fimmtudagur, 30. júní 2011

Sólin skein og dagurinn greinilega góður til hlaupa klukkan fimm í morgun. Ég lagði af stað eftir Market Street og tók hringinn um Rhosllannerchrugog. Enginn á ferli nema og heimurninn minn einnar. Yndisleg tilfinning. Það er bara fátt jafn hressandi og að byrja daginn svona.


Enda greinilega ánægð með fyrirhöfnina. Hljóp hratt og örugglega. Sveitt og kát í bakgarðinum heima.

Eftir sturtu og snurfusun var komið að því að búa til nesti. Lúkas reyndar þurfti ekkert með sér, hann fór til nain og taid vegna þess að kennararnir hans voru í verkfalli í dag. Þetta var því einfalt verkefni. Skellti í dós spínati, röspuðu blómkáli og grilluðum kjúlla. Setti svo feta, ólifur, oregano, EVOO og myntu til að gera grískt bragð. Umm, strax farin að hlakka til hádegis! Fann til morgunmat og snarl og svo þarf maður að hlaupa á eftir strætó. Gott að vera í góðu formi.

Komin til Chester og klukkan að verða hálf níu. Rannveig, Harpa, Helga, Ólína og Hulda; ef þið lítið niður eftir götunni þá sést þar á endanum gult hús sem á stendur "Hotel". Þar ætlum við að gista í september.

Með skrifstofubygginguna í baksýn. Maður verður víst að mæta í vinnuna til að fá útborgað. Bölvað vesen bara. Ég er á fjórðu hæð og nota sjaldan lyftuna, fæ auka líkamsrækt þar.

Best að byrja daginn á morgunmat; eggjamúffa og gulrótarkaka, vatn og kaffi. Og skrifa svo af nokkur lán. Afhverju gerir það enginn fyrir mig?

Ahh, rétt fyrir ellefu er gott að fá sér smá pásu og gríska jógurt með blá-og hindberjum. Spjalla aðeins við Rob um hvað eigi að gera um helgina. Vinna í mínu tilviki.

Af því að ég var ekki með neitt kolvetni í blómkálssalatinu þá get ég fengið mér quinoaeplaköku í eftirrétt. Mikil lukka sem það er, ekkert finnst mér betra en eftirréttir.

Zombie Monkey hangir á veggnum mínum í vinnunni og heldur mér félagsskap.

Svo er ekki eftir neinu að bíða, klukkan fjögur fer ég heim og á afslöppunartíma í strætó. Einn og hálfur tími þar sem ég plana matseðil, les bók, hugsa og skoða mannlífið. Sem er margbreytilegt.

Stoppa við í Co-Op á leiðinni heim. Svona lukka yfir mér; tojarinn á tilboði, 18 rúllur á 5 pund! Eins gott, því allar þessar trefjar eru alveg að fara með mig.

Drífa þvottinn á snúru, reyna að ná síðustu sólargeislunum. Mikið sem mér leiðist þvottur. Ég alveg tek út fyrir það heimilisverk. Ojbara.

Kemur músin mín heim frá nain og taid, drulluskítugur og sáttur. Nú þarf að drífa hann í sturtu og finna til skólabúning fyrir morgundaginn. Það er jamboree á morgun og hann á að syngja með skólakórnum. Svo er smá tími í knús og leik áður en hann fer í háttinn.

Ég stoppa við og fæ mér eftirmiðdegissnarlið dáltíð seint í dag, lófafylli af möndlum og skeið af jógúrt. Hef bara ekki tíma í fínerí.

Ákveð að hann nýjan baunaborgara úr smjörbaunum, feta, sesam og grilluðum paprikum til að hafa í kvöldmat. Mikið sem þeir voru góðir á bragðið, en misheppnaðir af því að þeir héldu ekki lagi. Duttu í sundur. Þarf að hanna aðeins betur.

Er svo ekki kominn tími á að slaka aðeins á? Gott kaffi, kjúklingabaunakex og eittvað crap í sjónvarpinu. Stúdera næstu hlaupaæfingu. Ná í þvottinn og brjóta saman. Nenni allsekki að taka upp skólabækurnar. Kannski á morgun.

miðvikudagur, 29. júní 2011

Ég fór í síðasta skiptið í rækt í dag. Það var hálfsorglegt svona fyrir starfsfólksins hönd, þau voru öll enn þarna sem þýðir að varla hafa þau fengið aðra vinnu. Sjálf fór ég með blendnar tilfinningar. Ég kem til með að sakna járnsins, þess er ekki að neita, en ég er líka dauðfegin að geta sleppt því að borga mánaðargjaldið og akkúrat núna er ég svo svag fyrir hlaupum. Sambland af hlaupanámskeiðinu og sólinni kannski, en það er bara að virka fyrir mig núna. Svitastækja og slagsmál um lóðin einhvernvegin farin að missa sjarmann. Ég þarf náttúrulega að finna eitthvað að gera til að halda við þessum líka gífurlega vöðvamassa, en akkúrat núna er ég ekki svakalega nojuð yfir þessu. Svo er það líka hitt sem mér datt í hug. Ég segi að ég vilji bara vera hraust. Mig langar til að vera sterk í daglega lífinu. Mig langar til að geta gengið á fjöll og dansað til morguns og leikið við Lúkas. Mig langar til að vera sátt í eigin skinni, hvað svo sem vigtin segir. Akkúrat núna er ég langt frá því að líða þannig. Akkúrat núna sé ég ekkert nema spik og leiðindi og ég er allsekki sátt í eigin skinni. Jú, ég er mjórri en ég var, en mér finnst ég enn vera hrikalega feit. Ég er hraustari en ég var, en mér finnst ég aldrei gera nóg. Ég segi að þetta sé eilífðarverkefni og að þetta taki langan tíma og ég segi hitt og ég segi þetta. En það sem ég segi og það sem ég hugsa er tvennt ólíkt. Ég get ekki hætt að hugsa um lokamarkmiðið. Og það eina sem mig langar er að ná þessu lokamarkmiði eins fljótt og mögulegt er. Og ég bara verð að laga þennan hugsunarhátt. Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman ef ég er ekki sátt við sjálfa mig? Hvað ef ég næ lokamarkmiðinu og er samt ekki sátt í eigin skinni? Hvað þá? Að þessu leytinu til datt mér í hug að kannski er það ágætt að ég neyðist til að hætta í rækt. Ég held nefnilega að innst inni hafi ég alltaf hugsað að um leið og ég næði lokamarkmiðinu þá myndi ég hætta að borga í ræktina. Að ég hafi ekki í alvörunni séð rækt sem eitthvað sem ég myndi gera að eilífu. Þannig að það er kannski ágætt að ég finni mér hreyfinguna sem ég er tilbúin til að flétta saman við daglegt líf og sem ég get notað til að byrja að reyna að sættast við mig í mínu skinni. Hvað svo sem það þýðir.

þriðjudagur, 28. júní 2011

Ég grét þegar ég reyrði stelpurnar í íþróttahaldarann í morgun. Bókstaflega grenjaði. Sunnudagslautarferð okkar litlu fjölskyldunnar endaði náttúrlega með því að ég tók þennan líka fína humarlit. Ég var með sólarvörnina á lofti allan daginn og sprautaði á Lúkas í gríð og erg en steingleymdi sjálfri mér. Og skaðbrann svona. Hef núna sofið lítið í tvo daga og skipti hlaupadögum út frá mánudegi yfir á þriðjudag í þeirri von að það yrði orðið í lagi með mig í dag. Ekki var nú svo en samt ekki eftir neinu að bíða, vika tvö í Up & Running er hafin. Ég gat illa sveiflað höndum í upphitun og þegar ég átti að fara hratt og hægt til skiptis kjökraði ég við hvert skref enda eins og að vera slegin í bakið með svipu. En þegar það kom að langa hlaupakaflanum var ég svo upptekin við að hugsa um sársaukann í öxlum og baki að ég gleymdi að hugsa það sem ég vanalega hugsa og er eitthvað á þá leið að ég sé að drepast, ég næ ekki andanum, ég er að drepast, ég kemst ekki lengra, aaaaaaargghh! Ég fann allt í einu hvernig andardráttur og skref byrjuðu að spila saman fullkomlega, algerlega í takt og það gerðist eitthvað inni í mér. Ég var hlaupari. Ekki fyrrverandi fitubolla að sanna eitthvað, ekki manneskja í heilsuátaki sem hleypur af því að maður verður að gera einhverjar brennsluæfingar, heldur alvöru hlaupari. Mér fannst eins og ég hefði getað hlaupið svona að eilífu, svo lengi sem ég héldi þessum takti. Pamm Pamm Pamm Pamm. Þvílík upplifun! Þvílíkt frelsi! Og þó ég finni þessa tilfinningu aldrei aftur þá bý ég allla vega að þessari lífsreynslu og ég get seilst inn í mig og fundið hana aftur þegar mig vantar að hressa mig við. Ég brosti allan hringinn á leiðinni heim og klappaði sjálfri mér svo (ofurvarlega) á bakið.

