þriðjudagur, 30. júní 2009



Já, það er sko ekkert djók að vera feitur í svona hita. Það er ekki nóg með að úti sé 30 stiga hiti heldur er loftkælingin í vinnunni biluð og það er 44 stiga hiti inni á skrifstofunni. Og vinnan sem ég er að vinna núna þýðir að ég er að burðast með þunga kassa fulla af pappírum upp stiga. Sem þýðir að ég er óþægilega sveitt allan daginn. Og þó að allir hinir í vinnunni séu líka sveittir þá finnst mér einhvernvegin að ég sé sveittari og skítugari. Eins og að fitusviti sé verri en venjulegur sviti. Mér finnst einhvernvegin að ég hafi minni rétt til að vera heitt og líða illa vegna þess að ég er feit. Er að hugsa eitthvað á þá leið að ef ég væri grönn þá myndi mér ekki vera svona heitt. Og þá má ekki láta á neinu bera, ég ætla ekki að vera gripin við að vera sveitt af því að ég er feit. Ég fylgist vandlega með granna fólkinu til að sjá hversu sveitt það er, og er á fullu allan daginn að finna aðferðir við að kæla mig niður til að láta ekki á neinu bera. Það er alveg krúsjal að fólk geti ekki sett samasem merki á milli þess að mér sé heitt og að ég sé feit. Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að aðrir hugsi ekki um mig sem feita manneskju, og þá á ég ekki við hvernig ég lít út heldur meira hvernig ég er. Ég þoli ekki tilhugsunina að fólk hugsi um mig sem sveitta, skítuga, "jolly", lata, með enga sjálfstjórn og heimska. (By the way þetta er mitt álit á feitu fólki!) Þetta er allt saman merkileg stúdía því á sama tíma finnst mér mikilvægt að ég sé í hópi með feitu fólki sem "skilur" mig og ég er sannfærð um að ég væri ekki ég ef ég væri ekki feit. En samt vil ég ekki vera feit. En ég vil hugsa feitt. Get ég fengið að vera grönn útvortis en haldið feitum hug og hjarta? Do ya feel me!

mánudagur, 29. júní 2009



Ég alveg hreint elska Starbucks kaffi. Ég er ekki alveg nógu ánægð með að vera svona hrifin af því vegna þess að Starbucks er náttúrulega ábyrgt fyrir að skemma lítil einkarekin kaffihús, og svo hafa þeir verið ásakaðir að skemma umhverfið og borga illa og almennt vera svínslegir imperíalistar. En í stíl við alla vöntun á pólitískri rétthugsun og pönki í mig þá elska ég Starbucks. Mér finnst kaffið ógeðslega gott, og allt kruðeríið er jömmí og Frappucino Light er ljúffengur og bara 140 kalóríur en mest af öllu elska ég hlutina sem er hægt að kaupa hjá þeim. Kaffibolla og kaffivélar og hrærur og allskonar dót. Og í gær eignaðist ég það besta af öllu; hita-og kuldaferðakaffibolla. Þannig að núna get ég farið með smoothie í vinnuna og hann er kaldur og ljúffengur allan daginn. Er ekki lukkan yfir mér alltaf hreint?

