á laugardagskveldi og skemmtum okkur konunglega.
Ég var ekki 86.3 kíló í morgun eftir allt þetta vín og pasta og crostini. Svo ekki sé minnst á beikon samloku og chunky kit kat og ýmislegt fleira smálegt sem rataði inn fyrir mínar varir í dag. En þessi vottur af þynnku er að gera mig voðalega kærulausa og ég ætla bara að segja það: mér er skítsama þó ég þyngist um tvö kíló. Það var rauðvínsins og rósanna virði.

föstudagur, 8. júlí 2011

Einhverstaðar las ég eða heyrði kenningu sem segir að það sé ekki hægt að haga sér andstætt við það sem maður trúir um sjálfan sig. Þannig að ef maður vill breyta hegðunum sínum þá hreinlega verður maður að breyta hvernig maður hugsar um sjálfan sig. Þetta var eitthvað sem mér datt í hug um daginn eftir eina hlaupaaæfinguna. Ég var í fínum hlaupaskóm. Pari númer tvö sem ég hef eignast. Ég var í fínu adidas hlaupabuxunum mínum. Ég var með hárið í tagli sem sveiflaðist. Ég var með i-pod í armbandi á upphandlegg. Ég var búin að hlaupa tæpa fjóra kílómetra. Ég leit út einsog hlaupari og ég var að gera það sem hlauparar gera. Og samt hikaði ég við að kalla sjálfa mig hlaupara. Þannig að ég byrjaði að gera hugaræfingar. Ég endurtók aftur og aftur; "Ég hleyp, ég er hlaupari, ég hleyp, ég er hlaupari." Og undanfarna daga, sérílagi nú þegar tímarnir mínir og tæknin bætist stöðugt er ég farin að trúa sjálfri mér. Ég er hlaupari.

Sem færir mig svo að hinu. Ég borða hollan og góðan mat. Ég er afskaplega meðvituð um næringarefnin sem ég fæ. Ég nýt þess að hugsa vel um líkama minn. Ég þjálfa líkama minn. Ég er meðvituð um hegðan mína og hugsanir. Ég reyni stanslaust að endurbæta viðhorf mín og hegðun gagnvart mat. Ég er hraust og heilbrigð. Ég get verslað föt í venjulegum búðum. Ég hugsa um sjálfa mig sem hlussu. Hang on a moment! Þetta passar ekki! Hér fara ekki saman staðreyndir og ímyndin sem ég hef af sjálfri mér. Og hvernig get ég ætlast til þess að ég hagi mér í alvörunni í samræmi við heilbrigðan lífstíl ef ég innst inni hugsa um sjálfa mig, og haga mér þar af leiðandi, sem hlussu? Ef ég vil breyta hegðan minn verð ég breyta þvi hvernig ég hugsa um sjálfa mig. Hlussan bara verður að fara. Og ef ég get hugsað um sjálfa mig sem hlaupara, eins fjarstætt og það er, þá hlýt ég að geta hætt að hugsa um sjálfa mig sem hlussu.

Ég á bara eftir að sakna hennar. Elsku hlussan mín.