mánudagur, 27. júní 2011

Egg-og parmesanmúffa með kókóshnetuhveiti
Ég er alltaf að reyna að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt í eldhúsinu. Mér þykir mest til þess þegar ég get notað venjulegan, dags-daglegan mat sem maður getur keypt úti í kaupfélagi og búið til hollar og fallegar samsetningar. Það sem ég kalla orðið venjulegt hefur reyndar breyst aðeins að undanförnu; þannig er quinoa til dæmis orðið að algerri lífsnauðsynjavöru hér upp í skáp. Enda þarf ég ekki lengur að fara í Holland og Barrett eða Julian Graves eða svoleiðis heilsuvöruverlsun til að kaupa það lengur. Það fæst hreinlega orðið úti í ASDA. Mér finnst afskaplega mikilvægt að matavaran sem ég nota sé auðfengin. Ég meika nefnilega ekki það sem ég sé sem matarsnobb. En á sama tíma er ég líka búin að vera að gera tilraunir með efni sem ekki fást hvar sem er. Þannig er ég orðin ómöguleg ef ég á ekki Baker´s Unsweetened Chocolate, ósykrað súkkulaði sem ég þarf að fá sent á netinu. Og svo vil ég helst líka eiga Cacao Nibs, hráan súkkulaðibörk. Að undanförnu hef ég svo líka verið að gera tilraunir með kókóshnetuhveiti. Ég er alltaf að leita að einhverju sem er létt á kolvetnum, en gefur engu að síður þá tilfinningu að ég hafi fengið kolvetni. Þannig eru allar blómkálsuppskriftirnar til komnar. En það er fátt sem kemur í stað hveitis til að búa til brauð, kex og kökur. Kókóshnetuhveiti virðist ætla að vera svarið. Það er unnið úr kókóshnetu, kjötið þurrkað og svo malað og mulið, og nánast öll fita tekin úr ásamt öllum vökva. Eftir stendur hveitikennt efni sem er glútenlaust, nánast kolvetnalaust og gífurlega trefjaríkt. Og hver er ekki til í meiri trefjar? (Minntist ekki einhver á hægðatregðu?...) Trefjar gefa náttúrulega svo svakalega fyllingu. Af því að það er glútenlaust er útilokað að nota það beint í staðinn fyrir hveiti, það breytist bara í þurra steypu og brauðið eða kakan dettur í sundur. Eins og ég komst að. En ef maður setur egg, um það bil eitt egg fyrir hverjar tvær matskeiðar af hveitinu er maður allt í einu komin með efni sem er hægt að baka úr og maður fær brauð eða köku og nánast ekkert kolvetni! Ég er búin að búa til pönnukökur, sætar og savoury, skipta út hveiti í gulrótarköku og quinoa köku, búa til bestu eggjamúffur sem ég hef nokkurntíman smakkað og alveg sérstaklega góðar parmesan kexkökur. Það er búið að vera svo skemmtilegt að prófa sig áfram, að finna hvað virkar og hvað ekki og svo fullvissan um að ég er að fá trefjar og hollustu þegar ég borða afurðina er náttúrulega frábært. Og ég get haldið áfram að kanna heiminn með sleif og skál að ferðafélögum.

sunnudagur, 26. júní 2011

Kjúklingabauna "Maryland Cookies"

1 dós kjúklingabaunir. Allt vatn hellt af dósinni og svo skolaðar rosalega vel í köldu vatni. Ég nuddaði smávegis af ytra lagi utan af sumum þeirra líka.
1/4 bolli kókosolia (hörð)
1 matskeið gott hnetusmjör
Aðeins minna en 1/4 bolli soja mjólk, eða vatn, eða möndlumjólk.
1 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft
1/8 tsk salt
2 tsk sætuefni - pálmasykur, sweet freedom, hlynsýróp, hunang eða jafnvel bara sleppa því.
30- 40g Baker´s Unsweetened Chocolate. Eða bara dekksta, sykurminnsta súkkulaðið sem finnst. Ég hugsa nú að 30 g drepi mann varla. Ekki úr þessu. Það má líka örugglega setja smávegis rúsínur. Hef samt ekki prófað það.
Öllu nema súkkulaði skellt í skál og maukað í frumeindir með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Þannig að þetta sé bara eins og krem. Svo er súkkulaðið bitað niður og hrært saman við maukið. Bökunarpappír settur á plötu og svo er hægt að smella 12 lummum af deigi með teskeið þar á. Bakað við 180 gráður í svona 18 -22 mínútur. Eða þartil smákökurnar eru aðeins runnar til og orðnar harðar að neðan.
Þær geymast frekar illa, ég held að það sé kannski best að setja þær í tupperware og inn í frysti og bara afþýða eftir þörfum. Ég bý bara til hálfan skammt í einu, 6 kökur og geymi í ísskáp.

Hér höfum við svo ljómandi fínt kvöldsnarl með kaffibolla og Derrick í sjónvarpinu. 2 eða 3 kökur eru fínn skammtur. Trefjar, holl fita, prótein...er hægt að biðja um meira?

(Pálmasykur er sykur unninn úr kókósplöntunni, hrár og óunninn og skárri en hvítur sykur. Smá tilraun til að vera trendí og kúl í eldhúsinu. Hann er voða góður á bragðið, meira eins og púðursykur. En er líka bara sykur þegar allt kemur til alls og þarf að fara sparlega í notkun. )
Uppáhaldsstaðurinn okkar í Wales; Ty Mawr. Ekki amalegt að hafa þetta við bæjardyrnar.



Það er nú gaman að vita að tveir lítrar af ódýrum gervi rjómaís hjálpa til við að léttast um 1.1 kíló. Annað hvort það eða heilmiklar lyftingar, aukin hlaup og vel skipulagður matseðill alla hina dagana. Ég bara veit ekki hvort það var.

Skiptir ekki máli, úti er 30 stiga hiti, og við erum farin í lautarferð.

fimmtudagur, 23. júní 2011

Þessar smákökur er bakaðar úr kjúklingabaunum. Ekkert hveiti. Bara kjúklingabaunir, kókósolía, ósykrað súkkulaði, lyftiduft og smávegis pálmasykur. Ótrúlegt ekki satt?

miðvikudagur, 22. júní 2011

Ég skemmti mér konunglega við Up & Running hlaupaprógrammið. Fór út í hlaup númer tvö rétt um fimmleytið í morgun og tók svo Röggu hlaup á eftir. Í þéttri, grárri rigningu eins og bara kemur hér í Wales. Þessi fyrsta vika hefur gengið mjög vel, enda er ég að hlaupa minna en ég var orðin vön að gera, ég er að fara afturábak til að geta byggt þetta í alvörunni upp. Ég hef alltaf gefist upp á C25k prógramminu og hef enn ekki getað hlaupið 5 km í einum rykk síðan ég gerði það í Race for Life í fyrra. En þetta á að kenna manni að hlaupa 5 km og ég ætla að fylgja uppskriftinni í einu og öllu þó það þýði aðeins minni átök en ég er vön til að byrja með ef það þýðir að ég geti að lokum hlaupið vegalengdina í einu. Þjálfarinn stingur upp á að maður finni sér keppnishlaup til að taka þátt í, alvöru hlaup sem maður er að vinna að eða þá að maður skipuleggi sitt eigið. Þetta á að gerast helgina 13-14. ágúst. Ég er búin að skoða og það er ekkert skipulagt hlaup í gangi í nágrenninu þannig að það lítur út fyrir að ég þurfi að gera þetta sjálf. Eins og allt annað sem ég virðist gera í hreyfingu, ég er alltaf ein. Hvað um það, mig langar til að byrja að skipuleggja þetta núna. Biðja Dave um að heita á mig og helst finna eitthvað sem gæti verið medalía. Stika út 5 km einhverstaðar annarstaðar en hér í þorpinu, kannski í Bellevue Park, til að gera hlaupið öðruvísi en vanalegu hlaupin mín. Gera þetta spes og eitthvað til að vinna að og hlakka til. Kannksi hlaupa "virtual" með öðrum hlaupurum. Hvað get ég gert meira til að gera þetta spes?