laugardagur, 27. júní 2009


Bretar er málglaðasta þjóð sem ég hef fyrirhitt. Það er nánast útilokað að lýsa þessu fyrir utanaðkomandi, fólki dettur sjálfsagt ekki í hug vingjarnleg og málóð þjóð þegar það er hugsað um Breta. Manni þætti að þeir eiginleikar væru kannski sunnar í álfunni. En ég er að segja ykkur ég hef aldrei kynnst öðru eins. Maður fær hvergi frið, allir eru röflandi við mann daginn út og daginn inn. Allstaðar fitjar fólk upp á umræðuefni; á strætóstoppistöð, í strætó, í biðröð í búðinni, við afgreiðslumanninn, á biðstofu, í vinnunni, allstaðar á maður von á að ókunnugur segji: "Lovely weather we are having, isn´t it?" eða "what a miserable day, isn´t it?" Og flestar setningar enda á "oh, well mustn´t grumble!". Og sonur minn og eiginmaður eru engar undantekningar, þeir röfla allan daginn, ég held að ég hafi aldrei hitt barn sem talar jafn mikið og Lúkas. Ég er búin að taka dálítinn tíma í að venjast þessu, er með vöntun á því sem mamma kallar spjallgenið. Hún er ekki með það heldur og ég hef verið smá óheppin þar því pabbi er með þetta gen, og Kalli fékk það frá honum. Mér fannst þetta rosaleg erfitt fyrst, vissi ekki hversu ýtarlega maður á að svara. En ég er búin að sjóast í þessu, það eru vissar setningar sem eru notaðar og þegar maður er búin að læra þær þá getur maður spjallað eins og innfæddur. Þetta er samt smá vandamál í vinnunni. Ég var farin að hafa svakalegar áhyggjur að ég væri að gera eitthvað vitlaust af því að ég var alltaf búin með öll mín verkefni langt á undan öllum öðrum. Þær hinar kvarta yfir stressi og tímaleysi og eru á barmi taugaáfalls yfir álaginu en ég vafraði um skrifstofuna í leit að fleiri verkefnum. Ég ákvað því að ég hlyti að vera að missa af helmingum af vinnunni. En gat ekki fundið neitt verra við mín verk en þeirra. Og svo fattaði ég hvað var að. Ég kem í vinnunna, vinn verkefnin mín og leita svo að fleirum, á meðan að samstarfsfólk mitt eyðir klukkustundum saman í spjall. Bara rölt um svæðið og stoppað og spjallað allan daginn. Ekki nema von að það sé engin vinna unnin! Ég er því byrjuð að æfa mig í þessu og hver veit nema að það sé hægt að þjálfa sig í spjalli svona eins og það er hægt að byggja upp vöðva?

fimmtudagur, 25. júní 2009

Í morgun voru farin ein 600 grömm. Sem ég er hæstánægð með. Enda eru það 600 grömm af hreinni fitu. Og ég þarf að taka tilbaka orðið "matarfíkill". Ég er ekki matarfíkill lengur, ég er matarástríðumanneskja, en ég er ekki fíkill. Fíkill er neikvætt orð og ég er bara jákvæð. Já, já, já!

miðvikudagur, 24. júní 2009

Una og mamma báðu um þessa uppskrift. Mér finnst alltaf smá erfitt að gefa uppskriftir af því að ég bara sulla einhverju saman og sé svo hvað gerist. Ég man sjaldnast nákvæmlega magn og svoleiðis. En þetta er svona nokkurnvegin eins og ég man þetta.

Grænmetisbaka:

300 g fitusnauð kotasæla,
4 egg
1/4 bolli rifinn parmesan
2/3 bolli spelt eða heilhveiti
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
sketta af möluðum svörtum pipar
svetta af vatni

Allt hrært saman og svo setur maður út í grænmeti sem til er í húsinu eða skinku bita eða beikon bita eða bara það sem manni dettur í hug. Ég get ekki mælt magnið af grænmetinu, það er svona uþb 2 gulrætur, 2 courgettes, 10 sveppir, 1 blaðlaukur, smá brokkólí, gott handfylli af spínati, 2 kramdir hvítlauksgeirar eða bara það sem er til og það sem er gott. Svo smyrja lausbotna hringform með ólívu olíu og baka við 190 í 40 mínútur. Það er líka ógeðslega gott að rífa niður mozzarella og blanda saman við áður en bakað er en það náttúrulega hækkar aðeins hitaeiningar.
Og Kristín, portobello sveppirnir,þú verður að elda þá sjálf en það er ekkert mál! Ég læt uppskriftina fylgja með, þeir eru svo góðir.

Skafa tálknin innan úr sveppunum og setja svo á bökunarpappír inn í ofn með magann niður. 200 gráður í svona 8 mín. Steikja á meðan rauðlauk, courgette og spínat og smá ferskan basil í smá ólívuolíu á pönnu. Smá pipar. Smyrja svo léttum rjómaosti inn í sveppina, ausa skeið af mexíkó salsa, og svo vel af steiktu grænmetinu. Ofan á það fara svo feta fylltu paprikurnar. Ef það fæst ekki þá er alveg fínt að dreifa geitaosti yfir. Svo aftur inn í ofn þangað til osturinn er gullinn og bubblar. Portobello eru frábærir á grillið líka, grilla fyrst með magann niður og snúa svo við og fylla þá svo af söxuðum tómat, hvítlauk, basil og mozzarella, skella aftur á grillið og láta ostinn bráðna. Eða nota þá í staðinn fyrir hamborgara. Pensla með olíu, grilla og skella svo á brauðbollu með grænmeti og góðri aioli.