fimmtudagur, 7. júlí 2011

Nú er heldur betur hart í ári. Við höfum svo sem fundið fyrir því síðastliðið rúmt ár eða svo að það er ekki allt eins og á að vera í fjármálaheiminum. Ég missti fínu vinnuna mína og þurfti að taka mun verr borgað starf. Dave hefur ekki fengið launahækkun í þrjú ár. Og á sama tíma hækkar allt. Ég gat fyrir ári síðan keypt tveggja vikna matarkörfu fyrir 100 pund en núna dugar þessi sami peningur í viku. Bensín, tryggingar, allt hækkar og hækkar. Allt nema launin. Og það er sama sagan í verslunageiranum. Nú berast fréttir af því að eldgamlar verslunarkeðjur séu að loka. Ég er enn með samviskubit yfir Woolworths og þátti Íslendinga í því gjaldþroti. Og núna Jane Norman, Habitat og fleiri. Mér er nú nokk sama um Jane Norman, ég hef aldrei verslað þar, var allt of feit fyrir ekki svo löngu síðan og komst ekki upp á lag með að fara þangað inn síðan að ég minnkaði. En Habitat get ég ekki einu sinni talað um ég er svo sorgmædd yfir því að þeir séu að loka. Lokaútsalan búin að vera núna í nokkra daga í Chester og ég hef hvorki tíma né pening til að fara þangað. Mig langar bara til að grenja yfir þessu. Og svo fór ég algerlega á límingunum yfir fréttunum í dag. Það á að loka Thornton´s. Mér finnst það hreinlega vera mér að kenna. Ég hætti að borða nammi og stuttu síðar fer besta súkkulaðibúðin nánast á hausinn. Það hljóta að vera hér einhver orsakatengsl. Hlussan inni í mér kveinar í angist yfir tilhugsuninni um að fá aldrei aftur Chocolate Smothered Toffee. Í alvörunni fólk. Er þessi kreppa ekki komin út fyrir öll velsæmismörk núna?

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Hvernig stafar maður konnesör?
Það er ekkert auðveldara en að hugsa um mat sem verðlaun, sem eitthvað sem maður "á skilið" ef maður hefur staðið sig vel einhverstaðar, eða ef manni vantar eitthvað til að nota sem smyrsl á sálina. Ég hugsa enn um mat sem verðlaun. Þetta er hugsunarháttur sem ég er að reyna að breyta á mjög meðvitaðan hátt en hefur tekist svona upp og ofan. Þegar ég fyrst reyndi að byrja að breyta til þá þurfti heldur mikið til svo ég væri ánægð með það sem ég fékk í staðinn fyrir mat. Þannig verðlaunaði ég sjálfa mig með nýrri flík þegar ég hefði kannski áður fengið köku eða snickers. Og eins fínt og það er að fá nýja brók með nokkuð reglulegu millibili þá er náttúrulega ekki langt þangað til að það fer að kreppa að veskinu. Og ég þurfti að láta mér detta eitthvað annað í hug. Það þarf að vera eitthvað djúsí og spes, eitthvað sem kemur í stað fyrir mat og er nógu sérstakt til að það sé "trít" en má ekki kosta mikið. Og ég er komin með svarið. Kaffi. Ég er svo lukkuleg að það er komin hérna í Wrexham sérverslun með kaffi ásamt því að nú eru hér tvær kaffihúsakeðjur. Hér er enn ekki almennilegt sjálfstætt kaffihús en ég bíð bara róleg eftir því. Þannig að núna er ég að þykjast að vera svona kaffi connoisseur. Kaupi sem verðlaun mismunandi tegundir af kaffi, helli upp á með viðhöfn og smakka spekingslega á. Þetta finnst mér óskaplega gaman og góður kaffibolli dugar langt til sem dægrastytting þegar mig langar í einhverja vitleysuna. Ég er búin að búa mér til svona ritual í kringum kvöldkaffibollann minn og ég virðist fúnkera best þegar ég fylgi ákveðnum og settum reglum. Og þetta ritúal hefur ekkert með mat að gera. Ljómandi alveg hreint.

mánudagur, 4. júlí 2011

Mikið óskaplega var gaman á hlaupaæfingu í kvöld. Fyrsti hluti æfingarinnar var nefnilega valhopp. Já, ég valhoppaði um þorpið. Ég var algölluð í adidas frá toppi til táar, ægileg pró útlítandi með i-pod á handleggnum, labbaði aðeins um og byrjaði svo að valhoppa. Ég reyndi eins og ég gat að vera einbeitt á svip, taldi aðeins í, kinkaði kolli svona eins og til að segja "góð æfing, flott" en gafst svo upp á því og byrjaði bara að valhoppa í frjálsu formi með gleðilátum og hamingju. Mikið sem þetta var gaman. Og samkvæmt þjálfaranum þá kennir valhoppið manni ýmislegt sem hjálpar til við hlaupin og ef það kennir mér form og tækni þá er ég meira en til í að hoppa um.