mánudagur, 20. júní 2011

Þegar ég tek skrens eins og í gær hef ég engar áhyggjur af því að ég haldi áfram að borða. Það er ekki lengur hætta á því hjá mér. Meira að segja á meðan ég er að maula nammi á sunnudegi er ég á sama tíma að setja íþróttagallann í töskuna tilbúin til notkunar og búa til eggjahvítuommilettu í morgunmat. Og það var sama sagan í dag, ég vaknaði klukkan 4:55, hoppaði niður stigann og gerði hringþjálfunaræfingar áður en ég fór í vinnu og tók svo fyrstu skipulögðu hlaupaæfinguna í Up & Running þegar ég kom heim úr vinnu. Matur frekar spartanskur í dag svona til að bæta aðeins upp ofát í gær. Og svona geri ég þetta. Ég hef í raun engar áhyggjur af því að ég hætti að æfa og byrji að borða kleinuhringi í morgunmat. Það er alls ekki málið. Það er ekkert að því að fá sér aðeins of mikið að borða öðruhvoru. Það sem fór í taugarnar á mér var ástæðan. Ég vil ekki borða í svona mótmælaþrjóskureiðishendasnuddunniúrvagninumkasti. Ég vil vera búin að læra að díla við tilfinningar á annan hátt en með mat. Og borða svo bara með gleðilátum. En ég geri líka fastlega ráð fyrir því að ég hafi lært eitthvað smávegis af þessu öllu saman. Annað væri nú bara tímasóun. Eru ekki allir í stuði?

sunnudagur, 19. júní 2011

Dagurinn sem hófst á bljúgri auðmýkt endar ekki jafn vel. Ég leyfði öllu því versta inni í mér að taka algerlega yfir og það stendur ekkert eftir af fallegu sálinni sem arkar áfram á hverju sem dynur. Hér dansar bara djöfullinn. Stærsti hlutinn af sjálfri mér er núna yfirkomin af skömm. Hvað er ég að gera með að skrifa hérna um breyttan lífstíl og þykjast vera fyrirmynd og innblástur fyrir aðrar fitubollur þegar ég get ekki einu sinni komist í gegnum smá reiðiskast?

Ég get ekki annað en reynt að skoða hvað það er sem gerist þegar ég verð svona reið inni í mér. Ég veit reyndar afhverju ég er svona reið og ég veit líka hvað ég þarf að gera til að laga það. En málið er að ég nenni ekki að ráðast í þá vinnu akkúrat núna og mig langar bara til að laga reiðina með því að fá mér ís og súkkulaði. Það er svo miklu, miklu auðveldara að laga vandamálið með því að troða því í andlitið á sér. Ég veit reyndar líka að vandamálið hvorki minnkar né lagast og það fer svo sannarlega ekki í burtu og það þarf enn að ráðast í verkið. Og það eina sem gerist ef ég leyfi mér að laga vandann tímabundið með súkkulaði og ís er að lokum þarf ég ekki bara að vinna verkið heldur þarf ég líka að vinna vinnuna sem þarf til að losa mig við kílóin sem koma þegar ég fæ súkkulaði og ís. Það er þessvegna auðveld stærðfræði sem segir manni að sleppa bara namminu. Samt gerði ég það ekki. Og mér datt í hug þegar ég náði mér í skál númer tvö af rjómaís að kannski geri ég þetta vísvitandi. Getur það verið að ég hafi meira gaman af stríðinu en af friðinum? Hvað ef ég innst inni veit að þegar ég næ kjörþyngd þarf ég að fara að leggja orku mína og krafta í önnur verkefni og ég er logandi hrædd um að mér takist ekki að gera það sem ég vil gera. Hvað ef ég verð mjó og verð samt ekki fær um að gera það sem mig langar? Nú hef ég alltaf reynt að segja sjálfri mér að það er ekki samasem merki á milli mjó = hamingja, en engu að síður þá veit ég að eitthvað inni í mér segir mér að ef ég bara næ að verða mjó, ef mér bara tekst það þá hljóti allt hitt að koma af sjálfu sér. Það er bara meira en að segja það að losa sig við hugsunarhátt sem hefur fylgt mér áratugum saman.

Ég er alveg viss um að þessi tregða mín við að ná kjörþyngd er ekki meðvituð. Ég held alveg örugglega að ég vilji ná kjörþyngd. En það er greinilega eitthvað sem heldur aftur af mér. Ég held að ég sé minn eigin hryðjuverkamaður. Þetta er náttúrlega alveg hrikaleg poppsálfræði en ég held samt að ég sé að höggva nokkuð nærri lagi. Kannski held ég innst inni að ef ég held bara áfram að vera feit, þá þarf ég ekki að komast að því hvort ég geti gert allt hitt sem ég þarf að laga. Ég get alltaf bara notað það að vera feit sem "vandamálið mitt" og sleppt því að tækla hitt. Ahh, ég veit ekki. Ég fann allavega ekki svarið á botninum á þessum ísdalli.
Og svo koma vikur sem þessar. Ég gerði allt samkvæmt bókinni; matur og hreyfing, var jákvæð og hress. (Nei, ég lýg því, ég var reið inni í mér í tvo daga.) Engu að síður þyngist ég um hálf kíló. En það eru líka vikur sem þessar sem sýna úr hverju maður er gerður. Það skilar engu að hlusta á litlu röddina sem vælir að maður ætti að gefast upp. Að þetta virki aldrei. Þegar það koma vikur sem þessar seilist maður inn í sjálfan sig og nýtur styrksins sem þar er. Það gefur meira að halda ró sinni þegar það koma vikur sem þessar en að fagna þegar lýsið lekur. Ég segist svo bara hafa verið á túr og með hægðatregðu og að þetta fari í næstu viku?

laugardagur, 18. júní 2011

Ég hef tekið eftir að það hefur verið óvenju mikið af viðtölum við fólk eða fréttir af fólki sem hefur misst einhver kíló í fjölmiðlum að undanförnu. Og í kjölfarið hef ég líka tekið eftir nokkrum pistlum og greinum þar sem fólk sér ástæðu til að kvarta yfir þessum fréttaflutningi. Það er kvartað yfir því að um útlitsdýrkun sé að ræða. Eða sá póll er tekin í hæðina að þetta sé lítið til að hrópa húrra yfir; vita þessar hlussur ekki að þetta einfaldlega kalóríur inn, kalóríur út - borða hollan mat?

Ég skil að í stórum atriðum er þetta rétt og satt. Þetta snýst um kalóríur inn og kalóríur út og það er engum hollt að trúa því að fegurð skapi hamingju. En mergurinn málsins er að ef þetta væri jafn einfalt og kalóríur inn og kalóríur út þá væri ekki til feitt fólk og þangað til grönn manneskja prófar að fara í verslun og komast að því að ekki ein einasta flík í búðinni er nógu stór þá hlusta ég ekki á svona kvabb um að útlit skipti litlu máli.

Þegar ég skoða þennan feril minn þá hefur kalóríutalning í raun verið minnsti þátturinn í því að koma mér á þann stað sem ég er á núna. Fyrir mér hefur þetta snúist um miklu flóknari ferli en það, þetta hefur snúist um að finna sjálfa mig og að skilgreina mig og allt sem ég hef trúað á upp á nýtt. Að draga það ferli niður í einfalda kalóríutalningu er lítilsvirðing við vinnuna sem ég hef unnið.

Það er ekki hægt að sjá utan á manneskju hvort hún er réttsýn eða gjafmild eða ástrík eða gáfuð eða gott foreldri eða hvort hún hleypur hratt, er hraust eða notar eiturlyf. En það er hægt að sjá að manneskja er feit og það er hægt að dæma fólk fyrir það. Þannig að þegar feit manneskja kemst loksins í kjólinn sem segir að hún sé venjuleg útlits, að það sé ekki hægt að dæma hana lengur er nema skrýtið að hún vilji fagna þeim áfanga? Það er bara ekki jafn mikilvægt út á við að hreykja sér af því að geta loksins hlaupið kílómetrann á sex mínútum eða tekið 40 kíló í bekkpressu.