DAGUR Í LÍFI MATARFÍKILS


Dagurinn hófst eftir leikfimi úti í garði með skógarberja smoothie. Alveg rosalega hressandi þegar maður er kófsveittur eftir lyftingar og það er 20 stiga hiti úti.


Aftur borðaði ég hádegismatinn úti í garði. Í dag voru það grillaðir portobello sveppir með grænmetissalsa, feta-ost fylltum smápaprikum og salati. Jarðaberin eru svo eftirréttur.



Um fjögurleytið er ég orðin smávegis svöng og þá er gott að fá sér banana með hnetusmjöri og jarðaber. (Þau eru á tilboði í Co-opinu.) Þetta er tölvan mín í vinnunni sem sést þarna í á bakvið.



Ég borða kvöldmatinn í vinnunni, tek með mér afganga eða geri eitthvað gott. Í kvöld voru það túnfiskvefjur og grísk jógúrt með hnetusmjöri í eftirrétt. Pokinn sem sést í bakgrunninn er krúttlegi nestispokinn minn. Hann er japanskur. Er hann ekki sætur?



Og svo lauk ég deginum á einum góðum latte macchiato þegar heim úr vinnu var komið. Mörgum finnst eflaust skrýtið að fá sér kaffi klukkan ellefu á kvöldin en sjálfri finnst mér kaffín bara hafa róandi áhrif eftir langan vinnudag. Góða nótt.

þriðjudagur, 23. júní 2009


Ég naut þess að borða hádegismatinn út í garði í dag; heimalöguð grænmetisbaka og jarðaber í eftirrétt. Einn réttur sem ég er búin að vera að smá laga og ná fullkomnun í. Og það tókst í dag, mikið sem þetta var gott. Hvað um það, ég fylgdist með ruslaköllunum koma og taka tunnuna þar sem ég sat og naut matarins. Og datt þá í hug hvað ég er enn léleg í umhverfisvernd. Mig dauðlangar til að vera meira græn en gleymi því alltaf. Ég er alveg búin að gefast upp á að vera pólitískt réttsýn, þegar ég fer að hugsa um allt það sem er að í heiminum, stríð, hungur, misnotkun, konur grýttar til dauða, listinn er endalaus, þá fallast mér hendur og ég fer bara að gráta. Ég borga 5 pund á mánuði í góðgerðasamtök sem berjast fyrir rétti misnotaðra barna og það er allt og sumt sem ég get gert til að bjarga lítilmagnanum frá vonda fólkinu. Ósköp lítið eitthvað sem maður getur gert. En ég get reynt að endurvinna meira. Og það sem ég hef mestan áhuga á er að henda engum mat. Það eru alveg hreint ótrúleg ógrynni af mat sem fer óétinn í tunnuna. Fólk kaupir allt of mikið og nýtir illa. Það er núna verkefni númer eitt, tvö og þrjú; nýta allt upp til agna. Og það ætti að henta lífstílnum vel því með því að gera matseðla er allt planað og ekkert ætti að fara til spillis.

mánudagur, 22. júní 2009

Við héldum upp á "Father´s day" hérna í gær. Lúkas bjó til kort handa pabba sínum og við elduðum handa honum uppáhaldsmatinn hans, velskt lambakjöt og ávaxtaböku í eftirrétt. Það er alveg svakalega erfitt að finna upp á einhverju öðru en mat til að halda upp á tilefni, eða til að sýna ástúð og umhyggju. Matur táknar gleði og hamingju hér á þessu heimili. Sem betur fer erum við að læra að minnka skammtana bara aðeins. En alveg sömu stóru skammtarnir af hamingju!

Ég er að íhuga bútasaum núna. Ég var að skoða bútasaumsteppi á netinu og er núna svakalega mikið að spá hvort ég gæti búið til rúmteppi. Mig vantar reyndar ekki rúmteppi, en langar bara alveg svakalega til að hafa svona verkefni. En svo hugsa ég um hversu mörg verkefni ég hef í pottunum nú þegar og verkefnin sem ég er búin að plana fyrir næstu mánuði og sé að það er útilokað að ég geti bætt bútasaum við. Fyrir utan hvað ég myndi gera það illa. En samt, ég sé bútasaum fyrir mér sem eitt af þessum "takmarks" verkefnum. Þar sem maður setur sér takmark, vinnur að því og kemst svo í mark. Og fagnar. Jeii! Og akkúrat núna snýst allt lífið um takmark. Sjáum hvað setur.

