Frá og með föstudegi klukkan fimm erum við öll komin i sumarfrí. Skólinn hans Láka lokaði núna á þriðjudaginn og við Dave komumst svo loksins í frí núna á föstudag. Það er ekki á áætlun að fara langt frá Plas Cerrig, við ætlum að reyna að hafa fríið létt og skemmtilegt héðan að heiman. Við höfum reyndar ekki í hyggju að sitja í garðinum heima, við ætlum að kanna allt sem við öll þrjú höfum gaman af hér í næsta nágrenni. Þegar við settumst niður og lögðum öll hugmyndir í púkkið kom í ljós að í fyrsta lagi höfum við ekki tíma til að gera þetta allt saman, við þurfum að velja og hafna af listanum og svo er það hitt að þegar við lögðum saman hvað allt þetta myndi kosta vorum við komin upp í ferð til Íslands sem er ekki á fjárhagsáætlun þannig að við þurfum líka aðeins að velja það besta úr til að halda okkur innan áætlunar. Eftirfarandi eru hugmyndirnar sem upp hafa komið, við sjáum svo til hvað við veljum að gera.
Það er eiginlega alveg ómögulegt að taka sumar án þess að heimsækja
Chester Zoo. Í sumar hafa þeir sett upp sýningu um risaeðlur sem hefur fengið sérstaklega góða dóma. Við erum vön að pakka niður pikknikk og eyða svo deginum í góðu yfirlæti þar og að hafa risaeðlur sem eitthvað nýtt að sjá er skemmtileg tilhugsun. Ég gæti reyndar eytt heilum degi í leðurblökuhúsinu, það er sko í algeru uppáhaldi hjá mér.
Lúkas bað um að fá að fara í
Sealife centre. Hann er alveg heillaður af hákörlum og fiskum og þarna er víst hægt að ganga í göngum undir vatnið og sjá fiskana synda fyrir ofan mann. Örugglega ágætis skemmtun og ég fann afsláttarmiða sem segir BOGOF þannig að ég geri ráð fyrir að við skoðum þetta. Ekki að ég geri mér neinar grillur en það er líka IKEA í Warrington þannig að kannski væri hægt að renna þar við á leiðinni heim. Ég á engin glös....
Það er svo engin spurning um að við förum í
Legoland, Manchester. Lúkas er búinn að bíða eftir þessu í hálft ár núna og er búinn að vera að safna penníum sem hann finnur út á götu til að geta keypt sér Lego Star Wars Chewbacca. Ég er eiginlega bara spennt líka út af því hversu spenntur hann er. Sjálf er ég svo rosalega svag fyrir
Portmeirion. Það er þorp sem var byggt af smá klikkuðum arkitekt hér á vestur strönd Wales og allt í mismunandi arkítektúr og er rosalega spes að sjá. Ef einhver man eftir sjónvarpsþáttum sem hétu Cold Feet þá fór hópurinn þangað til að dreifa ösku Rachel. Mig er búið að langa til að fara þangað síðan ég flutti hingað og sá heimildamynd um staðinn, þetta er svo rosalega spes.
Við erum vön að fara í sunnudagsrúnta hingað og þangað. Hér er rosalega fallegt og margt að sjá í náttúrunni. Merkilegastir finnast mér alltaf allir kastalarnir sem eru hér út um allt í misgóðu áskigkomulagi. Við eigum eftir að sjá
Harlech Castle. Ég sé fyrir mér pikknikk og næs göngutúr um svæðið.
Það er alltaf gaman að skreppa til
Llangollen og þá sérstaklega til að fá sér að borða. Þar eru fullt af litlum sérkennilegum sérverslunum sem ég fæ allskonar olíur og krydd og þar er líka fallegt um að litast. Þar er líka skemmtileg á sem er hægt að vaða í þannig að við ættum öll að finna okkur eitthvað til dundurs.
Við Dave værum svo alveg til í kvöldferð til
York. Skilja Láka eftir hjá frændum sínum og gista eina nótt á hóteli í York og fara á draugarölt, skoða borgina, fara út að borða og taka svo lest heim aftur daginn eftir. Bara svona til að gera eitthvað skemmtilegt og öðruvísi.
Okkur var líka bent á
Crocky trail sem er bráðskemmtilegur eins og hálfs kílómetra langur "róló" þar sem börn og fullorðnir ganga í gegnum ýmsar þrautir sem eru bæði skemmtilegar og reyna smávegis á. Hljómar skemmtilega og ekki verra að fá smá líkamsrækt út úr skemmtuninni. Svo verður maður að fá smá menningu og við höfum í hyggju að kíkja á nýja safnið okkar hér í Wrexham þar sem ný er sýning sem ber yfirskriftina
Welsh Wonders og á að kynna fyrir börnum og fullorðnum allt sem er gott og fallegt hér í Wales. Ekkert að því að vera smá menningarlegur í fríinu. Við getum svo dregið úr menningunni og stoppað við á
Starbucks og fengið okkur frappucino.
Við förum svo örugglega í lautarferð til
Ty Mawr eins og við gerum reyndar oft þegar við eigum frí, þar er bæði fallegt og gott að vera. Mér datt líka í hug í ljósi þess að ég er enn ekki farin að rækta mitt eigið grænmeti að við gætum kannski farið í
Pick your own bóndabæ og náð í grænmeti sjálf. Svo er alltaf gaman að liggja í bakgarðinum og við gætum kannski reynt að byrja á grænmetisræktinni. Ég hef svo að sjálfsögðu í hyggju að halda uppi reglulegum hlaupum og vöðvaáreynslu ýmiskonar ásamt því að drekka smávegis af rauðvíni, hvítvíni og bjór. Ég er bara hálfþreytt eftir þetta allt saman. Þyrfti að fá frí eftir fríið!