Ég veit að vísindin segja að þetta er einfalt mál. En fyrir mitt leyti þá er það eina sem einfalt við þetta að núna get ég verið sæt í kjól sem ég keypti í venjulegri búð.

fimmtudagur, 16. júní 2011

Hitt og þetta sem ég hef lært. (Things that I have learnt)

  • Vatn er góður drykkur. En ef maður setur klaka í glasið verður það ennþá betra.
  • Ég trúi engu fyrr en ég hef prófað það á eigin líkama.
  • Morgunmaturinn sem ég vel ræður hvernig restin af deginum verður.
  • Því meira grænmeti sem ég borða því hamingjusamari er ég.
  • Þegar ég segi, "ég má ekki borða..." þá geri ég uppreisn. En þegar ég segi; "ég kýs að borða ekki..." þá er mér alveg sama um að sleppa draslinu.
  • Þegar ég stika um og ríf í eldhússkápa er gott að sleikja teskeið af náttúrulegu hnetusmjöri. Það stoppar geðveikina.
  • Hreyfing veitir mér gleði sem ég fæ hvergi annarstaðar.
  • Mikilvægasta tækið í eldhúsinu er litla vigtin mín. 100 g eru miiiiiiiklu minna magn en maður heldur.
  • Excel skjalið mitt þar sem ég skrái hvað ég er þung . Ég elska excel.
  • Internetið bjargar öllu. Hér er allt að finna sem þarf. Uppskriftir, samfélag, ráð, sálusorg. Internetið er greinilega komið til að vera.
  • Skipulag er lífsnauðsyn. Því betra plan, því betri árangur.
  • Sjálfhverfa. Ég hugsa alltaf um sjálfa mig fyrst.
  • Kaffi er æðislegt. Ég bý mér til svakalega fínt kaffi og það fullnægir matarþörf fullkomlega.
  • Númer eitt, tvö og þrjú er svo að vera í stuði. (Og halda hópinn)

miðvikudagur, 15. júní 2011

Ég er alltaf að stússast við að búa til meðrétti til að fylgja kvöldmat. Eina skilyrðið (fyrir utan að sjálfsögðu að vera bragðgott) er að það verður að vera eins kolvetnasnautt og mögulegt er, og á sama tíma verður að koma í stað brauðs, kartafla eða hrísgrjóna. Þessi hérna er sérlega skemmtilegur réttur, nothæfur sem meðlæti með kjúklingabringu eða sem léttur réttur með salati. Nú eða bara það sem manni dettur í hug.

2 kúrbítar, skornir langsum og mest innvolsi skafað upp með teskeið. Ég strái svo salti yfir þá og læt liggja á eldhúspappír til að draga sem mestan vökva úr þeim. Eins lengi og mögulegt er.
6 sólþurrkaðir tómatar, fínt skornir niður.
6 svartar ólífur, fínt skornar niður.
nokkur spínatblöð, skorin niður.
2 sveppir, fínt skornir niður.
30 g parmesan ostur, fínt rifinn.
salt og oregano

Græna bakið á kúrbítnum létt makað með dropa af EVOO og settir inn í ofn með bakið upp. Á meðan þeir hitna aðeins (í 7 til 10 mínútur) skal allt annað hakkað niður og blandað saman. Takið kúrbítinn úr ofninum og snúið maga upp og fyllið holuna með tómatblöndunni. Dreifið ostinum yfir og aftur inn í ofn í 25 mínútur. Borðið af bestu lyst.
Hér er að sjálfsögðu einu takmörkin ímyndunaraflið, mér dettur í hug að fylla með mozza, basil og ferskum tómati, með rauðlauk og sveppum, með byggi, sinnepi og rauðri papriku...ji minn eini, nú verð ég að fara og prófa þetta allt saman. Be right back!

þriðjudagur, 14. júní 2011

Mér þykir þetta afskaplega áhugaverð pæling sem Bill Gates kallar "Spiral of Success". Maður byrjar á einhverju, gerir það endurtekið þangað til að það verður að vana og getur þá bætt við sig meira af góðum venjum. Maður kemst inn í hringrás velgengni. Þegar ég skoða ferilinn minn þá ætla ég að setja upphafið við að hafa hætt að reykja. Hvort sem ég fattaði það þá eða ekki þá hóf ég feril velgengis hvern dag sem ég reykti ekki. Ég var komin inn í rútínu sem leyfði mér svo að bæta við heilbrigðari umgengni við mat og að koma mér upp daglegri rútínu sem fól í sér hreyfingu. Þetta er ósköp einfalt; maður velur sér eitthvað, hvort sem það er hreyfing eða matur eða sígó eða bora í nefið og kemur sér svo upp vana sem felur í sér að gera (eða gera ekki ef nefboranir er það sem um ræðir) umrædda athöfn á reglulega. Það er kannski augljóst en flestir virðast svo klikka á aðalatriðinu. Það er að segja að breyta athöfn í vana. Maður byrjar af kappi og fer í eróbikk á hverjum degi í viku. En svo kemur eitthvað upp á, vinna, frí, vinir, fjölskylda, leiðindi, lífið... og maður hættir að gera athöfnina. Og þar liggur hnífurinn í kúnni. Það má ekki láta lífið koma í veg fyrir að athöfn breytist í vana. Og til þess að um vana sé að ræða verður að gera það reglulega. Þetta er svo einfalt að maður ætti ekki einu sinni að þurfa að tala um þetta. Það þarf bara að plana aðeins. Ákveða að hreyfa sig þrisvar í viku. Það er nóg til að koma upp vana. Ef maður missir úr skipti þá bara gerir maður það daginn eftir. Svo lengi sem maður gerir það. Plana aðeins ef maður veit að eitthvað er að koma upp á. Ekkert mál. Mig langar núna til að bæta inn í spíralinn minn og skoða fjármálin. Mikið væri gaman að koma sér upp vana sem felur í sér að smá saman borga skuldir. Lifa svo bara lífinu þvengmjór, fitt og skuldlaus. Það væri nú alveg alvöru.

mánudagur, 13. júní 2011

Fyrir nokkrum vikum síðan bauð Dietgirl lesendum sínum upp á að skilja eftir skilaboð á blogginu hennar og að hún myndi síðan velja af handahófi einn lesenda úr og verðlaunin yrðu ókeypis aðgangur að átta vikna hlaupanámskeiði sem hún og hlaupaþjálfarinn hennar standa fyrir. Hlaupanámskeiðið fer fram á netinu, þar er umræðuhópur og stuðningshópur og vikulegt þjálfunarplan er sent í gegnum tölvupóst. Ég var svo lukkuleg að vinna aðgang að námskeiðinu. Ég hef fyllilega í hyggju að bæta þvi einfaldlega við þær æfingar sem ég stunda nú þegar. Námskeiðið hófst svo í dag. Þessi fyrsta vika fer reyndar í andlegan undirbúning frekar en líkamlegan. Þáttskendur eru að spjalla saman og kynnast. Ég er virkur þáttakandi í umræðum á spjallrásinni og margt skemmtilegt sem þar kemur fram. Þáttakendur eru allstaðar í heiminum, frá Nýja-Sjálandi til Bandaríkjanna til Belgíu og Svíþjóðar. Og allt þar á milli. Margir hafa reynt við C25K prógrammið en gefist upp. Aðrir eru búnir að reyna aðrar íþróttir. Flestir eru í lélegri þjálfun og of feitir og langar til að verða fitt. En það sem allir eiga sameiginlegt og ég hef sérstaklega hoggið eftir er þessi ímynd sem allir þrá að uppfylla. Undantekningalaust talar fólk um að vilja vera "eitt af þessu fólki", "einn af þessum sem fer út að hlaupa í hvaða veðri sem er", "ein af þessum bjarteygu stelpum, hlaupandi um með tagl sem sveiflast". Öll höfum við einhverja hugmynd um hvernig fólk hlauparar eru og hvernig þeir líta út. Og dáumst að þeim. Þegar ég spái í það þá er ég ekki viss um að ég geti nokkurn tíman staðið undir þessari ímynd sem ég hef af hlaupara. Enda sá ég þegar ég las í gegnum öll skilaboðin að ég hef aðrar hugmyndir um tilganginn. Ég ætla ekki að þjálfa mig upp fyrir eitthvað spes hlaup. Ég geri mér engar grillur um að ég reimi á mig asics skó og ég breytist einn, tveir og þrír í bjarteygan taglsveiflara. Ég ætlast bara til þess að átta viknum loknum að ég hafi öðlast tækni og þol til að geta hlaupið sæmilega vegalengd í einu. Og að átta viknum loknum ætti hlaup að vera enn einn heilbrigður vani sem ég hef einfaldlega tamið mér. Og án þess að þurfa að finna hvatningu fer ég einfaldlega út að hlaupa. Af því að það er það sem ég geri. Alveg eins og allt hitt sem ég bara geri.

sunnudagur, 12. júní 2011

Ég er búin að vera að spá og spökuléra voðalega mikið þessa vikuna; vanalega væri það komið til að ofáti einhverskonar. Ég borða of mikið og það of mikið af mat sem ég ætti ekki að vera að borða og svo þarf ég að skoða sálina mína til að komast að þvi afhverju ég borðaði of mikið af vitlausum mat. En það hefur ekki verið svo þessa viku, ég get meira að segja sagt að þessi vika var súper hvað mat varðar. Ég fann upp á allskonar áhugaverðum samsetningum, en var á sama tíma ekki heltekin af hugsunum um mat. Á minn mælikvarða það er að segja. Og hvað gerist þegar maður borðar fallegan, hollan og skemmtilegan mat í réttu magni? Jú, maður léttist um hálft kíló. Hver hefði trúað þessu?. Þannig að ég skil ekkert hvaðan spökúleringarnar komu. Definately ekki úr iðrum mér.