sunnudagur, 21. júní 2009


Eftir 16 vikur kom loksins að því. Erfiður dagur. Dagur þar sem mig langaði ekki til að gera neitt nema að borða. Og borða og borða og borða og borða. Og borða. Ég er búin að bíða eftir þessum degi í 3 mánuði og það var eiginlega léttir þegar það kom að þessu. Þetta er nefnilega ekki búið að vera neitt mál í allan þennan tíma og mér var farið að líða dálítið eins og ég væri ekki ég sjálf lengur. Allavega, við drifum okkur í góðan göngutúr til Nant Mill til að dreifa huganum frá áti og svo hnyklaði ég sjálfstjórnarvöðvana í allt gærkvöld. Og fyrir utan lófafylli af möndlum (200 kal.) þá hélt ég mig við planið. 1700 kal allt í allt. Ég ákvað því í morgun að verðlauna sjálfa mig fyrir sjálfstjórnina með því að taka til í fataskápnum mínum. Henti öllu teygðu og eða götóttu og blettóttu, setti 24 og 22 í kassa (til að fara með í Oxfam, ég ætla ekki að passa aftur í þetta!) og raðaði því sem eftir var í snyrtilegar raðir. Og fór svo í föt sem ég síðast notaði 2003. Hugsið ykkur ég hef farið 6 ár aftur í tíma! Ég er núna aðeins minni en þegar Feilsporið kom í heimsókn hingað þegar Láki var nokkurra mánaða. Dave getur sagt að konan hans sé nákvæmlega jafn þung núna og daginn sem hann hitti hana fyrst. Ekki amalegt það. Ég er svo stolt af sjálfri mér. Og ég myndi ekki vilja fórna þessari tilfinningu fyrir allt heimsins súkkulaði.

föstudagur, 19. júní 2009


Lúkas tók þátt í árlegum íþróttadegi í skólanum sínum í gær. Hann stóð sig mjög vel, lenti öðru sæti í "egg and spoon race" og þriðja í kapphlaupi. Ég var mest stolt af honum þegar hann tapaði í sekkjakasti og tók því eins og maður. Ekkert væl eða vesen, hann tapaði og það var bara allt í lagi. Hann er smá tapsár svona eins og mamma hans. Ég var líka ánægð með hvað hann var hress með þetta allt saman vegna þess að hann er ekki náttúrulegur íþróttamaður. Hefur mjög lítinn áhuga á íþróttum. Nema ef væri sjálfsvarnaríþróttir. Ég fer með hann í svoleiðs í haust. Tae Kwan do eða Karate.
Annars er föstudagur í dag og bara stuð í gangi. Ég er í miklum móð, tilbúin að takast á við helgina og er búin að plana verulega minnkun á nammidegi. Enn nammidagur en það er komin tími til að stjórna honum aðeins betur. Hlakka til þess.

fimmtudagur, 18. júní 2009

Ég fór "back to basics" þessa vikuna, þ.e. byrjaði aftur að vigta, telja, skrifa niður og gerði vikuáætlun í mataræði. Maður skólast í þessu og smá saman fer að standa meira á eigin fótum en það er alltaf gott að byrja upp á nýtt vegna þess að smá saman fara skammtar að stækka og fleiri vitleysur fá að laumast með. Ég var líka orðin smá nojuð vegna grillveislu og áfengisdrykkju og grillveislu og ógrynnis af súkkulaði rúsínum. Og sem betur fer hefur þessi taktík skilað árangri. 1.2 kg farin. Og allt í allt rúmir 2 steinar ef maður er Breti. Eða 30 pund ef maður er Ammríkani. Ég held að ég gæti ekki verið ánægðari. Nema kannski þegar ég vinn Lottóið. Svo ánægð.

Er Sorbits tyggjó enn selt á Íslandi? Og ef svo er getur einhver keypt pakka af brúnum Sorbits og sent mér? Ég er alveg að drepast úr Sorbits löngun. Eða er til salt lakkrís Extra? Það myndi líka duga. Já, takk!