Og svo gat ég ekki annað en hoppað aðeins um af kátínu þegar fyrsta uppskriftin mín birtist á Heilsupressunni í dag. Ég var bara voðalega stolt að sjá nafnið mitt "á prenti". Og ef ég get dreift aðeins boðskapnum þá hlýtur það að vera af hinu góða. Og ég er með fullt af djúsí samsetningum í bígerð.

sunnudagur, 3. júlí 2011

Með 100 gramma fitutapi fagna ég þeim áfanga í dag að vera búin að ljúka 75% verkefnisins. 100 grömm eru nú varla marktækur munur á milli vikna en engu að síður þá var voðalega gaman að sjá prósentuna á excel skjalinu mínu. Þetta miðar að því að ég endi í 71 kílóum. Við sjáum nú svo reyndar til með það. 

Smástund í morgun og ég á morgunmat  og snarl
fyrir heila viku. Þetta er ekkert mál! 
 Ég vaknaði snemma í morgun enda hafði ég steinsofnað í sófanum í gærkveldi rétt eftir tíu. Greinilega þreytt eftir 6 daga vinnuviku. Ég ákvað að baka morgunverðinn minn fyrir vikuna og sá þegar ég var byrjuð að hella höfrum og gulrótum í skál að auðvitað var ég uppiskroppa með lyftiduft. Ég, eins og mamma mín, kemst aldrei í gegnum einn bakstur án þess að þurfa að hlaupa út í kaupfélag. Ekki að það hafi verið neitt svaka vesen, klukkan ekki orðin átta og hitastigið strax komið vel upp að 20 gráðum. Í kaupfélaginu voru þeir með hitann á hreinu og voru að hlaða upp dósum af Ben & Jerry´s ís í lange baner í frystiskápnum. Buy 1, get 1 free. Það er ekkert sem er verra fyrir fólk sem er að reyna að haga sér almennilega að sjá BOGOF tilboð. Og þegar fólk er ég og BOGOFið er Ben & Jerry´s cookie dough Ice Cream og það er strax orðið heitt úti er bara voðinn vís. Vanalega myndi ég ekkert vera að stressa mig á þessu á sunnudegi, myndi bara kaupa ísinn og borða sem nammi vikunnar. En málið er að ég er núna búin að vera að berjast við þessi sömu þrjú kíló í næstum tvo mánuði. Og mér finnst loksins eins og þau séu að fara núna. Og síðast þegar ég borðaði Ben & Jerry þyngdist ég um tvö kíló. Sem tók mig svo viku að ná af mér aftur. Það er eitthvað við samblandið af sykri og rjóma og cookie dough sem líkami minn gúdderar ekki. Og ég bara nenni þessu fokki ekki lengur. En svo datt mér þjóðráð í hug. Ódýri ísinn sem ég borðaði fyrir tveimur vikum var búinn til úr undanrennudufti og var bara alls ekkert slæmur svona út frá karólínum talið. Og þegar ég bjó til ammrísku hafrasmákökurnar mínar um daginn og smakkaði til deigið man ég að hafa hugsað með mér að þetta væri bara alveg eins á bragðið og cookie dough. Ég greip því dós af ódýra ísnum, dreif mig heim og byrjaði að vesenast.
"Svava & Sukk Oatmeal Cookie dough Icecream"
Bjó til gulrótarköku, quinoa köku, eggjamúffur með aspas og smá skammt af hafrakökudeigi. Setti út í það nokkra bita af 70% dökku súkkulaði frá Green & Black´s og varð svo bara að prófa. Náði mér í skál og bjó til minn eiginn Ben & Jerry´s Cookie dough ís. 800 sinnum hollari og bara alveg jafn góður, ef ekki betri vegna þess hversu ánægð ég var með sjálfa mig. Við segjum svo ekkert um að klukkan er ekki orðin ellefu og tilraunaskálin er núna tóm... Ekkert mál, ég og litla fjölskyldueiningin ætlum í Ponciau Park í dag, og þar ætla ég að klifra, hoppa, hlaupa og róla sem ég væri sjö ára gömul. Og ís í morgunmat er alveg það sem sjö ára myndi fá sér ef hann fengi að ráða.