Matur átti svo reyndar að vera í aðalhlutverki í dag. Quinoa kakan fullkomnuð og borðuð í morgunmat með hindberjum, bláberjum og grískri jógúrt. Graourrk. (Það er hljóðið sem heyrist í mér á meðan ég borða). Svo ætluðum við litla Jones fjölskyldan í pílagrímsferð til Llangollen. Llan er yndislegur lítill bær hér í næsta nágrenni þar sem er ýmislegt forvitnilegt að sjá og skoða. Í dag ætlaði ég að rölta á milli sérverslana. Af einhverjum ástæðum eru þar búð á búð ofan sem selja forvitnilega matvöru. Fátt veit ég skemmtilegra en bara að skoða og sanka að mér hugmyndum. En við búum í Wales og eins og ég hefði getað sagt mér þegar ég gerði áætlanir þá rignir hér eins og hvergi annarstaðar í heiminum og alltaf þegar maður er búinn að sjá fyrir sér rólegheitarölt í sólskini. Og þó það sé alveg hægt að rölta um í rigningu þá er það óneitanlega ekki jafn skemmtilegt. Ég ætla því að spara mér gúrmei osta og hafrakex bakað með sjávarsalti og balsamic og fara í bíó að sjá Kung Fu Panda 2. Það má vera að Jones-inn sem er 7 ára hafi fengið að velja sunnudags quality time í dag.

laugardagur, 11. júní 2011

Fylltur kjúklingabaunaborgari
Mikið sem ég elska að borða mat. Og þegar maturinn er hollur og góður og veitir líka þennan þrykk sem maður fær vanalega bara frá einhverju óhollu elska ég hann þess meira. Ég er oft með hamborgara á föstudagskvöldum, það er fljótlegt og einfalt og með hrúgu af góðu salati sé ég oftast ekki eftir að fá ekki brauð. En það er óneitanlegt að brauðlausan hamborgara er vart hægt að nefna hamborgara. Það er eiginlega meira bara kjötbolla með salati. Ekki hef ég í hyggju að fá mér brauð en datt í hug að nota hugmynd frá Heidi Swanson á 101 Cookbooks sem er minn uppáhalds kokkur. Ég bjó til kjúklingabaunaborgara og sneiddi svo í tvennt og notaði borgarann sjálfan sem brauð. Sleppti semsagt kjötinu alveg og fékk í staðinn þennan æðislega rétt.

1 dós kjúklingabaunir
1 egg og 1 eggjahvíta
1/3 bolli blómkál, eða broccoli raspað niður
1 lítill hvítlauksgeiri, maukaður
Allt maukað saman í matvinnsluvél.
1 lítill rauðlaukur mjög fínt skorinn
1 mjög gróf brauðsneið tvíristuð og mulinn
1 mtsk hafrar
góð sletta af tabasco, eða hot sauce eða smá chili
salt og pipar og krydd að eigin vali - steinselja, basil, oregano. Ekkert of bragðsterkt, það á að vera milt bragð af borgurunum til að leyfa fyllingu að njóta sín.
Blanda þessu við baunamaukið og láta sitja í ísskáp í hálftíma til að leyfa brauðinu að sjúga í sig vökva. Móta svo 5 lummur og steikja í ólívuolíu við meðal hita í svona 7-9 mínútur á hvorri hlið. Það má líka stinga þeim inn í ofn í smástund til að bakast enn betur.
Svo eru borgararnir skornir þvert með beittum hníf og fylltir með því sem hugurinn girnist. Ég setti smávegis hvítlaukssósu, chilisultu, ost, steikta sveppi, steiktan lauk, tómat, svartar ólífur og spínat. Ég var að spá í að setja smávegis af kjúklingabringu sem ég átti inni í ísskáp en þess þurfti bara ekkert. Og voilá! Maður kominn með fullkominn borgara. Ég borðaði tvær lummur og stakk hinum í frysti. Geri ráð fyrir að það sé lítið mál að hita upp eða grípa með salati til að nota í hádegismat í vinnu. Glæsilegt.

föstudagur, 10. júní 2011

Mér fannst það umhugsunarvirði þetta sem mér datt í hug um daginn að syrgja manneskjuna sem ég áður var. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á naflaskoðuninni, hún er það sem hefur komið mér heillri í gegnum þetta allt saman, hún er "allt hitt er bara hugarleikfimi". Það er tvennt sem mér dettur helst í hug. Í fyrsta lagi sé ég eftir stjórnleysinu. Ég sakna þess stundum að geta ekki bara slakað á sjálfstjórnarvöðvanum og hagað mér eins og ég gerði í den. Ég sakna þess að éta. Að fara út í búð og kaupa þrjú súkkulaðistykki, kexpakka og tvo lítra af ís og setjast svo bara niður með góða bók og éta það allt. Og það algerlega án nokkurrar hugsunar um áhrifin. Ekkert nema ég og bragð og áferð. Ég get þetta ekki lengur. Og ég hef í raun voða lítinn áhuga á því svona í praxis, en fæ enn öðruhvoru svona nostalgíu eftir þessari stjórnleysistilfinningu. Eins massívur og sjálfstjórnarvöðvinn minn er orðinn núna (úr stáli) þá langar mig stundum bara til að slaaaaaaaka á. Í öðru lagi datt mér svo í hug að ég sé sjálfa mig sem landráðamann. Ég er búin að svíkja málstaðinn og mitt fólk. Rétt eða rangt þá hef ég alltaf skipt heiminum í tvennt; feitt fólk og mjótt fólk. Og ekki nóg með að ég skipti heiminum í tvennt þá hef ég sett þessa tvo hópa upp sem andstæður. Ég hef alltaf séð þetta sem Feita á móti Mjóum. Ég vs. Þeir. Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að það er fullt af mjóu fólki sem berst við fordóma út af því að vera grannvaxið. Ásakað um að borða ekki nóg og að vera með anorexíu. Og svo er líka fullt af grönnu fólki sem er grannt vegna þess að það kreppir sjálfstjórnarvöðvann náttúrulega og hefur unnið vinnuna sem þarf til að halda sér grönnum. En engu að síður þá get ég ekki að því gert en að vera í varnarstöðu gagnvart mjóum. Grannt fólk er ekki ásakað um leti. Eða slóðaskap. Eða sóðaskap. Grannt fólk þarf ekki að biðjast afsökunar á útliti sínu. Grannt fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að passa í flugvélarsæti eða í sjúkrahússlopp. Grannt fólk getur keypt sér föt þegar því vantar ný föt og þarf ekki að leita að sérverslunum. Grannt fólk þarf ekki að óttast stiga. Eða hitastig úti. Og mjóir skilja okkur feita fólkið ekki. Það segir fáranlegar setningar eins og "þú þarft bara að hreyfa þig meira." Eða "þú ættir að borða aðeins minna." Við deilum lífsreynslu sem mjóir koma aldrei til með að skilja.
Ég hef aldrei beðist afsökunar á útliti mínu. Ég var heilbrigð og mér hefur alltaf þótt ég voðalega sæt. Ég vissi að ég væri feit (ekki hversu feit) en ég var alltaf sjálfsörugg og ánægð með mig. Ég var heil. Það var ekkert að mér. Ég var lreyndar líka rosalega góður lygari og laug mest að sjálfri mér en engu að síður þá var ekkert að mér. En allt þetta var ég þrátt fyrir að vera feit. Það fylgdi alltaf hugsuninni. Og það er eitthvað sem grannt fólk þarf ekki að berjast við.
Nú hef ég unnið vinnuna sem þarf til að lifa heilbrigðari lífi með það að leiðarljósi að vera hraust og heilbrigð. Ekki vegna þess að mig langar að vera sæt í kjól. Að vera sæt í kjól er óhjákvæmilegur fylgifiskur. En það veit guð og lukkan að það er ekkert jafn skemmtilegt og að vera sæt í kjól. Ég hef aldrei áður fengið að prófa það. Og því grennri sem ég verð breytist viðmið mín um hvað er feitt og hvað er mjótt. Spurðu 130 kílóa manneskju hvort 95 kíló manneskja sé mjó og svarið er sjálfsagt já. Spurðu 69 kílóa manneskju og svarið er allt annað. Og að undanförnu þar sem ég sný mér ískrandi af kátínu í hringi í nýjum kjól er ég alltaf að setja sjálfa mig neðar og neðar í fitubollu hópinn. Og ég er farin hugsa ljótt um mitt fólk. "Afhverju borðarðu bara ekki minna?" spyr ég í hljóði þegar ég sé feita manneskju. "Ef ég gat það þá geta það allir." Og veit samt á sama tíma að þetta er ekki svo einfalt. Og þetta er að valda mér vandræðum. Ég get ekki sagt lengur að ég sé í flokki feita fólksins. Það fettir upp á nefið og hugsar með sér að ég skilji það ekki lengur, ég deili ekki daglegum þjáningum feita fólksins lengur. En ég er heldur ekki mjótt fólk. Það fólk myndi aldrei skilja mig. Það er bara eitt sem ég get gert núna. Ég ætla að hætta að flokka fólk í feita og mjóa. Ég get ekki verið manneskja sem viðheldur fordómum. Ég verð að minna sjálfa mig á að ég er enn nákvæmlega sama manneskjan. Ég hef bara bætt í þekkingarsarpinn minn. Ég er betri manneskja, ekki vegna þess að ég er mjórri, heldur vegna þess að ég veit meira og ég get meira.