þriðjudagur, 16. júní 2009

Ætli að það sé hægt að komast á námskeið í strauji hérna einhverstaðar? Í öllum þessum sumarhita er ekki annað hægt en að klæðast í léreft og hör. Já, maður flugsast bara um í léttu og ljósu og krumpuðu. Eins og allir vita er hör alls ekki straufrítt. Og ég er lélegasti straujari í heimi. Ég reyndi í morgun. Tók buxurnar rakar úr þvottvélinni og renndi straujárninu yfir þær, en ég sver að fyrir hverja eina krumpu sem ég straujaði niður bjó ég til tvær. Ég bara get ekki lagt buxurnar rétt til á strauborðið. Það lítur því út fyrir að þetta verði krumpusumarið mikla. Nema Hulda amma komi og kenni mér.

mánudagur, 15. júní 2009

Kemur ekki í ljós að ég hef rétt fyrir mér! Ég sá hluta af þessum þætti í sjónvarpinu, The truth about food, og allt sem vísindamennirnir hafa komist að hafði ég reiknað út fyrir nokkru síðan. Mig vantaði bara empirísku rannsóknirnar til að staðhæfa mínar kenningar. Mikilvægasta af þessu öllu (það á að borða fitu, það á að borða visst mikið, það á að borða mjólkurvörur o.s.frv. ) er að það eina, ÞAÐ EINA, sem veldur offitu er ofát. Það er ekkert til sem heitir hæg brennsla, genatísk offita, skjaldkirtill, sveppar, ekkert. Ef þú borðar meira en þú brennir þá fitnarðu. Simple as. Mikið svakalega er gaman þegar vísindin styðja við kenningarnar sem maður er búin að finna upp sjálfur. Þannig að næst þegar þú heyrir of feita manneskju segja: "Ég skil ekkert af hverju ég fitna svona, ég borða nánast ekki neitt, ég hlýt að brenna hægt" þá máttu segja: "Nei, hlussan þín, þú étur of mikið og ef þú myndir skrifa niður dagsneysluna þá myndirðu sjá það. Now get a grip!" Bara tough love, ekkert annað.

föstudagur, 12. júní 2009


Kaffibolli, í eftirmiðdaginn, úti í garði, verður ekki betra.
Enn er ég í dagsfríi. Nú er árviss viðgerð á tölvukerfi hennar hátignar í gangi og við starfsfólk hennar fáum bara að vera heima. Dave fékk líka frí og við erum á leiðinni út í hádegismat. Ágætt að nota tímann á meðan Láki er í skólanum. Við ætlum bara að fara á The Moreton sem er sveitakrá hérna í næsta þorpi. Við getum setið úti, nú þegar Mamma og Pabbi eru farin heim er auðvitað aftur komin sól og blíða. Það er eitthvað voða skemmtilegt við að vera í fríi á föstudegi, mér líður bara eins og það sé frítt spil núna.

Kelly og Craig komu heim frá Frakklandi í gær og Kelly hringdi í morgun til að bjóða okkur yfir á laugardaginn. Ég ætla að fara með humarinn sem Rúnar gaf mér og leyfa þeim að smakka. Mikið er nú gaman að geta deilt svona dásamlegum mat með vinum sínum. Ég er voðalega glöð að hafa kynnst Kelly, hún er svo kröftug í að gera hitt og þetta og við erum núna alltaf á spani. Við Dave erum nefnilega allt of löt og heimakær. Alltaf að tala um að gera hitt og þetta en látum svo lítið verða af. Þannig að það er frábært að hafa svona skipuleggjara í hópnum. Kelly og Craig eru líka æst í að koma með á Laugaveginn næsta sumar. Það verður gaman að sýna þeim fallega landið mitt.

Jæja, best að fara að hengja upp blómakörfuna áður en við förum.

fimmtudagur, 11. júní 2009

Þetta er ekki einleikið. Skapsveiflurnar eru svo svakalegar. Í dag er ég ofsaglöð, enda líður mér eins og að ég hafi náð alvöru takmarki. Ég léttist um 1.2 kíló þessa vikuna og það þrátt fyrir að fá mömmu og pabba í heimsókn. Ég borðaði bara eins og venjuleg manneskja um helgina, jú ég fékk mér rískubba og lakkrís en Íslendingur búsettur erlendis myndi gera það, hvort sem hann væri grannur eða ekki. En það er nú ekki ástæðan fyrir gleðinni, nei ég er svona ánægð af því að vanalega myndi þessi vika fara í klessu hjá mér, ég myndi nota depurðina sem afsökun fyrir fylleríi. en ég bara hélt mínu striki. Í þetta skiptið þurfti ég ekki einu sinni að halda í við mig, mig einfaldlega langaði ekki í gúmmilaði. Það er hálft kíló af Nóa súkkulaði rúsínum inni í skáp og mér er skítsama! Og fyrir mig er þetta svona svipað og fyrir vísindamann að fá Nóbelsverðlaun. Já, ég er búin að fá Nóbelinn fyrir megrun.