fimmtudagur, 9. júní 2011

Ég vann í hring. Það er að segja ég var farin að vinna of marga tíma í einu og átti orðið á hættu að fá yfiryfirborgað og það vill bankinn ekki. Þannig að ég fékk aukadaga í frí, fimmtudag og föstudag. Fór með Lúkas í skólann í morgun, eitthvað sem er sjaldgæft góðgæti fyrir okkur bæði. Hann þarf vanalega að fara í Breakfast Club sem honum finnst ekki gaman enda bætir það klukkutíma við skóladaginn. Ég hinsvegar fæ mjög sjaldan að sjá skólann hans eða koma þangað þannig að fyrir mig er þetta lífsnauðsyn öðru hvoru svona til að halda sambandi við kennarana og starfsemina alla. Það er mjög óþægilegt sem foreldri að vita aldrei hvað er í gangi. Þegar hann var kominn í skólann rauk ég niður til Wrexham og í rækt. Eyddi þar tveimur klukkutímum, hoppaði og lyfti og hljóp bara svona að gamni mínu. Það er þvílíkur munur að stunda líkamsrækt þegar maður hefur nógan tíma. Vanalega er ég með annað auga á klukkunni, þarf annað hvort að komast í vinnu fyrir ákveðinn tíma eða ná síðasta strætó heim. Það er líka mjög fitubolluvænt að koma í rækt á þessum tíma dags, þarna var ég ein og gerði burpees hægri vinstri án þess að nokkur maður sæji til mín. Þannig að ég hoppaði eins og mig lysti algerlega áhyggjulaus um hvernig ég liti út við aðgerðina. Gerði mig svo sæta og rölti um miðbæinn í rólegheitum. Skoðaði í búðir og keypti einn kjól. Mátaði að gamni í 14 og þó hann hafi setið fínt á mjöðum og maga þá voru brjóst ekki alveg sammála og krumpuðust skringilega aftur í herðablöð. En hann var æðislega fínn í 16 og ég skellti mér bara á hann. Sat svo í mestu makindum á Café Nero, drakk skinny latte og las bók. Kom svo heim og hannaði kalkúnakjöthleif áður en ég náði í Lúkas til Cole vinar síns. Nú hef ég það að markmiði að verða "lady of leisure". Mikið sem ég gæti eytt mínum dögum svona. Rækt, búð, kaffihús, tilraunaeldhús. Er enginn til í að borga mér fyrir það?

miðvikudagur, 8. júní 2011

Það sem skipti sköpum í þetta skiptið, það sem aðskilur þessa tilraun mína til heilbrigðari lífstíls er margþætt og að mörgu leyti í sjálfu sér eitt vert athugunarefni. En ef ég á að velja eitthvað eitt myndi það vera að ég kortlagði ferðalagið örlítið áður en ég lagði af stað. Sem er hefði átt að liggja í augum úti svo sem af því að ég er svo áttavillt. Ég eyddi tíma í að skilgreina markmið mín, og hvernig ég ætlaði að ná þeim. Ég kortlagði heilsu mína og hamingju. Og ég reyni að fylgja þessu korti mínu.
  • Ég planlegg matseðilinn minn og spara þannig tíma, pening og áhyggjur af því að lenda í klandri.
  • Ég drekk ógrynni af vatni og reyni að halda öðrum drykkjum í lágmarki.
  • Ég fylgi matarplaninu mínu 95% tímans.
  • Ég borða mjög lítið af kolvetnum fyrir utan hafra og korn.
  • Ég borða svívirðilegt magn af grænmeti.
  • Ég hreyfi mig af ákveðni á hverjum degi.
  • Ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að gera þetta skemmtilegt.
  • Ég er ekki fullkomin, ég get stanslaust gert betur og ég viðurkenni veikleika mína.
  • Ég hef 100% trú á sjálfri mér.
Allt hitt er svo bara hugarleikfimi.

þriðjudagur, 7. júní 2011


Þetta er ekki ég á myndinni.
 Árum saman núna hef ég misboðið líkama mínum þannig að nú ber hann þess ótvíræð merki. Ég er alþakin sliti og örum og lumpum og klumpum ýmiskonar. Það fer ekki á milli mála að ég var áður miklu stærri en ég er núna. Ég var áður með reið, rauð og ljót slit þvert yfir undir- og yfirmaga, á upphandleggjum niður i olnbogabót og á lærum innanverðum. Ég tók meira að segja eftir því um daginn að ég er með slit á fyrrverandi undirhöku. Eftir því sem ég hef grennst hafa slitin skánað, þau eru öll núna bara hvít, verða reyndar aðeins meira áberandi ef ég tek sólarlit, þá verða þau svona fallega silfurgrá. Þetta er allt annað líf en þegar ég var alsett eldrauðum rákum. Ég er að mestu leyti sátt við slitin mín. Og að mestu leyti sýnist mér húðin öll vera að skreppa saman. En það var nú samt svo að þar sem ég stóð fyrir framan spegilinn (enn sem oft áður) og grannskoðaði sjálfa mig að mér datt í hug að þetta sem ég kalla yfirmaga er kannski meira en bara óbrætt spik. Getur verið að ég sé með poka af aukahúð? Þegar ég dreg inn magann get ég bæði séð og fundið rifbein. En þessi skrýtni poki hangir alltaf framan á mér alveg sama hvað ég held djúpt niður í mér andanum. Nú er ég enn rúmlega 10 kílóum frá lokamarkmiði þannig að ég ætla að bíða eftir að þau fari áður en ég sker endanlega úr um þetta en ég verð að viðurkenna að ég er farin að hallast nokkuð svaðalega að því að hér sé um skinnpoka að ræða.
Nú er það svosem ekkert ólíklegt. Þó ég sé búin að léttast mjög hægt, og þó ég stundi lyftingar, bæði eitthvað sem hjálpa til við að leyfa húðinni að aðlaga sig,  þá þurfti húðin að þekja heldur meira flæmi en hún gerir núna og húð hefur bara visst mikið náttúrulegt stretch.
Og ef þetta er málið, að ég nái 70 kílóum en með skinnpoka hangandi utan á mér þá þarf ég all svakalega að endurskoða ákvörðun mína um að fara ekki í lýtaaðgerð. Sú ákvörðun var tekin tvíþætt. Ég hélt að ég myndi sleppa við svona húðskvap. Ég var sannfærð um að ég myndi öll skreppa saman. Og ég er skelfingu lostin við tilhugsunina um að láta hakka af mér húðina. Reyndar er skelfingu lostin ekki nógu sterkt til orða tekið. Ég er magnvana af skelfingu. En er í alvörunni gaman að berjast við að verða mannsæmandi útlits til þess eins að uppskera skvapaða húðpoka þar sem sexkippan ætti að vera? Ég hef engar móralskar mótbárur við lýtalækningar - þvert á móti- ég er bara lömuð af ótta. En ég er núna komin á undan minni framtíð, sjáum aðeins hvað setur.

mánudagur, 6. júní 2011

Enn og aftur krossaði ég mig og þakkaði öllum góðum vættum fyrir nýja lífstílinn. Við fórum í sund í gær í nýja laug þar sem við höfðum heyrt af heljarinnar vatnsrennibraut sem okkur langaði að prófa. Rennibrautin alveg frábær og í staðinn fyrir að þrykkja sundbol upp á milli kinna til að ná sem mestum hraða (trix sem ég lærði af börnunum í Þolló) þá var farið niður sitjandi á uppblásnum hring. Og ég gat ekki annað en hugsað í tólfta skiptið sem við Láki hlupum upp stigann að rennibrautinni að fyrir tveimur árum síðan hefði þetta sjálfsagt ekki gerst. Ég hefði farið í sundbol og látið mig hafa það að sýna mig í honum, það var kannski ekki skemmtilegt en ég hefði gert það. Og ég hefði sjálfsagt getað klifið stigann tólf sinnum, það hefði verið erfitt en ég hefði gert það fyrir Láka. En ég hefði ekki getað beygt mig niður til að setjast í hringinn. Til þess voru hnén of veikburða. Og ég hefði aldrei komið rassinum fyrir í hringnum. Ég hefði verið skelfingu lostin og séð fyrir mér "America´s funnies homevideos" atriði þar sem feita konan situr föst í uppblásinni slöngunni og getur sig hvergi hrært. Og ég hefði aldrei getað þeyst niður brautina vegna þess að ég hefði ekki getað staðið aftur upp með hringinn á rassinum í sleipu vatninu þegar niður var komið. Og þess vegna hefði ég þurft að sleppa sundferðinni. Ég sit hérna núna og reyni að hugsa upp hluti sem eru jákvæðir við það að vera svona feit. Það er nefnilega að bresta í mér hjartað af sorg yfir því að hugsa stanslaust svona illa til gömlu Svövu Ránar, mér þykir nefnilega svo vænt um hana. Það getur ekki verið að það sé alslæmt að vera feitur. Maður flýtur til dæmis mjög vel. Og svo er manni sjaldan kalt. En það allra jákvæðasta sem mér dettur í hug er að gamla Svava Rán tók alla vega af skarið, steig út úr viðjum vanans og hóf þetta ferðalag. Og fyrir það er hún hetjan mín.

sunnudagur, 5. júní 2011

Uuummmm....
Mikið sem ég skil ítölsku þjóðina vel að hafa dottið í hug að blanda saman tómötum við hvítlauk. Það er eitthvað samhengi sem sólin á við tómata, hvítlauk, ólífuolíu og basilíku. Um leið og sólin reigir sig hérna aðeins í gegnum raka grámóskuna sem vanalega ræður hér ríkjum þrái ég ekkert heitar en bruschetta. Ég er nú ekki sleip í ítölskunni en geri engu að síður ráð fyrir að orðið bruschetta vísi reyndar frekar til ristaða brauðsins en til tómatsalatsins sem sett er ofan á brauðið. Tómatarnir væru pomodoro eitthvað. Hvað sem því líður er nú bara stanno tutti bene hjá mér og ég nota tómatsalatið óspart þó ég setji það bara ofan á brauð svona spari á sunnudögum. Ég borða eiginlega ekki brauð nema bara alveg spari og er þá svo hortug að vilja bara mitt eigið heimabakaða sveitabrauð; ekkert annað stenst kröfur mínar um bragð, áferð, lykt og fegurð og það eitt kemst inn á "worth it" listann minn. Í hitanum í þessari liðnu viku er ég búin að borða 13 tómata, 3 hvítlauksgeira, búnt af basilíku og örugglega hálfan líter af EVOO (extra virgin olive oil). Þetta hef ég borðað með grilluðum kjúkling, með marineruðum kjúklingabaunum, með sojapulsu, með ommilettu og með hrökkbrauði. Alger milljón með þessu öllu saman. En svo loksins núna í hádeginu í dag fékk ég svo alvöru bruschettu. Ég bakaði brauðið, ristaði sneið, nuddaði með hvítlauk og hrúgaði svo tómatsalsanu ofan á. Il Paradiso.
Ekki er hægt að slá hendi á móti yfirvinnu á þessum síðustu og verstu og ég fór til vinnu í gær, var þar frá níu til fimm í kæfandi hita og framreiknaði vexti í gríð og erg. Hefði frekar viljað vera að lyfta lóðum, slá garðinn, í lautarferð, drekka kaldan shandy bass í bjórgarði, grilla kjúklingaspjót. En needs must eins og maðurinn sagði og ég gerði þessvegna ekkert af þessu, gerði bara skuldunautum bankans lífið enn leiðara. Náði reyndar að hlaupa einn góðan hring fyrir vinnu og vigtaði mig til að sjá 100 grömm í mínus. Varla marktækt en ég er himinlifandi. Ég hafði gert ráð fyrir að líkaminn myndi frekar aðlaga sig í 100 grömm í plús eftir þriggja kilóa tap í síðustu viku. Ég ætla því að gera fyllilega ráð fyrir því að ég sé komin á fúllsvíng aftur, og ætla ekki að láta mikið koma á milli mín og markmiða minna. I´m back baby!

laugardagur, 4. júní 2011

Í ljósi allra þessara vandræða sem ég hef lent í með að komast í likamsræktarstöðvar hefur mér verið mikið hugsað um hver tilgangurinn sé með hreyfingunni hjá mér. Hvað gerist ef ég kemst ekki í rækt?

Ég hef ekki í hyggju að verða íþróttamaður, ég hef engan áhuga á að þjálfa mig upp fyrir eitthvað sérstakt mót eða keppni eða maraþon eða neitt þessháttar. Ég hef ekki neina sérstaka vöðvauppsöfnun í huga. Það eina sem ég hef áhuga á er að verða fitt. Ég vil vera sterk og ég vil vera hraust. Ég vil geta hlaupið, ekki til að geta tekið þátt í kapphlaupi heldur vegna þess að ég vil geta hlaupið með Lúkasi, ég vil geta hlaupið á eftir strætó, ég vil geta dansað alla nóttina, ég vil geta hlaupið hraðar en uppvakingarnir þegar þeir taka yfir heiminn. (Sjá up and running) Ég vil bara vera í góðu formi. Á sama hátt þá sé ég mig ekki fyrir mér í vaxtarræktarkeppni. Ég vil bara vera sterk svo ég geti lyft sófa ef ég þarf að flytja, ég vil geta borið þunga innkaupapoka, ég vil geta borið Lúkas á öxlunum ef hann verður þreyttur. Ég vil vera hraust og sterk þegar ég er orðin gömul kona, ég vil vera hraust og sterk eins lengi og möguleiki er á. Hreyfingin kemur tilraunum mínum til að léttast litið við. Ég trúi nefninlega staðfastlega að ef maður byrjar að telja kaloríum brennt sé maður að koma sér á hálan is. Ég þarf að hlaupa á 7 minútna meðalhraða á  kílómetra í 35 minútur til að brenna 300 kalorium. Hafragrauturinn minn sem ég borða svo á eftir er vel rúmlega það. Ef ég byrja að hafa áhyggjur af því að brenna ekki nóg er ég komin á þann stað sem geðsýki tekur völd og það endar bara á ég lafi á hlaupabrettinu í endalausri keppni við likama minn sem að lokum ég gefst svo upp á. Hreyfing eykur við brenndar kaloriur en það er sorglega lítið nema hangið sé klukkutímum saman við verkefnið og ef tilgangur minn er að skapa fitutap þá geri ég það 95% í eldhúsinu.