þriðjudagur, 9. júní 2009

Ji minn eini, ég hef lent í svindilbraski! Ég keypti mér ilmvatn á netinu, en það kom aldrei, þannig að ég heimtaði endurgreiðslu, sem kom heldur aldrei og núna er vefsíðan horfin og fullt af fólki alveg brjálað. 28 pund bara horfin! Nú er ég reið í ofanálag við að vera döpur af því að mamma og pabbi eru ekki hjá mér lengur. Þetta er ekki góð byrjun.

fimmtudagur, 4. júní 2009

Mikið svakalega fannst mér ég vera æðisleg í morgun. Ég rölti með Láka í skólann og þegar ég kom heim skellti ég í eina uppskrift af múslí-morgunverðar-orku bitum, setti inn í ofn og dreif mig svo í lyftingar. Og þarna var ég, skælbrosandi og sveitt, ji minn eini, hvað ég er mikil heisluræktarfrömuður, líkamsrækt og heilsufæði, allt í einu, einn, tveir, þrír, oh hvað ég er mikil domestic (health) goddess, upp, niður, hvaða lykt er þetta, vá hvað ég er frábær, mikið er þetta skrýtin lykt, svitn, svitn, ó djösins, múslíið er að brenna. Oh, ég er glataður heilsufrömuður, Maggi Scheving þarf víst ekki að hafa neinar áhyggjur.


Í öllu þessu óskapa blíðviðri hefur verið erfitt að drekka morgunkaffið, það er einfaldlega of heitt. En mig vantar engu að síður kaffi skammtinn minn þannig að eitthvað þurfti að gera. Og jú, ég er búin að búa til minn eiginn Frappucino light að hætti Starbökksara. Og hvað ég naut mín í morgun, úti í garði, með Ideal Home Magazine, baðandi mig í morgunsólargeislunum og með kaldan Frappucino til að sötra á. Ó, ljúfa líf.

Hvað um það, ég held líka áfram að bræða af mér mörinn, 700 g. aftur þessa vikuna, það virðist vera töfratalan akkúrat núna. Ég geri ráð fyrir að ég gæti lést meira ef ég tæki aðeins þéttar á nammidögunum, en ég veit líka að án nammidaganna held ég þetta ekki út. Þannig að það er betra að gera þetta hægt og sigrast að lokum heldur en að léttast hratt og fitna svo bara hratt aftur.

miðvikudagur, 3. júní 2009



Hver er ekki til í að vera í megrun þegar maður fær svona lagað í hádegismat? Bon Appetit!

mánudagur, 1. júní 2009

Aðal ástæðan fyrir nýja lífstílnum er að verða hraustari og hæfari til að hreyfa mig. En ég verð nú líka að viðurkenna að fagurfræðin spilar þarna aðeins inn í. Sér í lagi þegar að nærfötum kemur. Bróðir minn lýsti einhvertíman brjóstahaldaranum mínum sem "tveim dragnótum splæstum saman." Ekki fjarri lagi. Ég man þegar ég og Auður bjuggum saman og ég sá í nærfataskúffuna hennar, endalaust margir haldarar, í öllum regnbogans litum, allir úr silki og blúndum og dúlleríi og allir á stærð við augnlepp. Ég á alltaf að meðaltali 3 - 4 í einu og þeir duga í 1 - 2 mánuði áður en ég er búin að brjóta spöngina, teygja úr þeim, brjóta krækjur og rífa efnið. Silki og blúndur er neðarlega á listanum, enda þegar maður er komin í HH skálar er öryggi og styrkur aðalmálið, ekki útlitið. Meira að segja þó ég sé núna orðin Bravissimo stúlka er úrvalið ekkert spes. Mikið verður gaman að geta skoðað haldara og keypt það sem er fallegt, ekki bara það sem passar. Ekki það að ég passi nokkurn tíman í augnleppa en það hlýtur að aukast úrvalið við að minnka aðeins.