Vísindin eru sammála um eina staðreynd; það er betra að gera eitthvað en að gera ekki neitt. Út frá því er síðan hægt að deila endalaust um hvað sé best og hvernig sé best að gera það til að ná fram sem mestum kalóríubruna. Nánast á degi hverjum má lesa stórar fyrirsagnir í blöðum sem greina frá því nýjasta; hlaupa á fastandi maga! Ekki hlaupa á fastandi maga! Langar brennsluæfingar! Stuttar og snarpar æfingar! Brenna fitu svona og hinsegin og þannig og svona. En málið er að þetta eru bara fyrirsagnir, gerðar til að selja blaðið. Vísindin sem liggja að baki eru oftast allt of flókin til að útskýra fyrir meðalgreindum og þar fyrir neðan almenningi eins og mér. Þannig að kjarninn er styttur og beyglaður og brotinn þangað til að eftir stendur ekki steinn yfir steini. 
Sjálfri er mér drullusama um hvað vísindin segja um hvernig sé best að gera þetta. Ég veit að það sem er selt sem heilög sannindi í dag eru bábiljur á morgun. Það eina sem skiptir máli fyrir mig er að ég fylgi fyrsta lögmálinu að það sá betra að gera eitthvað en ekki neitt. Og það að gera eitthvað verður að passa inn í afganginn af lífinu.

Í þessu endalausa keppikefli við að grennast er ég sannfærð um að það sé nauðsynlegt að setja sér markmið sem hafa ekkert með vigtina að gera. Það getur nefnilega verið mannskemmandi að puða og puða við þetta og sjá svo lítinn og eða hægan árangur á vigtinni. En ef maður er líka að stefna að markmiði eins og að mæta í þrjá mismunandi æfingtíma (t.d bodyfit, zumba og spinning) á tveimur vikum, eða geta labbað Laugaveginn eða klifið Esjuna, eða tekið x mörg kíló í bekkpressu þá getur maður verið stoltur og ánægður með árangur þó vigtin hreyfist ekki.

Ég hleyp af því að ég vil vera í góðri þjálfun. Og ég hleyp vegna þess að hlaupin eru táknræn fyrir mig. Í hvert einasta skipti sem ég reima á mig skóna og fer út fyllist ég undrun, gleði og stolti. Fyrir tveimur árum siðan hefði ég pissað á mig af hlátri ef einhver hefði stungið upp á að einn dag væri ég úti hlaupandi. En mér finnst ekki "gaman" að hlaupa. Ég sé mig ekki fyrir mér sem hlaupara. Ég er með of stór brjóst og ég er með ónýt hné. Og þó það að hafa lést svona mikið hafi tekið daglegan sársauka niður úr 8 í 4 þá er engum blöðum um það að fletta að hlaupin eru ekki góð fyrir hnén. En engu að síður þá eru þau sú hreyfing sem er aðgengilegust fyrir mig. Og ég held því áfram að hlaupa.


Ég á heima í pínkulitlu húsi. Þannig að þangað til að ég flyt er út úr myndinni að kaupa bara bekk og lóð og söong og byrja að lyfta hér heima. En mér datt í hug að ég hef pláss fyrir tvær eða þrjár ketilbjöllur. Með staðfestu og þeirri einurð sem ég hef tekið á hreyfingu hingað til sé ég enga ástæðu afhverju ég ætti ekki að geta notað þær til að halda áfram að vera sterk.. Og mér finnst rosalega gaman að vera sterk.

Ég kemst í bootcamp hóp á laugardögum og þó það sé bara einu sinni í viku þá er það enn og aftur betra en ekki neitt. Og bootcamp uppfyllir skilyrði mín um að þjálfa ekkert sérstakt annað en almenna hreysti.

Og þannig leysi ég málið. Ég er búin að skoða tilganginn og markmiðin og samræma leiðina sem ég hef í hyggju að nota til að komast þangað. Meikar sens, nó?


föstudagur, 3. júní 2011

Úúú með stút!
Ég var mjóa Svava þegar ég vaknaði í morgun. Mikið sem ég elska mjóu Svövu, hún er öll svona pouty og kúl og mjó og nett og æðisleg. Ég fór að spá í  það sem gerist í líkamanum þá daga sem mjóa Svava horfir á mig tilbaka úr speglinum, ekki var neinn munur á vigtinni frá í gær og í morgun en engu að síður þá var gífurlegur munur á hvernig mér fannst ég sjá sjálfa mig. (Mjóa Svava er reyndar smávegis kjánaleg líka, hún sýgur inn kinnarnar, setur stút á munninn og kreppir saman rassinn og blikkar og snýr sér í hringi. Það er alltaf best að reyna að skilja mjóu Svövu eftir heima. Nógu erfitt er nú að díla við það þegar Krafta Svava tekur yfir og byrjar að hnykla vöðva eða tekur eina og eina hnébeygju fyrir framan fólk. Óumbeðin. Bara vandræðaleg Krafta Svava.) Ég er búin að vera að taka verkefnið af alvöru núna að undanförnu. Og kannski er Mjóa Svava á svæðinu út af því. Ég er búin að vera að kynda bálið. Það er rétt og satt að það þarf að skara í eldinn. Það þarf að passa að glóðirnar deyji ekki út. Og það gerir maður bara með því að fæða eldinn. Maður þarf að mæta í ræktina og gera æfingarnar sínar. Það þýðir lítið að taka frí og pásu og láta eldinn inni í manni deyja út. Á sama hátt þarf að æsa upp eldinn í manni með spennandi mat og nýjum samsetningum. Það þarf að halda áhuganum á hollustufæði brennandi og það gerir maður bara með því að prófa nýtt, prófa sig áfram, halda eldinum við. Svo er það hinn eldurinn sem helst þarf að reyna að slökkva. Og það er nú alveg merkilegt hvað það er erfiðara að slökkva þennan eld en það er að kveikja hinn. Eins og glóandi kol inni í mér þessi stanslausa löngun í sætindi. Alveg sama hvað ég forðast þau og hvað ég er dugleg og hvað ég er flink í huglægu æfingunum, alltaf logar þessi eldur. Alltaf og ávallt. Baráttan við spikið er háð í heilanum. Og það er skrýtið að hugsa til þess að það virðist líka alveg vera huglægt matið á því hvernig mér finnst ég líta út. Og ég fattaði í framhaldi af þessum hugsunum afhverju Mjóa Svava mætti í morgun. Þegar ég kyndi góða bálið og leyfi hinum glóðunum bara að vera í friði þá færist vellíðanin í heilanum yfir í huglægt mat á útlitinu. Og akkúrat núna standa hreinlega af mér eldglæringar.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Gufusoðið spergilkál með eggi og pecorino romano.
Nú er ég náttúrulega á fullu að nýta mér ræktina á meðan tækifæri gefst, tók núna eftir vinnu alveg rosalega æfingu þannig að rigndu af mér svitadropar hægri vinstri. Og það í samblandi við tuttugu og eitthvað smá hita gerði það að verkum að kvöldmatur varð að vera léttur og auðmeltur. Það er nú varla hægt að kalla þetta uppskrift, reyndar þá finnast mér ekki neitt af því sem ég geri vera uppskriftir, þetta er bara samsetningur á mat. Þessi uppfyllti öll mín skilyrði; fallegt, bragðgott, samleikur bragða og áferða allt í hárréttum hlutföllum.Prótein og fita. Litirnir bjartir og sumarlegir, jarðneskur tónn úr spergilkálinu, saltið úr pecorino romana ostinum og næstum því sætt eggið...fullkomið. Eða svona eiginlega. Næst ætla ég að hafa þetta sem léttan hádegisverð og bjóða með nýbakað sveitabrauð.

miðvikudagur, 1. júní 2011

Ég ætla í alvörunni núna að leggjast niður og gefast upp. Hvað hef ég eiginlega gert á hlut hinna kosmísku afla til að eiga það skilið að vera einhverskonar líkamsræktarstöðvarsvarthol? Þegar ég mæti í nota bene nýju ræktina mína í gær var mér tilkynnt að frá og með 30. júní væri hún ei lengur. Lokað. Öllum sagt upp. Búið. Basta. Takk hatt þinn og staf og gakk. Rækt þessa fann ég eftir langa leit, margar tilraunir til að prófa samgöngur og mikið upphaflegt fjárútlát sem ég átti allsekki fyrir. Stöðin þessi er í alvörunni eina líkamsræktarstöðin sem ég kemst í vegna tíma og fjarlægðar. Það er allt fullreynt núna. Fyrst loka þeir vinnustaðarræktinni og núna þessari! Hvers á ég eiginlega að gjalda? Kosmíkin vill að ég sé feit. Hvur andskotinn!